Vera - 01.07.1983, Blaðsíða 39
^pSsturinn
heldur uppi fræöandi og
skemmtilegri umfjöllun um listir
menningarmál, stjórnmál, auk
fjölda viötala og greina um hin
fjölbreytilegustu efni
blaðið sem
beðið er eftir
á hverjum
föstudegi
Gœludýr?
framhald af bls. 13
nýta sér líkama karls í sama skyni, varðar það við lög. Viðhorfin í
garð kvenna eru enn, þrátt fyrir níu þingkonur, kvenráðherra, kven-
oddvita, kvensýslumenn og hver veit hvað, að konur séu fyrst og
fremst til augnayndis, skrokkur til að fá útrás á, horfa á og snerta
en ekki bústaður persónu sem fróðlegt væri að hlusta á, vera með
og bera virðingu fyrir. Og þeir sem halda að þessi viðhorf séu ekki
stærsti þrándurinn í götu jafnréttis og frelsis, þeir hafa aldrei gengið
þá götu og munu aldrei gera. Þessi sömu viðhorf koma svo fram í
fegurðarsamkeppnunum.
Viltu vera gœludýr?
Það erfiða við að fetta fingur út í fegurðarsamkeppni er, að það
sem sagt er, getur sært stelpurnar sem taka þátt í þeim. Óhörðnuð
stúlkubörn, sem eru jú aðeins að keppa að því marki, sem hæst er
hampað af umhverfinu. Stelpur eiga að vera sætar og það er annarra
að leggja mat á fegurðina. Sætar stelpur eiga meiri sjens, þær verða
frægari, ríkari, þær komast á forsíðurnar, þær verða stjörnur. Þetta
er það sem stelpum er kennt. Þannig m.a. fer kúgunin fram!
Fegurðarsamkeppni er réttlættar með því að þarna sé dágott tæki-
færi til ferðalaga, til að kynnast réttum aðilum í tísku- og kvik-
myndabransa og fólki yfirleitt. Látum það vera. Hins vegar vaknar
stundum sú spurning þegar þessa réttlætingu ber á góma, hvers
vegna karlar, sem vinna í tískuiðnaði og í kvikmyndum, þurfa þá
ekki á sams konar tækifærum að halda? Ekki þurfa þeir að taka þátt
í fegurðarsamkeppni til að komast eftir framabrautinni. Hvaða leið
fara þeir?
Og svo eru gagnrýnendur fegurðarsamkeppna af kvenkyni
skammaðar fyrir öfund út í fallegu stelpurnar! Æ, þið eruð bara
spældar. Engum dettur í hug, að sú kona sé til, sem hefur frelsað sig
undan dómsorðum karlanna yfir útliti og eiginleikum. Eins og hægt
sé að öfunda nokkra manneskju fyrir að þurfa að ganga á sundbol
fram fyrir dómnefnd og hundruðum ef ekki þúsundum manna í
þeim tilgangi að uppfylla metnað sinn? Eins og hægt sé að öfunda
nokkra manneskju af því að fá birta mynd af sér fyrir þær sakir ein-
ar að vera með rétt mál, mátulegt bros og ísmeygilegt augntillit? Á
meðan þeir eru til, sem halda að þetta sé öfundsvert hlutskipti, bæt-
ist ekki hlutur kvenna í stjórnsýslunni eða í ákvarðanatökunni.
Nú á að fara að kjósa „Gæludýr ársins“ í Róm. Það er tímaritið
Penthouse sem gengst fyrir keppninni, tímarit sem hefur þann eina
tilgang að selja kvenlíkama og þau viðhorf, að konur séu til að gæla
við öðru fremur. Penthouse á sér hliðstæðu á íslandi, sem heitir
Samúel og er vist núna að smala stelpum í keppnina. Þeir hjá Samúel
hafa ekki þorað að gefa upp titilinn sem keppt verður um, „Pet of
the Year“ heldur þýða þeir hann sem „Stúlka ársins“. Persónulega
yrði það mér meiri gleðiefni ef engin íslensk stúlka gæfi kost á sér
sem gæludýr ársins en það að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru
konur! Þarna liggur hundurinn grafinn: þarna: á meðan við trúum
því að það sé keppikefli að gleðja augu karlanna með útlitinu og
eyru þeirra með orðum, þá getum við aldrei, aldrei, orðið annað en
gæludýr, fegurðardrottningar, líkamar til sýnis.
Körlunum þykir stafa ógnun af aukinni sókn okkar á önnur mið
en þau, sem okkur hefur hingað til verið úthlutað. Svör þeirra við
þeirri ógnun er að reka enn harðari áróður fyrir gömlu miðunum,
hampa enn hærra gömlu keppikeflunum og gömlu hlutverkunum.
Konur eiga að vera prúðar, stilltar, þægar og sætar. Alveg eins og
þær voru áður en þetta kvenréttindabrambolt fór af stað! Höldum
fleiri fegurðarsamkeppnir!
Aftur á móti léku þeir af sér í Spegilmálinu. Þar viðurkenndu þeir
að frammi fyrir óskráðum lögum viðhorfanna standa konur og karl-
ar ekki jafnt að vígi. Sú viðurkenning hlýtur að verða hverjum þeim
hugljómun sem hélt að jafnrétti ríkti í landinu.
Magdalena Schram
P.S. Skyldi ekki annars vera hægt að kæra ríkissaksóknara til
Jafnréttisráðs?
Ms
39