SunnudagsMogginn - 30.10.2011, Blaðsíða 29
30. október 2011 29
„Ég hef aldrei fundið til þess og held að ég
hafi bara grætt á því hvernig sem á það er litið.
Við erum reyndar ansi ólíkir pennar, ég líkist
móður minni meira í því hvernig ég skrifa að
minnsta kosti. Svo er líka auðvitað spurning um
hvað maður gerir sér rellu yfir hlutunum. Þetta
hefur að minnsta kosti örugglega verið erfiðara
fyrir hann þegar hann var að byrja sinn rithöf-
undarferil og tókst að verða sameiningartákn í
miðju kalda stríðinu því bæði vinstrimenn og
hægrimenn fórnuðu höndum yfir því hvað þessi
maður vildi upp á dekk.“
Var hann áhrifavaldur í lífi þínu?
„Já auðvitað. Við vorum mjög nánir alla tíð
og hann var alltaf mjög eindreginn í stuðningi
sínum við allt sem maður tók sér fyrir hendur,
gerði það meira að segja fyrir mig að þykjast
hafa gaman af alls konar músík sem maður var
að halda að honum. Svo var hann stundum að
minnast á þetta löngu eftir að maður sjálfur var
hættur að hlusta á það: „Hann var nú ansi góð-
ur, hann þarna Emerson og Lake og Palmer, var
það ekki?“ Hann sýndi okkur Chaplin-myndir
og Eisenstein, las Íslendingasögurnar og Dodda-
bækur og tók mann með sér í bæinn á pósthúsið
og að heimsækja Kjarval, á tónleika og hingað
og þangað og spjallaði við mann á leiðinni um
lífið og mennina. Svo þagnaði hann smástund
áður en hann sagði: „Og svo tjöllum við okkur í
rallið“ eða „rimsírams og flimsíflams og bal-
líbæ“.“
Aðstoðaðir þú hann eitthvað við skriftirnar?
„Hann las fyrir. Hann skrifaði í vasakompur
og stílabækur sem hann las upp úr og skáldaði
út frá. Í mörg ár meðfram fullri vinnu vélritaði
mamma textann eftir honum og editeraði jafn-
harðan og svo tók ég við. Mig minnir að Grá-
mosinn hafi verið fyrsta bókin sem ég sló inn
fyrir hann. Hann var sískrifandi og skilur eftir
sig ókjör af vasabókum með dagbókarfærslum,
skáldskap, hugrenningum, teikningum, rissi og
öðru sem nær allt aftur til Parísaráranna, kring-
um 1950 þegar hann er að verða til sem lista-
maður. Vasabókin – eiginlega var hún hans list-
form.“
Þú hlýtur að sakna hans.
„Hann var fyrirferðarmikil og stundum krefj-
andi persóna, gæddur „geði hvers veðurs“ eins
og Þorsteinn frá Hamri orðaði það svo vel í ljóði
sem hann orti eftir pabba og hann skilur eftir
sig stórt skarð í lífi okkar allra sem voru nánust
honum. Hann skildi eftir sig mikla orku sem
maður finnur að er lengi að setjast. Þetta er já-
kvæð orka og henni fylgir góð nærvera.“
Þú finnur fyrir honum?
„Já.“
Trúirðu á líf eftir dauðann?
„Á þennan hátt geri ég það.“
Sambland af pokapresti og krata
Þú skrifar reglulega um þjóðfélagsmál í Frétta-
blaðið, er ekki alveg greinilegt að þú ert
vinstrimaður?
„Ég skrifa nú bara í þau blöð sem biðja mig
um það. Ég held ég hafi ósköp lítið spennandi
skoðanir, ætli ég sé ekki sambland af pokapresti
og krata. Það er voða erfitt að vera öfgasinnaður
krati. Pistlarnir eru meira svona uppástungur
um umræðuefni en beinlínis ætlaðir til skoð-
anamótunar enda finnst mér að fólk eigi sífellt
að endurskoða og endurmeta allt. Ég skrifa
þessa pistla yfirleitt á sunnudagsmorgnum. Þá
virkja ég lítinn kall í hausnum á mér sem hefur
alls konar meiningar.“
Hvernig finnst þér íslenskt þjóðfélag vera, er
það ekki dálítið leiðinlegt í öllu þessu nöldri?
„Það eru fleiri að tjá sig en nokkru sinni og
það er gott, nú er kaffistofuskvaldrið og sund-
laugapottaspjallið komið í meira opinbert rými,
sem er netið og útvarpsstöðvar sem bjóða upp á
símaspjall. Þá flýtur náttúrlega ýmislegt með og
sumir hafa hátt sem kenna hruninu um allar
sínar ófarir í lífinu. Fólk tjáir sig líka á misjafn-
lega fágaðan hátt og þótt það segi „ég vill“ er
ekki þar með sagt að það hafi ekkert fram að
færa. En auðvitað er mikið gargað og sterk öfl
sem róa undir. Það er tekist á um gríðarlega
hagsmuni. Það er mikið verið að tala um pen-
inga og skuldir og afskriftir sem eru víst mestar
hjá þeim sem sýnt hafa með óyggjandi hætti að
þeir kunni ekkert með fé að fara en engar hjá
þeim sem alltaf hafa staðið í skilum.
Það er enn einhver grundvallarmeinsemd í
okkar þjóðfélagi sem sést til dæmis á því að
þessir bankasýslumenn létu sér detta í hug að
þeir gætu ráðið þar forstjóra mann sem kom
síðast nálægt bankastarfsemi til að gefa sam-
flokksmönnum sínum heilan banka til að tæma.
Ólafur Ólafsson, sem fékk bankann, hefur feng-
ið tvær Hörpur afskrifaðar. Ég held að hér væri
hægt að búa til frábært lítið samfélag, ef höfð
væri ofurlítil skynsemi og sanngirni að leið-
arljósi, það eru allar forsendur til þess. Mér hef-
ur dottið í hug að við séum enn ekki alveg búin
að ná okkur eftir herinn og hermangið. Það
voru ekki bara Suðurnesin sem fóru illa út út
því heldur öll þjóðin – þjóðarsálin.“
Aftur að skáldskapnum. Ertu yfirleitt ánægð-
ur með bækur þínar?
„Mér finnst þær frábærar þegar ég hef nýlokið
þeim, svo ágætar, síðan sæmilegar og loks –
hvað var það nú aftur – áfátt? En ég las reyndar
Náðarkraft sem útvarpssögu síðasta sumar og þá
fannst mér hún miklu betri en mig minnti, eig-
inlega bara skratti góð. Þannig að þetta er nú
ekki einhlítt. Mér finnst þessi nýja bók núna
auðvitað alveg frábær en þú sérð nú hvað er að
marka það.“
Hvernig tekurðu gagnrýni?
„Illa. Ég kvíði því að lesa hana, líður eins og
nú eigi að afhjúpa mig. Gagnrýni á ekkert að
vera handa höfundum – hún er handa öðru
fólki.“
Morgunblaðið/Kristinn