SunnudagsMogginn - 13.03.2011, Blaðsíða 21

SunnudagsMogginn - 13.03.2011, Blaðsíða 21
13. mars 2011 21 Alexander, sonur Rosdestvenskíjs og Postnikovu, hefur sjálfur skapað sér nafn í tónheimum sem fiðluleikari, eins og gestir Sinfóníuhljómsveitar Íslands fengu að kynnast síðastliðinn fimmtudag. Spurður hvort hann hafi aldrei hikað við að feta í fótspor hinna frægu foreldra sinna setur hann upp undrunarsvip. „Ég er ekkert að feta í fótspor þeirra, ég er fiðluleikari,“ segir hann brosandi. Hefur bersýnilega erft skopskyn föður síns. Alexander stendur á fertugu og kveðst ekki iðrast þess eitt augnablik að hafa valið tónlistina. „Ég lít ekki svo á að ég hafi valið tónlistina, hún valdi mig. Ég get ekki hugsað mér að fást við neitt annað.“ Ætla mætti að aldrei hafi annað komið til álita en að Al- exander yrði tónlistarmaður. Móðir hans upplýsir þó að tón- listinni hafi ekki verið haldið sérstaklega að honum. „Við vildum ekki að hann yrði tónlistarmaður en varð ekki að ósk okkar. Tveggja ára gamall byrjaði hann að biðja um fiðlu og við létum það eftir honum. Hann prófaði mörg hljóð- færi í æsku en sneri sér loks alfarið að fiðlunni. Í fyrstu kunni hann vitaskuld engar nótur en var fljótur að ná tökum á hljóðfærinu enda umlukinn tónlist alla daga. Ætli megi ekki segja að hann sé með hana í blóðinu.“ Spurð hvers vegna þau hafi ekki viljað að sonurinn fetaði þessa braut svarar Postnikova því til að þetta sé mjög erf- itt líf. „Við vildum að hann lifði frjálsara lífi. Líf tónlistar- mannsins er gríðarlega bindandi og vinnudeginum lýkur í raun aldrei. Fólk í flestum öðrum greinum kemur heim úr vinnu eftir klukkan fimm og snýr sér að fjölskyldunni og áhugamálunum,“ segir hún. „Jafnvel þótt menn séu bankastjórar,“ skýtur Rosdest- venskíj eldri sposkur inn í. Dátt er hlegið. Alexander Rosdestvenskíj var ungur gefinn fiðlunni. Morgunblaðið/Ómar Vildu ekki að sonurinn yrði tónlistarmaður Postnikova var aðeins níu ára þegar Prokofíev féll frá en Rosdestvenskíj er spurður hvort hann hafi kynnst tónskáldinu. „Nei, því miður. Ég sá hann stjórna á tón- leikum og mætti honum á götu en kunni aldrei við að ónáða hann.“ Þekkti ekki Beethoven Rosdestvenskíj og Sjostakovitsj var á hinn bóginn vel til vina og Alfred Schnittke var um árabil heimagangur hjá fjölskyldunni en sonur hjónanna, Alexander Rosdest- venskíj, lék einleik í fjórða fiðlukonsert hans á tón- leikum SÍ á fimmtudaginn var. „Já, já, þetta voru góðir vinir mínir og mér þykir það alltaf jafnmikill heiður að flytja verk þeirra,“ segir Rosdestvenskíj eldri. „En ég vil taka það skýrt fram að ég þekkti ekki Beethoven, svo gamall er ég ekki!“ Rosdestvenskíj leikur við hvurn sinn fingur í þessu spjalli, eins og kýrnar forðum. En hversu gamall er hann? „Ég verð áttræður 4. maí næstkomandi, sama dag og nýja tónlistarhúsið ykkar verður tekið í notkun,“ segir hann. Merkileg tilviljun. Margir eru sestir í helgan stein á þessum aldri en Rosdestvenskíj kveðst ekki einu sinni hafa íhugað þann möguleika. „Það er alltof snemmt að draga sig í hlé um áttrætt,“ segir hann. „Otto Klemperer [hljómsveitarstjórinn frægi, innsk. blm.] var vanur að segja að undrabörn þekktust ekki í tveimur greinum, hljómsveitarstjórnun og kvensjúk- dómalækningum,“ skýtur Postnikova inn í hlæjandi. „Því eldri sem menn verða, þeim mun betri verða þeir.“ Það er vitaskuld akademískt að spyrja Rosdestvenskíj hvort hann geti ímyndað sér lífið án tónsprotans en ég læt samt vaða. Hann baðar út öngum. „Nei, nei, nei. Það er óhugs- andi.“ Tónlistin áfram í öndvegi Margt hefur breyst frá því Rosdestvenskíj hóf feril sinn í Bolshoj árið 1951. Ég býð honum í langferð aftur í tím- ann en hann afþakkar kurteislega. Hefur líklega rætt þau mál einum of oft. „Leyfðu mér að orða þetta svona,“ segir hann. „Ég var beðinn um að stjórna, fyrir vikið hlýtur starfs- umhverfið að hafa verið gott.“ Hann brosir góðlátlega. „Allt hefur breyst en um leið ekkert,“ segir hann síð- an eftir stutta þögn. „Þetta er annað land og annað stjórnarfar en tónlistin er eftir sem áður í öndvegi. Það skiptir mestu máli.“ Allt öðruvísi er umhorfs í tónheimum nú en árið 1951. Þegar hjónin eru spurð hvort þau beri kvíðboga fyrir framtíð sígildrar tónlistar verður Postnikova fyrir svör- um. „Tónlist, eins og við þekkjum hana í dag, hefur gert líf okkar nær óbærilegt. Hún er alls staðar. Maður getur ekki lengur farið út að borða án þess að heyra tónlist, það er tónlist leikin í öllum verslunum og meira að segja í strætó. Þetta væri svo sem allt í lagi ef obbinn af þessari tónlist, ef tónlist má þá kalla, væri ekki bara hávaði á hávaða ofan. Það er engin leið að víkja sér undan þessu. Það er áhyggjuefni.“ Rosdestvenskíj kinkar kolli til að samsinna eiginkonu sinni. „Veistu á hvað þetta minnir mig mest?“ spyr hann svo. „Tyggigúmmí. Þessi tónlist er eins og tyggi- gúmmí.“ Hann hlær dátt. Hjónin búa í Rússlandi en eru mikið á faraldsfæti vegna tónleikahalds. Í seinni tíð ferðast þau alfarið saman, auk þess sem Alexander slæst stundum í hóp- inn. „Við erum eins og sígaunar. Stöðugt á flandri,“ segir Postnikova. „Samt höfum við aðeins dregið úr tónleikahaldi undanfarin ár, einkum á sumrin, til að njóta þess að vera heima.“ Hún segir gott að leika undir stjórn eiginmanns síns, ekki bara vegna náinna persónulegra tengsla þeirra, heldur líka vegna þess að þau gjörþekki hvort annað faglega. Hefur lesið Laxness Talið berst að áhugamálum. „Ég hef mest yndi af hokkíi,“ segir Rosdestvenskíj óvænt. „Maðurinn minn er að fíflast,“ flýtir Postnikova sér að segja og eyðir þessari áhugaverðu mynd þegar í stað úr höfði mínu. „Ástríða hans er bækur og bókasöfnun. Hann hefur safnað bókum allt sitt líf.“ Spurður hvort hann leggi einkum áherslu á rússneska höfunda hristir Rosdestvenskíj höfuðið. „Nei, áherslur mínar í bókasöfnun eru alþjóðlegar. Ég þekki Halldór Laxness,“ segir hann eins og hann hafi alist upp austur á Héraði. „Ég kynntist verkum Laxness fyrst eftir stríðið og heillaðist af þeim. Hann var mjög vinsæll í heimalandi mínu á þeim tíma. Ég vildi óska að ég gæti lesið bæk- urnar hans á íslensku.“ Spurður hvernig honum gangi að máta persónurnar í verkum Laxness við fólkið sem hann hefur kynnst á Ís- landi fórnar Rosdestvenskíj höndum. „Ég þarf meiri tíma til að svara þessari spurningu. Gefðu mér frest til haustsins, ég kem aftur þá.“ Mikið rétt, aðalgestastjórnandi Sinfóníunnar snýr aftur í september og þá verður Harpan komin í gagnið. „Ég hlakka mikið til að koma fram þar.“ Spurð hvort framhald verði á heimsóknum þeirra hjóna eftir það svarar Rosdestvenskíj: „Þeir vilja fá mig til að koma árlega. Ég er orðinn gamall maður og veit ekki hvort ég get orðið við því – en sagði samt já!“ Gennadíj Rosdestvenskíj kann hvergi betur við sig en með tónsprotann í hendinni.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.