Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 60
58 Eiríkur Rögnvaldsson
(8) Hann lofaði því, að þú yrðir látinn sitjafyrir vinnu
(9) Þeir unnu eiðana fúsir
(10) Þangbrandur skírði hann þrevetran
(11) Þú sast hjá mér sjúkum
Það er nokkuð ljóst að ekki hafa allir þessir liðir sömu stöðu í form-
gerð setninganna, enda er viðurlögum stundum skipt í lýsingarviðurlög
og atviksviðurlög (Jakob Jóh. Smári 1920), eða greint milli lausra við-
urlaga og annarra (Björn Guðfinnsson 1943, Skúli Benediktsson
1981). En það er ekki einstakt fyrir íslensku að svo margvíslegir liðir
séu flokkaðir undir viðurlög; staða þeirra og afmörkun í ensku er líka
allóljós (sjá t. d. Matthews 1981:222-236 o. v.; sum viðurlögin í (2)-
(11) flokkast undir það sem í ensku er nefnt apposition).
1.2 Lýsingarorðsviðurlög
Sú fjölbreytni sem lýst var hér að framan veldur því, að generatífist-
ar hafa hvergi fjallað um viðurlög í einu lagi. Einstakar tegundir þeirra
hafa verið teknar fyrir; umfjöllun um setningar á við (2) má t. d.
finna hjá Höskuldi Þráinssyni (1979), en þar er þessi formgerð kölluð
hægri sveifla (Right Dislocation). í sama riti er einnig rækileg úttekt
á stöðu skýringarsetninganna sem kallaðar eru viðurlög í (7) og (8).
Lýsingarorð sem standa sem viðurlag hafa hins vegar að mestu orðið
útundan (sjá þó umfjöllun Jóns Friðjónssonar 1982 um lh. nt. sem
viðurlag). Markmið þessarar greinar er að bæta úr því, og gera úttekt
á stöðu lýsingarorða eins og fúsir í (9), þrevetran í (10) og sjúkum
í (11) hér að framan.
í öðrum kafla eru fyrst tekin nokkur dæmi um viðurlög, og síðan
sett fram sú tilgáta um tengsl þeirra við orðin sem þau eiga við, að
viðurlögin séu alltaf upprunnin innan viðkomandi nafnliðar (frumlags-
liðar í (9), andlagsliðar í (10), forsetningarliðar í (11)). í þessum kafla
eru einnig teknir fyrir tveir annmarkar sem virst gætu vera á þessari
lausn, en talið að þegar betur er að gáð, séu þeir engin hindrun.
í þriðja kafla eru lýsingarorð með andlögum, fallorðum forsetninga
og frumlögum athuguð hver fyrir sig, og komist að þeirri niðurstöðu
að hægt sé að gera ráð fyrir að tilgátan sem sett var fram í 2. kafla
standist, þ. e. að viðurlög séu alltaf upprunnin í liðnum sem þau eiga