Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1979, Page 230
210 Magnús Pétursson
að telja mjög næmt tímaskyn, sem gerir kleift að skynja hlutfallslega
lengd málhljóðanna óháð ýmsum þáttum, sem hafa mikil áhrif á hina
mælanlegu eðlisfræðilegu lengd (sjá t. d. Lehiste 1970, passim). Þeir
þættir, sem hafa áhrif á lengd, eru t. d. áherzla, staða hljóðs í orði og
atkvæði, myndunarháttur viðkomandi hljóðs, opnustig þess, talhraði,
fyrir utan fjöldann allan af persónulegum þáttum hvers einstaklings,
sem erfitt er að fella í kerfi. Tímaskynið gerir kleift að meta alla þessa
þætti hlutfallslega á hundraðshluta úr sekúndu og fella á ótvíræðan hátt
inn í hljóðkerfi viðkomandi máls. Einnig gerir tímaskynið kleift að meta
hlutfallslega lengd þagna, sem koma fyrir í töluðum texta.
Þegar hlustað er á talað mál af athygli, má ekki einungis heyra
þagnir, heldur einnig ýmsar tegundir þagna. Þagnir eru sem sé langt
frá því að vera allar eins, heldur verður augljóst, ef vel er hlustað, að
þær uppfylla mismunandi hlutverk. Sumar þagnir gefa greinilega til
kynna, að textinn heldur áfram eftir þögnina, en við aðrar er það óvíst
og við enn aðrar er greinilegt, að setningin eða textinn eru búin. Hér er
ekki tímaskynið eitt, sem getur skýrt þessi atriði, heldur er hér um að
ræða hljómfallsform, sem gefa til kynna, hvers konar þögn er væntanleg.
Rannsókn þagna í töluðum texta, sem vill taka tillit til slíkra hljóm-
fallsforma, verður þar með hluti af rannsókn hljómfalls viðkomandi
tungumáls og óaðskiljanlegur þáttur þess. Hér er því komið inn á svið,
sem vísindalega séð má heita nánast óþekkt í rannsókn íslenzks máls,
enda þótt ómeðvitað noti sérhver íslendingur hins vegar ætíð rétt hljóm-
fall eftir því, sem aðstæðumar gefa tilefni til hverju sinni.
Vísindalega séð hafa hljóðmyndun í íslenzku (Pétursson 1974a, b,
c; 1976a, b; 1978a) og hljóðlengd (Einarsson 1927; Bergsveinsson
1941; Garnes 1972, 1976; Pétursson 1976c, 1977, 1978b, Oresnik/
Pétursson 1977) verið rannsökuð töluvert, en um hljómfall í íslenzku
er nánast ekkert vitað. Engin rannsókn er til á hljómfalli, ef undan eru
skildar ókerfisbundnar athuganir í bók Sveins Bergsveinssonar (1941)
og ýmsar sömuleiðis algjörlega ókerfisbundnar athugasemdir á ýmsum
stöðum í bók Sigurðar Kristófers Péturssonar (1924). Rannsókn hljóm-
falls er því mikið framtíðarverkefni í rannsókn íslenzks máls, sem mun
að öllum líkindum verða rannsakað í smáatriðum út frá ólíkum sjónar-
miðum á næstu öld.
Þeir hlutar hljómfallskúrvunnar, sem gefa til kynna þagnir, em
breytilegir eftir því, hvers konar þagnir er um að ræða. Hér er yfirleitt