Morgunblaðið - 01.02.2009, Síða 42

Morgunblaðið - 01.02.2009, Síða 42
42 Minningar MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1. FEBRÚAR 2009 fyrir yfirþyrmandi sársauka yfir að vera að missa þau var gott að geta kvatt þau þannig, á heimili þeirra og innan um fjölskyldu og vini. Einnig það bar heilbrigði persónu Mar- grétar vitni. Missir sona þeirra, Odds og Sigurðar, er þó mestur. En þeir fá í arf minningar um frábæra foreldra og einstakt atlæti. Megi það styrkja þá á þessum erfiðu tímum. Hildur Kjartansdóttir, Guðjón Friðriksson og Margrét S. Björnsdóttir. Margrét Oddsdóttir var engin venjuleg kona, hún var vestfirskur kvenskörungur. Við kynntumst fyrst í læknadeild Háskóla Íslands á átt- unda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma voru konur í minnihluta í lækna- deild og enn færri fyrirmyndir í læknastétt fyrir ungar konur til að horfa upp til eða samsama sig við. Fyrir tilstilli Margrétar hefur það breyst. Hún er ein þeirra sem ruddu brautina, gekk ótrauð fram veginn og þar sem aðrir sáu hindranir eða erf- iðleika sá hún áskoranir sem hún tókst á við óhikað. Eftir útskrift frá læknadeild Há- skóla Íslands sótti hún framhalds- nám í skurðlækningum á bestu og virtustu menntastofnanir sem völ er á, fyrst við Yale háskólasjúkrahúsið í Connecticut og síðar við Emory há- skólasjúkrahúsið í Atlanta. Í kjölfar framhaldsnámsins réðst Margrét til starfa á Landspítalanum og við Há- skóla Íslands, þar sem hún var yf- irlæknir og prófessor. Við vorum samtíða í Connecticut og endurnýj- uðum þá kynnin. Þá kynntumst við fyrst Jóni, eiginmanni Möggu, og sáum þeirra aðdáunarverða samspil. Það er alkunna að vinnudagur lækna vestanhafs er langur en Jón keyrði Möggu gjarnan í vinnu fyrir klukkan sex að morgni og fór svo heim og las inn hádegisfréttapistil fyrir RÚV, sem smellpassaði miðað við tímamis- muninn á Íslandi og Bandaríkjunum. Í lok dags sótti hann svo Möggu og þá gat verið orðið ansi áliðið kvölds. Á þessum árum var lífið dásam- legt, skemmtileg vinna, skemmtileg- ur félagsskapur íslenskra sem er- lendra vina. Oftar en ekki voru Jón og Magga kjarninn í samkvæmislífi þeirra Íslendinnga sem voru við nám í New Haven á þessum tíma. Við minnumst skemmtilegra samveru- stunda þar sem fréttaflutningur Jóns var oft rauði þráðurinn en hann tengdi okkur þröngsýnu læknana við það sem var að gerast utan sjúkra- hússins. En það skiptust á skin og skúrir. Oddur Björn fæddist 1991 og tvíburarnir Sigurður Árni og Ragnar Már 1993, en Ragnar Már lést nokkr- um vikum eftir fæðingu. Að takast á við barnsmissi eru átök og enn erf- iðari þegar dvalið er fjarri fjölskyldu á erlendri grund. Magga fékk fleiri erfiðar áskoranir í lífinu í gegnum sín eigin veikindi og síðar veikindi Jóns og andlát hans. Hún stóð ávallt eins og klettur, með stuðning frá sinni stóru fjölskyldu og fjölmörgu vinum. Minningin um vest- firska kjarnakonu sem lét sér ekkert fyrir brjósti brenna lifir í hugum okk- ar allra. Í dag þegar við kveðjum Möggu er hugurinn hjá Oddi Birni og Sigurði Árna sem eiga nú aðeins minningar um ástkæra foreldra sína. Við send- um þeim og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hildur Harðardóttir og Óskar Einarsson. Það ríkir heilög kyrrð og þagnar- blíða að Margréti Oddsdóttur geng- inni. Svo notuð sé tilvitnun í dósent við Hafnarháskóla forðum, sem kom við sögu í ógleymanlegri ferð okkar í sumar er við Magga þáðum heimboð vina okkar Hildar og Guðjóns til Kaupmannahafnar. Magga lék á als oddi, kát og hress, – hún ljómaði. Við gengum fagran sólardag og nutum einstakrar leiðsagnar Guðjóns um borgina við sundin. Þótt hliðarverk- anir lyfjanna gerðu henni stundum erfitt fyrir mátti hún ekki heyra það nefnt að hlífa sér á nokkurn hátt. Búðaráp okkar varð sögulegt, – óprúttnir þjófar rændu handtösk- unni af Möggu með peningaveski, plástrum og smyrslum sem voru henni svo nauðsynleg, en verst var að veskið var fína seðlaveskið hans Jóns, sem skilaði sér reyndar tveim mánuðum síðar á Birkigrundina frá Köbenhavns politi. Þetta setti hana ekki út af laginu, það var hlegið að öllu saman og við nutum hverrar stundar í góðu yfirlæti gestgjafa okk- ar og alls þess sem gamla heimsborg- in hafði upp á að bjóða. Þarna varð Möggu tíðrætt um uppvöxt sinn fyrir vestan, forfeður sína og afa á Grænagarði sem var á undan sinni samtíð í mörgu. Hún ítrekaði að nú yrðum við að láta verða af því – vinahópurinn – að fara með henni í Vestfjarðareisuna sem var fyrirhuguð áður en Jón lést í fyrra. Á aðfangadag leit hún inn í Garðastræti og færði okkur myndir að vestan með þeim orðum að þessa staði ætlaði hún að sýna okkur. Magga var snillingur í sinni sérgrein, á heimsmælikvarða, enda sóst eftir henni til læknisað- gerða utan úr heimi. Ég átti þess kost eitt sinn sem þingmaður í heil- brigðisnefnd að fylgjast með smá- sjáraðgerð hjá Möggu. Ótrúlegt var að sjá hversu fumlaus og fær hún var, – skar, saumaði og hnýtti með tækj- um gegnum örsmá göt á líkama sjúk- lingsins, sem hún stjórnaði með því að horfa á skjá fyrir ofan sig. Hún hefur linað marga þjáninguna með hæfni sinni og sérþekkingu. Aldrei hreykti hún sér af afrekum sínum í starfi. Það var gott að eiga hana að þegar góð ráð þurfti í heilbrigðismál- um. Íslensk heilbrigðisþjónusta er fátækari þegar hennar nýtur ekki lengur við. Magga var hress og kát hvað sem á gekk, hrein og bein og aldrei með vol eða víl yfir nokkrum hlut. Nú hvarfl- ar hugurinn til allra skemmtilegu stundanna sem við vinirnir áttum saman með þeim Möggu, Jóni Ás- geiri og strákunum á ferðalögum inn- anlands og utan og ekki síst við mat- arborð yfir kræsingum þar sem málin voru rædd fram eftir kvöldum. Þau Magga og Jón lifa áfram í þeim dýrmætu minningum. Við Einar Örn erum forsjóninni þakklát fyrir að hafa átt áralanga og góða vináttu þeirra. Nú á kveðjustund er hugur okkar hjá bræðrunum ungu, Oddi og Sigga, og foreldrum hennar þeim Magdalenu og Oddi, sem hafa misst einstaka móður og dóttur í blóma lífsins. Margrét Oddsdóttir er kvödd með sárum söknuði. Ásta R. Jóhannesdóttir. Fyrir hönd læknadeildar Háskóla Íslands vil ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að eiga gæfuríkt samstarf og samleið með Margréti Oddsdóttur prófessor. Margrét út- skrifaðist sem læknir frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1982. Margrét fór í framhaldsnám í skurðlæknis- fræði við einar þekktustu stofnanir á þessu sviði í Bandaríkjunum og fékk þar lofsamleg ummæli um sína frammistöðu. Hún kom heim 1994 og hóf störf við Landspítalann sem sér- fræðingur í skurðlækningum. Strax árið eftir hafði hún myndað tengsl við læknadeild háskólans og tók 1995 við starfi sem dósent í skurðlækningum og árið 2002 sem prófessor. Margréti tókst á undra- verðan hátt að tengja saman starf sitt á spítalanum og kennsluna í læknadeildinni og gera þetta að einu starfi. Henni tókst að bæta mjög skil- virkni í þekkingarflæði frá kennara til nemenda og fékk Margrét frá- bæra dóma frá nemendum sínum. Margrét gegndi ýmsum trúnaðar- störfum fyrir deildina og sat í stjórn deildarinnar þegar hún lést. Þar vann hún af miklum krafti og áhuga. Eigum við eftir að minnast með ánægju lifandi og ákafra umræðna þar sem rædd voru málefni deildar- innar. Það verður mikill missir fyrir læknadeild að fá ekki að njóta starfs- krafta hennar lengur og hennar verð- ur sárt saknað. Ekki er vafi að andi starfa hennar mun hafa áhrif og móta starf deildarinnar næstu árin. Ég votta foreldrum hennar, sonum og stjúpbörnum, systkinum og fjöl- skyldu allri innilega samúð. Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar Háskóla Íslands. Við hjónin kynntumst Möggu og Jóni Ásgeiri þegar við bjuggum í Bandaríkjunum á árunum 1988-1992. Margrét og Jón Ásgeir bjuggu í New Haven. Magga stundaði framhalds- nám við Yale háskóla og Jón Ásgeir var fréttamaður. Heimili Möggu og Jóns Ásgeirs varð að samkomustað og brú milli íslenskra námsmanna á svæðinu og Íslendinga sem störfuðu á Manhattan í New York. Magga vann myrkranna á milli, en átti auðvelt með að undirbúa mann- margar skemmtilegar veislur, að því er virtist án nokkurrar fyrirhafnar. Sérstakur andi ríkti á heimilinu, nokkurs konar bóhem andrúmsloft, mjög afslappað en umræður voru oft skarpar, sérstaklega þegar rætt var um pólitík. Kvöldverðarboðin voru óhefðbundin, algengt var að fara samhliða í göngutúra, eplatínslu, í borðtennis eða að grípa til einhvers annars tómstundagamans. Formleg- heit þekktust ekki. Þessi andi fylgdi Möggu og Jóni Ásgeiri alla tíð. Kvöldstundir í Birkigrundinni eru okkur ógleymanlegar. Skömmu fyrir fráfall Jóns Ásgeirs áttum við hjónin frábærar stundir saman í Frakk- landi. Þar léku þau á als oddi. Þær minningar ylja okkur nú um hjarta- rætur. Magga var strax sem ung kona tal- in vera einn af okkar bestu skurð- læknum, og það var mikill ávinningur fyrir Ísland að hún skyldi kjósa að koma heim í stað þess að leita starfs- frama erlendis eins og henni stóð til boða. Hún var alvörugefinn fagmaður en jafnframt með léttan húmor og af- slappaða framkomu. Magga var bæði heimsborgari og verðugur fulltrúi sinnar heimabyggðar, Ísafjarðar. Hún var á heimavelli hvert sem hún fór. Öllum þótti vænt um hana. Þrátt fyrir mikið mótlæti gat hún alltaf hughreyst aðra, hafði einfald- lega mikið að gefa. Við hjónin hittum hana fyrir rúmum mánuði, hún var hress að vanda, ekki var á nokkurn hátt hægt að skynja hversu alvarleg veikindi hennar voru orðin. Þannig var hún alla tíð og þannig heilsaði hún og kvaddi alla, með hlýju, húmor og brosi. Við Dóra vottum sonum Mar- grétar, þeim Oddi Birni og Sigurði Árna og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Megi almáttugur Guð blessa ykkur á erfiðri stund. Blessuð sé minning Margrétar Oddsdóttur og Jóns Ásgeirs Sigurðssonar, þeirra heiðurshjóna er nú sárt saknað. Dóra og Grétar Már Sigurðsson. Sæll frændi! Þessi orð voru fyrstu orðaskipti okkar Margrétar fyrir rúmlega tuttugu og tveimur árum. Þá var hún í sérnámi við Yale háskóla í BNA, og ég þar á ferð, læknanemi á 2. ári. Mér þótti afar vænt um þessa kveðju, hún sagði meira í örfáum orð- um og með sterkari merkingu en ég átti von á. Þannig var Magga í sam- skiptum sínum við fólk, beinskeytt, einlæg og án óþarfa málalenginga. Vináttubönd styrktust upp frá þessu bæði meðan hún og Jón voru ytra en síðan í ríkari mæli eftir að heim var komið. Vináttan styrktist síðan enn meir þegar við í félagi við Hauk, Grétu og Elsu réðumst í það verkefni að kaupa og gera upp Grænagarð, húsið sem afi og amma byggðu við Seljalandsveg á Ísafirði. Þar lét hún sannarlega til sín taka, hafði sterkar skoðanir á framkvæmdum og vildi láta hlutina ganga. Möggu leið vel á Grænagarði, enda hafði hún sterkar taugar til Ísafjarðar og vildi vera þar í fríum í „faðmi fjalla blárra“ og fjöl- skyldunnar. Magga var skurðlæknir af lífi og sál og einstaklega einlæg og blátt áfram og naut mikillar virðingar sjúklinga sinna. Hún var fræðimaður og afar metnaðarfull fyrir hönd síns fags. Hún var oft beðin að halda fyr- irlestra erlendis, og var öflugur þátt- takandi í uppbyggingu skurðlækn- inga á Landspítalanum. Það var gott að leita hjá henni ráða við meðferð sjúklinga og hún var alltaf fús til að leggja lið. Krafta hennar naut þó allt- of stutt við og sárt til þess að hugsa hversu miklu hún átti í raun ólokið bæði í vinnu og leik með sonum sín- um. Magga var afar sterk kona og að baki hennar hefur staðið sterk fjöl- skylda. Hvort tveggja var greinilegt við fráfall Jóns og er enn greinilegra nú. Missir fjölskyldunnar er mikill, en sárastur er missir Odds Bjarnar og Sigurðar Árna. Þeir hafa nú séð á eftir báðum foreldrum sínum á einu og hálfu ári. Minningin um sterka foreldra lifir áfram. Við Elínborg og strákarnir vottum Oddi, Sigga, Oddi, Lenu, Siggu, Darra, systkinum og öðrum ættingj- um og vinum okkar dýpstu samúðar- kveðjur. Guð blessi minningu Mar- grétar Oddsdóttur. Ólafur Þór Gunnarsson. Fallinn er frá einn okkar færasti skurðlæknir, Margrét Oddsdóttir. Margrét, eða Magga eins og hún var alltaf kölluð á mínu heimili, var í læknateymi með Páli E. Ingvarssyni og Reymond Onders sem er frá Bandaríkjunum. Þetta læknateymi hjálpaði mænusködduðu fólki mikið og batt fólk miklar vonir við hjálp þeirra og átti Magga mikinn þátt í því. Báðar vorum við Magga ættaðar frá Ísafirði, hún var fædd þar eins og móðir mín og á ég mjög sterkar ræt- ur þangað. Móðurafi minn, Siggi Jón- asar í Króknum (Sigurður Jónasson), og Oddur, pabbi Möggu, vinnufélag- ar og vinir. Fyrir u.þ.b. 6 árum þurfti ég að fara í stóra aðgerð hjá Möggu og komst þá að því að hún var ekki bara góður læknir heldur hugsaði um mannlegu hliðina og gaf sér svo góð- an tíma með sjúklingunum sínum. Með mér fylgdist hún í tvö ár, sem henni þótti nauðsynlegt. Sjálf hitti ég Möggu síðast fyrir um það bil ári og var hún snögg að koma mér í góðar hendur hjá öðrum sérfræðingi en mig grunaði ekki að þetta væri í síðasta sinn sem ég hitti hana. Enginn kemur í þinn stað, elsku Magga mín. Hvíl þú í friði. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um réttan veg fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér. Sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. (23. Davíðssálmur.) Kæru synir, foreldrar og systkini, ég votta ykkur mína dýpstu samúð Guð veri með ykkur, Elísabet. Samstarfsfólk í heilbrigðistækni á Landspítala minnist Margrétar Oddsdóttur með virðingu og þakk- læti. Samstarf okkar við lækna er mikið en það var óvenju mikið og náið við Margréti. Það var sama hvar bor- ið var niður í verkefnum um tæki, tækni eða kennslu, alls staðar var Margrét á heimavelli og nýjungar á tæknisviðinu og innleiðing þeirra í klíníska vinnu voru sérstakt eftirlæt- isefni hennar. Það var ekki einungis bundið við hennar fag, skurðlækning- ar, heldur til hagsbóta fyrir alla starf- semi á Landspítala. Henni fannst hvatning liggja í því að prófa nýjung- ar sem væru til framfara í skurðlækn- ingum og hafði einstakt lag á að til- einka sér flókinn og sérhæfðan tækjabúnað. Samstarf okkar Mar- grétar var ekki bundið við Landspít- ala og skurðlækningar heldur tók hún virkan þátt í verkefnum á sviði fjar- lækninga og fjarkennslu bæði hér heima og á Norðurlöndum. Hún var dugleg við að taka á móti nemum í verkfræði, sýna þeim tæknibúnað og notkun hans við skurðaðgerðir. Mar- grét sat um tíma í stjórn Heilbrigð- istæknifélags Íslands. Við fráfall Margrétar er höggvið stórt skarð í starfsmannahópinn á Landspítala. Við vottum börnum hennar, fjöl- skyldu og vinum okkar dýpstu samúð. Fyrir hönd samstarfsfélaga á heil- brigðistæknisviði á Landspítala, Þorgeir Pálsson. Þegar hún hló þá bergmálaði hlát- urinn um allt. Kaffið skvettist úr boll- unum og manni dauðbrá, svo áður en maður vissi af var maður sjálfur far- inn að hlæja, því hláturinn hennar Möggu var ákafur, smitandi og fullur af gleði. Margrét Oddsdóttir var uppáhaldsfrænkan hans Torfa míns og það tók mig ekki langan tíma að skilja af hverju. Það voru læti í henni, hún sagði skoðanir sínar umbúða- laust og sló meira að segja oft í borð- ið, svona bara til að láta okkur vita að hún var að meina þetta allt. Ef eitthvað bjátaði á hjá okkur, ef við rákum tána í eða fengum tak í bakið þá hringdum við í Möggu kvartandi. Hún kom þá stundum blaðskellandi, ýtti við okkur og sagði „svona, það er ekkert að ykkur“ og svo hló hún og við trúðum henni. Þess vegna langaði okkur svo mik- ið að geta ýtt við henni í veikindum hennar og sagt við hana „það er ekk- ert að“. En þannig var það víst ekki. Það kom ekki á óvart að hún stóð keik og bein í baki í öllum sínum veik- indum, kom í fjölskylduboð 4. janúar með hláturinn sinn og skrautlegan klút um höfuðið og sagði með smá- brosi „fyrirgefið að ég get ekki hjálp- að ykkur að vaska upp“. En svo gat hún ekki meir og eftir sitjum við öll sem þekktum Möggu með mikla sorg í hjarta og söknuð sem á eflaust eftir að aukast. Það er óskiljanlega sárt að missa Möggu og við vitum, elsku Oddur og Siggi, að engin orð finnast til að hugga ykkur, en eitt skuluð þið vita. Þið áttuð stórkostlega foreldra sem voru eins og fólk á að vera; sterkir, hjálpsamir, elskulegir, æðrulausir, með ómældan húmor og gáfust aldrei upp, og þannig verðið þið líka, vitið til. Við og börnin okkar Freyr, Sigrún og Sólveig sendum ykkur öllum sem elskuðu Möggu styrk til að takast á við sorgina. Sigurlaug M. Jónasdóttir og Torfi Rafn Hjálmarsson. Hvernig getur lífið verið svona ranglátt? spurði ég sjálfa mig þegar ég frétti af andláti Möggu á föstu- dagsmorgni. Ég náði því miður ekki að kveðja hana og langar því að setja nokkur orð á blað. Ég kynntist Möggu ekki náið fyrr en eftir að ég fór að vinna við afleysingar á Land- spítalanum sumarið 2006 á heimleið úr sérnámi. Magga var nýbúin að veikjast aftur og varð úr að þau Jón Ásgeir fengu lánaða íbúðina okkar í Strassborg, enda þau búin að skipu- leggja fyrir löngu að fara á Rolling Stones tónleika ekki langt frá. Hún var í miðri lyfjameðferð en lét það alls ekki á sig fá heldur dreif sig m.a. í Europa Park skemmtigarðinn með strákana, Jón Ásgeir hafði leigt þýskan eðalvagn til fararinnar. Góð kynni tókust með okkur hjónum í framhaldinu. Magga og Jón Ásgeir vissu hvern- ig var að flytja til Íslands eftir langa dvöl erlendis og voru óþreytandi að gefa okkur Páli góð ráð, hvort með sínum hætti. Aldrei heyrði ég Möggu kvarta eða barma sér heldur var hún ætíð geislandi af lífsorku og fram- kvæmdahug. Við erum ekki einungis að sjá á eftir einum besta skurðlækni okkar Íslendinga heldur einstakri manneskju. Hún var með báða fætur jörðunni og varðveitti vel mannlega þáttinn sem stundum vill týnast hjá læknum í fremstu röð. Þannig verður hún mér og öðrum læknum á þessu sviði fyrirmynd. Elsku Oddur og Siggi, við Páll, Hjalti og Kjartan sendum ykkur og fjölskyldu ykkar innilegar samúðar- kveðjur. Þórdís Kjartansdóttir. Margrét Oddsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.