Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 52
50
Ásta, Gísli og Þóróljur
vöndunarmanna hefur það sjónarmið mátt sín mikils að hafa megi fulla
stjórn á málbreytingum og skuli upprunasjónarmiðið ráða. Engin
ástæða er til að efast um réttmæti þeirrar fullyrðingar málræktarmanna
að störf þeirra miði að því að jafna aðstöðumun. Hins vegar benda
niðurstöður okkar til þess að árangur málverndarstarfsins kunni stund-
um að verða annar en til var ætlast í upphafi. Ef baráttan við þágu-
fallssýkina er komin frá menntamönnum og menntastofnunum fremur
en frá alþýðu manna er hætta á því að hún geti leitt til félagslegra skila
í málfari manna sem tengjast þá ef til vill þáttum eins og menntun for-
eldra, eða veru manna í tilteknum menntastofnunum. Á þessu stigi
málsins eru þetta auðvitað aðeins vangaveltur sem erfitt er að renna
stoðum undir. Einhverja vísbendingu má þó ef til vill fá með því að
kanna að hvaða marki menntun foreldra og mismunandi skólaganga
hefur áhrif á þágufallssýki. Einnig mætti halda menntun foreldra og
skólagöngu „föstum“, það er að segja gera ráð fyrir að öll börn í
úrtakinu gangi í sama skóla og foreldrar þeirra hafi sömu menntun,
og sjá hvort samband félagsstöðu og þágufallssýki minnkar. Þegar
þetta er gert kemur í ljós að munur á skólum og menntun foreldra
skýrir tölfræðilega séð um 20% af þágufallsvillum, eða svipað og fé-
lagsstaða, búseta og kyn samtals. Þegar menntun foreldra og skóla er
haldið föstum lækkar fylgnin milli félagsstöðu og villufjölda úr -s- 0.34
niður í -r- 0.06, þ. e. áhrif félagsstöðu á villufjölda hverfa nær alveg.
Með öðrum orðum, rekja má áhrif félagsstöðu á þágufallssýki nær ein-
göngu til menntunar foreldra og veru í ólíkum skólum. Á sama hátt
minnkar sambandið milli kennaramats og þágufallssýki úr -^0.46 í
-í-0.17 þegar ofangreindum þáttum er haldið föstum. Hið sama kemur
í ljós þegar athugaður er munur á þágufallssýki í Reykjavík og úti á
landi. Sá munur hverfur þegar menntun er haldið fastri.
Ef að líkum lætur nær sú málpólitík, sem leggur áherslu á að útrýma
þágufallssýki og ámóta málafbrigðum, aðeins takmörkuðum árangri og
þá einkum á meðal ákveðinna hópa einstaklinga. Þannig getur hún
aukið félagsleg skil í nútímamáli. Við bendum á að þótt rannsóknir á
málnotkun geti ef til vill ekki sagt okkur hvað sé rétt né hvað sé skyn-
samlegt í mállegum efnum, geta þær hins vegar gefið vísbendingu um
hvaða afleiðingar fylgi í kjölfar tiltekinna stefnumiða.