Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 70
68 Eiríkur Rögnvaldsson
3.2 Viðurlög með andlagi
3.2.1 Mynda viðurlög með andlagi lið með höfuðorðinu?
Við skulum nú athuga lýsingarorðsviðurlög sem standa með and-
lagi. Þau standa venjulega næst orðinu sem þau eiga við, og mætti
því búast við að þau væru einfaldari viðfangs en viðurlög með frum-
lagi, sem langoftast standa fjarri höfuðorðinu. Rifjum nú upp dæmin
sem tilgreind voru um viðurlag með andlagi:
(38) Ég mætti Sveini drukknum
(39) Ég þekkti hann ungan
í fljótu bragði mætti virðast að reglan í (31) hér að framan gæti gert
grein fyrir þessum setningum, því að þar er einmitt gert ráð fyiir lýs-
ingarorðslið næst á eftir andlagi, eins og er í þessum dæmum. En
málið er ekki svo einfalt, því að þótt viðurlag með andlagi standi yfir-
leitt á eftir nafnorðinu sem er höfuðorð andlagsliðarins, getur það
staðið á undan því við ákveðin skilyrði, rétt eins og viðurlag með
frumlagi:
(40) a Ég sá blindfullan forstjórann
b Ég sá forstjórann blindfullan
Spurningin er nú: Er eðlilegt að lýsa (40) með reglu (31), þ. e. gera
ráð fyrir því að viðurlagið sé upprunnið sem sérstakur liður aftan and-
lagsins?
Það er ljóst að röðin í (40)b er miklu algengari, og mætti því telja
líklegt að hún stæði nær grundvallarorðaröðinni. í (40)a væri þá um
að ræða umröðun tveggja sjálfstæðra liða, ef gert væri ráð fyrir að
grunngerðinni mætti lýsa með (31); einnig væri hugsanlegt að telja
viðurlagið upprunnið aftan nafnorðsins í andlagsliðnum sjálfum, og
væri þá um að ræða umröðun orða innan eins og sama liðar eða færslu
annars hvors þeirra (yfir hitt) út úr honum (þ. e. færslu lo. út úr
liðnum til vinstri eða no. út úr honum til hægri). En gallinn er sá
að ekki verður betur séð en blindfullan forstjórann sé setningarliður
í (40)a, en forstjórann blindfullan í (40)b sé ekki liður, því að fyrr-
nefnda sambandið er hægt að færa í einu lagi fremst í setningu, en
hið seinna ekki, eins og (41) sýnir:6
6 Halldór Ármann Sigurðsson (1983:46) gerir ráð fyrir að orð eins og allir ogflestir