Vera - 01.02.1990, Side 23
Mynd: Laura
Valentino
HÁDEGI
EFTIR
HRAFNHILDI SCHRAM
Sólin stóð í hádegisstað og varpaði brenn-
andi geislum sínum niður á steinlagt,
hringlaga torgið. Lífið í borginni var hálf-
lamað vegna hitans og daunn frá mönn-
um, dýrum, rotnandi ávöxtum og opnum
vatnsþróm fyllti loftið.
Þær fáu hræður sem voru á ferli, þyrptust
saman í stuttum skuggunum sem bygging-
arnar við torgið köstuðu frá sér. Á bak við
kór dómkirkjunnar í stóra skugganum við
barinn hjá Jannis var svalt og barinn var
fullsetinn.
Það heyrðist til hans áður en hann birtist
á toginu. Fótatakið bergmálaði í hellu-
lögðu strætinu. Hádegiskyrrðin var rofin
og ósjálfrátt fóru allir að hlusta. Hundarnir
stungu syfjulegum trýnum fram undan
borðunum á barnum og kötturinn sem sat
undir stóru sólhlífinni við barinn sperrti
eyrun. Það kom fát á Jannis og hann rauk
til og fór að þurrka af borðunum. María
konan hans signdi sig og muldraði eitt-
hvað um leið og hún strauk svuntuna og
lagfærði þykkan, svartan hárhnútinn.
Loks kom hann fyrir húshornið og gekk
inn á torgið, hávaxinn og þéttur með úfið,
grátt hár og grásprengt alskegg. Á höfðinu
bar hann svart fat sem bændur í fjallaþorp-
unum báru enn. Hann var svartklæddur og
skyrtan opin langt niður á bringu.
Talnaband hékk niður úr buxnavasanum
og slóst í svört voldug leðurstígvél með
þykkum sólum og járnplötum sem skullu á
torginu þegar hann gekk í átt að barnum
hans Jannis. Stór gulur fjárhundur elti
hann.
Jannis hafði dregið fram stól og þegar sett
hálfa ouzoflösku og glas á borðið.
Maðurinn renndi augum yfir barinn um
leið og hann settist. Það rifaði í svört og
stingandi augu í veðurbörðu andlitinu.
Hundurinn lagðist undir borðið og sofn-
aði og svartklæddi maðurinn hellti í sig
þremur glösum af ouzo. Allt í einu barst
bjölluhljómur inn á torgið og fyrir hornið
kom feitlagin kona á miðjum aldri og
teymdi á eftir sér klyfjaðan asna með litlar
klingjandi bjöllur hangandi við eyrun.
Hún var klædd síðu svörtu pilsi, vafin blá-
litum sjölum með rósóttan klút um höfuð-
ið.
Konan leit yfir torgið og andartak horfðust
þau í augu, konan og svartklæddi maður-
inn.
Maðurinn dró skyndilega að sér auðu stól-
ana tvo sem stóðu við borðið og skellti
stxgvélaklæddum fótunum upp á þá. Kon-
an leit niður en síðan upp og horfði fast og
lengi á kælikistuna með svaladrykkjunum.
Jannis gekk í átt til hennar og greip eftir
flöskuopnaranum sem hékk í svuntunni.
Hann leit um leið hikandi á manninn sem
veifaði reiðilega með tómri ouzoflöskunni
og benti honum að koma með aðra. Það
leið dágóð stund þar til hann hafði tæmt
seinni flöskuna. Allan tímann stóð konan
á torginu í sterkri sólinni, bein í baki og
horfði langt fram fyrir sig.
Loks stóð hann upp, dálítið valtur á fótum
og virtist ætla að ganga burt. Skyndilega
sneri hann sér við, greip í borðbrúnina og
sparkaði fast með öðrum fætinum undir
borðið. Hundurinn ýlfraði, hentist til og
hljóp til konunnar sem beygði sig niður og
lét vel að honum. Maðurinn kastaði smá-
peningum í Jannis, gekk að asnanum og
fór að taka af honum klyfjarnar sem voru
verslunarvarningur frá kaupmanninum,
m.a. hveitisekkur og olíubrúsi. Þegarvarn-
ingurinn stóð á torginu, steig maðurinn á
bak og hallaðist dálítið út í aðra hliðina
þegar asninn reikaði með hann yfir torgið.
Konan tók upp varninginn, stakk einu sjal-
inu í gegnum handfangið á olíubrúsanum
og batt hann á bakið. Síðan tók hún hveiti-
sekkinn undir aðra höndina og pinkilinn
undir hina og gekk reist yfir torgið á eftir
manninum og asnanum.
23