SunnudagsMogginn - 13.03.2011, Blaðsíða 20

SunnudagsMogginn - 13.03.2011, Blaðsíða 20
20 13. mars 2011 H ann stendur ekki á pallinum, heldur fyrir framan hann. Lágvaxinn, lítið eitt álútur, með úfinn hárkraga. Hreyfingarnar eru hófstilltar en ákveðnar, þegar það á við. Ég bíð eftir að hann rölti um sviðið, eins og hann er frægur fyrir, en það gerist ekki á þessari æfingu í Háskólabíói. Sennilega er engin ástæða til að ganga um gólf, hljóm- sveitin leikur eins og engill. Eins einleikarinn, sonur stjórnandans. Það er fjölskyldustemning við Hagatorg þennan frostkalda vetrarmorgun. Ekki svo að skilja að feðgarnir kippi sér upp við veðrið, þeir eru bornir og barnfæddir í Moskvu, þar sem frostið sýnir ekki bara tennurnar, heldur bítur inn að beini. Hóf ferilinn á Stalínstímanum Það er ekki á hverjum degi sem goðsagnir standa á sviðinu við Hagatorg en Gennadíj Rosdestvenskíj verð- ur ekki betur lýst með öðru orði. Hann er sonur hins rómaða hljómsveitarstjóra Nikolais Anosovs en tók sér ættarnafn móður sinnar til að geta haslað sér völl á eigin forsendum. Rosdestvenskíj hóf feril sinn sem hljóm- sveitarstjóri í Bolshoj-leikhúsinu fyrir réttum sextíu ár- um – meðan Jósef Stalín var enn við völd í Sovétríkj- unum sálugu. Vegur hans óx hratt og allar götur síðan hefur Rosdestvenskíj verið í hópi fremstu hljómsveit- arstjóra í heimi. Mörg tónskáld hafa tileinkað honum verk og hann frumflutt nokkrar öndvegistónsmíðar undanfarinna áratuga. Ekki er að sjá að þessi velgengni hafi stigið Rosdest- venskíj til höfuðs. Ef eitthvað er bugtar hann sig fyrir mér, sveitamanninum úr Eyjafirði. Viðmótið er hlýtt, brosið breitt. Ég má hafa mig allan við til að sýna hon- um hliðstæða virðingu. Eiginkona hans, Viktoria Postnikova, konsertpíanistinn frægi, og sonurinn, fiðl- arinn Alexander Rosdestvenskíj, eru ámóta ljúf á manninn. Fjölskyldan er samankomin í hljómsveit- arstjóraherberginu í iðrum Háskólabíós og þjappar sér saman svo ég komist inn. Vonandi eru afdrepin rúm- betri í Hörpunni! Mikið hefur verið rætt og ritað um viðhorf Rosdest- evnskíjs til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann upplýsti eftir fyrstu kynni sín af henni fyrir tveimur árum að hún væri í hópi bestu hljómsveita í heimi og ítrekaði það sjónarmið í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag. „Hljómsveitin kom mér skemmtilega á óvart þegar ég kom hingað fyrst. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hún væri svona góð. Ég hafði aldrei heyrt í henni, það er ekki nægilega auðvelt að nálgast hljóðritanir hennar,“ segir hann. „Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum þegar ég steig fyrst á pallinn, það var engu líkara en hljómsveitin hefði æft verkið, sem var Lenín- gradsinfónía Sjostakovitsj, heillengi á undan. Það er ekki algengt að hljómsveitir séu svona vel undirbúnar. Það er stórmerkilegt að þessi fámenna þjóð skuli eiga svona góða sinfóníuhljómsveit.“ Allar hljómsveitir afleitar Að svo mæltu sný ég mér að frúnni, Viktoriu Postni- kovu, og spyr hvort hún hafi jafnmikið álit á hljóm- sveitinni. „Nei, nei, henni finnst hljómsveitin ómöguleg,“ gríp- ur Rosdestvenskíj stríðnislega fram í fyrir spúsu sinni, „en þú veist að það er ekkert að marka hana. Einleik- urum finnst allar hljómsveitir afleitar, þær spila alltaf of hátt.“ „Hvaða vitleysa,“ segir Postnikova og lætur bóndann ekki slá sig út af laginu. „Það á ekki við um píanóleik- ara. Hljóðfærið er svo stórt og hljómmikið.“ Að öllu gríni slepptu kveðst Postnikova mjög hrifin af hljómsveitinni. „Það var Mozart-konsert sem ég lék hérna fyrir tveimur árum, einn sá erfiðasti í boði, og hljómsveitin fór afar vel með hann.“ Á tónleikum Sinfóníunnar í Háskólabíó á fimmtudag- inn kemur tekst Postnikova á við annað séní, Sergei Prokofíev, píanókonsert númer 2. Á heildina litið hefur Postnikova flutt á áttunda tug konserta á tónleikum um dagana og óhætt að fullyrða að fáir núlifandi píanistar hafi jafnmarga konserta á efnisskrá sinni. Allt hefur breyst en um leið ekkert „Ég þekkti ekki Beethoven, svo gamall er ég ekki,“ segir Gennadíj Rosdestvenskíj, aðalgesta- stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Eig- inkona hans, konsertpíanistinn Viktoria Postni- kova, og sonurinn, konsertfiðlarinn Alexander Rosdestvenskíj, eru með í för og ræða m.a. um gæði SÍ, líf tónlistarmanna og Halldór Laxness. Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Myndir: Ómar Óskarsson omar@mbl.is Fjölskyldan í iðrum Háskólabíós: Alex- ander Rosdest- venskíj, Viktoria Postnikova og Gennadíj Rosdest- venskíj. Hjónin ferðast núorðið allt- af saman og son- urinn er stundum með í för.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.