SunnudagsMogginn - 30.01.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 30.01.2011, Blaðsíða 30
30 30. janúar 2011 H runið hefur leitt til þess að á öllum sviðum samfélagsins, hjá hinu opinbera, einkafyr- irtækjum og á heimilum hafa útgjöld verið tekin til endurskoðunar og leiða leitað til að draga úr þeim. Þetta er ekki bara að gerast hér á Íslandi heldur um allan hinn vestræna heim, sem stendur frammi fyrir gjörbreyttum að- stæðum í efnahagsmálum. Eitt af því sem hlýtur að koma til frek- ari skoðunar er kostnaður okkar við ut- anríkisþjónustu, þ.e. samskipti okkar við önnur ríki. Nú orðið eru þau tiltölulega einföld. Mikil átök vegna þátttöku okkar í kalda stríðinu og útfærslu fiskveiði- lögsögunnar eru að baki. Við eigum að vísu eftir að leiða til lykta fyrirkomulag samskipti okkar við Evrópusambandið en að öðru leyti snýst hagsmunagæzla gagnvart öðrum þjóðum um að tryggja réttmæta hlutdeild okkar í flökk- ustofnum á Norður-Atlantshafi og greið- an aðgang að erlendum mörkuðum fyrir afurðir okkar. Til lengri tíma litið er stóra málið hvernig þróun siglingaleiða á norðurslóðum snertir hagsmuni okkar. Jafnhliða því, sem sú hagsmunagæzla, sem utanríkisþjónusta okkar þarf að sjá um, hefur af ofangreindum sökum minnkað að umfangi hafa margvíslegar tækniframfarir og bættar samgöngur leitt til þess að hægt er að sinna þessum sam- skiptum með einfaldari og ódýrari hætti. Nú geta fulltrúar íslenzkra stjórnvalda flogið til Evrópu snemma að morgni, sótt fundi og komið heim að kvöldi. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var, þeg- ar einn fundur þýddi kannski þriggja daga ferðalag. En jafnframt hafa tæknileg samskipti gjörbreytzt. Símasamband er betra og fullkomnara. Fjarfundakerfi hafa rutt sér til rúms þannig að fólk þarf ekki að ferðast landa í milli til þess að tala saman við sæmilega góðar aðstæður. Það gamla kerfi, að utanríkisþjónustur komi sér upp eins konar útibúum víða um lönd, sem nefnast sendiráð með öll- um þeim kostnaði, sem þeim fylgir hefur að sumu leyti runnið sitt skeið á enda. Þetta er mikill kostnaður. Þótt við séum örþjóð, sem að jafnaði skiptir engu máli í alþjóðlegum samskiptum, hafa sendi- menn okkar á erlendri grund talið að umbúnaður um sendiráð okkar yrði að uppfylla vissar lágmarkskröfur. Það þýð- ir að keyptir hafa verið dýrir bústaðir fyrir sendiherra (eða leigðir í einhverjum tilvikum), skrifstofuhúsnæði hefur þurft að standast sömu kröfur auk alls þess, sem fylgir veröld diplómatanna. Á undanförnum áratugum hefur sendiráðum okkar fjölgað. Talið hefur verið nauðsynlegt að hafa þrjú sendi- ráð í Asíu, í Japan, Kína og á Ind- landi, sendiráðum í Evrópu hefur verið fjölgað o.s.frv. Það blasir við að í þeirri endurskoðun alls opinbers kostnaðar sem nú stendur yfir hljótum við að hugsa samskipti okk- ar við aðrar þjóðir upp á nýtt. Það er al- veg öruggt mál að færi fram þarfagrein- ing eins og tíðkast í einkafyrirtækjum kæmi í ljós að við þurfum ekki á öllum þessum útstöðvum að halda. Auðvitað verðum við að hafa sendiráð hjá Samein- uðu þjóðunum, hjá Atlantshafsbandalag- inu og hjá Evrópusambandinu. Við hljót- um líka hagsmuna okkar vegna að hafa sendiráð í helztu valdamiðstöðvum heims, svo sem í Washington, Peking, Berlín og London og kannski Moskvu. Það er hins vegar engin þörf á að hafa fjögur sendiráð á Norðurlöndum. Það dugar að hafa eitt og reka út frá því litlar skrifstofur annars staðar á Norðurlönd- unum. Það er lúxus sem við höfum ekki efni á að hafa þrjú sendiráð í Asíu. Að öðru leyti er hægt að reka utanrík- isþjónustu okkar og hagsmunagæzlu gagnvart öðrum þjóðum með sendiherr- um, sem hafa aðsetur á Íslandi en ferðast til þeirra landa, sem kalla á slíkar heim- sóknir, þegar tilefni er til. Að hluta til er sú nærvera, sem fylgir því að hafa sendi- ráð í öðrum ríkjum, auðvitað táknræn en það eru takmörk fyrir því hvað smáþjóð getur leyft sér að leggja mikla peninga í táknræna nærveru. Í hugmyndum sem þessum felst enginn fjandskapur gagnvart utanríkisþjónustu okkar heldur einfaldlega sú skoðun að kostnaður við hana hljóti að koma til endurskoðunar eins og öll önnur opinber útgjöld og að við sníðum okkur stakk eft- ir vexti í þessum efnum sem öðrum. Því verður haldið fram að verði sendi- ráðum okkar í öðrum löndum fækkað muni þau hin sömu loka sendiráðum sín- um hér og við verða af tekjum vegna þeirra. Það tekjutap er ekki svo mikið að það geti ráðið fjölda sendiráða okkar. Önnur ríki eru sífellt að endurskoða þörf fyrir sendiráð í öðrum löndum. Ekki eru margir mánuðir síðan endur- skipulagning af því tagi fór fram í norsku utanríkisþjónustunni. Þegar gerð er krafa um mikla fækkun starfa í heilbrigðisþjónustunni, nið- urskurð útgjalda á Landspítala, sparnað í rekstri skóla, allt að því lokun heilsu- gæzlustöðva á landsbyggðinni og allt það sem við þekkjum úr umræðum líðandi stundar er ósköp eðlilegt að hið sama nái til utanríkisþjónustunnar. Og það auð- veldar niðurskurð á þeim vettvangi að sterk rök eru fyrir honum vegna breyttra aðstæðna og nýrra samskiptahátta. En samskipti okkar við önnur ríki snú- ast um fleira. Alþingi sjálft á í umtals- verðum samskiptum við önnur lönd. Þingmenn eru mikið á ferðalögum til fundahalda. Hið sama á við um embætt- ismenn í öðrum ráðuneytum og rík- isstofnunum. Margt af þessu skilar litlu og sumt engu eins og þeir vita bezt sjálfir sem í því standa. Það mundi draga mjög úr kostnaði ef dagpeningakerfi hins op- inbera yrði breytt og tekin upp sá háttur, sem tíðkast í sumum einkafyrirtækjum, að greiða útlagðan kostnað en ekki dag- peninga, sem í of mörgum tilvikum virka sem launauppbót. Þetta eru rökin fyrir fækkun sendiráða Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is Vegfarendur á Savile Row í Lundúnum rákuupp stór augu á þessum degi fyrir 42 árumþegar tónar tóku skyndilega að streyma framaf þaki byggingar númer 3 við götuna, þar sem Apple-útgáfan var til húsa. Í fyrstu trúðu menn varla sínum eigin augum en ekki var um að villast – þetta voru sjálfir Bítlarnir sem ekki höfðu leikið saman opinberlega í þrjú ár. Orðið fór eins og eldur í sinu um borgina og fólk dreif að úr öllum áttum, táningsstúlkur í pínupilsum, prúðbúna kaupahéðna og allt þar á milli. Enginn mátti missa af þessum langþráða viðburði. Veg- farendur vissu það ekki á því augnabliki (ekki einu sinni þeir sjálfir) en þetta voru síðustu tónleikar Bítlanna. Fjórmenningarnir fræknu frá Liverpool hættu að leika á tónleikum árið 1966 – höfðu einfaldlega fengið nóg. Samkomulagið innan sveitarinnar hafði farið hríðversn- andi síðan og í reynd var hún í andarslitrunum þegar Savile Row-tónleikarnir fóru fram. Paul McCartney var eini meðlimurinn sem hafði áhuga á því að halda sam- starfinu áfram. John Lennon vildi róa á önnur mið með nýju kærustunni sinni, Yoko Ono; George Harrison hafði tekið miklum framförum sem lagahöfundur og smám saman fengið nóg af því að standa í skugga félaga sinna og Ringo Starr hugði á frama í kvikmyndum. John var fastur í fjötrum fíkniefna á þessum tíma og Paul sá fyrir vikið um að reka trippin. Svo slæmt var ástandið að í hljóðverinu léku fjórmenningarnir eins og leiguþý hver í lögum annars – með fýlusvip á vör. Hug- takið samvinna hafði skolast burt með baðvatninu. Paul sá að ekki varð við þetta ástand unað og í þeirri veiku von að bjarga bandinu stakk hann upp á því að haldnir yrðu opinberir en óhefðbundnir tónleikar. Ýmsir staðir voru ræddir, svo sem kyndillýst hringleikahús í Sádi- Arabíu, skemmtiferðaskip úti á rúmsjó, þinghúsið í Lundúnum, ónefndur barnaspítali og flugvöllur, þar sem kyrjað yrði til nýlentra flóttamanna frá Bíafra. Allar steyttu þessar hugmyndir á skeri. Ringo vildi ekki fara úr landi og George gat ekki hugsað sér að endurtaka „sirkusinn“ sem síðustu tónleikaferðir Bítlanna voru. Paul var spenntur fyrir því að leika einhvers staðar í leyfisleysi og freista þess að fá lögregluna til að leysa tónleikana upp, Yoko lagði til að leikið yrði frammi fyrir tuttugu þúsund tómum sætum og John upplýsti að hon- um litist sífellt betur á að spila á hæli. Eftir japl, jaml og fuður varð húsþakið ofan á. „Vegna þess að það var einfaldast,“ upplýsti George síðar. Þá var ákveðið að kvikmynda herlegheitin og einblína fyrir vikið meira á tökuvélarnar en áhorfendur. Tónleikunum seinkaði reyndar um nokkra daga fyrir þær sakir að George hætti og byrjaði aftur í sveitinni í millitíðinni. Allt hékk á bláþræði hjá blessuðum Bítlunum. Það var svo á hvössu og grámyglulegu miðdegi að Bítlarnir báru búnað sinn upp á þak Apple-bygging- arinnar og komu sér fyrir á tjörupappa innan um skor- steina. Svo svalt var í veðri að Ringo fékk lánaða regn- kápu hjá konu sinni og John brá sér í pels af Yoko. Síðan var talið í „Get Back“. Þar sem þeir stóðu þarna rauðnefjaðir á þakinu hvarf allur ágreiningur sem dögg fyrir sólu. Bítlarnir voru aft- ur Bítlarnir – leikglaðir og samstiga. Paul söng af end- urnýjaðri ástríðu og hinir gáfu sig alla í gjörninginn. Eftir átta eða níu lög tók rótarinn, Mal Evans, eftir því að lögreglan var mætt á svæðið og gaf fjórmenningunum merki. Paul tók af skarið: „Við hættum ekki.“ Seinna viðurkenndi hann að hafa séð fyrir sér fyrirsagnir blað- anna: „Bítlarnir handteknir á húsþaki.“ „Þið verðið að hætta núna,“ sagði fyrsti lögreglumað- urinn sem komst upp á þakið. „Dragið okkur í burtu,“ svaraði Paul um hæl og renndi í næsta lag. Ekki kom til þess, lögreglan tók græjurnar einfaldlega úr sambandi. Þannig lauk einu sögufrægasta giggi allra tíma. orri@mbl.is Lokatón- leikar Bítlanna Let it Be. Platan sem kom í kjölfar þakkonsertsins fræga. ’Þar sem þeir stóðu þarna rauð-nefjaðir á þakinu hvarf allurágreiningur sem dögg fyrir sólu. Bítl-arnir voru aftur Bítlarnir. Bítlarnir troða upp í kuldanum á þaki Apple-byggingarinnar. Á þessum degi 30. janúar 1969

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.