Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1979, Side 29
BALDUR JÓNSSON
Fjöðrum fenginn
Fyrir rúmum tuttugu ánun birti Halldór Halldórsson ritgerð með þessu
nafni í bók sinni, Örlögum orðanna (bls. 36-38). Þar er fjallað um orð-
takið að vera fjöðrum fenginn — eða fjöðrum feginn eins og sumir hafa
haft það —, en það merkir ‘að vera mjög glaður, himinlifandi’. Margir
skrifa reyndar fjöðrumfenginn sem eitt lýsingarorð væri. Halldór gerir
í ritgerð sinni grein fyrir útbreiðslu orðtaksins, sem virðist hafa verið
bundið við austanvert landið. Því næst færir hann rök fyrir því, að fjöðr-
um fenginn sé hin upprunalega mynd, en fjöðrum feginn sé orðið til við
alþýðuskýringu. Halldór bendir einnig á, að Sigfús Blöndal hafi hafnað
afbrigðinu fjöðrum feginn, þegar hann samdi orðabók sína, þótt ekki sé
nú vitað, hvað hann hafði fyrir sér í því. Engar gamlar heimildir eru til
um þetta orðtak. Að sögn Halldórs kemur það fyrst fyrir í orðasöfnum
Hallgríms Schevings (1781-1861) og er þá í gervinu fjöðrum feginn.
Eldri dæmi hafa ekki bætzt í seðlasafn OrSabókar Háskólans, síðan
Örlög orðanna komu út.
Hugmynd Halldórs var sú, að hin eiginlega merking orðtaksins hefði
í öndverðu verið ‘fjöðrum gæddur’ eða ‘fjöðrum búinn’. Sá, sem var
fjöðrum fenginn, hefði m. ö. o. getað flogið, og væri þá skiljanleg merk-
ingarþróunin frá ‘fjöðrum gæddur’ til ‘himinlifandi’. Glöðum manni
væri líkt við fugl, sem gæti svifið á vængjum sínum, og mætti finna
svipaða líkingu í öðrum orðasamböndum.
Að því er varðar hina formlegu hlið málsins, benti Halldór réttilega
á, að lýsingarhættir með þágufalli hafa oft merkinguna ‘settur, prýddur,
gæddur, búinn, umkringdur e-u’ og vitnar í Nornþn syntax eftir Nygaard
máli sínu til stuðnings.
Þessar röksemdir eru góðar og gildar, en eins og Halldór hefir sjálfur
sagt, er skýring á orðtaki aldrei fyllilega örugg, nema það komi fyrir í
eiginlegri merkingu. „Annað eru tilgátur meira og minna sennilegar“,
segir hann (1968:viii). Dæmi um fjöðrum fenginn í eiginlegri merkingu
hafa ekki fundizt í íslenzkum heimildum, né heldur um fjöðrum feginn.