Vera - 01.07.1994, Blaðsíða 40

Vera - 01.07.1994, Blaðsíða 40
... þaö byrjaði að rigna undir kvöld. Margir höfðu beðið frá sólarupprás og stóðu enn þolin- móðir í röðinni. Þetta var í hverfi fólks af blönduðum kynþáttum. Þarna voru hvítir svertingjar og svartir hvítingjar, rauðhærðar og Ijóshærðar konur með andlitsdrætti svartra, en Ijósari yfir- litum, Indverjar og aðrir Asíumenn blandaðir hvítu og svörtu. Allt litróf regnbogabarnanna. Rætur þeirra í öllum heimsálfum, en föðurlandið hér. í biðröðinni las maður sögu þessarar sundurlausu þjóðar á syðsta veraldarhala, hér hafði fólk elskað án tillits til uppruna og litarháttar, en líka verið mismunað og misnotað svo gróflega. Og maður fann hversu kúgunin átti sér fallega spegilmynd - sterka samstöðu svo ólíkra ein- staklinga með eina sameiginlega hugsjón, - fyrirbæri sem er að hverfa ofar á hnettinum - hug- sjón um nýtt samfélag þar sem menn bæta fyrir syndir forfeðranna og allir menn, óháðir litar- hætti, geta lifað frjálsir... Heimurinn upplifði ævintýri aldarinnar 27. og 28. apríl síðastliðinn, þegar Afríska þjóðarráðið, sem borið hefur hitann og þungann af réttindabaráttu blökkumanna í Suður-Afríku í sjö ára- tugi, vann sögulegan sigur í fyrstu lýð- ræðislegu kosningunum þar í landi. Nelson Mandela þjóðhetja blökku- manna hefur nú sest í forsetastól og þjóðstjóm hans og stjórnlagaþing, þar sem blökkumenn eru í meirihluta, hefur tekið til við að semja nýja stjómarskrá þar sem jafnrétti kynþátta og kynja er tryggt. ... hún stóð hálf umkomulaus í kjördeildinni, ung blökkukona með prjónahúfu á höfði og ullar- teppi bundið yfir brjóstin og aftur fyrir bak. Tveggja til þriggja ára drengur elti hana með svip óvitans sem veit það eitt að nú ríður á að haga sér vel. Hún var ólæs og þurfti aðstoð við að kjósa. Við fórum saman inn í kjörklefann. Og þar sem ég stóð fyrir aftan hana og beið þess að hún segði mér hverjum hún treysti fyrir sér og sínum, sá ég hvar agnarsmá hönd teygði sig upp úr teppinu. Barnið var varla meira en mánaðargamalt og ég mátti til að fá að koma við þessa litlu fingur. Konan renndi augum yfir kjörseðilinn og benti svo á myndina af Nelson Mandela. Vildi sýni- lega að ég kysi fyrir sig svo atkvæðið færi örugglega ekki til spillis. En mér fannst að hún yrði að gera það sjálf svo við æfðum okkur smástund á blaði. Og svo dró hún krossinn við táknmynd réttindabaráttu svarta meirihlutans og brosti til mín stórum augum. Þegar hún hvarf út í bláa nóttina horfði ég bara á þessa litlu hönd undan teppinu og velti því fyrir mér hvað hún myndi skrifa... Sigrún Björnsdóttir fylgdist með kosningunum í Suður-Afriku Ljósmyndir Sigrún Björnsdóttir

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.