Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1979, Side 226
206 Kristján Árnason
það virðist þó fullverðugt rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga, félags-
fræðinga og málfræðinga að rannsaka hvort svo sé. Á það hefur verið
bent (sbr. t. a. m. Kurath 1972, bls. 68-9), að á tímum landnáms og
mótunar samfélags í Norður-Ameríku hafi myndast fyrirmynd að máli
(sem var býsna lík bresku fyrirmyndarmáli), sem landnemar sem komu
frá svæðum þar sem aðrar mállýskur voru talaðar, gerðu að sinni fyrir-
mynd. Vel er hægt að hugsa sér að hin félagslega stemning hér á landi
á þeim tímum þegar verið var að móta íslenska þjóðveldið, hafi átt
sameiginlega þætti með þeirri stemningu sem ríkti í Norður-Ameríku,
þegar þar var að mótast nýtt samfélag. Ekki er ósennilegt að hér á landi
hafi ríkt talsverður samvilji fyrir því að koma á fót séríslensku sam-
félagi og að slíkt hafi haft áhrif á þá mállýskujöfnun sem jafnan er gert
ráð fyrir að átt hafi sér stað á fyrstu öldum íslands byggðar; að þessi
mállýskujöfnun hafi ekki einungis verið blöndun mállýskna, þar sem
mállýskumunur þeirra sem hingað komu jafnaðist út í einn graut, heldur
hafi hér verið virkur gerill félagslegrar samhygðar, sem skapaði nýja
fyrirmynd úr því efni sem hingað barst með landnemunum.
Ef menn vilja trúa þessu, verður eftirleikurinn auðveldur að hugsa
sér að þessi gerill eða lím hafi haldið íslenskunni tiltölulega stöðugri í
tíma og rúmi, þ. e. a. s. að litlar málbreytingar hafi orðið og þær sem
fram komu hafi ekki einangrast meðal afmarkaðra hópa. Verkunin á
þróun málsins væri þá tvíþætt, annars vegar fundu einstaklingar eða
hópar litla ástæðu til þess að viðhalda nýjungum eða sérkeimum í tali
sínu sem þeir tóku eftir að aðrir einstaklingar eða hópar höfðu ekki
(þetta mætti kalla íhaldsverkun), og hins vegar sáu einstaklingar eða
hópar ekki ástæðu til þess að spoma við nýjungum sem einhverja út-
breiðslu höfðu fengið, og tóku þær upp án (meðvitaðs eða ómeðvitaðs)
mótþróa (þetta mætti e. t. v. kalla jöfnunarverkun).
Ég þori ekki að fjölyrða meira um þetta á þessu stigi, því ég hef
engin gögn, sem sanni eða afsanni neitt um þessa hluti, en læt nægja að
leggja áherslu á það að það virðist geta verið fróðlegt fyrir íslenska
(mál)sagnfræðinga að hafa það bak við eyrað í rannsóknum sínum, að
félagslegir gerlar eins og menningarleg samstaða geti hafa ráðið miklu
um þróun íslenskrar tungu ekki síður en annarra félagsfyrirbrigða.
Sé litið nær nútímanum, er auðvelt að setja hreintungustefnu 19. og
20. aldar inn í mynstrið, eins og margsinnis hefur verið bent á, sem lið
í pólitískri sjálfstæðisbaráttu þjóðar sem fannst að sér kreppt. Og í blá-