Morgunblaðið - 01.02.2009, Blaðsíða 41
Minningar 41
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1. FEBRÚAR 2009
þegar hún valdi skurðlækningar. Þar
er krafist langs starfsdags, mikils
vinnuframlags og þekkingar, en ekki
síður dómgreindar, þar sem sjaldn-
ast er mikill tími til íhugunar eða
uppflettinga í fræðunum þegar taka
þarf afdrifaríkar ákvarðanir. Þetta
þolpróf stóðst Margrét með mikilli
prýði á einum besta og kröfuharðasta
spítala veraldarinnar. Að afloknu
sérfræðinámi hóf hún störf á Land-
spítalanum og fékk þar, á grunni
mikilla fræðilegra rannsóknarstarfa,
framgang sem prófessor í skurð-
lækningum við Læknadeild Háskóla
Íslands og yfirlæknisstarf við skurð-
deild spítalans.
Einhvers mikilvægasta þáttar
læknisstarfsins verður einnig að
geta, en það er hæfni til mannlegra
samskipta. Þann hæfileika hafði
Margrét til að bera í ríkum mæli.
Skóp það henni traust sjúklinga og
samstarfsmanna án tillits til þess
hvaða starfsgrein viðkomandi til-
heyrði. Mikils er misst fyrir íslenska
læknisþjónustu við fráfall Mar-
grétar. Við sem störfuðum með henni
á Landspítala söknum nú heiðarlegs
og einlægs samherja sem aldrei lét
bugast þó oft væri þungan sjó að
sigla. Hún var trú sínum sjúklingum,
starfi sínu og stofnun og naut mik-
illar hylli. Ég er þakklátur fyrir sam-
fylgd Margrétar og heilindi hennar
sem aldrei brugðust. Ættingjum, en
einkum sonum hennar ungum, votta
ég dýpstu samúð.
Jóhannes M. Gunnarsson.
Ljós skreyttu trén í görðunum,
það var komin aðventa. Við Magga
gengum um Fossvogsdalinn eins og
oft áður í göngutúrunum okkar.
Þetta voru notalegar samverustundir
þar sem við spjölluðum um málefni
líðandi stundar, fagleg vandamál en
ekkert síður persónulega hluti, eigin
líðan, strákana okkar og fjölskyldur.
Við kynntumst fyrst í læknanáminu
hér heima en vinskapurinn varð til
þegar við vorum báðar í framhalds-
námi í Connecticut í Bandaríkjunum.
Við eignuðumst báðar strákana
okkar í miðju námi þar vestra, áttum
dygga eiginmenn sem voru með
starfsaðstöðu heima fyrir og leituðu
oft til hvors annars. Þá var heimili
Möggu og Jóns Ásgeirs oft eins og
miðstöð þar sem margir hittust og
kynntust. Þau áttu óteljandi vini og
kunningja sem sóttust í návist þeirra
sem voru svo geislandi af gestrisni,
hressleika og gleði. Magga var gang-
andi dæmi um heilbrigði og holla lífs-
hætti, lifði fyrir réttlæti og heiðar-
leika, og var góður vinur. Hún var
hispurslaus og hikaði ekki við að taka
afstöðu í málefnum sem alltaf var
byggð á skynsemi og rökhyggju.
Hún var frábær skurðlæknir og
kennari og verður hennar sárt sakn-
að af sjúklingum, kollegum og nem-
endum. En Magga var umfram allt
náttúrubarn. Hún hafði lifandi áhuga
á gróðri og ræktaði sitt eigið græn-
meti og berjarunna. Hún elskaði að
fara vestur á Ísafjörð þar sem hún
gat unað við útivist og berjatínslu.
Það er ekki auðvelt að fara í sporin
hennar Möggu. Hún hafði fengið
þung högg um ævina, misst barn og
eiginmann og sjálf þurft endurtekið
að berjast við óvæginn sjúkdóm sem
að endingu fór með sigur. Í öllu þessu
sýndi hún æðruleysi og innri styrk og
gat fram á síðustu stundu verið öðr-
um stoð og stytta. Í göngutúrunum á
aðventunni var ljóst að það dró á
þrek og getu, ljós lifna og slokkna.
Líf þitt, Magga mín, var eins og vetr-
arsól með fallega geisla sem ylja og
gleðja en ganga allt of fljótt til viðar.
Þú baðaðir geislum þínum líf okkar
allra en umfram allt drengina þína
tvo, Odd Björn og Sigurð Árna. Fyrir
þá sló hjartað þitt fyrst og fremst
með óendanlegri umhyggju og ást.
Þeir hafa misst mikið sem og öll þín
stóra fjölskylda og vinir. Elsku Odd-
ur Björn, Siggi Árni, Sigga, Darri,
foreldrar og systkini. Megi góður
Guð styrkja ykkur í sorginni. Inni-
legar samaúðarkveðjur frá okkur
Lárusi.
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir.
Með sárum trega og djúpri sorg
kveðjum við vinkonu okkar Margréti
Oddsdóttur. Við félagarnir kynnt-
umst Möggu Odds þegar við vorum í
læknadeildinni. Hún kom sem fersk-
ur vindur nánast beint af Vestfjörð-
um og allir tóku strax eftir þessum
orkubolta sem aldrei stoppaði, af-
kastamikil, hreinskilin og fluggáfuð –
en einnig alltaf skemmtileg. Í verk-
lega náminu á spítölunum naut
Magga sín einstaklega vel. Hún var
að vísu ekki mikill morgunhani og því
vissara að nálgast hana með varúð í
morgunsárið – sem við auðvitað ekki
gerðum, en eftir morgunkaffið stóðst
enginn henni snúning.
Vinátta okkar við Möggu var ein-
læg og góð. Um tíma skildu lönd og
álfur þegar við vorum við framhalds-
nám á mismunandi stöðum. Þegar
heim var komið hafði þó ekkert
breyst. Magga var sú sama, snögg í
tilsvörum, úrræðagóð og hressileg og
aldrei lognmolla þar sem hún var. Og
þegar á bjátaði hjá einhverjum var
Magga stoð og stytta, alltaf reiðubú-
in til að leggja hönd á plóg og styðja
við vini og vandamenn. Hún var ein-
staklega mikill vinur vina sinna. Sem
læknir skaraði Magga fram úr og var
á margan hátt frumkvöðull í skurð-
lækningum á Íslandi. Hún var eft-
irsóttur læknir og vinsæl meðal sam-
starfsfólks á Landspítala og í
Háskóla Íslands. Dugnaður hennar
var mikill en umfram annað var
henni afar annt um sjúklingana sína.
Við eigum mikið af fallegum og
skemmtilegum minningum um
Möggu bæði frá samverustundum og
ferðum á námsárum og úr starfi síð-
ar. Sorgin er þó ekki langt undan.
Við sem þekktum Möggu, vinir,
vandamenn og bekkjarfélagar úr
læknadeildinni söknum hennar sárt
og á slíkum stundum hjálpar að
minnast þess að sumir hér á jarðríki
eru einfaldlega mannbætandi – og
hún var ein þeirra. Hugur okkar er
hjá hennar nánustu sem Magga sjálf
unni svo heitt. Við vonum að einnig
þeim megi góðar minningar létta
sorgina. Fyrir hönd bekkjarfélaga í
læknadeild vottum við öllum að-
standendum okkar dýpstu samúð.
Ásgeir Böðvarsson.
Ásgeir Haraldsson.
Æviárin urðu ekki mörg en ævi-
skeiðið vel nýtt. Margréti Oddsdótt-
ur auðnaðist að koma miklu í verk,
ávinna sér ríka vináttu og almennt
traust og virðingu. Lífshlaupið má
verða öðrum til eftirbreyni, um það
get ég vitnað rétt svo sem aðrir.
Hryggur í huga kveð ég nú sóma-
konu sem ég kynntist sem nemanda,
samstarfsmanni og manneskjunni.
Hún var vestfirsk eins og Vestfirð-
ingum verður best lýst. Stundum ör
til orðs og æðis og að niðurstöðu.
Á þeim árum sem ég bjó vestra og
Margrét var nemandi minn í fyrsta
árgangi Menntaskólans á Ísafirði
hvarflaði síst að mér að hún yrði leið-
andi læknir í landinu. Hún hefði eins
getað snúið sér að raungreinum eða
verkefnum þar sem forystu þurfti.
Hún varð eftirminnileg fyrir líflegt
starf í skóla, áræði og fylgni til verka.
Námsgáfurnar leyndu sér ekki og
ákefðin ekki heldur þegar hún stóð á
skíðum upp undir fjallsbrún og lagði
kennara sínum gott til fyrir niður-
ferðina. Ákveðin tilmæli veitt af fullri
einlægni og einurð.
Margir hafa dáðst að afa Mar-
grétar, Pétri á Grænagarði. Hann
var eins og maðurinn í bókinni um
gamla manninn og hafið. Harðfull-
orðnum manninum óx ekki í augum
að leggja einn síns liðs á djúpið og
heimsækja æskustöðvar sínar í Jök-
ulfjörðum. Erindið má hafa verið það
eitt að horfa á sólarlagið í vestri sem
verður hvernig sem lífið leikur mann-
inn. Hikleysi og sjálfstæði einkenndi
hann. Um afann hefði mátt skrifa
aðra góða sögu þar sem lítið þurfti að
skálda en láta reyna á stílbrögð og
næmi fyrir tilverunni. Góðir eigin-
leikar feðranna erfðust greinilega í
fari hennar og fasi. Á þessar sterku
stoðir reynir nú um stundir þegar
börn og ættingjar sjá á bak svo
mætri konu.
Leiðir okkar Margrétar lágu sam-
an að nýju á Landspítala. Framlag
Margrétar til læknisfræðinnar verð-
ur betur rakið af öðrum en þeim sem
hér stingur niður penna. Aðeins eftir
fárra daga starf mitt á Landspítala
fyrir áratug sátum við hjónin veislu
heima hjá Margréti og Jóni. Innan
um starfsbræður, innlenda og út-
lenda var tungutakið okkur vissulega
um margt framandi en áhuginn og
metnaðurinn til að bæta lækningar
hér á landi og temja sér nýjungar, og
helst taka þátt í að móta þær, fór ekki
framhjá veislugestum. Þar er henni
rétt lýst. Það er aðeins úrvalsfólk sem
vex til þeirrar virðingar að vera dáð
af sjúklingum sínum og nemendum.
Boðin og búin til þess að aðstoða
sjúklinga sína var hún, fyrir það var
hún þekkt meðal sjúklinga og sam-
starfsmanna. Fjölmargir sjúklingar
eiga henni batann að þakka. Og sem
stjórnandi í mismunandi hlutverkum
var hún virt og um fram allt fyrir að
vera sönn í skoðunum sínum og gerð-
um. Ég votta ættingjum og vinum
dýpstu samúð mína.
Magnús Pétursson.
Mér varð óþægilega við er ég frétti
andlát Margrétar Oddsdóttur. Við
fáum seint skilið hvers vegna sumir
þurfa að axla svo miklu þyngri byrð-
ar í þessu lífi en við hin. Mikill harm-
ur er kveðinn að fjölskyldu hennar,
þá mest sonum hennar tveimur.
Sjúkdómur sem maður vonaði að hún
hefði sigrað kom aftur eins og falinn
eldur og lagði hana að lokum að velli.
Ég kynntist Möggu árið 1994 sem
kandídat á Landspítalanum. Ég var
svo heppinn að vera í fyrsta hópi ung-
lækna sem hún vann með eftir að hún
kom heim úr námi vestanhafs. Síðar
unnum við saman þegar ég var deild-
arlæknir og við rannsóknir. Þó svo að
ég hafi að lokum lagt fyrir mig annað
en skurðlækningar var þetta skeið
síst minna virði en það sem á eftir
kom. Hún og Jónas Magnússon pró-
fessor byggðu upp frábært kennslu-
fyrirkomulag sem er með því besta
sem ég hef kynnst. Ekki var verra
hvað þau voru létt í skapi og
skemmtileg – maður hlakkaði til
hvers dags.
Margrét var læknir og vísinda-
kona í fremstu röð. Það er ekki of-
mælt að hún var í framvarðarsveit á
alþjóðlegum vettvangi við þróun
kviðsjáraðgerða. Eldmóður hennar
var brennandi herhvöt til framfara
og að láta gott af sér leiða. Hún verð-
ur mér auðvitað ávallt minnisstæðust
sem kennari og besti læknir. Mar-
grét var kölluð til stórs hlutverks í
þessu lífi og skilaði sínu og miklu
meira en það. Megi þessi afrek og
lífsþróttur styrkja syni hennar og
fjölskyldu í þeirra miklu sorg.
Skúli Gunnlaugsson
Huntington, Vestur-Virginíu.
Eitt af því mikilvæga við skóla-
göngu er ekki bara menntunin held-
ur ekki síður öll vinaböndin sem
verða til í námi á þeim árum sem
maður mótast mest. Haustið 1976
hófu um 170 nemendur nám á fyrsta
ári í Læknadeild Háskóla Íslands og
vitað var að aðeins lítill hluti myndi
ná að ljúka árinu. Þetta voru kannski
ekki kjöraðstæður til að eignast vini
og það hefði verið hægt að missa sig í
samkeppni og illkvittni en öðruvísi
fór. Margrét eða Magga Odds, eins
og hún var jafnan kölluð, vakti strax
athygli, ekki sú minnsta í hópnum,
hafði ákveðnar skoðanir og lá oft hátt
rómur. Á þessum árum urðum við
góðar vinkonur og þau bönd héldust
sterk alla tíð.
Eftir útskrift úr læknadeild unn-
um við mikið saman, sérstaklega á
Landakoti og studdum hvor aðra á
löngum og erfiðum vöktum. Síðar, er
kom að sérnámi, skildi leiðir, ég fór
til Hollands en Margrét hélt til
Bandaríkjanna í sérnám í skurð-
lækningum. Ég fylgdist stolt með
henni, hve ferill hennar var glæsileg-
ur bæði í vísindum og ekki síður hve
mikill frumkvöðull hún var í nýrri
skurðtækni, kviðsjáraðgerðum. Um
það leyti sem Margrét sneri heim til
Íslands var hún orðin þekkt um heim
skurðlæknisfræðinnar fyrir störf sín.
Styrkleiki Margrétar lá ekki bara í
starfi. Hún var lánsöm í einkalífi,
kom úr traustri fjölskyldu og var
mikill Ísfirðingur og gleymdi aldrei
upprunanum. Við fylgdumst með því
þegar hún kynntist Jóni Ásgeiri og
hann tók okkur vinkonunum sem
fylgdum henni af sinni alkunnu ljúf-
mennsku og hlýju. Þegar við Magga
hittumst svo eftir langan aðskilnað
vorið 1993 voru þau Jón Ásgeir kom-
in til Íslands til að jarðsetja Ragnar,
annan tvíburason þeirra, en hann lést
6 vikum eftir fæðingu. Þarna kynnt-
ist ég nýrri hlið á Möggu, hvernig
hún gat með góðum þroska tekist á
við sorgina sem því fylgir að missa
barn.
Því miður reyndi svo margoft á
þessa sterku eiginleika hennar. Hún
glímdi við brjóstakrabbamein í mörg
ár og laut að lokum í lægra haldi. Jón
veiktist einnig af illkynja sjúkdómi
vorið 2007 og lifði einungis í örfáa
mánuði eftir það. Hvernig Magga
tókst á við allar þessar raunir er ein-
stakt. Hún sýndi mikinn styrk í veik-
indum Jóns og hann var heima á
Birkigrundinni þar til yfir lauk. Það
sama kaus hún fyrir sjálfa sig þegar
ljóst var að dagarnir yrðu ekki mikið
fleiri. Hún hugsaði alla daga um
strákana sína Odd og Sigga og vildi
umfram allt styrkja þá í þeirra lífi.
Þrátt fyrir þetta var alltaf létt yfir
Möggu og það varð ekki mikil breyt-
ing á því síðustu mánuðina. Hún lagði
áherslu á að gera líka skemmtilega
hluti. Þannig fór hún með Sigga í
skemmtiferð til Flórída sl. haust
ásamt góðu vinafólki. Hún og Oddur
sáu, ásamt Fídu og Árna syni henn-
ar, hljómsveitina Sigurrós spila í
New York fyrir ekki svo löngu síðan.
Það sama gilti um litla atburði á síð-
ustu vikum. Það var því oft hlegið í
Birkigrundinni jafnvel þó það væri
alvarlegur blær í loftinu.
Ég kveð þessa vinkonu mína með
þakklæti og hlýju og reyni að muna
allt sem ég lærði af henni.
Vilhelmína Haraldsdóttir.
Okkur langar til að minnast Mar-
grétar með nokkrum orðum en við
vorum svo lánsamar að kynnast
henni þegar við unnum 3. árs rann-
sóknarverkefni okkar undir hand-
leiðslu hennar.
Margrét var merkileg kona sem
hafði mörgu að miðla. Það sem var
lærdómsríkast við að vinna með
henni var að vandamál voru ekki til í
hennar orðaforða. Jákvæðni og drif-
kraftur einkenndi störf hennar og
óhjákvæmilegt var að smitast af því.
Hennar viðhorf var alltaf að hlutirnir
myndu leysast og var það ávallt
raunin. Þrátt fyrir að vera yfirlæknir
og prófessor á Landspítalanum fékk
skrifstofa hennar ekki fermetra-
fjölda í samræmi við titlana. Oft var
því þröng á þingi á litlu skrifstofunni
hennar en þar var aldrei leiðinlegt að
vera, hver svo sem verkefnin voru.
Það fór ekki framhjá neinum þeg-
ar Margrét nálgaðist með kaffiboll-
ann í hendinni. Henni lá oft hátt róm-
ur og hafði frá mörgu skemmtilegu
að segja og oftar en ekki fylgdu há-
vær hlátrasköll í kjölfarið. Ekki var
einungis rætt um læknisfræði og
ferðastyrki. Einnig var rætt um lífið
og tilveruna og fylgdu ófá góð ráðin.
Ekki er hægt að segja annað en Mar-
grét hafi farið verulega út fyrir verk-
svið sitt sem leiðbeinandi. Fórum við
í margar kvöldheimsóknirnar þar
sem setið var yfir erlendum útdrátt-
um yfir góðum kaffibolla og var Jón
heitinn, eiginmaður hennar, einnig
virkjaður til þátttöku. Eins og Mar-
grétar var von og vísa vatt verkefnið
upp á sig og úr varð að við fylgdum
henni á ráðstefnu í Las Vegas að
kynna niðurstöður rannsókna okkar.
Það var gríðarlega skemmtilegur
tími að vera henni samferða þar og
sjá hversu vel metin hún var sem
skurðlæknir.
Það er ekki oft á lífsleiðinni að
maður rekst á einstaklinga sem
hreinlega breyta lífi manns. Margrét
var einn þessara einstaklinga. Þetta
eru stór orð en þau eiga sannarlega
við því það sem eftir stendur eftir
þennan tíma eru ekki aðeins rann-
sóknarniðurstöður heldur breytt við-
horf til lífsins og starfsins sem bíður
okkar. Fyrir það verðum við eilíft
þakklátar. Við vottum sonum, stjúp-
börnum, foreldrum hennar og systk-
inum samúð okkar.
Aðalheiður og Hildur.
Það var kröftugur hópur vest-
firskra stúlkna sem bast órjúfandi
vináttuböndum á upphafsárum
Menntaskólans á Ísafirði fyrir hart-
nær fjörutíu árum þegar tvær bætt-
ust í hóp sem hafði verið saman frá
sjö ára aldri. Magga okkar var ein af
þeim og sú sem fyrst fer.
Á kveðjustund ástkærrar vinkonu
lítum við til baka og sýnist vart
nema örskotsstund síðan við lifð-
um og lékum í gleði og sakleysi
æskuáranna. Engin bönd verða
traustari en þau sem hnýtt eru á
unga aldri. Við spruttum úr sama
jarðvegi og eignuðumst sameiginlega
reynslu sem umhverfið og uppeldið
gaf okkur. Sú langa samvera og nánd
sem þarna skapaðist dýpkaði kynni
okkar og væntumþykju sem hefur
orðið okkur dýrmætt veganesti á lífs-
leiðinni.
Magga tók þátt í flestu því sem
unglingar á Ísafirði gerðu, lærði á pí-
anó, var í skátunum og á skíðum og
gerði það allt af sama kraftinum. Það
kom okkur því ekki á óvart við út-
skrift úr MÍ að Magga stóð að lokum
með fangið fullt af verðlaunabókum
fyrir hin ýmsu fög.
Það gustaði af þessari hávöxnu og
hnarreistu stelpu hvar sem hún fór.
Það hefur eflaust átt þátt í að móta
skapgerð hennar og háttalag að vera
elst í hópi sjö systkina. Sjálfstæð og
ábyrg gekk hún ótrauð til verks og
lauk öllu því sem hún tók sér fyrir
hendur af einurð og festu. Hlátur-
mildur dugnaðarforkur.
Magga réðst ekki á garðinn þar
sem hann var lægstur heldur
fór í langt og strangt nám í lækn-
isfræði hér heima og svo úti í
Bandaríkjunum. Hún varð af-
burðafær á sínu sviði en ekki aðeins
þar heldur einnig í þeirri list að lifa
og vera manneskja. Hún sá í gegnum
hégóma og sýndarmennsku og lagði
rækt við það sem skiptir máli og gef-
ur lífinu gildi þegar öllu er á botninn
hvolft.
Eins og gengur fórum við hver í
sína áttina en aldrei slitnaði streng-
urinn. Þegar Magga kom heim frá
námi byrjuðum við að hittast aftur
reglulega og höfum gert fram á
þennan dag. Ógleymanleg er ferðin
okkar á fimmtugasta aldursárinu
þegar við fórum til Ljubljana í Slóv-
eníu. Magga var nýbúin að brjóta á
sér ökklann en lét það ekki aftra sér
og þó að snjóaði þar syðra nánast
eins og heima á Ísafirði í gamla daga
var ekki vandamál að dröslast með
hana í hjólastólnum á milli staða enda
stjórnaði hún ferðinni af alkunnri
röggsemi.
Að leiðarlokum hugsum við til
drengjanna hennar sem hafa misst
svo mikið, til foreldra og systkina, til
stjúpbarnanna og allra þeirra
sem nú syrgja hana sem horfin er
úr þessum heimi alltof fljótt. Megi
góður guð líkna þeim öllum.
Vinkonurnar að vestan.
Agnes, Bergljót, Elísabet, Ester,
Hólmfríður, Guðrún, Jóna,
Kristín, Kolbrún og Ólöf.
Þegar afburðafólk fellur frá í
blóma lífsins, á miðjum starfsferli, er
missir samfélagsins mikill. Það á við
um fráfall Margrétar Oddsdóttur.
Ekki er þó minni missir barna henn-
ar, fjölskyldu og vina. Margrét var
framúrskarandi kennari og skurð-
læknir, en hún var líka einstaklega
heilbrigður og heilsteyptur einstak-
lingur. Ekki vottaði fyrir tildri,
hroka, hégóma eða yfirborðs-
mennsku í fari hennar. Þessu bar líf
hennar og dómgreind vitni. Heimili
þeirra Jóns Ásgeirs heitins stóð öll-
um opið af örlæti og hlýju, bæði hér
heima og meðan þau dvöldu við nám
og störf í Bandaríkjunum. Þau voru
falleg hjón sem bættu hvort annað
upp. Margrét var ástríðufull, kraft-
mikil, framtakssöm og praktísk í öllu,
Jón Ásgeir íhugull, yfirvegaður og
stöðugt með fingurinn á púlsi sam-
félagsins.
Við áttum vináttu þeirra í áratugi
og bar aldrei skugga á. Ógleyman-
legar ánægjustundir, á ferðalögum
eða við veisluborð að ræða mál líð-
andi stundar eru nú dýrmætar minn-
ingar. Þegar Jón Ásgeir féll frá var
missir okkar ekki eins mikill og nú,
því við áttum þó Möggu og strákana
eftir. Nú hafa þau bæði kvatt með
þeirri reisn og því æðruleysi sem ein-
kenndi líf þeirra. Þau ákváðu bæði að
vera heima til síðustu stundar. Þrátt
SJÁ SÍÐU 42