Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 225
Frá Islenska málfræðifélaginu
Að venju gekkst Málfræðifélagið fyrir fundahöldum á árinu 1984.
Þann 31. janúar 1984 var efnt til fundar í Árnagarði, þar sem próf-
essor Haraldur Bessason flutti erindi sem hann nefndi Fáeinar hugleið-
ingar um vestur-íslensku. Haraldur flutti þar mjög greinargott erindi um
íslenskt mál í Vesturheimi, ræddi um einkenni þess og stöðu sem inn-
flytjendamáls og leyfði fundarmönnum að heyra sýnishorn.Þessi fundur
var með þeim fjölsóttari í sögu félagsins, og sýnir það að mikill áhugi
ríkir hér um tungu landa vorra í Vesturheimi.
29. september efndi Málfræðifélagið til ráðstefnu sem bar yfirskrift-
ina: Framburður í skólum og fjölmiðlum: Rannsóknir og stefnumótun.
Fór hún fram í Norræna húsinu og var opin öllum áhugamönnum.
Frummælendur voru sex. Höskuldur Þráinsson ræddi um framburðar-
rannsóknir við Háskóla íslands, Indriði Gíslason greindi frá rannsókn-
um á framburði barna, sem fram fara á vegum Kennaraháskóla Islands,
og Guðmundur Kristmundsson ræddi um framburðar- og hljóðfræði-
kennslu í skólum. Baldur Jónsson, formaður íslenskrar málnefndar,
Árni Böðvarsson, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins, og Gunnar Eyj-
ólfsson frá Félagi íslenskra leikara fluttu framsöguerindi um efnið:
Islenskt tal/nál í fjölmiðlum og opinber málstefna. Ráðstefna þessi var
mjög fjölsótt og þótti takast hið besta.
Eins og fram kom í annál síðasta árs, var sett á stofn orðanefnd á
vegum félagsins á aðalfundi 1982. í henni eiga sæti Eiríkur Rögnvalds-
son, Jón Hilmar Jónsson og Svavar Sigmundsson. Þessi nefnd hefur
starfað síðan og unnið þarft starf. Hún hefur fengið að afrita seðla
Orðabókar Háskólans sem unnir voru upp úr málfræðiritum frá þessari
öld, og er þar álitlegt safn málfræðiheita. Einnig hefur orðanefndin gert
orðalista um alþjóðleg hugtök í hljóðkerfisfræði, beygingarfræði og
setningafræði, einn úr hverri þessara undirgreina málfræðinnar, og sett
inn á tölvu ásamt íslenskum samsvörunum þar sem við varð komið.