Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Side 188
186
Flugur
Nokkur orð um viðskeytið -ari og orðmyndun í barnamáli
1. Athugun Röndu Mulford
í síðasta hefti íslensks máls birtist grein eftir Röndu Mulford um það
hvernig íslensk börn mynda gerand- og tækisnafnorð af sögnum. Helstu
niðurstöður voru þær að íslensk börn notuðu mjög oft viðskeytið -arí
við þessa orðmyndun, og notkun þess fór vaxandi eftir því sem börnin
voru eldri.
Ef litið er á myndun gerandnafnorða sést að yngstu börnin (þriggja
ára til þriggja ára og átta mánaða, skammstafað 3;0-3;8) nota -ari-
viðskeytið í 56.7% tilfella, hjá næsta hópi (3;9-4;5) er notkunin
83.3%, þriðji hópurinn (4;6-5;2) notar það 86.7% og elstu börnin
(5;3—6;0) mynda gerandnafnorðin í 98.3% tilfella með viðskeytinu -ari.
Notkun þessa viðskeytis er ekki eins mikil við myndun tækisnafnorða
(frá 43.3% upp í 79.6%), en hún fer yfirleitt vaxandi eftir aldri. Yngstu
börnin nota frekar þá aðferð að bæta orðum eins og maður aftan við
sagnstofninn, mynda nafnorðin með samsetningu. (Sjá Röndu Mulford
1983:111.)
En hvaða vitneskju færir þetta okkur um það hvernig börn mynda
ný orð? Eins og fram kemur hjá Röndu voru börnunum gefin dæmi í
byrjun (sjá Randa Mulford 1983:108-109), þannig að þau heyrðu at-
hugandann nota ,,-ari-orð“ og búa til orð með því að bæta -ari við
sagnstofninn. Þau voru síðan beðin um að búa til orð, og e. t. v. skildu
þau að þetta var einföld leið, og örugglega rétt, úr því að fullorðinn
gerði það svona.
Því er e. t. v. nær að túlka þessa aukningu eftir aldri á ,,-ar/-nafn-
orðum“ þannig að eldri börnin átti sig betur en þau yngri á því hvað
þau „eiga“ að gera. Því virðist spurningunni um það, hvernig börn
myndi ný orð, ekki endilega hafa verið svarað og fróðlegt að reyna
fleiri prófaðferðir og sjá hvaða niðurstöður fást.
2. Forpróf
í því skyni að athuga hvort önnur prófaðferð gæfi breytta niðurstöðu
ákvað ég að athuga nokkur börn á svipaðan hátt, þó með þeirri undan-
tekningu að gefa þeim ekki nein dæmi sem hugsanlega gætu haft áhrif
á orðmyndun þeirra. Ég byrjaði á því að prófa fjórar 5 og 6 ára stelpur
sem ég náði auðveldlega til.