Bændablaðið - 14.05.2009, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 14.05.2009, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | fimmtudagur 14. maí 2009 Sigurður Loftsson bóndi í Steinsholti var kjörinn formaður Landssambands kúabænda á síðasta aðalfundi sambandsins. Bændablaðið heimsótti Sigurð á dögunum og tók hann tali um nýja embættið, þær breytingar sem það hefur í för með sér fyrir hans persónulegu hagi og fram- tíðarsýn Sigurðar fyrir mjólk- urframleiðslu í landinu. Sigurður segist telja að eins og staðan sé í dag sé greiðslumarkskerfið sem unnið er eftir í mjólkurfram- leiðslunni besta leiðin til að tryggja gegnsæi og hagkvæmni í greininni. Sigurður geldur var- hug við Evrópusambandsaðild sem að hann telur að yrði hvorki þjóðinni í heild né greininni hag- felld. Blaðamaður byrjar á því að spyrja Sigurð hvaða breytingar nýja embættið muni hafa í för með sér fyrir hann sjálfan og búskap- inn. „Ég sé ekki annað en að ég verði að ráða starfsfólk inn á búið. Búskapurinn hefur mest verið á mínum herðum og þess vegna verð ég að gera einhverjar slíkar ráðstaf- anir. Ég vona samt að ég geti sem mest sinnt þessu hérna að heiman, ég hef ekki áhuga á að verða skrif- stofubóndi.“ – Þú ert ekki nýr í félagsmálum bænda. Hvert er upphafið að þátt- töku þinni í þeim málefnum? „Það fyrsta sem ég tókst á hendur var að ég fór inn í stjórn Búnaðarfélags Gnúpverja og var þar formaður. Fljótlega eftir það lenti ég inni í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi og það er nú kannski sá vettvangur sem stimplaði mig sterkast inn í þessa hagsmunabaráttu bænda. Með tím- anum varð það í raun sterkara en hitt. Ég fann að það togaði mikið í mig, að vera í beinni tengingu við þá félagslegu vinnu sem að snýr beint að afkomu manns sjálfs. Þetta togaði í mig og varð til þess á endanum að ég tók að mér að vera formaður Félags kúabænda á Suðurlandi. Þannig lenti ég í raun inni í félagsneti Landssambands kúbænda, í fagráði í nautgriparækt, fór á Búnaðarþing fyrir landssam- bandið og verð varaformaður þess strax árið 2002. Þannig vatt þetta upp á sig.“ – Áttirðu von á því að þetta myndi vinda svona upp á sig? „Nei, engan veginn. Þetta hefur í raun ekki verið meðvitað. Maður stendur í raun frammi fyrri ákveðn- um valkostum og tekur ákvörðun í hvert og eitt skipti. Maður þarf að taka afstöðu til mjög margra hluta, til sjálfs sín, fjölskyldunnar og búrekstrarins.“ Félagsleg skylda að starfa að hagsmunum bænda – Mér finnst ég greina að það sé tvennt sem ræður för í félagsmála- þátttöku þinni. Annars vegar sé það auðvitað áhugi þinn á málefninu en hins vegar að þú metir það sem félagslega skyldu þína að gefa þig út í þessi störf. Er þetta rétt mat? „Ég hugsa að það sé nokkuð rétt metið hjá þér þó að ég sé ekki viss um að það sé í raun meðvituð ákvörðun. Ég hef alltaf litið þann- ig á að mér finnst ekki sjálfgefið að vera sjálfur í forystu. Ég vil að sumu leyti allt eins vera í bakland- inu. Hins vegar er það nú þannig að ef að hagsmunagæslan er ekki í lagi þá kemur það niður á manns eigin stöðu. Þess vegna er erfitt að skorast undan ef vilji er fyrir því að maður taki þátt. Ef enginn gefur sig í þetta er það veikleiki fyrir grein- ina. Ég held til dæmis að það að við kúabændur höfum átt valkost í formannskosningunum í vetur hafi verið mjög mikill styrkur fyrir greinina. Að geta valið á milli mín, sem hefur starfað innan stjórnar í all nokkurn tíma, og síðan svona sterks aðila eins og Sigurgeirs Hreinssonar vinar míns á Hríshóli. Það var að mínu mati mjög gott og það sem er ekki síður mikilvægt er að samband okkar Sigurgeirs beið engan skaða af, heldur styrktist. Þetta reynir menn.“ – Við sjáum þetta gerast í Lands- sambandi kúabænda og við sáum þetta líka gerast í Landssamtökum sauðfjárbænda. Í áranna rás hefur hins vegar verið talað um að félagskerfi hafi veikst. Ertu sam- mála því og heldur þú að þar sé að verða einhver breyting á? „Við höfum séð miklar breyt- ingar í greininni á síðustu áratug- um og við verðum að horfa á þessi mál í því ljósi. Fyrir áratugum var landbúnaðurinn undirstöðugrein í þjóðfélaginu og bændur voru mun vigtarmeiri þess vegna. Þessi áhrif bænda hafa síðan minkað í áranna rás og það verður að teljast eðlilegt í ljósi breyttrar þjóðfélagsgerð- ar. En þó landbúnaður hafi tapað nokkuð stöðu sinni held ég að það sé ekki vegna þess að við höfum haft veika forystumenn á undan- förnum árum, þvert á móti. Menn eru auðvitað að fást við verkefni í sínum samtíma og ég held að það sé ekki sanngjarnt að segja að félagskerfi bænda sé veikt þó að breytingar hafi orðið á stöðu stétt- arinnar. Bændum hefur fækkað og þar af leiðir auðvitað að við höfum minni áhrif í heild. Atburðir síðustu missera hafa hins vegar valdið því að fólk virðist meðvitaðra um mik- ilvægi þess að geta brauðfætt þjóð- ina með íslenskum landbúnaði. “ Sterkast að vera áfram til staðar – Við greinum breytingu á afstöðu þjóðarinnar til landbúnaðarins eftir hrunið síðasta haust. Það má greina aukna velvild í garð landbúnaðar. Verða bændur ekki að nýta sér þetta andrúmsloft og hvernig eiga þeir þá að gera það? „Ég held að sterkasti leikurinn sé að vera áfram til staðar. Við þurfum að halda áfram að fram- leiða matvæli á sem heilnæmastan, bestan og hagkvæmastan hátt. Við bændur verðum að sýna fram á það að við séum ekki einvörðungu í þessari baráttu fyrir tilvist okkar til þess að viðhalda núgildandi stöðu. Við verðum að vera tilbúnir að vinna með og takast á við breyt- ingar. Við þurfum að sýna að við förum vel með þau gæði sem við höfum, bæði land og búfé sem og þá fjármuni sem við fáum í okkar hendur. Ef okkur tekst þetta þá höldum við góðri ímynd. “ – Þú átt við að bændur eigi ekki bara að vera til, til þess að vera til? „Nei, það er þess vegna sem ég hef aldrei verið hrifinn af stuðningskerfi sem gengur út á það eitt að halda fólki úti á landi. Landbúnaður hefur það eðli að nýta land. Þess vegna leiðir hann af sér byggð sé á annað borð afkoma í greininni. Þess vegna mun öfl- ugur landbúnaður verða akkeri í byggðunum sem leiðir af sér búsetu í nágrenninu. Byggða- eða umhverfistengdur stuðningur leiðir ekki endilega af sér verðmætasköp- un.“ – Ef við horfum framhjá því að bændur og ríkisvaldið verði mögu- lega knúið til þess að til að breyta stuðningskerfinu, með til dæmis aðild að Evrópusambandinu eða vegna WTO-samninganna, ættu íslenskir bændur að knýja á um að breyta því sjálfir? „Ég held það sé alveg ljóst ef menn horfa hlutlaust á það fyr- irkomulag sem við búum við sé vandfundið annað kerfi eins gegnsætt og skilvirkt eins og það sem við höfum. Vandi þessa fyr- irkomulags er sá að á síðustu árum hefur lagst gríðarlegur kostnaður á greinina við aðilaskipti og tilfærslu milli framleiðenda. Það er í raun þannig að allar leiðir hafa kostnað í för með sér. Ef við gæfum fram- leiðsluna frjálsa og fyndum annan farveg fyrir stuðninginn þá er í fyrsta lagi alls ekki víst að sá stuðn- ingur myndi nýtast með sama hætti til að lækka vöruverð. Í öðru lagi er ekki gefið að við hefðum sama vald á framleiðslunni og næðum sama afurðaverði.“ Hár framleiðslukostnaður stærsta vandamálið Sigurður segir að eitt stærsta vanda- mál greinarinnar sé hár framleiðslu- kostnaður. „Okkur hefur ekki tekist nægjanlega að ná þeim kostnaði niður. Fjármagnskostnaðurinn er auðvitað hluti af því en það eru mun fleiri atriði sem telja hér. Fóðurkostnaður er mun hærri hér en víðast í nágrannalöndunum og það sama má í raun segja um flest- an annan kostnað.“ – Hverju þarf þá að breyta til að ná framleiðslukostnaðinum niður? „Fjármagnskostnaður er auð- vitað stór hluti af þessu og það vandamál verður ekki leyst fyrir bændur sérstaklega, það er sam- eiginlegt vandamál allra lands- manna sem þarf að komast fyrir. Þyngsti kostnaðurinn er held ég fóðurkostnaðurinn. Annars vegar er það heimaaflaða fóðrið og hins vegar kjarnfóðrið. Það er hrópleg- ur munur á verði kjarnfóðurs hér á landi og í nágrannalöndunum og það er eitthvað sem við hljótum að geta unnið einhvern bug á. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort okkur bændum sé að blæða fyrir erfiða rekstrarstöðu fóðurfyrirtækj- anna. Ef svo er má spyrja hvort það sé ásættanlegt. Síðan er líka heima- vandi í greininni. Við höfum búið okkur til nokkurn vanda sjálf í gríð- arlega mikilli fjárfestingu í búnaði til fóðuröflunnar. Ég er sannfærður um hægt sé að auka samnýtingu og verktöku að þessu leyti, og það yrði greininni til hagsbóta.“ – Hvernig er hægt að auðvelda nýliðun í greininni? „Það sem gerðist allra síðustu ár var óeðlilegt flug á öllu verð- lagi og yfirgnógt af lánsfjármagni. Þetta hafði áhrif á jarðaverð eins og annað. Á sama tíma erum við að framleiða innan kerfis sem er lokað, markaðurinn er takmark- aður við þá eftirspurn sem er eftir mjólkurvörum innanlands. Þegar menn fara síðan út í uppbyggingu og aukningu á framleiðslu myndast yfirspenna á kvótamarkaði. Þetta tvennt hefur auðvitað gert nýlið- unina erfiða. Það að við eigum ekki raunverulegan möguleika á tals- verðum útflutningi með eðlilegu skilaverði þýðir við þessar aðstæð- ur spennu í greiðslumarkskerfinu.“ Markmiðið að greinin skili ásættanlegri afkomu – Hvaða framtíðarsýn hefur þú fyrir greinina og hvað viltu skilja eftir þig? „Stóra markmiðið er auðvitað það að greinin styrkist þannig að hún skili þeim sem í henni starfa ásættanlegri afkomu. Greinin þarf að verða samkeppnisfær við aðrar greinar í samfélaginu að þessu leyti. Ég hef lengi átt mér þann draum að við yrðum í raun að stærstum hluta samkeppnisfær við landbúnað í okkar næstu nágranna- löndum. Það eru ýmsir möguleikar sem við höfum til þess varðandi heilnæmi afurða og sömuleiðis ýmsir umhverfisþættir. Við þurfum að geta komið okkar framleiðslu á erlenda markaði til að skapa meira svigrúm. “ – Erum við í þeirri stöðu nú þegar að gæði framleiðslunnar séu það mikil að þessi möguleiki ætti að vera til staðar? Eru það fyrst og fremst aðrir þættir sem standa í vegi fyrir þessu, það er kostnaðar- liðir? „Já, ég tel það. Fjármagnsliðir og aðfangakostnaður gera okkur erfitt fyrir. Ég held líka að við getum ekki horft fram hjá því að afurðasemi okkar hér er ekki eins mikil og erlendis. Við verðum að reyna að ná fram meiri framleiðni. Eitt er að ná fram hagræðingu í breytilega kostnaðinum eins og aðfangaverðinu, það eigum við að geta gert. Hins vegar verðum við að fá meira út úr hverri einingu í föst- um kostnaði.“ Landssambandinu verður ekki fórnað í deilum um nýjan kústofn – Getum við gert það með kústofn- inum sem við búum við? „Sá kúastofn sem við búum við er óneitanlega takmarkaður hvað afurðasemi varðar. Hvort það eru hins vegar í íslensku kúnni sóknar- möguleikar vegna sérstöðu er hins vegar annað mál. Við verðum í það minnsta að viðhalda honum til að geta boðið upp á hann. Það er hins vegar alveg ljóst að meginþunginn í samkeppninni við aðrar þjóðir, að ég tali nú ekki um ef við lendum inni í Evrópusambandinu, verður baráttan um verð.“ – Munt þú þá beita þér fyrir því að hingað til lands verði flutt annað kúakyn? „Landssamband kúabænda og Bændasamtökin fóru á sínum tíma saman í verkefni þar sem ætlunin var að bera saman íslenska kúakyn- ið við kýr af NRF-stofni. Það varð okkur mjög félagslega erfitt mál. Á endanum var farið í almenna atkvæðagreiðslu þar sem niðurstað- an var alveg skýr og ég lít þannig á að Landssambandinu sé ekki fært að breyta þeirri stefnu án þess að það verði skýr stefnubreyting innan greinarinnar.“ – Þú telur að sú niðurstaða standi óhögguð? „Ég tel að það að halda hópn- um saman utan um kjaramál sín og félagslega starfsemi sé það veiga- mikið að það sé ekki hægt að fórna Landssambandinu í slík átök aftur. Okkur ber að vinna að þessum málum út frá þeim forsendum sem við höfum í dag.“ – Myndir þú sjálfur skipta um stofn ef sá möguleiki kæmi upp? „Ég veit það ekki. Það er svo margt sem getur gerst í svona ferli og þó menn hafi eina skoðun í dag kann að vera að maður hafi aðra skoðun þegar til kastanna kemur.“ Er andvígur Evrópusambandsaðild – Myndir þú vilja halda í núgild- andi greiðslumarkskerfi eins lengi og utanaðkomandi öfl gera það ekki ókleift? „Ég sé ekki að eins og staðan er í dag getum við skipt um kerfi. Við þurfum hins vegar að reyna að vinna gegn þeim meinbugum sem eru á því. Þá á ég auðvitað fyrst og fremst við þann mikla kostnað sem því fylgir, hvort sem það yrði með einhverju inngripum inn á mark- aðinn eða öðru. “ – Miðað við það sem þú hefur sagt hér á undan má greina að þú sért að kalla eftir þrennu. Í fyrsta lagi því að ríkisvaldið viðhaldi óbreyttu kerfi til framtíðar, í öðru lagi að þú hafir mjög miklar efa- semdir um WTO-samningana og í þriðja lagi að þú sért mótfallinn Evrópusambandsaðild. Er þetta rétt metið? „Það fyrirkomulag sem við höfum byggt upp, því er ógnað af þessum þáttum. Það er athyglisvert að menn ræða allmikið um breyt- ingar en á sama tíma framlengja stjórnvöld búvörusamningana. Það segir manni það að stjórnvöld telja þetta væntanlega besta kostinn í stöðunni. Það er í rauninni það sem ég legg áherslu á. Ég hef ekkert á móti breytingum en þær þurfa að gerast þannig að greinin ráði við þær. Við verðum að horfa fram í tímann og gefa góðan aðlögunar- tíma ef gera á grundvallarbreyt- ingar á kerfinu. Ef tollvernd fellur niður eins og mun gerast ef WTO- samningarnir taka gildi þá mun það hafa mjög erfiðar afleiðingar í för með sér. Það má því svara þessu játandi miðað við stöðu mála í dag.“ – Ný ríkisstjórn hyggst sækja um Evrópusambandsaðild og talað er um að niðurstaða í því máli geti legið fyrir eftir stuttan tíma, jafnvel á meðan núverandi búvörusamn- ingar verða enn í gildi. Er það ekki allt of stuttur tími fyrir greinina til að bregðast við ef til kæmi að Ísland gengi í Evrópusambandið? „Ég held að ég geti ekki svar- að þessu öðruvísi en með jái. Það er allt of stuttur tími til að greinin geti lagað sig að nýju umhverfi og það gæti haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir greinina. Það þarf að tryggja að ef gengið verður í sambandið að greinin komist sem skaðlausast frá því. Hraðinn á inn- göngunni, ef hann verður eins og um er rætt mun koma í veg fyrir að það takist.“ – Ertu andvígur inngöngu í Evrópusambandið? „Já, ég get ekki sagt annað. Bæði myndi það hafa gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir mjólk- urframleiðsluna og landbúnaðinn í heild sinni en ekki síður tel ég að það muni ekki vera Íslandi hagfellt á öðrum sviðum. Við erum ólík flestum þessum löndum efnahags- lega og ég hef fullkomna sannfær- ingu fyrir því að þegar til lengri tíma er litið og við höfum náð að jafna okkur á efnahagshruninu þá muni auðlindir okkar skila þjóðinni meiru utan sambandsins en innan. Það gæti alveg farið svo að við yrðum hreinlega leiguliðar í eigin landi ef við göngum þarna inn við þær aðstæður sem nú ríkja. Ég sé ekki hagsmunina fyrir landið í heild sinni og fyrir mjólkurframleiðsluna er mikil hætta á að við munum tapa mjög miklu af okkar markaði sem yrði mikið högg og leiddi af sér verulegan samdrátt í greininni.“ fr Markmiðið að greinin skili ásættanlegri afkomu Nýr formaður kúabænda segir það félagslega skyldu að vinna að hagsmunum bænda. Telur Evrópusambandsaðild ekki hagfellda, hvorki fyrir Ísland í heild né greinina.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.