Morgunblaðið - 19.07.2009, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 19.07.2009, Blaðsíða 4
4 FréttirVIKUSPEGILL MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19. JÚLÍ 2009 Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is Þ etta er yndislegur, yndislegur dagur,“ sagði tárvotur fyrrverandi nemandi Soniu Sotomayor þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti gerði heyr- inkunnugt að hann hefði tilnefnt þessa umtöluðu dóttur innflytjenda frá Púertó Ríkó í starf dómara við hæstarétt Bandaríkjanna fyrir skemmstu. Þessi viðbrögð þykja lýsandi fyrir þann mann sem Sotomayor hefur að geyma – hún hefur djúp- stæð áhrif á fólk. Og það sem meira er, fólk úr öll- um stéttum. Í hvert sinn sem hún gengur gegnum dómhúsið má sjá hvað hún hefur gott lag á alþýðu manna. Hún nálgast dyraverði og aðra óbreytta starfsmenn með nákvæmlega sama hætti og virðulega dómara og lögmenn. Sonia Sotomayor fer ekki í manngreinarálit. Hún hefur alla tíð unnið talsvert með börnum og í eitt skipti bauð hún hópi barna í dómhúsið til að lögsækja Gullbrá úr Sögunni um birnina þrjá. „Hún á auðvelt með að brúa kynslóðabilið,“ segir vinur Sotomayor, lögmaðurinn John Siffert. „Hún er heil í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og fyrir vikið nær hún til fólks.“ Lífleg og litrík eru orðin sem oftast eru notuð til að lýsa Sotomayor og að sögn kunnugra eru meiri líkur á að rekast á hana fyrir utan pylsu- vagninn á horninu en á fínu veitingahúsi. Þá veit Sotomayor fátt skemmtilegra en að fara á góðan hafnaboltaleik, ekki síst ef hennar heittelskuðu New York Yankees standa í eldlínunni. Einn frægasti dómurinn sem hún hefur fellt tengist ein- mitt hafnabolta en árið 1995 batt hún enda á sjö og hálfs mánaðar verkfall leikmanna með því að setja lögbann á liðseigendur. Var þeim gert að búa leikmönnum manneskjulegra starfsumhverfi. Skjaldborg um mannréttindi Sotomayor er fræg fyrir að slá skjaldborg um mannréttindi á sínum ferli og það vakti mikla at- hygli þegar hún nam úr gildi reglu fangelsis nokk- urs sem bannaði vistmönnum að ganga með talna- bönd sem vernduðu þá fyrir illum öndum. Það var líka Sotomayor sem varð við beiðni The Wall Street Journal um að birta sjálfsvígsbréf Vincents Foster, fyrrverandi starfsmanns Hvíta hússins og vinar Clinton-hjónanna. Það gerði hún á grundvelli upplýsingalaga. Sotomayor er ekki óvön því að sæta grann- skoðun og sitja fyrir svörum, eins og hún gerði í öldungadeild Bandaríkjaþings í vikunni. Það dróst í fimmtán mánuði að staðfesta ráðningu hennar sem dómara við áfrýjunarrétt Bandaríkj- anna, sumir segja vegna efasemda repúblikana. Sotomayor þótti standa sig vel í vikunni og þingið hefur lofað að hraða ákvörðun sinni. Fastlega er reiknað með að hún verði Sotomayor í hag. Eftir að hún lauk lagaprófi starfaði Sotomayor um fimm ára skeið fyrir saksóknaraembættið í New York áður en hún setti á laggirnar sína eigin stofu. George Bush eldri tilnefndi hana í starf hér- aðsdómara í New York árið 1991 en skipan henn- ar var ekki staðfest fyrr en ári síðar. Það var svo Bill Clinton sem lagði til að hún yrði gerð að dóm- ara við áfrýjunarréttinn árið 1997. Svo sem gefur að skilja hafa aðrir lögfræðingar af rómansk-amerískum uppruna fagnað tilnefn- ingu Sotomayors. „Hún er einstök manneskja,“ segir einn þeirra, Carlos Ortiz. „Það eina sem skyggir á vitsmuni hennar er auðmýktin. Það stafar af því að hún er bara ósköp venjuleg mann- eskja – venjulegur Bandaríkjamaður. Ég er sann- færður um að fólk á eftir að sýna Bandaríkjunum meiri virðingu hér eftir en hingað til, ekki bara fólk af rómönskum uppruna, ekki bara Banda- ríkjamenn sjálfir, heldur fólk um allan heim. Svo þýðingarmikið er þetta mál.“ Reuters Auðmjúkur spekingur  Samþykki öldungadeildin tilnefningu Soniu Sotomayor verður hún fyrsta manneskjan af rómansk-amerískum uppruna til að gegna embætti hæstaréttardómara í Bandaríkjunum Yfirheyrð Sonia Sotomayor svarar ýtarlegum spurningum öldungadeildarþingmanna á Capitol-hæð í vikunni.  „Ég myndi ætla að fróð kona af rómansk-amerískum uppruna myndi í krafti reynslu sinnar oftar en ekki komast að réttri niður- stöðu.“ Þannig hefur Sonia Sotoma- yor komist að orði í fjölmörgum fyrirlestrum gegnum tíðina. Stund- um hefur hún meira að segja botn- að mál sitt með þessum hætti: „All- tént oftar en hvítur karlmaður sem ekki hefur lifað svona lífi.“ Þetta sjónarmið fór fyrir brjóstið á sumum og var hún jafnvel vænd um kynþáttafordóma. Þegar þing- menn spurðu Sotomayor út í þetta í vikunni kvaðst hún ekki trúa því að fólk hefði sjálfkrafa betri dóm- greind á grundvelli þjóðernis, kyn- þáttar eða kyns. Þá fullyrti hún að persónuleg reynsla hefði aldrei áhrif á ákvarðanir sínar í dómsal. Reuters Hefur hvorki forskot í krafti kyns né þjóðernis  Verði tilnefn- ing Soniu So- tomayor staðfest verður hún 111. dómarinn til að taka sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna og sá fyrsti af rómansk-amer- ískum uppruna. Sotomayor yrði þriðja konan frá upphafi. Fyrir er í réttinum hin 76 ára gamla Ruth Ba- der Ginsburg, sem tók til starfa 1993, en brautryðjandinn var Sandra Day O’Connor sem gegndi embættinu frá 1981 til 2006. Þriðja konan frá upphafi til að gegna embættinu Sandra Day O’Connor Sonia Maria Sotomayor fæddist í New York 25. júní 1954 og er því 55 ára að aldri. Foreldrar hennar voru innflytjendur frá Púertó Ríkó en kynntust í Bandaríkjunum. Faðirinn, Juan Sotomayor, var ómenntaður og talaði ekki stakt orð í ensku. Hann vann sem verka- maður en móðirin, Celina Báez, starfaði fyrst sem símastúlka en síðar við hjúkrun. Sonia Sotomayor á einn bróður, Juan Sotomayor yngri, sem er læknir og prófessor við Syracuse- háskóla í New York. Sotomayor óx úr grasi í Bronx- hverfinu innan um önnur börn frá Púertó Ríkó og skilgreinir sig sem „Nuyorican“. Fjölskyldan bjó sér upprunalega heimili í bæjarblokk en síðar flutti hún í annað hverfi, þar sem aðstæður voru heldur vist- legri. Þar ægði líka saman öllum þjóðarbrotum. Sotomayor sneiddi ekki hjá áföll- um í æsku. Átta ára gömul greind- ist hún með sykursýki og ári síðar lést faðir hennar úr hjartasjúkdómi, aðeins 42 ára að aldri. Móðir hennar hvatti systkinin til náms og Sotomayor segir engan hafa haft meiri áhrif á sig um dag- ana. Hermt er að alfræðibækur hafi ekki verið til á öðrum heimilum í hverfinu. Nancy nokkur Drew heill- aði hana í æsku og eftir að hafa ánetjast sjónvarpsþáttunum um lögmanninn ráðagóða Perry Mason ákvað stúlkan að leggja lögfræðina fyrir sig. Tíu ára. Hún var afburðanemandi, þrátt fyrir að vinna stíft með námi, og fékk styrk til að fara í Princeton. Þar var hún að eigin sögn eins og „gestur í framandi landi“ enda komin býsna fjarri heimahögum. Með áhuga og elju kom hún hins vegar fljótt undir sig fótunum og brautskráðist að lokum með láði. Á Princeton-árunum hóf Sotomayor að berjast ötullega fyrir réttindum fólks af erlendum uppruna. Laganám stundaði hún við Yale, ein sárafárra nemenda af rómansk- amerískum uppruna. Þar átti hún góðu gengi að fagna og tók virkan þátt í félagslífi skólans. Meðan So- tomayor var í Yale gaf virt lög- mannsstofa í Washington í skyn að hún væri þar ekki á eigin verð- leikum. Því vildi hún ekki una og á endanum neyddist stofan til að draga orð sín til baka. Birtist afsök- unarbeiðnin meðal annars í The Washington Post. Hún giftist Kevin Edward Noonan 1976 en þau skildu 1983. Hún hefur ekki gifst aftur og aldrei átt börn. Úr bæjarblokk til bjargálna Fjölskyldan Sonia litla ásamt for- eldrum sínum, Juan og Celinu.  Útgangurinn á Sotomayor hefur vakið athygli í þinghúsinu í vik- unni en hún klæðist forláta skó á hægra fæti. Hér er ekki á ferð nýjasta tíska frá Dior heldur er skýringin sú að dómarinn ökklabrotnaði í síðasta mánuði og þarf að styðja vel við fótinn. Fótabúnaður dómara- efnisins vekur eftirtekt Töff Skórinn sem Sotomayor klæðist. ostur Ríkur af mysupróteinum Bra gðg óð nýju ng 9% aðeins Prófaðu nýja braðgóða Fjörostinn, fituminnsta kostinn í ostaúrvali dagsins.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.