SunnudagsMogginn - 06.12.2009, Page 28

SunnudagsMogginn - 06.12.2009, Page 28
28 6. desember 2009 Á rni, ertu ekki örugglega að merkja?“ spurði Haraldur Sigurðsson. „Nei! Ég rata út, ekkert mál,“ svaraði Árni og eiginlega hvarf í gufuskýi sem rauk frá honum þegar við stoppuðum í smástund til að hvíla okkur. Við vorum staddir inni í miðjum frumskógi á eyjunni Krakatá í Indónesíu, hitinn var óbærilegur, um 40 gráður og rak- inn örugglega nálægt 100 prósentum. Þetta var eins og að vera í gufubaði, ná varla andanum en verða samt að höggva sér leið út. Við vorum í vísinda- og rannsóknarleiðangri með Haraldi Sigurðssyni, prófessor og eldfjallafræðingi við Rhode Island-háskólann í Bandaríkjunum. Auk okkar Árna Johnsen voru í hópnum Steve Carey aðstoð- arprófessor og Charles Mandeville doktorskandidat, Jón Björgvinsson kvikmyndagerðarmaður og kona Haraldar, Jane. Haraldur fór fremstur með sveðju til að höggva okkur leið í gegnum þéttan og nær aldimman frumskóginn. Menn skiptust á að höggva leiðina, tágar þurfti að fjar- lægja og þéttan lággróður svo menn kæmust áfram leið- ar sinnar. Sá sem var aftastur í röðinni merkti tré af og til svo við mundum rata út úr skóginum ef leiðin fram- undan lokaðist. Það varð að hafa varann á sér í hverju fótmáli því þarna vorum við á stað sem enginn hafði stigið fæti á áður. Það var allt morandi í stórum kóngulóm og baneitruðum snákum sem geta hæglega drepið fullorðinn mann á 20 mínútum. Einnig risakyrk- islöngum, þeim stærstu sem fundist hafa á jörðinni, og tveggja til þriggja metra löngum drekum sem lágu hálf- ósýnilegir í skóginum allt í kringum okkur. Þegar mað- ur sá þeim bregða fyrir runnu þeir hálfpartinn saman við gróðurinn. Ávallt var augnaráðið ófrýnilegt. Árni var hættur að merkja, hitinn var að sjúga frá okkur allt þrek og það var nánast myrkur inni í skóg- inum þar sem laufið var svo þétt. Við höfðum verið í nokkra klukkutíma að paufast áfram þvert yfir eyjuna. Haraldur gróf af og til í jarðveginn og tók sýni, hann var að rannsaka hvernig og hvers vegna hún sprakk í loft upp 27. ágúst 1883 og hvarf í hafið að mestum hluta. Einungis þriðjungur eyjunnar stendur eftir og heitir Ra- kata. Hinir hlutarnir, Perboewatan og Danan, hurfu of- an í gíginn. Danan var 450 metra há og hvarf niður á 250 metra dýpi. Í sprengingunni fórust um 36.000 manns, yfir 90 prósent í 40 metra hárri flóðbylgjunni sem fylgdi á eftir. Flóðbylgjan sem varð á Súmötru um jólin 2004 var um 12 metra há og grandaði um 300 þús- und manns. Sprengingin þegar Krakatá sprakk var svo öflug að hún heyrðist alla leið til Ástralíu, sem er í 2.000 km fjarlægð, og hljóðbylgjan fór þrjá hringi í kringum jörð- ina. Aska og brennisteinsgas þeyttist upp í heiðhvolfið og móðan hafði áhrif á loftslag um alla jörð, það varð myrkur við Krakatá í tvo daga. Skip voru föst uppi í trjám tvo og hálfan kílómetra inni í landi og allir 3.000 íbúar eyjunnar Sebesi, sem er um 900 metra há, fórust þegar flóðbylgjan skall á henni. Margir skoluðust á haf út. Sebesi er um 80 kílómetra frá Krakatá. Hafa varð hraðar hendur því við vissum ekki hvað við yrðum lengi að komast út úr skóginum og hvernig leið- in framundan væri. Það var rigning í aðsigi og við urð- um að komast út áður. Í frumskógarrigningu fer allt á flot á augabragði með tilheyrandi aukningu á dýralífi og hættum sem því fylgja. Við vorum ekki langt frá því að komast út úr skóginum þegar við lentum í snarbrattri brekku, um 30 metra hárri, nánast þverhníptri. Klífa varð vegginn með því að hanga í tágum úr skóginum, það vantaði bara Tarsan til að gera þetta fullkomið. Á miðri leið upp brekkuna, sem var öll vaxin gróðri, slímug og sleip, var hola þar sem ófrýnilegt ferlíki á stærð við fótbolta, loðið með margar lappir, starði á þá sem framhjá fóru. Hristist allt og nötraði. Klífa varð framhjá holu dýrsins hangandi á örmjórri trjágrein. Allir klifu í röð, hver á eftir öðrum framhjá kvikindinu til- búnir að höggva með sveðjunni gerði það árás. Jane og okkur hinum var ekki skemmt en Haraldur róaði hana niður af yfirvegun. Við komumst út úr skóginum eftir nokkra klukkutíma úrvinda og rennandi blaut. Það var stórkostlegt að sjá sjóinn og allir hentu sér hálfrænulausir beint út í hann til að kæla sig. Þarna eru einhver mestu hákarlasvæði Indónesíu og eftir smástund í sjónum komu þrír uggar á fleygiferð í áttina að okkur. Ég þaut upp úr sjónum og kallaði á Árna: „Það eru hákarlar hérna úti um allt, komdu þér upp úr sjónum!“ Árni leit upp. Allir voru farnir í land nema hann. „Já, komi þeir bara ef þeir þora,“ hrópaði hann þegar hann sá hákarlana nálgast og sló af öllu afli í sjóinn með til- heyrandi gusugangi. Það skipti engum togum að hákarl- arnir syntu burt í ofboði. Þeir hafa sennilega séð sæng sína upp reidda, með því að éta þennan mann yrði ævi- löng magapína þeirra hlutskipti. Hákarlarnir sluppu í þetta sinn og við gátum kælt okkur áfram í tærum sjónum. Við náðum í tjaldbúðirnar okkar í jaðri frumskógarins á eyjunni Sertung, rétt fyrir myrkur. En það dimmir mjög hratt á þessu svæði. Klukkutíma seinna kom þvílík rigningardemba að allt fór á flot. Haraldur Sigurðsson er vísindamaður sem hefur háð marga hildina við náttúruöflin og alltaf haft sigur þó að oft hafi mátt litlu muna. Ég hef engan mann séð sem hefur sama ævintýraljóma yfir sér og hugrekki og Har- aldur. Hann er hinn sanni Indiana Jones. Í einni ferð hans til Mexíkó til að rannsaka eldgos byrjaði að gjósa þar sem Haraldur var á gígbrúninni. Yfir hann rigndi tuttugu kílóa eldhnöttum en eins og venjulega slapp hann. Í þetta skiptið án skrámu. Oft hefur hann þó skrámast og brennst á öðrum vígstöðvum. Haraldur og félagar fundu fyrstir manna í heiminum þorpið sem hvarf undir ösku á Tambora-eldfjallinu sem gaus gífurlegu sprengigosi 1815, og er mesta eldgos á Hákarl- arnir syntu burt í ofboði Sagan bak við myndina Ragnar Axelsson rax@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.