Bændablaðið - 14.05.2009, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 14.05.2009, Blaðsíða 18
18 Fósturlát Framhald af bls. 17 menn gert lítilsháttar breytingar í Skarðaborg í Reykjahverfi. Má segja að megin breytingin sem gerð var hafi verið niðursetning jarðskauta og binding allra stærri málmhluta í útihúsum við áður- nefnd jarðskaut en þekkt er að gæði jarðskauta stuðlar að lækkun THD- gildis í rafmagni. Áhrif breytinga á rafmagnsgæðum Eftir breytingarnar á rafmagninu beið ég spenntur eftir talningunni í vetur. Við byrjuðum að telja hjá okkur upp úr miðjum janúar og töldum þá í gemlingunum. Mikið var af lömbum í þeim og allt virtist með eðlilegum hætti. Við töldum síðan í öllu fénu um mánaðarmót- in jan/feb. Öll lömb voru þá enn í gemlingunum og gríðarlegur fjöldi lamba í ánum. Sömu sögu var að segja um nágrannabæinn hjá Urðum ehf. þar sem við töldum einnig um mánaðamótin jan/feb. Gemlingarnir voru vel lembdir og mikið af lömbum í ánum. Loka- talningu gerðum við svo 11. mars á báðum búum og má með sanni segja að niðurstaða þeirra talninga hafi verið önnur en á undanförn- um árum. Hjá okkur á Félagsbúinu Sandfellshaga sáust 3 „skrýtin“ fóstur í ánum í febrúar og voru þau öll farin í talningunni í mars. Átta lömb til viðbótar voru einnig farin. Í gemlingunum voru öll lömb lif- andi í mars og það sem merkilegra er að fanghlutfallið var í ríflega 95%. Hjá Urðum ehf. var fanghlut- fall gemlinganna um 86% og ærnar með mikið af lömbum. Þó hurfu úr ánum nokkur lömb á milli talninga í jan/feb og mars. Í Skarðaborg var litlar breytingar að sjá, þó varð ég ekkert var við fósturdauða þar sem þó hafði verið viðvarandi vanda- mál árin á undan. Spurning er því áfram hvort breytingar hafi verið gerðar of seint í þessum tilraunum. Í vetur taldi ég á sama svæði og undanfarin ár, þó á heldur færri bæjum í Skagafirði en að sama skapi á fleiri bæjum hér á Norð- austur- og Austurlandi. Það sem vakið hefur athygli mína í talning- unni í vetur er hversu lítið ég hef orðið var við fósturdauða almennt á svæðinu. Þó hafa komið inn örfá tilfelli og eitt verulega slæmt sem er einmitt á nágrannabæ okkar hér heima í Öxarfirði. Þar sýnist mér að hafi farið um 100 fóstur úr full- orðnum ám jafnt sem gemlingum. Fréttir hafa hins vegar borist í ár af talsvert miklum fósturdauða á vest- anverðu landinu. Hvað lærðum við í vetur? Niðurstöður fósturtalninga hjá okkur í Sandfellshaga eru sýndar á meðfylgjandi myndum. Athygli vekur að ekkert lamb fer úr geml- ingunum á milli talninga þetta árið. Það hef ég ekki séð hér á bæ frá því ég hóf fósturtalningar í byrjun árs 2004. Eftirtektarvert er einnig hve margar ær eru fleirlembdar og aldrei fyrr höfum við fengið jafn margar fjórlembur. Á Sandfellshagabúunum báðum tapa í vetur einungis um 2% full- orðnu ánna fóstri. Þetta er vissu- lega tveimur prósentum of mikið en þó mjög ásættanleg niðurstaða miðað við fyrri ár. Eru þessi 2% sem ég sé fara í fósturtalningunni eðlilegt hlutfall? Eru þessi 2% kanski sá hluti fóstranna sem fer af „náttúrulegum orsökum“? Ef rafmagnið er áhrifavaldur, gæti þá hugsast að breytingarnar hafi verið gerðar heldur seint? Þær breytingar sem gerðar voru með það að markmiði að minnka rafmengun virðast hafa skilað árangri. Þó er sauðburður ekki haf- inn og spyrja verður að leikslokum. Sandfellshagi býr við þá sérstöðu að við gátum aftengt okkar gamla orkusala frá tenglum bæjarins og styðjumst því eingöngu við raforku sem er framleidd á bænum. Þetta gerir hverskonar breytingar á raf- magni mun einfaldari en á flestum öðrum búum. Brynjólfur og hans menn hafa í vetur gert breytingar og umbætur á rafmagni sem leitt hafa til lækk- unar THD-gildis á þó nokkrum bæjum á Norður- og Austurlandi. Erfitt hlýtur þó að vera að ná full- nægjandi árangri við þetta ef orkuveiturnar skila mengaðri fram- leiðslu til notenda. Brynjólfur og hans menn telja sig þó hafa fund- ið lausn á þessu og hafa starfað í vetur eftir henni. Þessar lausnir eru þó talsvert mikið kosnaðarsamari samanborið við það ef orkusalarn- ir skiluðu almennt heim á bæina hreinna rafmagni. Á einum bæ í Fljótsdal náðist að gera breytingar í desember en á flestum hinna bæjanna ekki fyrr en í janúar og febrúar. Ég hef ekki tölulegar upplýsingar um fjölda lamba á bænum í Fljótsdal en í talningu í vetur varð ég ekki var við neinn fósturdauða sem hefur þó verið umtalsverður síðastliðin tvö ár. Eitt af mínum aðal áhugamál- um síðustu ár hefur verið að leita orsaka fyrir fósturdauða í sauðfé. Eins og staðan er í dag virðist rafmengun og ófullnægjandi raf- magnsgæði vera eina mögulega skýringin. Hvort það reynist rétt breytir þó litlu um það að við sem kaupendur raforku frá orkusala hljótum að eiga skýlausa kröfu um að rafmengun sé innan leyfi- legra marka. Ekkert matvælafram- leiðslufyrirtæki er sett á laggirnar á Íslandi í dag án þess að vatnsgæði séu skoðuð. Ætti slíkt hið sama ekki að gilda um rafmagn? Ég mun styðja þann hóp heils- hugar sem vill beita sér fyrir frekari rannsóknum á fósturdauða í ám og gemlingum. Ef rafmengun reynist orskavaldur skulum við heldur ekki útiloka áhrif hennar á t.d. sjúkdóma í búfé og almennt heilbrigði þess. Áhrif til hins verra á okkur mann- fólkið skulum við heldur ekki úti- loka. Tilraunum með áhrif rafmeng- unar á fósturdauða mun ég halda áfram hér í Sandfellshaga og Skarðaborg í samstarfi við Brynjólf og hans menn hjá Orkulausnum ehf. Einnig hef ég áhuga á að koma upp fleiri tilraunabæjum á mínu talningarsvæði þar sem þetta vandamál er viðvarandi. Vonast ég eftir stuðningi við það frá fag- aðilum og öðrum þeim sem málið varðar. Af ofansögðu má vera ljóst að afar mikilvægt er að staðfesta með einum eða öðrum hætti hvort rafmagn og rafmengun hafi áhrif á fósturdauða og almennt heilbrigði sauðfjár. Ég held að almennari skilningur á þessum málum sé að koma fram í auknum mæli. Annars tel ég að Orkustofnun og ríkið sjálft þurfi að svara betur og með skýrari hætti fyrir þeirra hlið á mál- inu. Reglugerðir hljóta að vera sett- ar með það að markmiði að farið sé eftir þeim. Bændablaðið | fimmtudagur 14. maí 2009 Margir hafa sjálfsagt upplifað það að nýfætt lamb er bæði slappt og virðist ekki geta haldið á sér hita. Þessi lömb deyja gjarnan ef ekkert er að gert. Ástæður geta verið margar en næringarskortur og ofkæling skipta miklu máli. Norðmenn þekkja þetta vandamál eins og við og hafa komið á fram- færi aðgengilegum upplýsingum fyrir bændur. Hér á eftir er frjáls- leg þýðing á efninu með von um að einhverjum nýtist það á kom- andi dögum í sauðburði. Nýfædd lömb hafa þörf fyrir bæði mótefnin og orkuna sem eru í broddmjólkinni, auk þess inni- heldur mjólkin mikilvæg vítamín, og hormón sem eru nauðsynleg fyrir eðlilega þarmastarfsemi. Eðlilegur hiti á nýfæddu lambi er milli 39-40°C, en fari hiti niður á milli 37 og 39°C er talað um væga ofkælingu, hiti undir 37°C er alvarleg ofkæling. Lambið þarf mikla orku til að halda uppi eðlilegum hita, og áður en það fær broddmjólkina nýtir það eigin forða til hitaframleiðslu. Forðinn er orka í lifur, vöðvum og brúna fitulaginu en hún endist lambinu venjulega til hitafram- leiðslu í fimm klukkustundir. Umhverfisþættir hafa mikil áhrif á hversu mikið af eigin forða lambið þarf að nota til að halda að sér hita. Kuldi og trekkur eykur varmatapið verulega. Þegar ærin karar lambið þornar það fyrr og hitatap verður minna fyrir vikið. Hitatap sem er meira en lambið ræður við leiðir til lækkunar á lík- amshita og síðan ofkælingar. Lömb yngri en 5 klukkustunda Hjá mjög ungum lömbum getur skýring á lágum líkamshita verið kuldi í umhverfi, eða erfiður burð- ur sem leiddi til súrefnisskorts hjá lambi og minni orkuframleiðsla fyrir vikið. Lömbum undan van- halda ám sem eru ekki í góðum holdum er hættara á ofkælingu vegna minni meðfæddra orku- birgða til hitaframleiðslu. Eldri lömb (eldri en 5-12 klukkustunda) Algeng ástæða fyrir ofkælingu eldri lamba er skortur á brodd- mjólk en þá eru meðfæddu orku- birgðirnar uppurnar. Næringar- skorturinn getur verið vegna spena vandamála, júgurbólgu eða lélegrar mjólkurframleiðslu. Burður getur líka haft áhrif á lömbin, brotin rifbein, sýking og hörð samkeppni milli þrílembinga sem veldur því að lambið fær ekki nægilega mikið af broddmjólk. Auk þess eru lömb undan ám með litla móðurkennd síður örvuð til að fara á fætur og sjúga. Einkenni Að mæla hita er besta aðferð- in, en lömbin hafa tilhneigingu til að vera í ákveðinni stellingu, draga sig saman í fósturstellingu til að minnka yfirborðskælinguna. Skjálfti getur einnig verði ein- kenni. Ofkælt lamb er slappt og missir meðvitund smám saman. Meðferð við ofkælingu á lambi Aðferðir eru mismunandi eftir því hversu svæsin kælingin er og hve gamalt lambið er. Fyrsta skrefið er að mæla hita og þurrka lambið. Í flestum tilfellum er nauðsynlegt að gefa lambinu næringu áður en það er hitað upp. Ef lambið er hitað strax upp getur það leitt það til dauða, því þegar orkubrennslan fer af stað, fær heilinn ekki nær- ingu. Hjá nýfæddum lömbum (yngri en fimm tíma) er nægileg- ur forði af brúnni fitu og því má hita þau strax. Næringu er hægt að gefa í gegnum magasondu (brodd- mjólk). Þegar búið er að koma næringu í lambið má hita það upp þar til það nær 37°C. Þetta er gjarnan gert í hitakassa eða í 40°C umhverfishita. Upphitun á lambi Heitur kassi eða rými (40°C) er besti kosturinn, en hver og einn þarf að finna sína aðferð. Nota má hitalampa, heitt baðgólf, flöskur með heitu vatni í kringum lamb- ið, hitateppi, eða blaut handklæði í plast poka hituð í örbylgjuofni. Byrjið samt á að þurrka lambið, það dregur verulega úr hitatapinu, svo þarf að fylgjast með líkams- hitanum til þess lambið ofhitni ekki. Það má taka það úr „upphit- un“ þegar það er búið að ná 37°C. Best er að fyrirbyggja Meðhöndlun á ofkældu lambi er tímafrek og því best að reyna að koma í veg fyrir ofkælinguna. Helst eiga öll lömb að vera komin á fætur og á spena innan fjögurra klukkutíma frá fæðingu. Sum hver þurfa aðstoð við að kom- asta á spena og því gott að vakta nýfædd lömb til að tryggja að þau fái nægilega broddmjólk. Mjólkurþörf nýfæddra lamba á fyrsta sólarhring er 50 ml per kg í hvert mál eða samtals 200 ml á sólarhring fyrir hvert kíló. (1 lítri á sólarhring fyrir 5 kg lamb). Broddurinn er afar orkurík- ur og án hans gætu lömbin ekki haldið líkamshitanum uppi. Hann er auðugur af bætiefnum, hægð- arlosandi efnum og hormónum sem skepnan þarf á að halda til þess að þarmarnir þroskist á réttan hátt. Lömbum sem ekki geta tekið til sín broddinn hjálparlaust má hæglega að gefa eina gjöf í gegn- um slöngu til þess að koma þeim af stað og hugsanlega einu sinni enn. Til lengri tíma litið er þó affarasælla að rækta fé sem elur af sér hraust og sjálfbjarga afkvæmi. Halla Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og bóndi Hákonarstöðum Jökuldal þýddi úr norsku Heimild: Synnöve Vatn. 2004. Ned- kjølte lam – forebygging og be- handling. http://www.animalia. no/Artikler/2005/Brrrr-Nedkjolte- lam--- forebygging-og-behand- ling-150604/ Sauðburður og köldu lömbin Inngangur Bótulíneitur eða hræeitur er eitt hið sterkasta taugaeitur, sem þekkt er. Sýkillinn Clostridum botulinum, sem er einn af pestarsýklunum, myndar þetta eitur við ákveðin skilyrði. Þekktar eru 7 mismunandi tegundir af sýklinum. Eiturefni af gerðinni C er algengast í sauðfé. Þessa sjúkdóms fór að verða vart, þegar farið var að gefa rúlluhey. Hræ af fuglum eða smádýrum höfðu þá lent inni í rúllunum og eitrið, sem er erfitt að varast þar sem það er lyktarlaust og bragð- laust, hafði seytlað um heyið frá hræinu. Hérlendis hefur einkum borið á sjúkdómnum í hrossum en einnig hefur hann fundist eða menn hefur grunað að hann væri á ferð þegar sérkennandi einkenni hafa sést í nautgipum og fuglum. Bótúlíneitrun er einnig þekkt í mönnum. Grunur um bótúlíneitrun í stórum stíl í sauðfé í Öxarfirði vorið 2009 Á tímabilinu 15/3-30/4 2009 dóu 21 ær af völdum svæsinnar fóðureitr- unar, sem líktist Hvanneyrarveiki eða Listeriasýkingu á bæ einum í Öxarfirði. Einnig létu tvær ær fjór- um lömbum á sama tímabili. Veikindin lýstu sér þannig, að ærnar misstu lystina, stóðu með framfætur uppi á garða, virtust hafa lyst en átu ekki. Þær stífnuðu upp, misstu jafnvægið á fáum klukku- stundum, lögðust niður og síðan á hliðina, urðu mjög slappar, versn- aði mjög hratt, lifðu einn til tvo sól- arhringa, sumar í skemmri tíma og dóu fljótt eftir það. Nokkrar voru aflífaðar vegna þjáninga. Þrjár teg- undir sýklalyfja í mismunandi styrk voru prófaðar, en allt virtist koma fyrir ekki. Engin ær, sem veiktist lifði af. Veikin lagðist á kindur á ýmsum aldri og jafnt á lélegar sem vel á sig komnar. Undirritaður krufði átta vetra gamla kind, sem send hafði verið frá bænum til rannsóknar í síð- ustu viku apríl. Henni höfðu ekki verið gefin lyf. Ekkert athugavert fannst nema það að spörðin líkt- ust því sem sést í kindum með Hvanneyrarveiki, misjöfn að stærð, mjög dökk, odddregin til beggja enda. Hausinn af kindinni var tek- inn og sendur að Keldum með beiðni um leit að listeriasýklum og almenna ræktun. Ekkert ræktaðist. Vefjaskoðum var einnig án árang- urs. Engar bólgubreytingar fund- ust, sem auðkenna nær því undan- tekningarlaust Hvanneyrarveiki. Undirritaður kom á bæinn 6. maí. Þá var þar ein kind veik, sem gæti hafa verið með sömu veiki. Hún var mjög deyfðarleg, með hangandi haus, át ekki neitt en stóð þó við garðann, slefaði lítillega og sleikti út um, tungan lafði annað kastið út um munninn. Á bænum eru tvenn fjárhús. Í öðrum þeirra var yngra féð fram- an af vetri. Frá hausti var gefið gott hey frá síðasta sumri í báðum húsum: Frá 20. janúar var eldra fénu gefið heldur lakara hey frá sumrinu 2007. Yngra féð fékk sama hey áfram. Um rúlluhey var að ræða eingöngu. Heyið frá 2007 var heldur þurrara en heyið frá 2008 og það var af fremur litlum túnbletti, sem mikið er setinn af fugli, eink- um múkka (fýl). Ekki sáust leyfar af fugli eða smádýrum í heyinu, en eitthvað var tínt af dauðum fugli af túnunum við sláttinn. Ærnar sem dóu voru á ýmsum aldri en einung- is úr húsunum, þar sem heyið frá 2007 var gefið. Á öðrum bæ í Öxarfirði dráp- ust 3 kindur með svipuðum hætti hinn 4. desember og aðrar þrjár hinn 5. desember 2008. Þær voru komnar á hús en var sleppt út að deginum á tún skammt frá bænum. Þær höfðu einnig aðgang að mýr- lendi. Heyrúllur voru látnar út á beitilandið til að koma í veg fyrir að féð færi frá. Þegar bóndinn kall- aði í kindurnar 4. desember, komu þær að nema 3; Þær stóðu og virt- ust hálf stjarfar eða stirðar, hreyfðu sig ekki eða lítið af sjálfsdáðum, lögðust svo fyrir með óeðlileg- an andardrátt og dóu eftir fáar klukkustundir. Þetta endurtók sig daginn eftir með aðrar þrjár. Þessi einkenni geta samrýmst lýsingu á Bótúlíneitrun eða hræeitrun í sauðfé Sigurður Sigurðarson dýralæknir sigsig@hi.is Matvælafrumvarpið Til sölu hús. Til sölu 17 m2 timburhús. Svefnaðstaða fyrir þrjá, klósett, sturta, borðkrókur og raflögn. Húsið er staðsett á tjaldstæðinu við upplýsingamiðstöðina á Egilsstöðum. Nánari upplýsingar gefur Þórhallur Þorsteinsson. Sími 893-2858. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs Bændablaðið Smáauglýsingar. 5630300

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.