Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 172
170
Orð af orði
voru þau bæði austfirsk. Um kk. orðið skoddi ósamsett fannst ekkert
dæmi úr ritmáli, en í uppskriftum úr orðabókahandritum rakst ég á eitt
dæmi, þar sem merkingin er sögð vera ‘söetoge’. (Lbs. 220, 8V0, 425).
Ekki er vitað, hver skrifaði þetta handrit, sem talið er frá því um 1830-
1840, en höfundur hefur gert sér far um að greina orðaforðann eftir
landshlutum. M. a. merkir hann skoddi austanmál (a. m.). Hallgrímur
Scheving hefur einhvern tíma haft þetta handrit undir höndum og bætir
við ‘nebula marina’. í ritmálssafni reyndust hins vegar til tvö dæmi um
kvk. orðið skodda. Annað þeirra er frá Árna Magnússyni og segir
hann:
Skodda skal þoka kallast á Langanese. Skodda er eigi þoka seger
Sr Gudmundr Magnusson, helldur dimmvidre, þá ecke sier til him-
ins, og ecke glögt langt burtu.
(ÁMSkr. II, 248)
Hitt dæmið er úr orðalista þeim er Rasmus Rask safnaði á ferðum
sínum um ísland sumurin 1814 og 1815, og er skodda þar talin til aust-
firskra orða:
skodda, o: þoka, skoddudimma.
(BA XX, 295)
í talmálssafni OH eru til allmörg dæmi um skoddu, og eru þau
bundin svæðinu frá Norður-Múlasýslu til Vestur-Skaftafellssýslu. Svo
virðist sem þokumerkingin sé næstum óþekkt. Aðeins einn heimildar-
maður úr Vestur-Skaftafellssýslu segir: „lítið þekkt um þoku“. Af dæm-
um úr Austur-Skaftafellssýslu má ráða, að skodda sé einkum notað um
rigningu. Steinþór Þórðarson á Hala í Suðursveit segir t. d.: „Skodda
merkir líkt og skumpa, þ. e. stór skúr“, og á seðli frá Hjalta Jónssyni í
Hólum, sem skrifaður var 1960, stendur: „Skodda, mikil skúr, hryðja.
Var algengt um síðustu aldamót, en heyrist varla nú.“ Austfirsku dæm-
unum ber öllum saman um, að orðið skodda sé notað um ‘storm með
hríðaréli’. Vopnfirðingur lýsir skoddu þannig: „Snjór eða slydda með
allmikilli veðurhæð. Skoddan stendur lengur en svo að hægt sé að kalla
það él, en ekki svo lengi að menn telji rétt að tala um byl, hríð eða
stórhríð.“
í fyrrgreindu orðabókarhandriti úr Landsbókasafni er nefnt lo.
skoddubjartur og það sagt merkja ‘þá bjart er næstum uppá háfjöll’. í
talmálssafni eru einnig tvö dæmi, og er orðið samkvæmt þeim notað,
þegar þykkt er í lofti og éljagangur að koma niður í fjöllin.