Fréttablaðið - 02.06.2012, Qupperneq 80
2. júní 2012 LAUGARDAGUR44
S
eint í janúar 1952 lést
Sveinn Björnsson, forseti
Íslands frá lýðveldisstofn-
un átta árum fyrr. Kosn-
ingar yrðu um sumarið
og fljótt kom á daginn
að þrír flokkanna á Alþingi vildu
hlutast til um hver fengi embættið.
Manna á meðal var einnig skegg-
rætt um möguleg forsetaefni. Eink-
um staldraði fólk við nafn Ásgeirs
Ásgeirssonar, hins þjóðkunna þing-
manns Alþýðuflokksins. Hann hafði
setið á Alþingi frá 1923, verið fjár-
málaráðherra og forsætisráðherra
um skeið en hæst hafði frægðarsól
hans líklega risið sumarið 1930. Þá
var hann forseti sameinaðs þings og
stýrði með miklum sóma hátíðar-
fundum á Þingvöllum út af þúsund
ára afmæli Alþingis. Sjálfur vildi
Ásgeir Ásgeirsson gjarnan verða
forseti, sitjandi í friði á Bessastöð-
um. Hann var hins vegar fulltrúi
eins stjórnmálaflokks, þess smæsta
á Alþingi. Gæti hann fengið fylgi
fjöldans?
Um þessar mundir var við völd
ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og
Framsóknarflokks. Ólafi Thors
hafði þótt Sveinn Björnsson óþægur
ljár í þúfu, talsmaður þess minni-
hlutasjónarmiðs að beðið yrði með
lýðveldisstofnun uns stríði lyki og
íhlutunarsamur við stjórnarmynd-
anir. Ólafur og flestir aðrir í for-
ystusveit Sjálfstæðisflokksins vildu
fá þægilegri mann í stöðu þjóðhöfð-
ingja. Lengi vel virtust þeir þó ekki
afhuga Ásgeiri og munaði þá miklu
um afstöðu Gunnars Thoroddssens,
borgarstjórans vinsæla sem var
tengdasonur hans. Gunnar benti á
að Ásgeir hefði ætíð stutt brýnustu
hagsmunamál sjálfstæðismanna og
þar að auki væri ekki gert ráð fyrir
því að forseti hefði „pólitísk völd“
heldur ætti hann að vera „eining-
arafl þjóðarinnar, óháður stjórn-
málaflokkunum“. Að vísu gæti
hann þurft að skerast í leikinn við
stjórnarmyndanir en þá myndi víð-
sýni Ásgeirs og reynsla koma að
góðum notum.
Vandinn var hins vegar sá að
Hermann Jónasson, formaður
Framsóknarflokksins, og flestir
aðrir í forystusveit þar á bæ gátu
ekki hugsað sér að styðja Ásgeir
Ásgeirsson. Hinar miklu vegtyll-
ur sínar í stjórnmálum hafði hann
hlotið þegar hann var í flokki þeirra
en síðan urðu vinslit. Þeir sögðu
fráleitt að Ásgeir yrði óvilhallur og
bættu við að forsetinn mætti ekki
hafa verið í eldlínu stjórnmálanna
því „pólitískur“ þjóðhöfðingi gæti
misbeitt freklega hinu formlega
valdi sínu. Leiðtogar Sjálfstæðis-
flokks og Framsóknarflokks sam-
mæltust því um að finna forsetaefni
sem myndi ekki freistast til þess.
Fólkið velur forsetann
Í byrjun maí varð ljóst að þrír
yrðu í framboði til forseta. Ásgeir
Ásgeirsson lét slag standa og það
gerði einnig sjálfstæðismaðurinn
Gísli Sveinsson sem hafði lengi
setið á þingi og var meðal annars
þingforseti þegar lýðveldi var stofn-
að á Þingvöllum 1944. En hann naut
hvorki alþýðuhylli né stuðnings í
eigin flokki. Og svo var það séra
Bjarni Jónsson vígslubiskup, hinn
útvaldi kostur Framsóknarflokks
og Sjálfstæðisflokks. Um síðir
hafði séra Bjarni orðið við óskum
um framboð enda sannfærðu full-
trúar stjórnarflokkanna hann um
að þar sem hann hefði fylgi þeirra
væri sigurinn vís. Vígslubiskupinn
sá auðvitað fyrir sér að sitja á frið-
arstóli, rétt eins og Ásgeir. Ekki
myndi hann skipta sér af störfum
alþingis eða ríkisstjórnar og við
stjórnarmyndanir þæði hann ráð
Ólafs Thors og Hermanns Jónas-
sonar.
En úrslitin voru fráleitt ráðin.
Miklu skipti að Gunnar Thorodd-
sen studdi tengdaföður sinn frek-
ar en frambjóðanda eigin flokks og
Framsóknar. Jafnframt var séra
Bjarni kominn á gamals aldur þótt
ern væri og hann var minna þekkt-
ur til sveita en í höfuðborginni.
Aftur á móti var Ásgeir Ásgeirsson
í fullu fjöri og svaraði betur þeim
kröfum sem margir gerðu til for-
seta. Hann hafði fas og útlit með
sér. Hann yrði virtur fulltrúi lands-
ins, jafningi annarra þjóðhöfðingja
og sannkallað sameiningartákn.
Mest fylgi fékk Ásgeir þó vegna
þess að kjósendum mislíkaði að
stjórnmálaforingjarnir hugðust
segja þeim fyrir verkum í forseta-
kjöri. „Fólkið velur forsetann,“
sögðu Ásgeirsliðar. Fá kjörorð
hafa náð eins vel hugum og hjört-
um landsmanna og þessi yfirlýs-
ing sumarið 1952. Að hinu verður
þó líka að gæta að stuðningsmenn
Ásgeirs hömpuðu lítt stuðningi
Alþýðuflokksins og striki var slegið
yfir þá staðreynd að lengi vel hafði
hann vonast eftir því að fá form-
legan stuðning Sjálfstæðisflokks-
ins við framboð sitt. Þversögnin
varð því sú að „ópólitíski“ fram-
bjóðandinn hafði setið á þingi frá
1923 og verið fjármálaráðherra,
forsætisráðherra, þingforseti og
áhrifamaður í tveimur stjórnmála-
flokkum. „Pólitíski“ frambjóðand-
inn var grandvar guðsmaður sem
hafði aldrei á þingi setið.
Þótt forsetaefnin segðu ekki
styggðaryrði hvert um annað á
opinberum vettvangi var barátt-
an æsileg. Tíminn og Morgunblað-
ið fóru hamförum. Þessi málgögn
stjórnarflokkanna líktu því nán-
ast við drottinssvik ef sjálfstæðis-
menn eða framsóknarmenn styddu
Ásgeir, „frambjóðanda Alþýðu-
flokksins“. Þannig áróður hreif þó
ekki. Forsetaefnið átti sér sína póli-
tísku fortíð en fólkið horfði fram á
veg.
Fjarri hinu pólitíska valdi
Mjótt varð á munum í forsetakjör-
inu 29. júní 1952. Ásgeir Ásgeirsson
hlaut 32.924 atkvæði, séra Bjarni
Jónsson 31.042. Gísli Sveinsson
fékk 4.225 atkvæði og töldu sjálf-
stæðismenn að með sínu vonlausa
framboði hefði hann tryggt Ásgeiri
sigur. Það þarf ekki endilega að
vera rétt en samt má hafa í huga
að séra Bjarni hefði hæglega getað
haft betur. Þá hefði gangur sögunn-
ar orðið allur annar en við verðum
að horfa til þess sem gerðist, ekki
þess sem hefði getað gerst. Með
sigri Ásgeirs Ásgeirssonar feng-
ust þau sannindi fyrst staðfest að í
forsetakjöri á Íslandi hefur sá eða
sú alltaf sigrað sem þykir standa
fjærst hinu pólitíska valdi. Lykill-
inn að sigri Ásgeirs lá í því að segj-
ast vera forseti fólksins, ofar arga-
þrasi stjórnmálanna.
Hinn „ópólitíski“ forseti ítrekaði
svo valdaleysi sitt við innsetningar-
athöfn 1. ágúst 1952. Þótt stjórnar-
skráin færði þjóðhöfðingja mikið
vald í orði kveðnu kvað Ásgeir
það takmarkast „við vilja Alþing-
is og ríkisstjórnar“. Forystumenn
Sjálfstæðisflokks og Framsóknar-
flokks voru þó ekki í rónni og Her-
mann Jónasson velti fyrir sér hvort
stjórnin ætti ekki að biðjast lausn-
ar fyrst kjósendur hefðu hafnað for-
setaefni hennar.
Svo lægði öldur um sinn. Ásgeir
Ásgeirsson hélt í opinberar heim-
sóknir til Danmerkur, Noregs og
Svíþjóðar 1954 og þremur árum
seinna til Finnlands. Þjóðhöfðingj-
ar þessara landa komu hingað til
lands og síðar fylgdu fleiri ferð-
ir. Ásgeir stóðst væntingar þeirra
sem kusu hann og ávann sér fylgi
alls almennings. Hann þótti koma
virðulega fram og bera hróður
landsins víða með forsetafrúna,
Dóru Þórhallsdóttur, sér við hlið.
Mikilvægi þessa þáttar má ekki
vanmeta fyrstu áratugi hins unga
lýðveldis.
Enga sósíalista í stjórn
Á hátíðarstundum var forsetinn
með sanni sameiningartákn. Ekki
fór þó svo að hann hætti afskiptum
af stjórnmálum. Sumarið 1956 sett-
ist að völdum vinstri stjórn Fram-
sóknarflokks, Alþýðuflokks og
Alþýðubandalags, undir forsæti
Hermanns Jónassonar. Í stjórn-
arsáttmála var stefnt að brottför
bandarísks herliðs frá Íslandi en
um það voru þó deildar meiningar
meðal alþýðuflokksmanna. And-
stæðingarnir réðu því að helsti
málsvari þeirra, Guðmundur Í.
Guðmundsson, varð utanríkisráð-
herra. Þau áform studdi Ásgeir
á laun. Í samtölum við vestræna
sendimenn lýsti hann einnig andúð
sinni á áformum ríkisstjórnarinn-
ar. Þá ítrekaði hann í hátíðarræðum
stuðning sinn við aðild Íslands að
Atlantshafsbandalaginu. Því reidd-
ust sósíalistar en forseti gat hæg-
lega bent á að ríkisstjórnin stefndi
ekki að úrsögn úr því bandalagi.
Ásgeir gætti sín á að tala ekki opin-
berlega gegn stefnu hennar.
Svo fór að hætt var við að reka
herinn úr landi og síðla árs 1958
varð Hermann Jónasson að biðjast
lausnar fyrir ráðuneyti sitt eftir
hatrammar deilur um efnahags-
mál. Ólafur Thors fékk þá umboð til
stjórnarmyndunar, enda formaður
stærsta flokksins á þingi, en komst
ekki áleiðis. Beinast lá við að Her-
mann fengi næst að spreyta sig og
vitað var að hann vildi blása lífi í
hina föllnu stjórn. Ásgeir sneri sér
hins vegar til Emils Jónssonar, for-
manns Alþýðuflokksins. Forseti
ætlaði sér að koma í veg fyrir að
sósíalistarnir í Alþýðubandalaginu
yrðu áfram í stjórn. Fyrr myndi
hann meira að segja skipa utan-
þingsstjórn en á það reyndi að vísu
ekki; við völdum tók minnihluta-
stjórn Alþýðuflokksins sem síðan
gekk til samstarfs við Sjálfstæðis-
flokkinn í Viðreisnarstjórninni svo-
kölluðu.
Líkast til hefði reynst erfitt að
endurvekja stjórn Hermanns Jón-
assonar. Sífellt fleiri alþýðuflokks-
menn töldu að landið myndi aðeins
losna úr viðjum hafta í samvinnu
þeirra og Sjálfstæðisflokksins.
Ásgeir Ásgeirsson hafði því sín
áhrif en skipti ekki sköpum um
myndun Viðreisnarstjórnarinnar.
Viljann sem þurfti var að finna
meðal stjórnmálaflokkanna og for-
ystumanna þeirra. Þrátt fyrir það
er þetta ljóst: Á bak við tjöldin lagði
Ásgeir sameiningartáknið frá sér.
Þótt Alþingi hefði samþykkt brott-
för Bandaríkjahers vann forseti
gegn því og fengi hann nokkru um
ráðið skyldu sósíalistar ekki vera í
ríkisstjórn. Í hita kalda stríðsins gat
íhlutunarsemi af þessu tagi talist til
kosta. Varla er hún þó verðugt við-
mið um okkar daga.
Freistaðu ekki þjóðarinnar með
þrásetu
Viðreisnarstjórnin var við völd
það sem eftir lifði embættistíð-
ar Ásgeirs Ásgeirssonar. Frið-
ur og ró færðist yfir Bessastaði
og aðeins einu sinni lenti forseti í
eldlínu stjórnmálanna. Vorið 1966
skoruðu þingmenn Alþýðubanda-
lagsins á hann að synja lögum um
álverið í Straumsvík staðfestingar
enda væru þjóðarhagsmunir í húfi.
Því sinnti Ásgeir ekki og þeirri
afstöðu fagnaði höfundur „Reykja-
víkurbréfs“ Morgunblaðsins. Sá var
líklega Bjarni Benediktsson for-
sætisráðherra og sagði hann synj-
unarvaldið þess eðlis að því mætti
forseti aðeins beita eftir eigin sam-
visku en ekki ábendingu annarra.
Hvorki Ásgeir né Bjarni sögðu hins
vegar að valdið væri ekki fyrir
hendi.
Snemma í september 1964,
rúmum mánuði eftir að fjórða kjör-
tímabil Ásgeirs Ásgeirssonar hófst,
lést Dóra Þórhallsdóttir. Sjálfur var
Ásgeir kominn á áttræðisaldur og
hafði frekar hægt um sig. Í nýársá-
varpi 1. janúar 1968 tilkynnti hann,
„svo ekki verði um villst“ eins og
hann komst að orði, að hann yrði
ekki í kjöri við forsetakosningar
síðar um árið. Bætti forseti svo við:
„Ekki skaltu freista Drottins Guðs
þíns og þá ekki heldur þjóðar þinn-
ar með þrásetu.“
Þegar Ásgeir Ásgeirsson hvarf
úr forsetastóli sumarið 1968 hafði
hann mótað embættið eftir sínu
höfði, rétt eins og Sveinn Björns-
son á undan honum. Ásgeir virti að
sjálfsögðu þann grundvöll stjórnar-
skipunarinnar að Ísland er lýðveldi
með þingbundinni stjórn. Á hinn
bóginn gætti hann ekki ítrustu hlut-
lægni við stjórnarmyndanir eins og
þjóðhöfðingja bar; því réð andúð
hans á sósíalistum og eindreginn
stuðningur við vestræna varnar-
samvinnu sem hann lét í ljós svo að
ekki varð um villst. Að þessu leyti
var Ásgeir „pólitískur“ forseti.
Úrslitin 1952 ollu því að flokks-
framboð voru úr sögunni við for-
setakjör. Árið 1968 fór nú samt svo
að stjórnmálamennirnir reyndu að
véla um það hver næði kjöri. Tveir
buðu sig fram, Gunnar Thoroddsen
og Kristján Eldjárn. Báðir vildu
forðast flokksleg tengsl en Gunnari
reyndist það ómögulegt og fram-
boð Kristjáns var í raun rammpóli-
tískt. Sitthvað fleira var þó í hugum
landsmanna þegar þeir veltu fyrir
sér kostum og köllum frambjóðend-
anna tveggja. Baráttan 1968 varð
um margt ljót og leiðinleg.
Forseti fólksins eða flokkanna?
Sumarið 1952 gengu Íslendingar í fyrsta sinn til forsetakjörs. Kosningabaráttan var geysilega hörð og þegar upp var staðið gat
munurinn vart verið minni. Guðni Th. Jóhannesson segir frá kjöri annars forseta lýðveldisins.
Á LEIÐ TIL ENGLANDS Ásgeir Ásgeirsson og Dóra Þórhallsdóttir á Reykjavíkurflugvelli 18 nóvember 1963. Förinni var heitið til
Englands og Ingimundur Magnússon ljósmyndari Vísis mætti á staðinn til að festa viðburðinn á filmu. MYND/LJÓSMYNDASAFN REYKJAVÍKUR
Þversögnin varð því sú að „ópólitíski“ frambjóðandinn hafði
setið á þingi á frá 1923 og verið fjármálaráðherra, forsætisráðherra,
þingforseti og áhrifamaður í tveimur stjórnmálaflokkum. „Pólitíski“
frambjóðandinn var grandvar guðsmaður sem hafði aldrei á þingi setið.