Saga - 2002, Blaðsíða 118
116
HELGA KRESS
eða sínum samtíðarmönnum" (I, bls. 10). Það geri hins vegar „lítt
færir viðvaningar" og hefði höfundur „varla lagt út í þenna
vanda, ef hún hefði haft glögga hugmynd um, hvert stórvirki það
er, að leysa hann vel af hendi" (I, bls. 10). Vegna þessa þekkingar-
skorts sé ritið „samtíningslegt" (I, bls. 10) og segi fremur frá nú-
tímamönnum en fornmönnum, en það þykir honum galli á „sögu-
legri skáldsögu" (II, bls. 14). Heitið „söguleg skáldsaga" hefur
hann í gæsalöppum sem bendir til að það sé honum áður ókunn-
ugt. Þá líkar ritdómara ekki við spakmæli höfundar, en saknar
þess að „hvergi er lýst bardaga í allri bókinni, - á þeirri miklu bar-
dagaöld".32
Þá birtist langur ritdómur um Eldingu í Lögbergi 10. mars 1890
eftir ritstjórann og rithöfundinn Einar Hjörleifsson og hefst hann
svo: „Sagan sjálf er 619 blaðsíður, og letrið er fremur smátt. Það
hefði verið ánægjuleg viðbót við bókmenntir vorar, ef mikið hefði
verið gullvægt á hverri blaðsíðunni, eða þó ekki hefði verið nema
á hverri örkinni." (Bls. 4) Síðan koma hártoganir út af nafni bók-
arinnar og útskýringum höfundar á því sem sagðar eru „rugl"
(bls. 4). Einnig er fundið að undirtitlinum, heitinu „söguleg skáld-
saga", sem ritdómari segir „mjög vandræðalegt" og „í raun og
veru allsendis óhafandi" þar sem hver einasta saga sé auðvitað
söguleg, og orðið „saga" í merkingunni mannkynssaga verði ekki
notað við hliðina á sama orði í allt annarri merkingu. Auk þess sé
Elding „engin skáldsaga, af því að það er enginn skáldskapur í
henni, eða þá að minnsta kosti mjög lítill", heldur sé hún „samsafn
af ýmsum fróðleiks-atriðum, prjedikana-stúfum, æfintýrum
o.s.frv." (bls. 4). Höfundinum til hróss segir hann að hún hafi
ímyndunarafl, sem sé „vitaskuld aðalgáfan, sem útheimtist til
þess að framleiða skáldskap," þótt alkunnugt sé „að villimenn,
brjálaðir menn og börn" hafi meira af því en aðrir og það kenni
mönnum ekki „hver orð svara nákvæmlegast til þeirra hugsjóna"
32 Björn Jónsson var góður kunningi Torfhildar og ritdóminn sá hún fyrst
heima hjá honum. Þann 8. janúar skrifar hún í dagbók sína: „Var eg til
kvölds hjá konu Björns ritstjóra og sá þar ritdóm Eldingar, og rann í skap
dálítið." Þann 11. janúar skrifar hún: „Regn og rusluveður eins og vant er
- var eg hálf óróleg útaf allskonar ástandi. Kom síðari hlutinn af ritdómi
Bjöms Jónssonar yfir „Eldingu" og hann verri en hinn fyrri. Kærði eg mig
hvergi." Sjá dagbókarblöð Torfhildar Hólm á handritadeild Landsbóka-
safns, Lbs. 3985 4to. Tilvitnanir eru færðar til nútímastafsetningar.