SunnudagsMogginn - 13.03.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 13.03.2011, Blaðsíða 30
30 13. mars 2011 T engslin á milli hins danska leik- húss og þess íslenzka hafa alltaf verið sterk. Það er kannski of mikið sagt, að íslenzkt leikhús hafi sprottið upp úr því danska en frum- kvöðlar íslenzkrar leiklistar leituðu til Danmerkur á fyrstu árum 20. aldarinnar eftir innblæstri, þekkingu og þjálfun og öllu sem til þurfti. Þegar hugsað er til baka verður það að teljast meiri háttar afrek að koma upp reglulegri leikhússtarfsemi eins og gert var með stofnun Leikfélags Reykjavíkur árið 1897. Frumkvöðlarnir höfðu ekkert í höndunum nema áhugann einan og það hlýtur að hafa verið brennandi áhugi sem rak þá áfram. Það var ekkert til. Hvorki leikhús né annað sem til þurfti. Hvernig urðu leiktjöldin til? Búningarnir? Efnin sem notuð voru í gervin? Þetta fólk lagði grundvöll að einum meginþætti í menn- ingarlífi okkar á 20. öldinni með tvær hendur tómar. Hér var byrjað nánast frá grunni. Þess vegna voru tengslin við Danmörku ómetanleg. Þangað fóru þau og öfluðu sér þekkingar og einhverrar menntunar. Á milli Danmerkur og Íslands gengu bréf með upplýsingum um það, sem var að ger- ast í dönsku leikhúsi og tillögum um verk, sem setja mætti upp á vegum Leikfélagsins. Til baka komu bréf með upplýsingum um ágreining og átök í þessu litla og fámenna félagi. Það var tekist á þá ekki síður en nú! Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn varð eins konar háborg leikmennta, sem horft var til. Upp úr þessu umhverfi allsleysis en brennandi áhuga spratt sú leikkona íslenzk sem til þessa dags hefur náð meiri árangri á leiksviði með öðrum þjóðum en nokkur annar Íslendingur – Anna Borg. Um miðja síðustu öld var þetta nafn sveipað töfrum. Í Skáldatíma segir Halldór Laxness um íslenzku vikuna í Stokkhólmi 1932: „Af íslenskum bókmenntum sem voru uppi hafðar á viku þessari í Stokkhólmi 1932 hygg ég fátt hafi verið mjög markvert. Þó var þar farið með eitt kvæði eftir íslend- íng, varla meira en mínútu á leingd en svo vel var á haldið, eða kannski öllu heldur svo rétt að mér fanst sem nú hefði ég loks feingið forskrift að ljóði, sem fyrir margra hluta sakir væri algert.“ Og síðan segir nóbelsskáldið: „Hver var sá er kendi mér að skilja þetta smákvæði Jóhanns Sigurjónssonar og gaf mér þann lykil að ljóðmælum, sem hefur dugað mér um sinn? Hún var úng íslensk leikkona björt yfirlitum, ég held ekki einu- sinni þrítug, og gekk fram í tíguglegum al- þýðleik, sem er einkennilegur fyrir Ísland, með upphafinni kvenlegri góðvild í fasi og máli. Mér fanst hún vera ímynd þeirrar ís- lenskrar konu sem er ort um í þulu og danskvæði. Í tempraðri mjúklega áblásinni framsögn hennar fanst mér sem mælt væri úr instum djúpum hins íslenska ljóðs – þó kvæðið væri ort á dönsku. Þessi kona hét Anna Borg.“ Til þessara orða Halldórs Laxness vitnar eiginmaður Önnu Borg, danski leikarinn Paul Reumert í eftirmála bókarinnar: Anna Borg - Endurminningar, sem út kom árið 1965. Aldarfjórðungi eftir að Stefanía Guð- mundsdóttir, einn af stofnendum Leik- félags Reykjavíkur og í hópi fremstu ís- lenzkra leikara til dauðadags, dvaldist veturlangt í Kaupmannahöfn, sótti leikhús og lærði, stóð dóttir hennar, Anna Borg, á sviði í Konunglega leikhúsinu og þreytti frumraun sína þar. Hún átti eftir að verða eins og Halldór Laxness orðaði það í fyrr- nefndri bók sinni „ein af leikstjörnum Norðurlanda“. Það hefur verið nánast ein- stakt afrek að ná slíku valdi á danskri tungu að hún gæti yfirleitt orðið gjaldgeng þar. Sennilega hefur Anna Borg orðið í huga íslenzku þjóðarinnar ein af fyrstu táknum þess, að afkomendur fátækra sjómanna og bænda á afskekktri eyju gætu staðið fyrir sínu úti í hinum stóra heimi, og skipaði þann sess með óperusöngvurunum Pétri Jónssyni og Stefáni Íslandi og síðar afreks- mönnum í íþróttum á borð við Clausens- bræður, Finnbjörn Þorvaldsson og Gunnar Huseby og svo Friðriki Ólafssyni, sem á sinni tíð var einn af fremstu skákmönnum heims. Saga Önnu Borg sótti á mig, þar sem ég sat eitt kvöld í síðustu viku í leikhúsinu gamla við Tjörnina, þar sem aldamótakyn- slóðin lagði grundvöll að íslenzkri leiklist, sem síðan hefur blómstrað. En nú var það dönsk leikkona, sem er komin til Íslands og hefur haslað sér völl á Íslandi hundrað árum eftir að Stefanía Guðmundsdóttir og vinir hennar sóttu til Danmerkur, sem stóð á sviðinu gamla. Hún heitir Charlotte Bö- ving. Um frammistöðu hennar þessa kvöld- stund má nota orð Halldórs Laxness um Önnu Borg að Charlotte Böving hafi „gengið fram í tíguglegum alþýðleik“ á sviðinu í Iðnó og reyndar fannst gömlum svínahirði frá Danmörku fyrir meira en hálfri öld að í söng hennar og tali mætti finna ímynd alls þess bezta í fari dönsku þjóðarinnar. Mér er minnisstætt hvað æskuvinkona mín, Brynja heitin Benediktsdóttir, leik- stjóri, var innilega glöð, þegar hún sagði mér frá verðandi tengdadóttur sinni, Charlotte Böving. Iðnó lifir góðu lífi. Það andrúmsloft, sem varð til í því húsi hverfur aldrei. Það getur ekki horfið. Sagan er alls staðar. Og nú get- ur kynslóðin sem man Önnu Borg og afrek hennar komið í Iðnó og fylgzt með ungri danskri leikkonu á íslenzku sviði. Og nýjar kynslóðir Íslendinga geta komið þangað og hrifizt af andblæ þess bezta, sem Danmörk hefur upp á að bjóða. Um Önnu Borg og Charlotte Böving Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is Í gærdag hrapaði í sjóinn vestur við Búðardal Grumman flugbátur er var að leggja af stað. Í honum voru átta manns. Af sjö farþegum fórust fjórir. Tvær konur, önnur hjeðan úr Reykjavík, en hin frá Búðardal, og tveir karlmenn. Annar frá Ísa- firði en hinn frá Búðardal. Af þeim fjórum sem bjarg- að var slapp aðeins einn ómeiddur. Er slysið vildi til, var veður hið besta og ládauður sjór.“ Með þessum orðum hófst frétt á forsíðu Morgun- blaðsins föstudaginn 14. mars 1947. Vélin var að koma frá Vestfjörðum, þar sem hún tók farþega um borð á Ísafirði og Djúpuvík. Hún settist á sjóinn skammt fyrir framan Búðardal og fimm farþeg- ar, sem ætluðu að taka sér far með flugvélinni til Reykjavíkur, voru fluttir þangað út á bát. Eftir litla stund renndi flugmaðurinn vélinni til flugs og lyftist hún, að sögn sjónarvotta, lítið eitt upp frá sjávarflet- inum. Síðan sáu menn sér til mikillar skelfingar að vélin tók að hallast, hvolfdist yfir á vinstri væng og snerist með þeim afleiðingum að hún lenti á hvolfi í sjónum, maraði þar í kafi. Mennirnir á ferjubátnum sem fylgst höfðu felmtri slegnir með framvindunni reru lífróður út að flugvél- inni. Fimm af þeim átta sem í vélinni voru höfðu komist út af sjálfsdáðum gegnum dyr vélarinnar, þeirra á meðal flugmaðurinn. Í samtali við Morgun- blaðið daginn eftir sagði Eiður Sigurðsson, sem var í ferjubátnum ásamt Aðalsteini Guðmundssyni, að greiðlega hefði gengið að bjarga þeim sem út úr vél- inni komust. Gerði hann ráð fyrir að liðið hefðu um 15 til 20 mínútur frá því að flugvélin hrapaði þangað til fólkið var komið í bátinn. En að því búnu taldi hann að ekkert viðlit hefði verið að bjarga þeim sem inni í vélinni voru. Flugvélin var þá löngu orðin full af sjó og sennilega hefðu farþegarnir aldrei náð að losa sig úr sætisbeltum. Eiður og Aðalsteinn reru í land með farþegana fimm. Fjórir voru með meðvitund en einn ekki með lífsmarki. Þegar í land var komið hóf héraðslæknir lífgunartilraunir en þær báru ekki árangur. Flugmað- urinn særðist á höfði, kona handleggsbrotnaði en tveir karlar sluppu lítið sem ekkert meiddir úr þessum hildarleik. Við komuna í land stukku aðrir menn strax út í ferjubátinn og ætluðu að freista þess að ná þeim sem fastir voru í flugvélinni. Þeir voru ekki komnir nema skammt frá landi þegar flugvélarflakið sökk. Þau sem fórust með flugbátnum voru frú Elísabet Guðmundsdóttir, Búðardal, kona Magnúsar Rögn- valdssonar verkstjóra; frú María Guðmundsdóttir, ekkja Guðjóns Gamalíelssonar húsameistara, frá Berg- stöðum við Bergstaðastræti, Reykjavík; Einar Oddur Kristjánsson, gullsmiður á Ísafirði. Hann lét eftir sig konu og þrjú uppkomin börn; Magnús Sigurjónsson frá Hvammi í Dölum. Hann var ungur maður og ein- hleypur. Við rannsókn slyssins kom fram að flugmaðurinn taldi að vinstri hreyfill flugvélarinnar hefði bilað. Hann hafði heyrt annarlega skelli frá hreyflinum. Hann hafði gert tvær misheppnaðar tilraunir til að koma vélinni á loft áður en það tókst í þriðju atrennu. Ísing var á framrúðu vélarinnar. Skyndilega tók vélin að halla yfir á vinstri hlið og gerði flugmaðurinn, að því er fram kom við rannsóknina, ítrekaðar tilraunir til að rétta hana af en án árangurs. Hún féll því stjórnlaus í hafið. Þremur dögum síðar tókst að ná flugvélinni af hafsbotni og líkunum þremur sem í henni voru. Við aðgerðina brotnaði flakið í tvennt. Í skýrslu sinni um viku eftir slysið komst skoð- unarmaður flugvéla að þeirri niðurstöðu að annað tveggja hefði valdið slysinu, vélarbilun eða ofris. orri@mbl.is Mannskætt flugslys við Búðardal Forsíða Morgunblaðsins 14. mars 1947. ’ Mennirnir á ferjubátnum sem fylgst höfðu felmtri slegnir með framvindunni reru lífróður út að flugvélinni. Grumman-flugbátur eins og sá sem fórst. Á þessum degi 13. mars 1947

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.