Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Side 185
Flugur
183
heldur til að athuga hvort klasarnir væru meira eða minna nothæfir í
bakstöðu, og komu út úr því hinar fróðlegustu niðurstöður.
í svörunum varð talsvert um að verknaðarheitin enduðu á -ur, raun-
ar miklu fremur en á samhljóði + -r, enda segir höfundur að reynt sé
„að sneiða hjá þessum samhljóðasamböndum, s. s. með því að skjóta
inn -u á undan -r ...“.
En um þetta er tvennt til, ekki síður en framburðinn á fornmálinu.
Flest verknaðarheitin á -ur eru engar nýmyndanir, heldur gamlir kunn-
ingjar úr orðaforðanum, eins og nöldur, glamur, muldur, öskur, blístur,
ýlfur, pukur, klifur, sötur, hamstur. Þetta eru raunar þau orð (í lækk-
andi tíðniröð) sem fram komu hjá a. m. k. 74% af tilraunadýrum
Helga. Nærtækt er að túlka þetta svo, að fólk grípi upp í heilu lagi
kunnuglega orðmynd, í stað annarrar mjög áþekkrar sem er torkennileg
og kannski torframberanleg.
Það er eiginlega furða, í tölum Helga, hve fáir segja lötur (62%; það
er þó öllum kunnugt í samsetningunni löturhœgt), sífur (59%; það er þó
kannski með sjaldgæfari orðum) og dekstur (46%; en það er af því að
margir mislesa sögnina: dekra fyrir dekstra).
Af 17 sögnum á -ra í könnun Helga er hér með búið að vísa á bug 13
sem ógildum vitnisburði um hljóðbreytinguna sem slíka. Eftir eru
flögra, hamra, snupra, haltra, en verknaðarheitin af þeim eru annað-
hvort varla til eða aðallega í þgf. (á flögri) eða kvk. (snuprur). Mynd-
irnar flögur og hamur koma lítt fram, en kannski, eins og Helgi bendir
á, vegna óþægilegrar líkingar við samhljóða nafnorðsmyndir. Aðeins
snupur og haltur kemur fram hjá svo ríflegum minnihluta þátttakenda
(30-40%) að það sé nokkur vísbending um u-innskot. Þó varla ótví-
ræð, því að alltaf verður að gera ráð fyrir nokkru handahófi á við-
brögðum við tilraunaaðstæður.
Flögr fær nógu mikið fylgi til að fá hljóðfræðilega grænt Ijós (51%),
og þá er víst rétt að viðurkenna líka hamr (29%), puðr og kumr (sem
Helgi bendir á að vanti í könnunina), jafnvel snuðr, amr, slafr, sem ég
þykist finna í eigin orðaforða; og þó ég geti ekki sagt glamr eða klifr er
það ekki af hljóðskipunar sökum, heldur vegna árekstra við kunnug-
legu -ur-myndirnar. Klasarnir með önghljóði eða nefhljóði + r, sem
voru ótækir í bakstöðu meðan u-innskotið var upp á sitt besta, virðast
sem sagt orðnir nokkurn veginn brúklegir á ný.
Það vantar að vísu dæmi um -nr, einnig um -Ir, sem væri sérstaklega