Bændablaðið - 14.05.2009, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 14.05.2009, Blaðsíða 7
7 Bændablaðið | fimmtudagur 14. maí 2009 Ágætu lesendur. Hreiðar Karlsson á Húsavík óskar gleðilegs sumars með þessari vísu: Okkur flytur andvarinn ilm af horfnum ströndum. Vorið fer um vanga minn vinsamlegum höndum. Fleiri Þingeyingar hafa vissu- lega orðið varir við vorið. Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Fía á Sandi, yrkir: Sýnist úti sumar blítt sólin bræðir krapið. Allt er nú sem orðið nýtt einkanlega skapið. Þegar komið er af Vatnsskarði til austurs leynir fegurð Skaga- fjarðar sér ekki. Jón Gissurar- son bóndi í Víðimýrarseli í Skagafirði þekkir þetta vel og fær aldrei leið á útsýninu af heima- hlaði. Með vorinu orti hann: Vorsins góða varmann þrái, vel hann gleður hjörð. Útsýnið ég alltaf dái yfir Skagafjörð. Logi Óttarsson frá Garðsá í Eyjafirði bjó til fyrir nokkr- um árum fokdýra vísu í tilefni vorkomunnar. Hún er ort undir hagkveðlingahætti, þrælrímuð, skýr og stuttaraleg: Sunnan átt kelar kátt. Hverfur brátt hjarnið grátt. Fuglar dátt syngja sátt, sumir hátt, aðrir lágt. Eiríkur Páll Sveinsson orti á páskum forðum daga þegar upp- risusólin vermdi hann til lífs og sálar: Úti er snævar breiða blá, blikar sól á fjöllum. Hæglát skýin himni á hlýja mér nú öllum. Í síðasta þætti birti ég vísu eftir Geir í Eskihlíð. Nú hef ég haft spurnir af því að hún hafi verið ort er Matthías Á. Mathiesen þurfti að bregða sér burt frá hugðarefni sínu, hestamennsk- unni og góðum félagsskap þar, til að sitja afar áríðandi fund. Þá orti Geir þessa vísu: Illa bítur orðastálið algengast er það: Halda fundi, hugsa málið en hafast ekki að. Geir var fæddur 1902 og lést í ársbyrjun 1995. Síðasta vísan hans var svona: Andinn verður aldrei strand en allir verða að deyja. Eilífðin er „óskipt land“ eins og bændur segja. Önnur vísa Geirs er öll á dýpt, breidd og hæð. Þar sést líka að hugsunin hefur færst í líkan farveg og birtist í seinni ljóðum Einars skálds Benediktssonar. Geir yrkir um nálægð dauðans við lífið: Verið róleg, engin æðruorð. Við eigum von á löngu þekktum gesti. Þá dauðans skál er tæmd við tregans borð er trúin okkar besta vegarnesti. Með þessum orðum Geirs kveð ég að þessu sinni. Áfram með vorverkin og fram til betri tíðar hvað sem öðru líður! Umsjón: Hjálmar Jónsson hjalmar@domkirkjan.is Í umræðunni MÆLT AF MUNNI FRAM „Bændur eiga síðasta orðið í atkvæðagreiðslu,“ sagði Sigur- geir Sindri Sigurgeirsson, for- maður Landssamtaka sauðfjár- bænda, á kynningarfundi um breytingar á gildandi búvöru- samningi varðandi starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurfram- leiðslu, en skrifað var undir breytingarnar um miðjan apríl. Kynningarfundir hafa verið haldnir víða um land á liðnum dögum og lagði Bændablaðið leið sína á einn slíkan, í Hlíðarbæ í Hörgárbyggð. Þar kynntu nafn- arnir Sigurgeir Sindri og Sigur- geir Hreinsson, formaður Bún- aðarsambands Eyjafjarðar, þær breytingar sem gerðar hafa verið á búvörusamningnum og á eftir urðu nokkrar umræður. Sindri fór yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið og snúa að starfsskilyrðum í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu, en sem kunn- ugt er var í fjárlögum ársins 2009 ákveðið að skerða samningsbundn- ar greiðslur samkvæmt búvöru- samningnum vegna erfiðleika í rík- isfjármálum í kjölfar bankahruns- ins. Bændasamtökin mótmæltu þeim gjörningi en viðræður milli samtakanna og ríkisins leiddu til áðurnefndra breytinga á samning- unum sem nú er verið að kynna bændum. Engar breytingar verða á framlögum þessa árs, en á næsta ári, 2010, kemur til 2% hækkun óháð verðlagsþróun. Sama hækkun verður árið á eftir, 2011, auk þess sem við bætist helmingur af því sem upp á vantar til að framlag árs- ins uppfylli gildandi samninga, þó aldrei meira en 5%. Greitt verður samkvæmt gildandi samningi árið 2012. Þá verða samningar fram- lengdir um tvö ár. Sindri sagði samninginn kynnt- an sem lið í nýrri þjóðarsátt, því yrði bagalegt ef hann yrði felldur í atkvæðagreiðslu. „Þá mun á ný ríkja mikil óvissa um framtíðina og það er alveg víst að stjórnvöld munu skera niður. Við getum auð- vitað farið dómstólaleiðina, farið í mál við ríkið vegna vanefnda á búvörusamningnum, en ég tel mun skynsamlegra að halda sig nú til hlés, anda með nefinu og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Sindri. Hann taldi það mjög slæmt fyrir ímynd landbúnaðarins að hefja málsókn gegn ríkinu á þess- um tíma, það væri dýrt og langt ferli og lögmenn hefðu talið samn- ingaleið betri. „Ég tel að ef við ekki samþykkjum þennan samning muni geta komið til frekari þvingana af hálfu ríkisins og það er mun verri staða fyrir okkur,“ sagði hann. Breytingar á búvörusamningi hafa bæði kosti og galla að mati Sindra. Helsti gallinn er sá að enga fallhlíf er þar að finna, þ.e. verði verðbólga mikil á komandi miss- erum lendi bændur í slæmri stöðu, en það er kostur að samningstíminn er lengri og gæti tíminn því nýst til að gera traustari áætlanir til lengri tíma. „Vonandi verða runnir upp betri tímar en nú þegar við setjumst næst að samningaborði,“ sagði Sindri. Alverst ef kerfið hrynur yfir okkur Í umræðum eftir framsögu var farið vítt og breitt yfir sviðið, m.a. var spurt hvort menn hefðu einhverja hugmynd um hvert yrði greiðslu- mark í mjólk á næsta verðlags- ári. Útlitið er slæmt að mati fram- sögumanna, neysla er að dragast saman, einkum á dýrari vörum, og sala að færast yfir á þær ódýr- ari, en það þarf ekki að hafa áhrif á greiðslumarkið, sem væntanlega verður gefið út um miðjan júní. Sigurgeir Hreinsson nefndi að verð á nýmjólk væri hvergi í Evrópu lægra en hér á landi, enda væri því haldið í lágmarki og vinnslan fengi sína framlegð í gegnum dýr- ari vörur. Hann sagði Mjólku græða mest á kerfinu eins og það væri nú, þó menn þar á bæ héldu öðru fram. Kerfið væri að sumu leyti meingallað og brýnt að ná fram á því breytingum, en alverst væri „ef það hrynur yfir okkur“, eins og hann orðaði það. Nefndi hann einnig að kvótar yrðu lagðir niður í Evrópusambandslöndunum árið 2015 og það myndi án efa hafa áhrif á pólitíska afstöðu manna hér á landi. Aðspurður hvort samning- urinn héldi gagnvart ESB, taldi hann fullvíst að forsendur gætu breyst á þann máta að samning- urinn yrði ónýtur. „En ég spái því að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu innan ákveðins tíma, en málið svo fellt í þjóðarat- kvæðagreiðslu!“ sagði Sigurgeir. Erum enn í öldudal Ýmis fleiri mál voru rædd, m.a. að búnaðarlagasamningur væri enn opinn og óttuðust menn mjög að inn í hann yrði farið. Nú eru um 580 milljónir króna í þeim samn- ingi og töldu fundarmenn fullvíst að framlagið yrði skorið niður líkt og boðað hefur verið varðandi rík- isstofnanir. Þá spáðu menn í spilin varðandi vexti og verðbólgu, slæma stöðu landbúnaðarins og atvinnu- lífsins almennt í landinu og loks ræddu menn um kjötsölu, en sama er uppi á teningnum þar og í mjólk- inni, ódýru vörurnar seljast en hinar dýrari síður. Þannig nefndi fund- armaður að bóndi sem framleiðir nautakjöt næði ekki að selja dýr- ustu bitana og væri svo komið að nánast allt færi í hakk, sama hvað vöðvinn héti. Hvað lambakjöt varð- ar sáu menn sóknarfæri. Skortur væri á heimsmarkaði, m.a. vegna mikillar fækkunar á Nýja-Sjálandi, þar sem þurrkar og hátt verð á landi hafa sett strik í reikninginn. „Við erum enn í öldudal, en von- andi tekst okkur að komast upp úr honum á næstu misserum. Þessar breytingar á búvörusamningnum eru tilraun til að hafa eitthvað fast framundan. Það er erfitt að fara þá leið að sækja okkar rétt til ríkisins gegnum dómstóla á sama tíma og við værum að standa í viðræðum um nýjan samning. Vissulega geta menn haft mismunandi skoðanir á þessum breytingum, en að mínu mati er það almennt jákvætt að fara þessa leið, samþykkja samninginn og nýta tímann til að byggja upp vegna næsta samnings. Ég hvet menn því til að samþykkja hann,“ sagði Sindri. MÞÞ Breytingar á búvörusamningi kynntar á fundi með bændum í Hlíðarbæ í Hörgárbyggð Skynsamlegast nú að anda með nefinu og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér Viðar Þorsteinsson í Brakanda (t.v.) og Birgir Arason í Gullbrekku. Atkvæðagreiðsla um samningana ‚Samningarnir eru gerðir með fyrirvara um sam- þykki bænda í almennri atkvæðagreiðslu. Sú atkvæðagreiðsla fer fram með póstkosningu og verða atkvæðaseðlar póstlagðir 14. maí. Bændur ættu því að hafa fengið atkvæðaseðla í sína hend- ur 15. maí eða í síðasta lagi 18. maí. ‚Með atkvæðaseðlinum fylgir umslag sem merkt er „Umslag fyrir kjörseðil.“ Í það umslag skal setja kjörseðilinn. Annað umslag sem merkt er Bændasamtökum Íslands fylgir einnig með. Í það skal setja umslagið með kjörseðlinum, rita nafn sitt aftan á og póstleggja svo. ‚Atkvæðagreiðslan fer fram á tímabilinu 15. maí til 29. maí og þurfa atkvæðaseðlar að hafa bor- ist skrifstofu Bændasamtaka Íslands í síðasta lagi þann 29. maí. ‚Talning fer fram 2. júní næstkomandi. ‚Á kjörskrá eru eru handhafar hvers kyns bein- greiðslna (beingreiðslur mjólkur, beingreiðslur sauðfjár, gripagreiðslur og gæðastýringarálags). Séu fleiri en einn aðili að búrekstrinum og eru jafnframt félagar í búnaðarfélagi/búnaðarsam- bandi og/eða búgreinafélagi hafa þeir einnig kosningaréttrétt. ‚Kjörskrár munu liggja frammi hjá búnaðarsam- böndum. Séu bændur ekki á kjörskrá en telji sig eiga atkvæðisrétt eru þeir hvattir til að senda kæru til kjörstjórnar. Þá kæru þarf að senda á skrifstofu Bændasamtaka Íslands og merkja til kjörstjórnar vegna kosninga um búvörusamninga. Einnig er hægt að senda kærur á kjörstjórn með tölvupósti á Ernu Bjarnadóttur formann kjörstjórnar á póst- fangið eb@bondi.is. Allir bændur eru hvattir til að taka þátt í kosn- ingunni. Breytingar á búvöru- samningum Breytingar á samningunum fela eftirfarandi í sér: ‚ Framlög á árinu 2009 verði samkvæmt fjárlögum. ‚ Framlög ársins 2010 verði 2% hærri en 2009, óháð verðlagsþróun. ‚ Árið 2011 hækki framlög aftur um 2%, en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag árs- ins uppfylli ákvæði gildandi samnings. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%. ‚ Árið 2012 verði greitt sam- kvæmt gildandi samningi, en þó með fyrirvara um 5% há- markshækkun eins og árið 2011. ‚ Báðir samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum. Breytingarnar fela ekki ann- að í sér. Borið hefur á þeim misskilningi að breytingarnar þýði verðstöðvun á afurðum og að þeir hafi áhrif á verðlags- nefnd búvara. Því er rétt að taka fram eftirfarandi: ‚ Breytingar á búvörusamn- ingum innihalda engin ákvæði um verðstöðvun. ‚ Breytingarnar hafa engin áhrif á störf verðlagsnefndar búvara. ‚ Forystufólk ríkisstjórnarinn- ar hefur gefið það út að verði breytingarnar samþykktar muni bændur ekki þurfa að taka á sig frekari byrgðar í þeirri efnahagslegu upp- byggingu sem framundan er. Breytingar á búvöru- samningum kynntar Kynningarfundum vegna breyt- inga á búvörusamningum um starfskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu lauk þriðjudaginn 5. maí með fundi á Ísafirði. Átján fundir voru haldnir um allt land, þeir fyrstu 30. apríl síðastliðinn. Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og búgreinafélaganna mættu á fundina og kynntu fundargest- um breytingarnar og sátu fyrir svörum. Þrátt fyrir annatíma í sveitum þessa dagana var mæt- ing almennt ágæt en þó nokkuð misjöfn milli funda. Að sögn Haraldar Benedikts- sonar formanns Bændasamtakanna var nokkuð mismunandi hvaða skoðun fundargestir höfðu á breyt- ingunum. „Það virðist vera svolít- ill misskilningur í gangi varðandi hvað þessar breytingar þýða. Það mátti heyra á máli manna að þeir óttuðust sumir hverjir að með þess- um breytingum væri verið að skrifa upp á verðstöðvun á afurðaverði næstu árin. Það er ekki. Í þessum samningum er einfaldlega verið að koma aftur á eðlilegum samskipt- um milli ríkis og bænda sem fóru í uppnám við síðustu fjárlagagerð. Samningarnir eru lengdir um tvö ár og það er komið á ákvæði um hámarksskerðingu verðbótaþátt- arins. Á árunum tveimur sem bætt er við verður samningurinn fram- kvæmdur að mestu á óbreyttum forsendum. Við teljum einfaldlega að við þær aðstæður sem nú eru uppi höfum við verið að verja bændur fyrir frekari niðurskurði og jafnframt eru bændur að leggja sitt af mörkum til þeirrar efnahagslegu uppbyggingar sem óhjákvæmilega er framundan. Þar verða engir und- anskyldir, ekki heldur bændur. Við höfum hins vegar verið fullvissaðir um að bændur séu nú búnir að taka á sig sínar byrðar, það verði ekki lagt meira á þeirra herðar.“

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.