Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1979, Síða 54
GUÐRÚN KVARAN
Fornevrópsk fljótanöfn á Jótlandi
og í Slésvík-Holstein
Um þessar mundir eru þrjátíu ár liðin frá því að Hans Krahe hóf að
birta greinaflokkinn „fornevrópsk árheiti“ í þýzka tímaritinu Beitrage
zur Namenforschung.1 í þessum greinum setur hann fram kenningu sína
um sameiginlegan kjama evrópskra vatna- og árnafna. Hann bendir á,
að slíkar nafngiftir séu sögulega lagskiptar og að elztu lögin nái yfir stór
landsvæði, þar sem nú eru töluð mörg mismunandi tungumál. Þessi elztu
nöfn eru greinilega af indóevrópskum uppruna, en er ekki að finna á
öllu indóevrópska málsvæðinu, heldur aðeins á glöggt afmörkuðum
hluta þess, þ. e. frá Skandinavíu til Suður-Ítalíu og frá Bretlandseyjum í
vestri til Eystrasaltslanda í austri. Öll ár- og vatnaheiti elztu laga, sem
hægt er á viðunandi hátt að skýra sem indóevrópsk, nefnir Krahe forn-
evrópsk, og verður því nafni haldið hér. Máli sínu til stuðnings tók hann
saman indóevrópskar rætur, sem tengja má rennandi vatni („vatns-
rætur“ eins og hann nefndi þær) svo og helztu viðskeyti árheita og sýndi
dæmi með sameiginlegum einkennum af öllu svæðinu. Ástæðan til þess,
að hann valdi árheiti til umfjöllunar var sú, að engin ömefni varðveitast
eins vel, nema helzt nöfn á fjöllum, og úr þessum heimildum má fá
mikilsverðar upplýsingar um málsögu og sögu þjóða og þjóðflokka.
Greinaflokkur Krahes vakti mikla athygli, og á næstu ámm birtust
fjölmargar greinar bæði með og á móti kenningunni. Helzta gagnrýni
manna var sú, að dæmi Krahes væru of tilviljanakennd og athuga þyrfti
miklu nánar, hvaða nöfn koma fyrir á hinum ýmsu landsvæðum. Þetta
var Krahe sjálfum vel ljóst, og í samvinnu við Vísindafélagið í Mainz
hóf hann útgáfu á ritröðinni Hydronymia Germaniae. Fram til þessa em
komin út tólf bindi, en áætluð eru um tuttugu, sem ná eiga yfir Þýzka-
land, Austurríki, Sviss, Holland og Danmörku. í hverju bindi er tekið
fyrir ákveðið landsvæði, safnað öllum ár- og vatnanöfnum á svæðinu og
leitað heimilda um þau. Eins og við var að búast em flest nöfnin
germönsk og heimildir ungar, en þó eru á hverju svæði nöfn, sem