Vera - 01.08.1999, Blaðsíða 49
Púkinn
Smásaga eftir Thelmu Ásdísardóttur
Ég varð einu sinni fyrir ofbeldi.
Hræðilegu ofbeldi. Ég var grátt
leikin og illa farin. Það versta var
samt að ofbeldismaðurinn skildi
eftir púka inní mér. Andstyggileg-
an púka sem hann tróð beint inní
fallegt hjarta mitt. Þá hélt ég að
hjarta mitt væri ekki fallegt lengur
því það var fullt af þessum ljóta púka.
Ég var ringluð og vissi ekki hvað ég
átti að gera. Ofbeldismaðurinn var farinn
en púkinn var á þessum stað og vildi fá að
segja eitthvað. Hann hafði mikið að segja en
vantaði rödd. Svo að ég gaf honum mína. Það hefði
ég kannski ekki átt að gera en það var eina leiðin sem ég
rataði þá.
Og púkinn tók til óspilltra málanna. Hann hafði alltaf nóg að
segja. Hann gagnrýndi allt sem ég gerði og honum tókst alltaf að
benda mér á allt sem miður fór. Ekkert var nógu gott fyrir hann,
það var sama hvað ég vandaði mig mikið, hann gerði ætíð stólpa-
grín að mér og hló þessum ískrandi, illgirnislega hlátri sínum.
Hann sagði að ég væri ljót og vond persóna. Hann sagði að líkami
minn væri svo afskræmdur að ég ætti ekki að láta eðlilegt fólk sjá
mig. Stundum grét ég þegar hann lét sem verst en þá hlakkaði í
honum og hláturinn ómaði hærra en nokkru sinni.
Púkinn varð hluti af lífi mínu og eina leiðin sem ég kunni til
að lifa með hann í hjartanu mínu var að samþykkja hann og allt
sem hann sagði. Púkinn þóttist vera hluti af mér og ég leyfði hon-
um að trúa því. Ó, hvað ég var eftirlát við þessa andstyggð. Og
reyndar ruglaðist ég iðulega í ríminu. Hvað var ég að segja og
hvað var hann að segja? Það er reyndar ekkert skrýtið, ég hafði
gefið honum röddina mína. Svona leið langur tími. Þetta var tím-
inn sem púkinn notaði til að tæta mig í sig og honurn gekk vel.
Þangað til dag einn að ég tók ákvörðun. Ég tók þessa ákvörð-
un af því að ég er lifandi. Ég ákvað að lifa áfram en ég ætlaði að
hætta að vera fórnarlamb ofbeldismannsins og púkans. Það var
eins og að klífa himinhátt fjall. Fjall sem var fullt af grjóti og hrika-
legum skriðum. Oft hrasaði ég svolítið aftur niður en aldrei mjög
langt. Ég stóð alltaf í fæturna aftur því upp skyldi ég fara. Púkinn
skammaðist og reifst alla leiðina og vissulega hlustaði ég oft á
hann. Mér fannst hann vera eins og þungur steinn í hjarta mínu
sem æ erfiðara var að burðast
með. Ég fann núna að púkinn var
sko enginn hluti af ntér og hafði
aldrei verið. En það var erfitt að
sannfæra hann um það, hann
heyrði nefnilega aldrei til mín.
Hvernig gat ég talað inn í hjartað á
mér? Púkinn fór létt með að tjá sig, ég
talaði alltaf fyrir hann sem fyrr.
Ég fann að hann var að hægja á ferð
minni og ég vissi líka að ég kæmist aidrei alla
leið með hann inní mér. Ég hugsaði ráð mitt og
allt í einu vissi ég hvað ég gæti gert.
Ég lagðist niður í grænt og fallegt gras og fyllti
skilningarvit mín öll með lífinu. Þá fór ég með
mína og leitaði inn í hof mitt. Þar fann ég sterkan vit
og horfði á hann þar til hendur mínar urðu logagyllt-
ar. Og ég fór inn í hjarta mitt og sá hvað allt var fal-
legt, nema púkinn. Með sólina í höndunum reif ég
púkann úr brjósti mínu og skildi aðeins eftir feg-
urðina. Púkann setti ég upp á öxlina mína þar
sem hann grenjaði af ótta við birtuna. Ég tók af
honum mína rödd og hann neyddist til að nota
sína eigin.
Þegar ég opnaði augu mín næst, sá ég púk-
ann í sinni réttu mynd í fyrsta sinn. Hann var
lítill og horaður. Ræfilslegur og aumkunar-
verður. Og ég fann að hann mundi ekki segja
mér til framar. Hann reyndi nú samt, eins for-
hertur og hann er. En ég svaraði honum fullum
hálsi. Rödd mín var sterk og hljómfögur en
hann skrækti bara eitthvað, samhengislaust
og mjóróma.
Nú leið mér vel. Upp frá þessu hefur púkinn
hangið á öxl minni, hálfmeðvitundarlaus og rugl-
aður. Hann röflar stundum eitthvað en þegar ég læt
hann útskýra sig þá getur hann það ekki og þagnar.
Púkinn má alveg vera á öxlinni því með sinni eig-
in rödd segir hann ekki margt sem hlustandi er á. í
hjarta mitt fær hann aldrei að koma framar, ég á það
sjálf.
Ég er víst falleg manneskja og ég er líka svolítill sigurvegari.
4 9
VERA •