Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 207
Ritdómar
205
dregur einnig úr gildi þessarar umfjöllunar, en það er þegar þess er ekki getið
hvaða örlög ákveðin atriði hafa hlotið í tilteknum málum. Langoftast á þetta við
um íslensku en einnig stundum um færeysku. Þá má spyrja sig að því hvort þögn
um nútímaíslensku sé merki um óbreytt ástand frá fornu máli? Um einstök atriði
í þessum kafla verður ekki rætt hér, en hann, sem og aðrir kaflar, ber þess nokkuð
oft merki að það hefði ekki sakað þó innfæddur íslendingur hefði lesið yfir hann.
Lokakaflinn fjallar almennt um orðaforðann, tökuorð og orðmyndun að fornu
sem nýju, svo og um nýyrðasmíð og helstu viðfangsefni málnefnda í hverju landi
fyrir sig. Þetta er ósköp þægileg lesning, þó vissulega komi ýmsar staðhæfingar, um
t. d. íslensku, lesanda spánskt fyrir sjónir. Höfundur er helst til fullyrðingaglaður
hvað varðar ýmis atriði í þessum kafla. Ég er t. d. ekkert viss um það að „To be
honored as a successful orðasmiður ‘word smith’ is the ambition of most Ic
writers.“ (bls. 204). A. m. k. held ég að margir rithöfundar af yngri kynslóðinni
tækju ekki undir þessa fullyrðingu. Höfundur er ekkert að fela afstöðu sína hvað
varðar afnám upphafsstafa í no. í dönsku er hann fullyrðir að „... (no one misses
them).“ (bls. 209). Mér kæmi ekki á óvart þó einhverjir hefðu saknað þeirra sárt.
Andinn í þessari bók hefur stundum verið nýnorsku í óhag gagnvart bókmáli.
Þessi afstaða höfundar kemur hér skýrt fram í eftirfarandi setningu sem finna má
á bls. 207: „It is conspicuous that many persons who both write and speak NN
are occupying positions of high responsibility and wide influence."
5.
Hvað varðar alla uppsetningu er þetta rit mikil framför frá fyrri bók Haugens
um sama efni. Meginkosturinn er fólginn í því að öll umfjöllun fer fram í skýrt
afmörkuðum eindum með stigveldisbundinni kaflaskiptingu. Hverri hljóðkerfis-
breytingu er gefið ákveðið númer og í lok kaflans er þeim raðað upp ásamt tilvísun
um hvar þær er að finna. Þetta gerir bókina að nokkuð handhægu uppflettiriti.
Kaflarnir sem fjalla um beyginga- og setningahluta málkerfisins eru ekki eins skýrt
upp settir og breytingarnar sem þar verða eru ekki dregnar afmarkaðar út. Því er
ekki eins hægt um vik að átta sig á helstu einkennum í þróun beyginga- og setn-
ingahlutans.
Einn kosturinn við númerakerfi er sá að mjög auðvelt er að vísa fram og aftur
um ritið í ákveðinn kafla eða breytingu. En slíkt krefst nákvæmni í vinnubrögðum,
sem hér er ekki alltaf til að dreifa. Mýmörg dæmi eru um ranga vísun í kafla eða
reglu, jafnvel að vísað er í eitthvert númer sem alls ekki er til. Sem dæmi má nefna
að á bls. 45 þar sem verið er að ræða áherslulausa sérhljóða í færeysku er vísað í
reglu þar að lútandi sem sögð er vera regla 4 í kafla 2.4.2. R4 er hins vegar ekki í
kafla 2.4.2. heldur 2.4.1. (bls. 29).
Haugen heppnast ekki nógu vel að draga fram heildarlínurnar í málþróun nor-
rænna mála. Þeim breytingum sem eiga sér stað á stórum hluta norræna mála-
svæðisins er ekki haldið nógu aðgreindum frá einstökum breytingum sérhvers
svæðis og því fæst oft ekki rétt mynd af samhengi breytinga á mismunandi lands-
svæðum.