SunnudagsMogginn - 27.02.2011, Síða 30
30 27. febrúar 2011
S
mátt og smátt er að skapast
nokkuð víðtæk samstaða í sam-
félaginu um að ákvarðanir í
veigameiri málum eigi þjóðin
sjálf að taka í atkvæðagreiðslum. Þetta
kemur fram í umræðum á Alþingi. Þetta
varð ljóst, þegar þingflokkur Sjálfstæðis-
flokksins komst sameiginlega að þeirri
niðurstöðu að vísa ætti Icesave III í þjóð-
aratkvæði, þótt skiptar skoðanir væru
innan þingflokksins um efni málsins. Og
þetta má marka af þjóðfélagsumræðum
almennt.
Það er líka að verða nokkuð víðtæk
samstaða um að gera eigi breytingar á 26.
gr. stjórnarskrárinnar. Að óeðlilegt sé að
það vald sé í höndum forseta, hvort mál-
um sé vísað í þjóðaratkvæði. Um þetta
atriði var hins vegar mikill ágreiningur á
Alþingi vorið og sumarið 2004, þegar
forseti beitti þessu ákvæði í fyrsta sinn.
Nú má telja víst að samstaða sé að verða
um að taka þetta vald úr höndum forseta.
Hins vegar á eftir að ræða hvaða skilyrði
þurfi að vera fyrir hendi til þess að þjóð-
aratkvæðagreiðsla fari fram.
Í vor eru 14 ár liðin frá því að Morgun-
blaðið gaf út í heild fylgiblað með brezka
tímaritinu The Economist frá haustinu
1996, þar sem rök voru færð fyrir því, að
beint lýðræði ætti að taka við á 21. öldinni
af fulltrúalýðræði 20. aldarinnar. Lýð-
ræðið er augljóslega í framsókn í heim-
inum – þrátt fyrir allt. Athygli vekur á
Vesturlöndum, að það eru ekki ofsa-
trúarsamtök, sem standa fyrir upp-
reisnum í arabaheiminum. Það er ný
kynslóð ungra og vel menntaðra araba,
sem krefjast lýðræðis.
Nú er að því komið að við Íslendingar
þurfum að huga að næstu skrefum í þess-
ari þróun. Þau snúa annars vegar að því
hvers konar breytingar eigi að gera á
stjórnarskránni að þessu leyti. Eiga að
vera þar ákvæði um að tiltekin, afmörk-
uð málefni skuli alltaf fara í þjóðar-
atkvæði? Að aukinn meirihluti á Alþingi
geti ákveðið að vísa máli til þjóðar-
atkvæðis? Að tiltekið hlutfall kjósenda
geti óskað eftir þjóðaratkvæði? Allt þetta
þarf að ræða á næstu mánuðum.
En nú hljótum við líka að spyrja
hvernig staðið verði að kynningu Icesave
III fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl.
Eðlilegt er að lögin sem slík, sem þjóðin á
að taka afstöðu til, verði send inn á hvert
heimili eins og fram kom í Morgun-
blaðinu í fyrradag, fimmtudag, að gert
yrði. Í lögunum og fylgiskjölum þeirra
kemur auðvitað fram ákveðin afstaða og
túlkun. Hvað um sjónarmið þeirra, sem
hafa aðra afstöðu og túlka þær upplýs-
ingar, sem fyrir liggja með öðrum hætti?
Kynning af þessu tagi kostar fjár-
muni. Kostnaður við kynningarstarf
Alþingis og ríkisstjórnar er greiddur
úr sameiginlegum sjóði landsmanna.
Hvað um kostnað við kynningarstarf
annarra, sem kunna að hafa aðra skoðun
á málinu heldur en meirihluti Alþingis og
ríkisstjórn?
Svokölluð hlutlaus kynning er ekki til.
Áður fyrr leituðu stjórnvöld gjarnan til
stofnana á vegum Háskóla Íslands til þess
að tryggja hlutlausa miðlun upplýsinga.
Nú er svo komið að kennarar við Háskóla
Íslands (og að nokkru leyti við aðra há-
skóla) eru orðnir svo umfangsmiklir
þátttakendur í þjóðfélagsumræðum að
ekki er lengur hægt að líta á einstakar
stofnanir innan Háskóla Íslands sem
hlutlausa fagaðila. Mundi einhver líta á
Alþjóðamálastofnun HÍ sem hlutlausan
fagaðila í ESB-málum? Mundi einhver
líta á Hagfræðistofnun HÍ sem hlutlausan
fagaðila um Icesave? Auðvitað ekki.
Þess vegna er nauðsynlegt að taka
ákvörðun um að kostnaður við kynningu
annarra sjónarmiða en meirihluta Al-
þingis og ríkisstjórnar verði einnig
greiddur úr sameiginlegum sjóði lands-
manna. Einn hópur fólks hefur látið sér-
staklega að sér kveða í umræðum um
Icesave frá upphafi en það er hópur, sem
gengið hefur undir heitinu InDefence.
Þar er ekki á ferðinni flokkspólitískur
hópur heldur samtök einstaklinga, sem
hafa leitazt við að leggja mat á Icesave-
málið út frá sínum sjónarmiðum en á
grunni faglegrar þekkingar, sem til stað-
ar er innan hópsins. Hvað gerist ef þessi
hópur leitar formlega eftir fjárstuðningi
úr sameiginlegum sjóði landsmanna til
þess að kynna sín sjónarmið? Yrði þeirri
ósk hafnað? Er réttlátt og sanngjarnt
gagnvart almenningi í landinu, að hann
eigi ekki kost á að kynna sér sjónarmið og
rök þessa hóps með sama hætti og rök og
viðhorf meirihluta Alþingis?
Í sjálfu sér eiga alveg sömu rök við í
umræðunum um aðild Íslands að ESB.
Ráðherrar, þingmenn og embættismenn
eru á þönum hér innanlands og landa í
milli til þess að kynna málið út frá sjón-
armiði þeirrar ríkisstjórnar, sem við völd
situr þessa stundina og þess meirihluta
Alþingis, sem samþykkti aðildar-
umsóknina. Kostnaður er greiddur úr
ríkissjóði. En hvað um sjónarmið og rök
hinna, sem andvígir eru og skoðana-
kannanir sýna að hafa meirihluta þjóð-
arinnar að baki sér?
Er eðlilegt að herkostnaður þeirra, sem
vilja aðild sé allur greiddur úr ríkissjóði
en ekki kostnaður þeirra, sem halda uppi
andstæðum sjónarmiðum?
Þessar spurningar snúast um lýðræðis-
leg vinnubrögð ekkert síður en þjóðar-
atkvæðið sjálft. Og það eru hagsmunir
allra aðila að þessum málum sé ráðið með
sanngjörnum hætti. Þeir sem nú eru í
stjórnaraðstöðu og geta þess vegna látið
greiða kostnað við að kynna sín sjónar-
mið úr sameiginlegum sjóðum verða
komnir í stjórnarandstöðu fyrr eða síðar.
Þess vegna eru það ekki síður hagsmunir
þeirra, þegar til lengri tíma er litið að
allrar sanngirni sé gætt á báða bóga.
Þeir, sem við stjórnvölinn eru hverju
sinni hafa engan einkarétt á ríkiskass-
anum þótt þeim hafi verið falið að hafa
umsjón með honum í ákveðinn tíma.
Þjóðaratkvæðagreiðslur og kynning sjónarmiða
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@mbl.is
Á
tæplega tveggja ára tímabili, frá 1979-81,
féllu hvorki fleiri né færri en 28 svört börn
eða ungt fólk fyrir morðingja hendi í Atlanta í
Bandaríkjunum. Morðæðið vakti að vonum
mikinn óhug og ekki síður úrræðaleysi lögreglu sem
lengi vel komst hvorki lönd né strönd með rannsóknina.
Það var ekki fyrr en vorið 1981 að til rofaði. Lögregla
hafði þá grunsemdir um að morðinginn myndi fleygja
næsta fórnarlambi sínu í vatn í ríkinu til að má út sönn-
unargögn og vaktaði fyrir vikið öll helstu vötn í grennd-
inni gaumgæfilega. Sú ráðstöfun bar árangur en að
kvöldi 22. maí 1981 heyrði lögreglumaður á vakt við
Chattahoochee-ána skvamp undir brú við ána. Í kjölfar-
ið sá hann bifreið af Chevrolet-gerð aka í burtu.
Lögregla stöðvaði bílinn skammt frá en undir stýri var
23 ára gamall maður, Wayne Williams, sem starfaði sem
plötusnúður og umboðsmaður tónlistarmanna. Að-
spurður kvaðst Williams vera á leið til bæjarins Smyrna
að hlusta á unga og upprennandi söngkonu, Cheryl
Johnson. Síðar kom í ljós að símanúmerið sem hann gaf
lögreglu var ekki í notkun og við eftirgrennslan fannst
hvorki tangur né tetur af Cheryl þessari.
Tveimur dögum síðar fannst nakið lík hins 27 ára
gamla Nathaniels Carters á floti í Chattahoochee-ánni,
skammt frá brúnni, þar sem lögreglumaðurinn heyrði
skvampið. Það hafði ekki verið lengur en 48 klukku-
stundir í vatninu, að dómi líkskoðara.
Þar með var Wayne Williams orðinn efstur á lista yfir
grunaða, ekki bara í Carter-málinu, heldur öllum hinum
óupplýstu morðmálunum á svæðinu líka. Ekki dvínaði
grunurinn þegar Williams féll á lygaprófi. Það sem leiddi
til handtöku hans, 21. júní 1981, var hins vegar þræðir og
hundahár sem fundust á einu fórnarlambanna en þau
voru rakin til heimilis og bifreiðar Williams. Þá fannst
blóð úr einhverjum hinna myrtu í bifreiðinni. Skömmu
áður hafði Williams boðað til blaðamannafundar við
heimili sitt, þar sem hann lýsti yfir sakleysi sínu.
Réttarhaldið yfir Williams hófst 6. janúar 1982 en auk
fyrrgreindra sönnunargagna kom sitthvað fram sem
benti til sektar hans, til að mynda báru vitni að þau
hefðu séð hann með sumum fórnarlambanna. Þetta
dugði kviðdómi til að sakfella Williams fyrir tvö morð, á
Nathaniel Carter og hinum 29 ára gamla Jimmy Payne, á
þessum degi 1982. Hann var dæmdur í tvöfalt lífstíðar-
fangelsi í ríkisfangelsinu í Georgíu. Williams fór sjálfur í
vitnastúkuna og þótti síst hafa hjálpað málstað sínum
með því að æsa sig upp úr öllu valdi. Við réttarhaldið var
því einnig haldið fram að Williams hneigðist kynferðis-
lega til ungra drengja. Ekkert fórnarlambanna hafði þó
verið misnotað kynsferðislega. Eftir að Williams hafði
verð dæmdur lokaði lögregla í Atlanta 23 morðmálum til
viðbótar, þar sem hann er talinn hafa verið að verki.
Mikil gleði greip um sig í ríkinu þegar málin töldust
upplýst og efnt var til tónleika í minningu hinna látnu
og til styrktar fjölskyldum þeirra. Meðal listamanna sem
komu fram má nefna Frank Sinatra, Sammy Davis, Jr. og
The Jacksons. Furðu sætti að faðir Waynes Williams,
sem starfaði sem ljósmyndari í Atlanta á þessum tíma,
var um skeið á sviðinu með Sinatra – að mynda.
Wayne Williams, sem orðinn er 52 ára, hefur alla tíð
haldið fram sakleysi sínu og ýmsir aðrir hafa dregið sekt
hans í efa, alltént hafi hann ekki myrt allan þennan
fjölda. Árið 2006 opnaði lögregla í DeKalb-sýslu í
Georgíu á ný fimm morðmál sem áður voru rakin til
Williams en sú rannsókn hefur ekki leitt til sakfellingar.
Fyrir fjórum árum féllst saksóknari í Georgíu á að
leyfa DNA-rannsókn á hundahárunum sem leiddu til
sakfellingar Williams, að beiðni lögmanns hans.
Niðurstaðan var ekki óyggjandi en þar sem hún úti-
lokaði ekki hund Williams þótti saksóknara ekki ástæða
til að taka málið upp að nýju. Við það situr.
orri@mbl.is
Atlanta-
morðinginn
dæmdur
Wayne Williams kominn í járn, grunaður um fjölda morða. Lögregla dregur upp líkið af Nathaniel Carter í maí 1981.
Á þessum degi
27. febrúar 1982
’
Williams fór sjálfur í vitna-
stúkuna og þótti síst hafa hjálp-
að málstað sínum með því að
æsa sig upp úr öllu valdi.