Bændablaðið - 16.05.2012, Blaðsíða 29

Bændablaðið - 16.05.2012, Blaðsíða 29
29Bændablaðið | Miðvikudagur 16. maí 2012 Lesendabás Ótrúleg upplifun Við fórum svo á fætur kl. 4 um nóttina og lögðum af stað á Poon Hill (3.180 m) kl. 04:30 til að vera þar um sólarupprás. Það var ótrú- leg upplifun að standa á Poon Hill þegar sólin kom upp og sendi geisla sína á risafjöllin í nágrenninu. Auk fjallanna sem við sáum daginn áður sáum við Varaha Shikhar (7.847 m), Anna Purna I (8.091 m), Anna Purna III (7.855 m), Anna Purna IV (7.525 m) og óteljandi aðra snævi þakta tinda. Við gengum svo til baka og fengum góðan morgunmat áður en við lögðum af stað áleiðis til Tadapani (2.675 m) um kl. 9. Á leiðinni komum við á Gurung Hill þar sem oft er mjög flott útsýni, en þegar við komum þar var orðið skýjað. Gengið milli fjallaþorpa Næstu daga gengum við á milli fjallaþorpa og fengum að kynn- ast ýmsu skemmtilegu. Í Tadapani (2.675 m) voru konurnar í þorpinu t.d. með skemmtun fyrir okkur, dans og söng, til að safna fyrir e.k. raf- stöð fyrir þorpið. Þær voru skemmti- legar og afar glaðar með það sem við settum í pottinn. Við komum m.a. í stórt þorp sem heitir Ghandruk þar sem flestir íbúar eru af Gurung-ættbálknum, sem er ein aðal ætt frumbyggja þessa svæðis. Í Ghandruk fórum við á byggðasafn, sem gaman var að skoða. Einnig klæddi yngsta stúlkan í okkar hópi sig í viðhafnarklæði og lét taka af sér myndir. Við kynntumst því hvernig þessir fjallabúar lifa – flestir lifa af land- búnaði, en æ fleiri sinna ferðaþjón- ustu, aðallega með gististöðum og matsölu. Líklega hefur fólk það betra í fjöllunum en t.d. í Katmandú. Flestir rækta hrísgrjón eða maís, eru með hænur, kannski nokkrar geitur og eina buffalokú. Við vorum heppin með veður, yfirleitt var heiðskírt eða léttskýjað fyrri hluta daganna en oftast síð- degisskúrir og stundum hellirigndi og var jafnvel haglél, en þá vorum við komin í hús. Við gengum um alls konar gróður, hitabeltisskóga, bambus- og eikar- skóga. Ótrúlegt þótti okkur hvað blómin voru í mikilli hæð, t.d. var þjóðarblómið rhododendron (lyng- rós) í fullum blóma í 3.000 metra hæð. Stóri dagurinn var 11. apríl, þá gengum við frá Deurali (3.230m) í Anna Purna grunnbúðir (4.160m) um Machapuchare grunnbúðirnar (3.820 m). Nú brá svo við að það var ekkert skyggni. Við gengum í snjókomu og muggu í langþráðar grunnbúðirnar og vorum frekar svekkt að sjá ekki umhverfið. Morguninn eftir var heiðskírt og það var ánægt fólk sem virti fyrir sér alla dýrðina í þessum fagra fjallasal. Maður á eiginlega engin orð til að lýsa því sem fyrir augu bar þennan fagra aprílmorgun í Himalajafjöllunum. Að standa í 4.200 metra hæð og virka ógnarsmár innan um 8000 metra háu fjöllin sem umlykja þennan fallega stað. Við tókum mikið af myndum og síðan var lagt af stað til baka í yndis- legu veðri. Við lækkuðum okkur um 1.500 metra þar til við komum í Dovan, þar sem við gistum næstu nótt. Þar var afmælisveisla fyrir Ingibjörgu, terta, söngur og dans. Næsta dag héldum við áfram niður á við. Við hittum 6 Íslendinga sem voru þarna í ferð með breskri ferðaskrifstofu, skemmtileg tilviljun. Það var eins og ævinlega þegar Íslendingar hittast í útlöndum, alltaf þekkir einhver einhvern. Við gengum til Jhinudanda (1.750 m). Í nágrenni þorpsins eru heitir hverir sem við drifum okkur nokkur í. Algjörlega yndislegt að láta þreytuna líða úr sér í heitu pottunum þarna og fara í góða heita sturtu á eftir. Á nýársdag í Nepal árið 2069 Næsta dag, 14. apríl, var nýárs- dagur í Nepal árið 2069. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki tímatal þeirra Nepalbúa eða hvernig er ákveðið hvenær nýársdagur er. Hann er sem sagt ekki 14. apríl ár hvert, heldur er fundið út með skrýtnum útreikningum hvaða dag nýársdagur á að vera. Í þessari gönguferð okkar um Himalajafjöllin gengum við yfir margar hengibrýr en sú allra stærsta er New Bridge yfir ána Modi Cola, sem við gengum yfir næstsíðasta daginn okkar í fjöllunum. Frekar erfitt fyrir lofthrædda. Þennan dag var ótrúlega heitt – örugglega 35 stiga hiti. Við kvöddum burðarmenn- ina okkar formlega þetta kvöld og gáfum þeim þjórfé. Við fréttum síðar að þeir hefðu verið ótrúlega ánægðir með hópinn okkar. Nokkrir burðar- mannanna eyddu síðdögum í skál- unum við spil og spjall við nokkra úr hópnum okkar, nokkuð sem þeir eru ekki vanir. Venjulega hafa burðar- mennirnir mjög lítið samneyti við hópana sem þeir eru að vinna fyrir. Einnig var afmælisterta fyrir Rúnu þetta kvöld, bara mjög fín. Síðasti göngudagurinn okkar var 15. apríl og var þá gengið í tæpa 3 tíma þar til við komum til Phedi, þar sem biðu okkar tveir bílar sem óku okkur til Pokhara. Við eyddum svo þessum fallega degi í Pokhara og síðan var ekið til Katmandú daginn eftir. Everestfarar komu með flugi frá Lukla snemma morguns og voru alsælir með sína ferð. Þegar komið var til Katmandú skrapp fólk í verslunarferð og síðan buðu Geeta og Lata okkur til kveðjukvöldverðar á ekta nepalskan stað. Æðislegur matur á flottum stað. Daginn eftir áttum við að fljúga með morgunflugi frá Katmandú, en það breyttist og eyddum við því flest deginum í skoðunarferð á stað sem heitir Nagarkot. Fallegur staður í nágrenni Katmandú með fallegu útsýni á góðum degi. Öðruvísi en allt annað Ég hef farið í margar ferðir á fram- andi slóðir en einhvern veginn var þessi ferð til Nepal öðruvísi en allt annað sem ég hef gert. Þetta var fyrsta ferðin mín til Asíu og menn- ingin er gjörólík því sem ég hef áður kynnst og upplifað. Gönguferðin var æðisleg. Gistingin var misjöfn, en maturinn yfirleitt góður. Systurnar Geeta og Lata gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að ferðin yrði ógleymanleg og ég vona að allir úr hópnum eigi frábærar minningar úr þessari fyrstu ferð ÍT ferða til Nepal. Egilsstöðum í apríl 2012, Hjördís Hilmarsdóttir Machhapuchhare base camp Á nýliðnum vetri eru tíu ár síðan sex nemendur hófu nám í umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Síðan þá hafa um 120 nemendur lokið B.Sc.-námi frá umhverfisskipulagsbrautinni. Námið á Umhverfisskipulagsbraut Námið er metnaðarfullt 180 ECTS- eininga nám (til 3ja ára). Telst fyrri- hlutanám til landslagsarkitektúrs og skipulagsfræði og felst í eftirfarandi: Á 1. ári er farið yfir hugmyndafræði landslagsarkitektúrs og skipulags- fræða og nemendur fá æfingu í notkun tölvuforrita og formfræði hönnunar. Ennfremur er kennd jarðfræði, grasafræði og vistfræði. Á 2. ári er m.a. lögð áhersla á plöntu- notkun og skipulag, uppbyggingu ,,Græna netsins“, skipulagslög- gjöf auk landslagsfræða og sjón- mennta. Á 3. ári er fjallað um samspil bygg- inga og rýmis milli húsa – stór mannvirki í íslensku landslagi svo sem vegalögn, efnisnám, ferða- mannastaði og náttúruverndar- svæði. Náminu lýkur síðan með sjálfstæðu B.Sc.-verkefni. Verkefnavinna er stór þáttur námsins, bæði einstaklingsmiðuð sem og í hópum. Góð aðstaða er til þess á vinnusal skólans, sem búinn er góðum tækjabúnaði. Góðir möguleikar eru á skipti- námi við erlenda háskóla. Af hverju þetta nám og í rótgrónu umhverfi landbúnaðarfræðslunnar? Aðdragandi að stofnun brautar- innar var fyrst og fremst sá að svara þeim breytingum sem voru að gerast í samfélaginu en því er ekki að leyna að margar spurningar vöknuðu. Af hverju á Hvanneyri? Hluti af grunnnámi var þegar fyrir hendi. Tilefni til að tengja ímynd hefð- bundins landbúnaðar við breyttan landbúnað. Víkka umræðuna um skipulags- mál þannig að hún einskorðaðist ekki við skipulag í þéttbýli. Gefa ungu fólki færi á að tileinka sér íslensk fræði. Tengja saman ólíka faghópa – styrkja samvinnu og samstarf. Auk þess höfðu ný skipulagslög tekið gildi 1997 þar sem allt landið var gert skipulagsskylt, ásókn var í breytta búsetu – aukin umsvif skóg- ræktar, meiri átök um náttúruvernd, aukinn fjöldi ferðamanna, vaxandi kröfur um útivistartengda starfsemi og ekki síst aukin þéttbýlismyndun. Allar þessar breytingar í sam- félaginu kölluðu og kalla enn á meira þverfaglegt samstarf ólíkra hagsmunaaðila sem aftur þarf að byggjast á fræðslu og þekkingu. Gott skipulag landnotkunar í þéttbýli og dreifbýli er mikilvægt fyrir okkur og komandi kynslóðir þar sem samspil náttúru, manns og hönnunar er í fyrirrúmi og þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni og vistvæna nálgun auk sérstöðu nátt- úru og samfélags. Umhverfi okkar þarf að vera þannig að fólki líði þar vel við leik og störf. Góð íbúðasvæði með sam- spili bygginga og opinna svæða auka á vellíðan og heilbrigði fólksins. Stofnun umhverfisskipulags- brautar var framfaraskref inn í fræ- ðaumhverfi sem fjallar um þróun og uppbyggingu landnotkunar og landnýtingar við íslenskar aðstæður. Þeir nemendur sem lokið hafa sinni B.Sc.-gráðu við brautina frá stofnun hennar hafa farið til marg- víslegra starfa, bæði innan lands sem utan og ekki síst til starfa á landsbyggðinni. Margir hafa lokið framhaldsnámi í landslagsarkitektúr og skipulagsfræðum, aðrir farið í kennslu, tengst vinnu hjá sveitar- félögum, náttúrufræðistofum eða vinnu á ráðgjafarstofum. Nánari upplýsingar um námið er að finna á: www.lbhi.is og umsókn- arfrestur er til 4. júní. Auður Sveinsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA og dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands Landbúnaðarháskóla Íslands: Umhverfisskipulag – nám til framtíðar Hvanneyri. Mynd / Theodór Kristinn Þórðarson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.