Bændablaðið - 16.05.2012, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 16.05.2012, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. maí 2012 Hjónin Jón Guðmundsson og Ragnheiður Ólafsdóttir úr Borgarnesi urðu fyrst til þess að brjótast þaðan á bíl sínum til Akureyrar og komu þar þann 3. júlí 1928. Bílstjóri var Þorkell Teitsson, símstöðvarstjóri í Borgarnesi. Tók ferðin tvo daga. Fyst var ekið til Blönduóss og síðan yfir Vatnsskarð og fengnir tveir menn til aðstoðar. Úr Norðurárdal yfir Öxnadalsheiði voru einnig fengnir tveir menn til aðstoðar. Um þann kafla orti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í kvæði sínu „Vagnar“: Einum er kærast Aðalstræti, hinn ekur langt fram í sveit, og liturinn hefur lítið að segja í lífsins Giljareit. Þá varðar mestu, að gerðin sé góð og gengið frá öllu vel. Það er annað að kveðja á Kotum en komast í Bakkasel. Í ársskýrslu vegamálastjóra árið 1925 kom fram að yrði líku fé varið til vegagerðar og að meðaltali árin á undan, myndi akfært verða frá Borgarnesi til Akureyrar árið 1940. Ferð þremenninganna varð til þess að fleiri tóku að aka þessa leið og árið 1929 voru fastar ferðir milli Akureyrar og Reykjavíkur. Norðanrúturnar, Sunnanrúturnar og Póstbílarnir Í fyrstu ók Steindór farþegum sínum upp í Hvalfjörð og flutti þá með bátum yfir fjörðinn. Þar tóku átta manna Buick-bílar hans við farþegunum og var Þorgrímur Kristinsson fyrsti bílstjóri Steindórs á þeim. Algengt var að ekið væri yfir í Borgarfjörð um Dragháls. Rútur Steindórs, sem síðar komu og óku úr Borgarnesi voru Chevrolet af árgerðum 1933-37, rjómagular að lit, þær voru kallaðar Sunnanrúturnar. Norðanrúturnar frá Bifreiðastöð Oddeyrar voru Studebaker, árgerðir 1934-36 að ég tel. Þær voru gráar með dökkgrænum borða yfir húddið og aftur með hliðunum. Um tíma voru einnig rútur frá BSA í þessum ferðum en þær voru af Ford-gerð. Árið 1946 eða 1947 hafði þróunin orðið sú að Laxfoss sigldi aðeins upp á Akranes og þá tók Póstur og sími að sér farþegaflutningana með nýjum bílum, Reo, sem voru stærstu rútur þess tíma og afar rennilegar, rauðar að lit og að flestra áliti miklar hraðakstursbílar. Allar þessar gerðir áætlunarbíla sjást hér á síðunni. Þess má geta að síðar varð Norðurleið til og keypti þá Reo-rúturnar, sem fengu þá merkið Norðurleið. Norður í land 1934 Ungu fólki nútímans kann að þykja fróðlegt að lesa um samgöngur sem afar þeirra og ömmur bjuggu við í upphafi bílaaldar hér á landi. Árið 1943 fór undirritaður sjö ára í sveit til afa síns og ömmu norður að Sauðá í Skagafirði. Foreldrar mínir tóku leigubíl norður úr Reykjavík. Segir ekki margt af för þeirri, utan þó það að rétt við Þingvallavegamótin voru vopnaðir verðir í sandpokavirki. Gerð var grein fyrir ferðum okkar og eins því hvort nokkur myndavél væri með- ferðis. Slíkt var algerlega bannað því á þessum tíma var Hvalfjörður orðinn hernaðarlegt skipalægi. För okkar gekk vel en í Hvalfirði innan við Fossá var vegurinn afar mjór og snarbratt niður í sjó. Þarna mættum við breskum herbíl. Vegna vinstri aksturs áttum við að aka út í kantinn. Við þessar hættulegu aðstæður tóku Bretarnir þá ákvörðun að aka sjálfir út á vegarbrúnina og við gátum með fullu öryggi komist hjá að innan- verðu. Var gerður góður rómur að kurteisi Bretanna. För þessi var tíðindalítil en þess má geta að á miðri Holtavörðuheiði var þá lokað hlið sauðfjárveikivarna sem vörður var við. Hleypti hann með aðgæslu öllum í gegn. Heim um haustið var mér komið fram í Varmahlíð og þar á sunnanrúturnar sem þar stönsuðu á suðurleið. Til tíðinda dró neðst í Holtavörðuheiði, þegar ljós fóru af rútu þeirri sem ég var í. Illt var nú í efni. Laxfoss beið eftir okkur í Borgarnesi en rúturnar urðu að vera komnar á tilsettum tíma í Borgarnes, ella færi skipið án okkar. Gripu bíl- stjórarnir því til þess ráðs að bíllinn með ljósunum æki á undan en hinn fylgdi fast á eftir og nýtti sér þannig ljós hins bílsins. Bílstjórarnir í þess- ari för voru Þorgrímur Kristinsson sem síðar varð fyrsti formaður bifreiðastöðvarinnar Hreyfils og bróðir hans Sigurður, faðir Birgis Sigurðssonar sem lengi var formað- ur Hreyfils. Tókst þessi háskaför vel og voru þessir ágætu bílstjórar kvaddir með virktum í Borgarnesi en hópurinn skilaði sér á áætlun til Reykjavíkur. Til Vestfjarða 1944 Átta ára fékk ég pláss hjá ömmusyst- ur minni að Móbergi á Rauðasandi. Til Vestfjarða lágu þá engir bílvegir. Ferðalag mitt vestur var leyst þannig að faðir minn, sem var þá vélstjóri á b/v Maí frá Hafnarfirði, tók mig með í veiðiferð á Vestfjarðamið. Algengt var þá að vera við veiðar einhverja daga, brenna kolum fyrir gufuvél skipsins og nýta ís skipsins til kælingar á aflanum. Reynt var að fylla skipið en í það fór mikið af kolum og ís. Þegar veitt hafði verið í nokkra daga var farið inn á eitthvert plássið og bætt á kolum og ís til að ljúka við að fylla skipið og eins til að eiga næg kol til siglingarinnar til Englands. Í þessari ferð var farið inn á Patreksfjörð að Vatneyri eftir kolum og ís. Þar fór ég í land og eftir tvo daga með trillu yfir fjörð- inn að Hvalskeri. Þar beið mín þá vinnumaður frá Móbergi og saman gengum við yfir Sauðlauksdalsfjall að Móbergi. Að loknu sumri fékk ég far með heybíl yfir að Vatneyri og þaðan skömmu síðar með varð- skipinu Ægi til Reykjavíkur, sem oft var notað til farþegaflutninga þegar mikil þörf var á. Afar slæmt var í sjóinn og skipið valt og hentist upp og niður. Ég þvældist sárlega sjóveikur um ganga og átti hvergi höfði mínu að að halla. Átti ég þess helst von að ég kæmist ekki lifandi frá þessu ferðalagi, en á einhvern hátt lifði ég þetta af og skreiddist fagnandi í fang minnar ástkæru móður. /Kristinn Snæland Samgöngur fyrri tíma – Úr smiðju Kristins Snæland: Fyrsti bíllinn fór frá Borgarnesi til Akureyrar árið 1928 Ford Jóns Guðmundssonar á Akureyri 3. júlí 1928. Þorkell Teitsson situr undir stýri, Jón er frammí en kona hans Ragnheiður Ólafsdóttir í aftursæti. Átta manna Buick frá Steindóri, fyrstur á áætlun Steindórs til Akureyrar. Sunnanrútur Steindórs við Hreðavatnsskála. Mjólkurbíll og Dodge-fólksbíll í hlaðinu. Norðanrútur frá BSO bíða eftir Laxfossi á bryggjunni í Borgarnesi, Ford 35 og Buick 30 bíða eftir farþegum. Skipið hefur ekki tekist að þekkja en Konungurinn sigldi á Dannebrog upp á Akranes en hélt þaðan með bílum konungs frá Hreðavatni norður til Akureyrar. Þetta er þó óstaðfest. BSA-rútur Kristjáns Kristjánssonar, Ford 1934-39. Reo-rútur Pósts og síma á bryggjunni á Akranesi.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.