Saga - 1989, Blaðsíða 51
STJÓRNMÁLAÁTÖK OG KRISTNIBOÐ
49
Gunnhildarsynir
Sem stjórnendur hafa þeir feðgar Eiríkur blóðöx og synir hans fengið
hina herfilegustu dóma, meðal annars vegna þess að allar heimildir
um þá eru komnar frá andstæðingum þeirra, annars vegar þeim sem
skráðu sögu Hlaðajarla, hins vegar þeim sem voru heimildarmenn að
sögu Hákonar Aðalsteinsfóstra. Ekki er ætlunin að bera í bætifláka
fyrir þá feðga hér, og svo mikið er víst, að þótt aðeins helmingur
þeirra fólskuverka, sem þeim eru eignuð, væri sannleikanum
samkvæmt, skipuðu þeir sér á bekk með hinum verstu harðstjórum.
Pað er engu líkara en allt leggist á eitt um að þeir fái sem harðasta
dóma á spjöldum sögunnar. Líklega hafa þeir verið meiri hermenn en
stjórnmálamenn og svo mikið er víst að það hefur ekki verið þeirra
sterka hlið að tjónka við sauðþráan bændamúg. Peir hafa einnig verið
helst til ókvalráðir í stjórnunaraðferðum og beittu valdi miskunnar-
laust. Einnig má vera, að þeir hafi reynt að festa í sessi nýjar hug-
myndir um hlutverk þjóðhöfðingja og það vald sem hann þiggur frá
æðri máttarvöldum. Þau sjónarmið hafa varla átt upp á pallborðið hjá
bændum. Líklega hefur þá einnig skort þá persónutöfra, sem Harald-
ur hárfagri hafði til að bera og gerði bændum bærilegra en ella að búa
við harðstjórn hans. Meginástæðan fyrir óvinsældum Gunnhildar-
sona var þó sú, að á meðan þeir ríktu gekk svo slæmt hallæri yfir
Noreg, að það eitt hefði nægt til að konungar yrðu óvinsælir. Þótt
kristni væri víða búin að skjóta rótum voru heiðnar hugmyndir samt
lífseigar, jafnvel hjá þeim sem áttu að heita kristnir, og í hugum
margra voru konungar og árferði nátengt. Slæmt árferði gat jafnvel
orðið konungum að aldurtila, eins og raunin varð um Dómalda kon-
ung í Svíþjóð.34 Varla hefur bætt úr skák, að þeir voru annarrar trúar
en meirihluti landsmanna, og fyrst eftir að þeir komu til valda reyndu
þeir að útrýma hinum forna sið með hörku.35 Almenningur hlaut því
að líta svo á að goðin væru að refsa landsmönnum með slæmu árferði
fyrir að binda trúss sitt við trúvillinga.
í trúboði sínu hafði Hákon konungur fyrst og fremst beitt fortölum,
34 Heimskringla I, bls. 31-2.
35 í Heimskringlu er sagt, að Eiríkur blóðöx og fjölskylda hans hafi tekið trú á Norð-
imbralandi er hann kom þangað í fyrra skiptið. Líklegra er þó, að þau hafi þegar
verið orðin kristin er þau komu þangað og tekið trú í Danmörku sem var að kristn-
ast um þetta leyti. Heimskringla 1, bls. 152.
4-SAGA