Litli Bergþór - 01.03.2003, Blaðsíða 4

Litli Bergþór - 01.03.2003, Blaðsíða 4
Formannspistill Hinn 22. febrúar var haldið 81. héraðsþing HSK í Þjórsárveri. Um 90 manns mættu á þingið frá 38 aðildarfélögum HSK og einu sérráði sambandsins auk stjórna og gesta. Nutu fulltrúar gestrisni félaga úr Umf. Vöku og Villingaholtshrepps. Margt var rætt á þinginu og ýmis mál reifuð. Formannsskipti urðu í sambandinu þar sem Ámi Þorgilsson á Hvolsvelli, sem verið hefur formaður frá 1995, gaf ekki kost á sér. En maður kemur í manns stað, og Gísli Páll Pálsson úr íþróttafélaginu Hamri í Hveragerði tók við formennsku. Árna voru þökkuð góð störf í þágu sambandsins og Gísli Páll boðinn velkominn til starfa. Þess má geta að Gísli Páll hefur starfað í stjórn sem ritari og gjaldkeri. Fram kom að fjárhagsstaða sambandsins er betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir og munar þar verulega um aukna greiðslu frá lottóinu. Nokkur umræða varð um mætingu fulltrúa og að borið hefði á því að menn færu áður en þingstörfum lyki. Engilbert Olgeirsson framkvæmdarstjóri upplýsti að heimild væri að halda eftir af lottógreiðslu til félaga sem sendu ekki fulltrúa sína og miðað við lottógreiðslur sem HSK fékk á síðasta ári var gildi hvers fulltrúa rúmar 24.000 kr. Nóg um það. Meðal gesta á þinginu var Anna Möller úr stjórn UMFI og kom fram í orðum hennar meðal annars að talsverð aukning væri á iðkun fimleika á sambandssvæðinu. Vigdís Guðjónsdóttir spjótkastari Umf. Skeiða- manna var kosin íþróttamaður HSK í annað skipti. Vigdís sigraði á öllum mótum innanlands í spjótkasti og varð í fjórða sæti á Evrópumóti í Tallin í Eistlandi þar sem hún kastaði 49,42 m. Óskum við Skeiðamönnum til hamingju með afrek hennar. Okkar maður Axel Sæland varð í 14. sæti í kjörinu sem borðtennismaður og óskum við honum innilega til hamingju með 'góðan árangur. Ungmennafélagið stóð fyrir námskeiði í skyndi- hjálp í Aratungu 13. febrúar í samvinnu við Rauðakrossdeild á Suðurlandi. Leiðbeinendur á þessu námskeiði voru Tómas Þórir Jónsson og Sigríður Sæland. Þau fóru yfir ýmis mikilvæg atriði eins og legu sjúkra og slasaðra, mat á ástandi slasaðra og mismun á blæstri og hjartahnoði við börn og fullorðna. 15 manns sóttu námskeiðið. Á þessum björtu dögum og vorveðráttu óska ég lesendum alls góðs og þakka öllum þeim er leggja Ungmennafélaginu lið. Með kveðju. Guttormur Bjamason. Sigríður Sœland hjartahnoðar. Heiðursfélaga minnst Eiríkur Ágúst Sæland heiðursfélagi í Ungmennafélag Biskupstungna andaðist 22. nóvember 2002, áttatíu ára. Hann var fæddur 28. apríl 1922 í Hafnarfirði og ólst þar upp. Eiríkur flutti í Biskupstungurnar ásamt fjölskyldu sinni í maí 1948. Fyrstu árin fóru í uppbyggingu gróðrastöðvarinnar Espiflatar. Eiríkur hafði lítil afskipti af Ungmennafélaginu á þeim árum, en þegar börn hans komust til þroska og fóru að stunda sund og aðrar íþróttir varð hann mjög virkur félagi. Hann var kosinn formaður 1959 og var það til 1962. Hann var formaður þegar Aratunga var að komast í notkun. Það þótti öllum sjálfsagt að hefja starfið í Aratungu með veglegri leiksýningu, og var íslenska leikritið Lénharður fógeti valið sem fyrsta verkefni á fjalir Aratungu. Eiríkur lék ekki, en sá um að hvísla og komu góðir hæfileikar og bókhneigð þar sér vel ásamt allri annarri umsýslu, en leikstjóri var Eyvindur Erlendsson. Þá var Eiríkur bókavörður og í bókasafnsnefnd og sá um bókakaup um árabil. Hann vann í félaginu af miklum krafti og dugnaði. Hann var kosinn heiðursfélagi þegar félagið varð áttatíu ára 1988. Fyrir hönd Ungmennafélags Biskupstungna vil ég þakka hans ágætu störf fyrir félagið og einnig fyrir samstarfið sem við áttum í bókasafninu. Ég sendi Huldu konu hans og börnum samúðarkveðjur og bestu þakkir fyrir liðin ár. Sigurjón Kristinsson. Litli Bergþór 4

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.