Morgunblaðið - 01.09.2011, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 01.09.2011, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. SEPTEMBER 2011 Þetta var ekki í planinu! Við erum grimmilega minnt á það hversu litlu við ráðum í þessum heimi. Elskulega yndislega Hanna Lilja er horfin á braut og lögð af stað í hinstu för sína með litlu Valgerði Lilju í fanginu. Nú er höggvið stórt skarð sem erfitt verður að fylla en eftir standa minningar um fallega og stór- brotna konu. Ég var ein þeirra heppnu sem fengu að kynnast Hönnu Lilju og verð alltaf þakklát fyrir það. Hver sá sem varð á vegi hennar varð ríkari fyrir vikið þó ekki væri nema bara fyrir fallega geislandi brosið sem hún var óspör á að gefa hverjum sem var. Hún var svo full af fjöri og lífs- krafti og smitaði út frá sér gleði til allra í kring. Hún var afar metnaðarfull í öllu sem hún tók sér fyrir hendur en að sama skapi líka umhyggjusöm og hlý. Það var alltaf gott að hitta hana og manni leið vel á eftir. Hún átti auðvelt með að hrífa alla með sér, enda með mikla útgeislun og sér- lega góða nærveru. Ég gæti hald- ið áfram endalaust en þarf að láta hér við sitja. Við höfðum vitað lengi hvor af annarri, fyrst frá Laugarvatni, en síðar átti ég eftir að hitta hana og Gísla margsinnis á heimili bróður míns og konu hans Júlíu, en þær eru æskuvinkonur frá Selfossi. Síðasta sumar gerðist ég sam- starfsfélagi hennar í kaffinu og þá kynntumst við enn betur. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að það sé aðeins rétt rúmt ár síðan því mér finnst hún hafa fylgt mér svo mikið lengur. Hún kenndi mér margt sem ég þarf nú að tileinka mér, meðal annars það að leyfa sér að dreyma stóra drauma og láta þá verða að veruleika. Hanna Lilja var byrjuð að lifa sína stóru drauma en því miður var tekið fram fyrir hendurnar á henni í miðju kafi. Það er svo óskiljanlegt og sárt að þurfa að kveðja unga konu í blóma lífsins og sorglegt að systurnar litlu hafi þurft að skilja, en nú biðjum við almættið að vaka yfir Sigríði Hönnu og gefa henni bjarta framtíð. Ég kveð þig elsku vinkona með söknuði og trega en einnig loforði um að halda nafni þínu og orðspori á lofti. Hvílið í friði elsku Hanna Lilja og Valgerður Lilja. Láttu nú ljósið þitt loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesús mæti. (Höf. ók.) Eins láttu ljósið þitt lýsa í hjarta mitt, skína í sál og sinni, sjálfur vaktu þar inni. Lát húmið milt og hljótt hlúa að mér í nótt og mig að nýju minna á mildi arma þinna. Hanna Lilja Vals- dóttir og Valgerður Lilja Gísladóttir ✝ Hanna LiljaValsdóttir fæddist á Fæðing- arheimilinu í Reykjavík 22. apríl 1975. Hún lést af barnsförum á Landspítala í Foss- vogi 14. ágúst 2011. Valgerður Lilja Gísladóttir fæddist 13. ágúst 2011. Hún lést 20. ágúst 2011. Útför Hönnu Lilju og dóttur hennar Val- gerðar Lilju fór fram frá Graf- arvogskirkju 29. ágúst 2011. Mæðgurnar voru jarðsettar í Mosfellskirkjugarði. Ég fel minn allan hag einum þér nótt og dag, ljósið af ljósi þínu lifi í hjarta mínu. (Sigurbjörn Einarsson.) Ég sendi Gísla, börnunum, fjölskyldunni allri og vinum mín- ar dýpstu samúðarkveðjur. Megi fallegar minningar lýsa ykkur leið í sorginni og gefa ykkur styrk. Sólveig Samúelsdóttir. Við munum öll eftir deginum í Háskólabíói þar sem við stóðum við hlið Hönnu Lilju svo stolt að útskrifast úr Menntaskólanum við Sund og framtíðin blasti við okkur. Að við séum samankomin aftur á þvílíkri sorgarstund 16 ár- um síðar til að kveðja Hönnu Lilju ásamt litlu dóttur hennar er óskiljanlegt. Hanna Lilja átti stóran þátt í því hve bekkurinn okkar var sam- rýndur. Það var svo mikill kraftur og gleði sem fylgdi henni. Hún skipulagði bekkjarpartí og bekkj- arferðir. Hanna Lilja hélt okkur strák- unum við efnið í skólanum og sagði okkur til syndanna þegar við höguðum okkur ekki. Hún var óhrædd við að tjá skoðanir sínar og gerði okkur alla að betri mönn- um með uppbyggilegri gagnrýni sinni. Hanna Lilja var mamman í bekknum sem stóð í því að ala upp óþekku strákana sína, tusk- aði okkur til og lét okkur heyra það, sérstaklega þá sem voru með töffarastæla. Þetta móðureðli var svo sterkt hjá henni og kom það því ekki á óvart að hún eignaðist stóra fjölskyldu og starfaði sem kennari. Hanna Lilja hélt mikið upp á útvarpsþáttinn Rólegt og róman- tískt og hún elskaði að syngja lög- in hennar Mariah Carey. Við stelpurnar munum sérstaklega eftir hversu Hanna Lilja var til- finningarík, þroskuð og einlæg. Við gátum alltaf leitað til hennar, okkur fannst hún Hanna eiga ráð við öllu. Hanna Lilja var sérstaklega dugleg að fylgjast með okkur bekkjarsystkinum eftir MS-árin. Árið 2009 hittumst við stelpurnar í bekknum. Við sátum lengi fram- eftir, rifjuðum upp MS-árin og töluðum um framtíðina. Hanna Lilja hafði ekkert breyst; hún var sama lífsglaða og yndislega stelp- an, svo hamingjusöm og talaði sérstaklega fallega um Gísla sinn. Tengslin sem mynduðust í Menntaskólanum við Sund eru sterk og minningarnar ógleym- anlegar. Elsku Hanna Lilja, við erum heppin að hafa fengið að kynnast þér og þín verður sárt saknað. Hvíl í friði kæra vinkona. Þínir vinir úr 4-G, Haraldur A. Bjarnason, Helga Ólafsdóttir og Guðbjörg Fanndal Torfadóttir. Elsku frænka. Ég get enn ekki trúað því að þú sért farin frá okk- ur. Ég bíð enn eftir því að vakna af þessum vonda draumi. Ég hef þekkt þig alla mína ævi og það er ofarlega í minningunni hvað mér fannst alltaf gaman að koma í heimsókn til ykkar, þau ófáu skipti sem við mamma fórum til ykkar þegar ég var lítil. Þá beið mín oftar en ekki fullur poki af fötum af ykkur systrunum, sem þið voruð hættar að nota. Ég man líka eftir þegar þið áttuð heima á Selfossi, að þið áttuð svona sodastream-tæki, þetta gamla með glerflöskunum. Mér fannst þetta alltaf svo spennandi því þið voruð eina fólkið sem ég þekkti sem átti svona tæki og mér fannst alveg sérstaklega spenn- andi að fá límonaðiblönduna, það var eitthvað svona öðruvísi. Þegar við urðum eldri minnk- uðu samskiptin en það var samt alltaf jafngaman að hitta þig, þú varst alltaf svo hress og kát með fallega breiða brosið þitt. Svo þegar ég var ófrísk að syni mínum byrjaðir þú að vera í reglulegu sambandi við mig á netinu, þú varst svo spennt að fylgjast með mér. Þú varst alltaf að spyrja hvernig gengi og hélst áfram að fylgjast með eftir að hann fæddist og forvitnast hvort ég væri komin með vinnu eftir fæðingarorlofið. Það kom því ekki beint á óvart þegar þú baðst mig að hitta þig á fundi í byrjun mars 2010 sem leiddi okkur svo saman í starfi. Síðan þá hefurðu stutt mig svo mikið, hvatt mig áfram og hjálpað mér með svo margt, sem hefur verið mér svo ómetanlegt. Elsku Hanna Lilja, þín verður svo sárt saknað en ég veit að þú og litla Valgerður Lilja munuð vaka yfir öllu fólkinu ykkar og veita þeim styrk. Elsku Gísli, Þorkell Valur, Guðrún Filippía og Sigríður Hanna, hugur minn er stöðugt hjá ykkur á þessum erfiðu tímum sem og hjá Guðrúnu frænku og fjölskyldu. Ég votta ykkur öllum mínar innilegustu samúðarkveðj- ur, minningin um yndislega konu mun lifa með okkur öllum. Hvíldu í friði. Þín frænka, Jónína Kristín. Hönnu Lilju Valsdóttur sá ég fyrst árið 1975 sofandi í lítilli vöggu á heimili frænkunnar, Gerðar Jóhannsdóttur, á Laugar- vatni. Hanna Lilja var sólargeisli og gleðigjafi Gerðar, en hún var fyrsta barnabarnabarn foreldra hennar. Þrátt fyrir ungdóminn mátti sjá að hér var kná stelpa komin í heiminn. Knáleikinn leyndi sér ekki þegar hún var staðin upp, hún hljóp. Fram- kvæmdasemin sýndi sig þegar frænkan rétti henni poka fullan af flögum. Í stað þess að bragða á flögunum þakti hún stofugólfið með þeim svo að eldri kynslóðin fékk verk að vinna. Þegar móðir hennar, Guðrún Sigurðardóttir, var fengin til að kenna við Hús- mæðraskóla Suðurlands þurfti heilan skóla til að sinna Hönnu Lilju og var þá stofnaður leikskóli á Laugarvatni árið 1976. Aðal- hvatamaður að stofnun hans var Jensína Halldórsdóttir, skóla- stjóri Húsmæðraskóla Suður- lands. Leikskólinn var nefndur Lind eftir húsinu sem hann var starfræktur í, en er nú kominn í eigið húsnæði og ber hann nafnið Gullkistan. Þegar Hanna Lilja óx úr grasi hrönnuðust yfir hana ótal áhugamál og má þar nefna söng, ballett, fimleika og skák. Einnig iðkaði hún handbolta og varði markið vasklega. Einkum hreifst hún af fimleikastúlkum sem upp- götvuðust í leikskóla og urðu að heimsfrægum stjörnum. Hanna Lilja lauk grunnskóla- prófi í Varmárskóla í Mosfellsbæ og stúdentsprófi í Menntaskólan- um við Sund. Á sumrin starfaði Hanna Lilja á Hótel Eddu Laug- arvatni. Síðan lagði hún stund á ferðamálafræði, fyrst eitt ár í Ferðamálaskóla Íslands, síðan þrjú ár í Háskólanum í Stafangri með lokaprófi þaðan. Á sumrin vann hún við hótelstjórn og stýrði Hótel Eddu Laugarbakka á slóð- um Grettis Ásmundarsonar og Hótel Skógum við rætur Eyja- fjallajökuls. Laust eftir aldamót kynntist Hanna Lilja mætum manni, Gísla Björnssyni. Þeim fæddist sonur árið 2003, Þorkell Valur Gíslason. Hanna Lilja ann syninum mikið og vildi eiga sumrin alveg með honum. Þrátt fyrir mikið nám og mikla reynslu í ferðamálum vatt Hanna Lilja sér í þriggja ára nám í Kenn- araháskólanum og hóf kennslu í grunnskólum Grafarholts og Grafarvogs. Þeim hjónum fædd- ist síðan dóttir árið 2007, Guðrún Filippía Gísladóttir. Kreppan skall á árið 2008 og lenti mörg barnafjölskyldan í kröppum dansi. Hanna Lilja bauð kerfinu birginn og vatt sér í sölumennsku sem gaf meira af sér en kennslan. Þar gat hún virkjað eigin fylgni og fróðleik um ferðamál og fór víða, bæði hérlendis og erlendis. Hanna Lilja átti von á tvíburum, tveimur telpum. Gerður talaði við Hönnu Lilju föstudaginn 12. ágúst, rétt áður en við hjónin fór- um í fimm daga ferð á Norður- land. Hanna Lilja sagði að sér liði mjög vel og hlakkaði mikið til að fæða tvíburana. Sunnudaginn hinn 14. ágúst vorum við hjónin stödd á Stöng í Mývatnssveit. Þar var okkur tilkynnt að Hanna Lilja væri látin. Hönnu Lilju sá ég í hinsta sinn 23. ágúst árið 2011 sofandi svefninum langa í stórri líkkistu með vikugamalli dóttur sinni, Valgerði Lilju Gísla- dóttur. Að lokum sendi ég öllum ástvinum Hönnu Lilju samúðar- kveðjur. Egill B. Sigurðsson. Elsku Hanna Lilja mín. Hjart- að mitt er brotið. Ég get ekki fundið orðin sem mig langar að rífa úr brjósti mér þegar ég hugsa um það að þú hafir yfirgef- ið þennan heim. Við vorum búnar að ákveða að hittast með börnin okkar og leyfa þeim að leika sam- an daginn eftir að þú féllst frá, ég og þú ætluðum að plana næstu mánuði, fá okkur kaffi, allavega ég, þú ætlaðir að fá þér ávaxta- safa, þangað til fæðing tvíbur- anna væri yfirstaðin. Við vorum með plan, plan um framtíðina, þar sem lífið lék við okkur. Þú og ég, Gísli og Auðun ætluðum sam- an á fótboltaleiki, fimleikamót, grillveislur og sumarbústaða- ferðir með börnin okkar. Fram- tíðin blasti við okkur og hamingj- an. Frá því ég hitti þig fyrst vissi ég að við yrðum vinkonur það sem eftir væri, við horfðum hvor á aðra og það varð ekki aftur snú- ið, ég var komin undir vænginn þinn. Manstu þegar ég kom að hitta þig á Solna-flugvellinum í Stavanger í maí 1998? Ég þarf varla að spyrja þig að því, það var eins og það hefði gerst í gær. Ég var að flytja til Noregs og var með hnút í maganum yfir því að yfirgefa fólkið mitt heima á Ís- landi og út í óvissuna í Noregi. Þú hélst nú ekki. Enda varstu komin með viðurnefnið „el president“ eftir aðeins þriggja vikna vinnu á flugvellinum í Stavanger. Menn sem höfðu unnið við flugrekstur í 25 ár voru farnir að leita til þín um ráð og lausnir á málum sem þú leystir án viðhafnar og erfiðis. Það var ekkert flókið fyrir þér, þú bara græjaðir hlutina, lífið var bara til þess að njóta, það var bara skemmtilegt, enda var ekk- ert nema hamingja í kringum þig, og alltaf varstu glöð og sátt við menn og dýr. Í Noregi leið mér eins og ég væri heima hjá mér og er það allt þér að þakka, þú varst mín stoð og stytta í einu og öllu, enda varstu alltaf með bros á vör og opið hjarta fullt af ást og gleði til að gefa. Upp frá þessu vorum við saman á hverjum degi, þú varst vinkona mín, systir mín! og hélst alltaf upp á mig hvað sem fyrir bar. Því sem við gerðum saman mun ég aldrei gleyma, enda eru þessar stundir þær bestu í mínu lífi. Ég sakna þín svo mikið elsku Hanna mín, ég get ekki hugsað mér tilveruna án þín. Framtíðina sem við vorum búnar að sjá fyrir okkur mun ég geyma í hjarta mínu, og gera með þér í huga mínum svo lengi sem ég lifi. Megi guð geyma þig og blessa, elska og hafa þar til ég hitti þig að nýju, með sól í hjarta og bros á vör. Megir þú og Valgerður yndislega dóttir þín lifa í eilífðinni með guð- um og vættum um aldur og ævi í gleði og ró, þar til að ferðalokum. Elsku Gísli og fjölskylda, megi tíminn græða ykkar sár. Ástarkveðjur. Þín Vala og Auðun. „Það geta ekki allir verið gordjöööös eins og ég, það get ekki allir verið fabjúlös eins og ég.“ Hér sit ég og hlusta á Pál Ósk- ar syngja eitt af sínum lögum sem minnir mig á þig. Ég trúi því ekki að ég sé að skrifa minningarorð um þig elsku vinkona. Ég er orð- laus, mér finnst svo skrítið og sárt að þú sért farin, já farin og ég eigi ekki eftir að sjá þig, hitta þig né tala við þig. Þú varst svo geislandi, glað- lynd, jákvæð, brosmild, hjarthlý og alltaf í góðu skapi. Það var ekki annað hægt en að smitast af þér. Þú varst í öllu og stundum hugsaði ég hvað væru eiginlega margir klukkutímar í sólarhring hjá þér. Ég var kasólétt þegar ég hitti þig fyrst fyrir um það bil 12 árum, alveg búin á því. Þú komst eins og stormsveipur inn til mín og sagðir svo fallega til mín: „Vá þú ert ólétt og þreytt!“ Upp frá þessu urðum við vinkonur, mér fannst eins og ég hefði þekkt þig alla ævi. Það voru aldrei nein vandamál hjá þér Hanna mín, því það voru lausnir á öllu. Eitt sinn er ég kom til þín á Hótel Eddu á Laugar- bakka hafði gardínustöng dottið niður og vantaði að negla hana upp. Ekki málið; þú skelltir þér upp á borð og negldir þetta upp með klossanum þínum! Elsku vinkona ég kveð þig með söknuði, minningar um frábæra vinkonu mun ég ávallt varðveita. Elsku Gísli minn, Þorkell Val- ur, Guðrún (Duggú) og Sigríður Hanna, megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Elsku vinkona, passaðu vel litlu stelpuna þína hana Sigríði Lilju. Þín vinkona, Vala Ólöf og fjölskylda. Elsku hjartans vinkona mín. Fyrir rúmum tveimur vikum hefði ég ekki trúað því, þótt mér hefði verið sýnt það, að ég sæti yf- ir litlum engli á vökudeild sem væri búinn að lifa mömmu sína og tvíburasystur að skrifa minning- argrein um þig. Raunveruleikinn er hins vegar sá í óraunveruleika sínum. Í þessum aðstæðum hefðir þú getað sagt mér til og hjálpað mér, en nú ertu ekki hér, hvernig má það vera? Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvers vegna þetta gat gerst, nú skil ég hvað hugtakið harmleikur felur í sér. Það er svo skrítið að það er sama hvaða spurninga ég spyr, það eru engin svör við neinni þeirra. Ég er svo heppin elsku Hanna mín að ég sagði þér reglulega hversu undurvænt mér þótti um þig og hvað mér þótti mikið til þín koma, svo að minnsta kosti fórstu með þá vitneskju með þér. Ég geymi alla sameiginlegu draumana okk- ar og trúnaðarsamtölin þar til við hittumst á ný, ég sakna þín svo sárt. Litla ljósið ykkar Gísla, Val- gerður Lilja, ber þér kveðju mína, við sömdum um að þið mynduð passa hvor aðra og við myndum passa Sigríði Hönnu og hvert annað hér. Þú manst að við vorum sammála um að ekkert væri endanlegt, ég held áfram að trúa því með sjálfri mér. Þegar ég vakti yfir Valgerði Lilju og Sig- ríði Hönnu fyrstu dagana, elsku Hanna mín, greip ég bók sem ég fann í foreldraherberginu á sjúkrahúsinu, ég opnaði hana fyr- ir tilviljun á bls. 42. Þar stóð: „Af raunverulegum stórmennum stafar birtu – einfaldlega af nær- veru þeirra – og þessi birta lýsir hjörtu annarra. – En þegar þau eru farin verður ósegjanlega stór skuggi eftir.“ (BY) Það eru engin orð til sem lýsa þér rétt elsku vin- kona en þessi komast kannski næst því, þú varst einstökust allra einstakra mín kærasta. Ég hef heitið því að vera alltaf til staðar fyrir börnin þín öll, Gísla og fjölskylduna þína um alla framtíð. Megi góður guð vaka yfir ykkur Valgerði Lilju elsku Hanna Lilja mín. Elsku Gísli minn, Þorkell Val- ur, Guðrún Filippía, Sigríður Hanna, Guðrún, Valur, Sigga Þóra, Siggi Már og aðrir aðstand- endur ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megi drottinn styrkja ykkur og vernda í þessari óskiljanlegu og ósanngjörnu sorg. Þín vinkona alltaf, Júlía. Engin orð fá lýst þeirri sorg sem fyllti hjörtu okkar þegar við fengum fréttirnar af því að elsku vinkona okkar Hanna Lilja væri látin. Hún sem lýsti upp heiminn með fallegu brosi sínu og ein- stakri útgeislun. Hanna Lilja þessi lífsglaða og kærleiksríka vinkona okkar, sem við vorum svo heppin að fá að kynnast í gegnum syni okkar. Við eigum ófáar minningar um góðar stundir sam- an, hvort sem það voru grillveisl- ur, sumarbústaðarferðir eða al- varlegir viðskiptafundir þar sem lögð voru á ráðin um stofnun okk- ar eigin fyrirtækis. Við ræddum mikið um framtíðardrauma og blessuðu börnin okkar. Keli og Duggú voru sólargeislarnir henn- ar og það var okkar heiður að fá að kynnast því hversu góð móðir hún var og hversu ástfangin þau Gísli voru. Við samhryggjumst ykkur elsku Gísli, Keli, Duggú og Sig- ríður Hanna, megi góður Guð vera með ykkur á þessum erfiðu tímum. Okkar hugur er allur hjá ykkur. Hanna Lilja þú verður alltaf gorgeous og absolutely fa- bulous í okkar minningu. Andri og Ásdís. ✝ Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda- móðir, amma og langamma, DAGBJÖRT ELSA ÁGÚSTSDÓTTIR, dvalarheimilinu Sunnuhlíð, áður Hæðargarði 29, lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð mánu- daginn 29. ágúst. Jarðarförin fer fram frá Garðakirkju föstudaginn 9. september kl. 15.00. Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á minningarkort Sunnuhlíðar. Grétar E. Ingvason, Yngvi Rúnar Grétarsson, Virginia Karen Grétarsson, Ágúst Már Grétarsson, Brynjólfur Grétarsson, Elín S. Guðmundsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.