Bændablaðið - 16.05.2012, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 16.05.2012, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. maí 2012 Hjördís Hilmarsdóttir, skógarbóndi og sleðahundaræktandi á Gunnlaugsstöðum á Völlum, Fljótsdalshéraði: Ævintýri í Nepal um páska 2012 Það voru spenntir ferðalangar sem hittust í Leifsstöð 31. mars síðastliðinn; 25 manna hópur á leið til Nepal með ÍT ferðum. Loksins komið að langþráðri ferð. Undirbúningur hafði staðið yfir í 2 ár og allir voru tilbúnir til að takast á við ævintýrin framundan. Nepal er 147.000 km² (Ísland er ca. 103.000 km²) að stærð og liggur að Tíbet og Indlandi. Íbúar eru um 30 milljónir og er þriðjungur undir 15 ára aldri. Nepal er fyrrum konungs- ríki, konungnum var steypt af stóli fyrir 4 árum og síðan má segja að nokkurs konar stjórnlagaþing hafi verið við völd. Nepalir eru, eins og Íslendingar, að búa til nýja stjórnar- skrá og er almenningur orðinn lang- eygur eftir því að sú vinna klárist hjá stjórnlagaþinginu í Nepal. Mikið öngþveiti virðist ríkja í allri stjórn- sýslu og er það sérstaklega áberandi í höfuðborginni Katmandú. Aðal trúarbrögðin í Nepal eru hindúismi, en búddismi er einnig mjög útbreiddur. Ég gat ekki annað en dáðst að því hvað fólki af ýmsum trúflokkum semur vel í Nepal og virðast til dæmis hindúar og búdd- istar iðka sína trú hlið við hlið. Í landinu er mikil fátækt og er sagt að fjórðungur íbúa lifi á minna en einum dollara á dag og að meira en 5% barna deyi áður en þau nái 5 ára aldri. Frá Íslandi til Katmandú Við flugum frá Íslandi til London, frá London til Delí á Indlandi og frá Delí til Katmandú. Þetta ferðalag okkar tók um það bil 29 klukkustundir. Á flugvellinum í Katmandú tóku Lata og Geeta (okkar dömur í Nepal) á móti okkur ásamt nokkrum af starfs- mönnum sínum. Fyrir utan flug- stöðvarbygginguna ríkti algjört kaos. Hermenn öskruðu og beindu byssum að fólki og við urðum hálf smeyk. Við komumst þó að rútunni og fengum öll blómakrans um hálsinn og síðan var okkur ekið á Hótel Gangjon, þar sem við gistum næstu tvær nætur. Það var frekar fyndið að uppgötva að Lata, sem ég hafði alltaf haldið að væri miðaldra karlmaður, er 29 ára gömul kona sem rekur fyrirtækið Raj Bala Treks and Expedition ásamt 32 ára systur sinni, Geetu. Það er mjög sjaldgæft í Nepal að konur séu í atvinnurekstri og ég er stolt af því að versla við slíkt fyrirtæki. Þann 2. apríl fórum við í skoðunar- ferð um Katmandú. Fyrst skoðuðum við Swayambhunath, sem er 2000 ára gamalt Búddahof. Mikið var af fallegu handverki í sölubásum við hofið. Næst fórum við að Boudhanat, sem er einnig Búddahof (Stupa), eitt stærsta hof í heimi af þessari gerð. Boudhanat er einnig kallað apahofið, þar sem mikið af öpum er hlaupandi þar um veggi og þök. Þarna voru mjög sérstök bænakefli, sem fólk strýkur um leið og það gengur fram hjá þeim. Við fórum og sáum hvernig málaðar eru helgimyndir, svokallaðar Tanka, en það er margra ára nám að læra þessa aðferð. Margir í hópnum keyptu sér svona helgimynd. Þær voru í þremur verð- flokkum og gæðum; í fyrsta flokki voru verk nema á fyrsta og öðru ári, í öðrum flokki verk nema sem hafa lært aðferðina í a.m.k. 2 ár, og í þriðja flokki myndir eftir listamenn sem eru fullnuma í þessari málaralist. Næst var haldið að Psupatinath, sem er eitt helgasta hof Shiva (hind- úa). Við virtum hofið fyrir okkur frá eystri bakka árinnar Bagmati, þar sem öllum öðrum en hindúum er bannaður aðgangur að því. Þar urðum við vitni að því þegar ættingjar búa nýlátna ættingja sína undir líkbrennslu sem fer fram þarna á steinpalli við ána. Að lokinni líkbrennslunni er öskunni sturtað í ána. Loks fórum við á Patan Durbar torgið, sem er á heimsminjaskrá. Þar eru mörg mjög gömul hof, öll frekar lítil. Rétt við torgið stóð fólk í löngum röðum til að ná sér í mjög mengað vatn til drykkjar, en mjög lítið er um hreint vatn í Katmandú. Þeir sem hafa efni á geta samt keypt sér vatn á flöskum. Eftir skoðunarferðina fórum við í þekktustu útivistarbúð Nepala, Scerpa, en þeir framleiða mjög góðar vörur og Scerpa er þekkt merki víða um heim. Margir versluðu eitthvað þarna og var verðið ca. 60% af sam- bærilegri vöru á Íslandi. Þessum degi lauk með kvöldmat á indverskum stað og var maturinn mjög góður. Þetta var merkilegur dagur og við sáum margt framandi, en flestir voru búnir að fá nóg af Katmandú eftir þennan eina dag. Afar mikil mengun og sóðaskapur er í borginni. Lata fræddi okkur heilmikið um líf fólksins í Nepal. Hún sagði t.d. að þar væri afar mikil stéttaskipting. Þær systur eru af yfirstétt, en maður varð samt aldrei var við það þessa daga að þær litu niður á almúgann. Þrátt fyrir að þær systur séu í atvinnu- rekstri lifa þær að öðru leyti mjög hefðbundnu lífi. Mamma þeirra valdi t.d. eiginmenn fyrir þær báðar, vegna þess að faðir þeirra er látinn og þær eiga engan eldri bróður. Þær búa báðar hjá fjölskyldu eiginmanna sinna. Lata hefur a.m.k. séríbúð en öll fjölskyldan borðar saman. Mamma þeirra giftist pabba þeirra þegar hún var 6 ára og hann sá um að ala hana upp og mennta. Nepalar borða yfirleitt með fingrunum, þ.e. fingrum hægri handar, en þær systur notuðu áhöld þegar þær borðuðu með okkur. Gengið í Base Camp Everest Þann 3. apríl skiptist hópurinn. Níu manna hópur flaug til Lukla snemma morguns, þaðan sem þau gengu í Base Camp Everest. Kristiana Baldursdóttir fór fyrir þessum hóp með styrkri aðstoð Rysi, frábærs inn- lends leiðsögumanns. Áður en þau héldu af stað færðu Geeta og Lata Svölu Guðjónsdóttur afmælistertu, með kerti og öllu, sem Svala deildi svo með okkur hinum. Við hin fórum í rútu til borgar- innar Pokhara sem stendur við vatnið Phewa Tal. Þetta er rúmlega 6 klukkustunda rútuferð um sveitir Nepals. Á leiðinni keyrðum við framhjá kláf sem liggur upp að klaustri, Markana Temple. Lata sagði okkur að þar væri mjög skemmtileg gönguleið. Við sáum einnig fólk í rafting. Við borðuðum hádegismat á mjög flottum stað, þar var hlaðborð og góður matur, og komum svo til Pokhara undir kvöld. Pokhara er falleg borg með mjög fallegt útsýni til Himalajafjallanna. Þar var allt svo mikið hreinna og notalegra en í Katmandú. Yfir kvöldmatnum horfðum við á danssýningu þar sem innfæddir sýndu nepalska dansa og sungu nepölsk lög. Til Nayapul Daginn eftir ókum við frá Pokhara til Nayapul. Ekið var um landbúnaðar- héruð þar sem aðallega eru ræktuð hrísgrjón. Gangan okkar (1.050 m) hófst í Nayapul. Við gengum í gegnum mörg lítil þorp og það var fróðlegt að sjá hvernig fólkið býr. Á einum stað komum við að nýbyggðum skóla og einn úr hópnum var með kassa af pennum í bakpok- anum sem hann gaf skólanum. Við hin gáfum peninga til styrktar skól- anum. Í staðinn fengum við rauðan blett á ennið og blóm. Við hækkuðum okkur um rúma 1.000 metra þennan fyrsta dag og gengum í 6,5 klst. Við gistum í góðum skála (tehúsi) sem heitir Machapuchare (fisksporður) í Banthanti. Þarna hittum við skemmti- leg hjón frá Sarasota, Flórída, sem ég spjallaði heilmikið við. Daginn eftir gengum við til Ghorepani (2.860 m). Á leiðinni blöstu við fjöllin Machapuchare (6.997 m), sem er mjög fallegt, heilagt fjall, sem ekki er klifið, Anna Purna South (7219 m) og Hiunchuli (6441 m). Við náðum að komast í hús kl. 14, rétt áður en grenjandi rigning skall á. Við gistum í stóru tehúsi (skála) sem heitir Sunny Hotel, þar var margt fólk og mikið stuð um kvöldið, spiluð músik og dansað. Hjördís Anna í Purna Base Camp. Hér er hópurinn saman kominn við skiltið í Anna Purna Base Camp. Auður í Nepalskum búningi Fararstjórarnir. Lata og Geeta. Pokhara

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.