Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1979, Page 25
5
Evrópumál og esperanto
Sumir óttast að við slíka þróun myndi esperanto breytast í óskiljan-
legan hrærigraut orðstofna, en hætt er við að slíkur dómur byggist mjög
á hefðbundnum framsagnarhætti Evrópumála.
5.
Svo sem kunnugt er, var pólski læknirinn L. L. Zamenhof höfundur
esperanto og kom fyrsta kennslubókin út 1887 undir heitinu Alþjóðlegt
tungumál, en höfundurinn nefndi sig dulnefninu d-ro Esperanto (‘von-
andinn, sá sem vonar’); dulnefnið festist síðar við málið. Þessi uppruni
og aðrar félagslegar ástæður hafa alla tíð valdið því að menn með
evrópskar tungur að móðurmáli og menningargrunn Evrópuþjóða hafa
ráðið öllu í framkvæmd, þróun og hefðum málsins. Er ekki laust við að
í seinni tíð hafi menn þóst skynja þess merki að viðhorf evrópskra
tungumála hafi sett mark sitt óþarflega fast á þróun og hefðmyndanir
málsins. Undirstöðurit málfræðinnar í esperanto, Fundamento de Esp-
eranto, lítil ritgerð eftir Zamenhof, er í 16 stuttum greinum, og hefur
orðið samkomulag um að þeim yrði ekki breytt. Þær veita mjög fjöl-
breytta möguleika til túlkunar þótt til þessa hafi einkum verið notaðar
aðferðir indóevrópskra mála.
6.
Jafnan er litið á stíl og orðalag Zamenhofs sem fyrirmynd í esper-
anto, ekki aðeins vegna þess að hann var frumkvöðull málsins (inicia-
toro, vildi ekki láta kalla sig höfund þess eða skapara, kreinto), heldur
ekki síður af því hversu einfaldur stíll hans er, skýr og blæbrigðaríkur.
En allvíða má sjá í honum áhrif slafneskra mála.
Hins er ekki að dyljast að í seinni tíð hefur margsinnis komið fram
sú gagnrýni að ýmsa höfunda á esperanto skorti þennan einfaldleika,
erfiðara sé að lesa mál þeirra en eldri texta. Þessi gagnrýni kann að
vera réttmæt, en sé svo er það ef til vill ein afleiðing af of föstum
reglum og hefðum sem ýmsir hafa krafist að virtar væru í esperanto.
Má til að mynda sjá þess dæmi í sumum ritdómum þegar talað er um
að það sé ekki „venja“ að taka svo eða svo til orða á esperanto. En
með slíkum röksemdum er einmitt horft fram hjá einum meginkosti
málsins, fjölbreytni þess og möguleikamergð.