Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 63
Af lýsingarorðsviðurlögum 61
af sömu djúpgerð, verða þær því að merkja það sama; sé svo ekki,
hlýtur djúpgerðin að vera mismunandi. Nú væri vel hugsanlegt að
koma með þá mótbáru gegn uppruna allra viðurlaga í nafnlið, að setn-
ingar eins og (20)a og b merktu ekki það sama:
(20)a Blindfullur strákurinn kom heim
b Strákurinn kom blindfullur heim
í seinna dæminu er frekar um að ræða það sem Jakob Jóh. Smári
(1920:91) nefnir atviksviðurlag, og skilgreinir svo:
(21) Atviksviðurlag er það viðurlag nefnt, er greinir ástand eða
hag þlutarins í sambandi við athöfn þá, sem frá er sagt.
Og Skúli Benediktsson (1981:56) segir: „Viðurlag takmarkar merkingu
sagnar líkt og atviksorð eða atvikssetning . . .“ Þessar skilgreiningar
gefa til kynna að hlutverk viðurlagsins sé hér a. n. 1. annað en lýsing-
arorða sem standa innan nafnliðar. Það mætti hugsa sér að umorða
setningarnar í (20) eitthvað á þessa leið:
(22) a Strákurinn var blindfullur og hann kom heim
b Strákurinn var blindfullur þegar hann kom heim
En hvers eðlis er munur þessara setninga? Margir merkingarfræð-
ingar vilja byggja skilgreiningu merkingar á sannleiksgildi (truth val-
ue), og segja að tvær setningar merki þá og því aðeins það sama,
að þær hafi nauðsynlega sama sannleiksgildi (sjá um þetta t. d. Lyons
1977:167-173; Kempson 1977, 3. og 5. kafli og tilvísanir þar). Með
því er átt við að ef önnur setningin er sönn, þá hljóti hin að vera
það líka; og ef önnur er ósönn, hljóti hin líka að vera ósönn (að því
gefnu, auðvitað, að setningarnar eigi við sömu persónur, hluti eða
atburði). Ef við skoðum nú setningarnar í (20) í þessu Ijósi, þá virðist
greinilegt að á þeim er ekki merkingarmunur í þessum skilningi; sé
því slegið föstu að verið sé að lýsa sama atburði er sá möguleiki útilok-
aður að önnur setningin sé sönn en hin ósönn. Sannleiksgildi þeirra
hlýtur alltaf að fara saman, og merkingu þeirra mætti lýsa með ein-
hverju í h'kingu við:
(23) Fyrir eitthvert x gildir að x er strákur og x var blindfullur
og x kom heim