Kjarninn - 22.08.2013, Blaðsíða 81

Kjarninn - 22.08.2013, Blaðsíða 81
E itt er það réttarsvið sem reynir meira á með aukinni sérhæfingu og flóknara samfélagi, en það er skaðabótaábyrgð sérfræðinga, stundum nefnd sérfræðiábyrgð. Á sérfræðingum hvílir ströng skaðabótaábyrgð en grundvöllur hennar er engu að síður hinn almenni skaðabótagrundvöllur, sakarreglan. Sú regla er grundvallarregla í íslenskum skaðabótarétti en í henni felst að „sá beri skaðabótaábyrgð á tjóni, sem veldur því með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og raskar hagsmunum, sem verndaðir eru með skaðabótareglum“. (Arnljótur Björnsson, Skaðabótaréttur, bls. 54, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 1988.) Til nánari útskýringar skal tekið fram að saknæmishugtakið í skaðabótarétti vísar til þess að viðkomandi hafi af ásetningi eða gáleysi sýnt af sér þá háttsemi sem veldur tjóni en ekki er verið að vísa til daglegrar málnotkunar hugtaksins, þ.e. refsiverðrar hegðunar. Skilyrði sakarreglunnar þurfa að vera uppfyllt til að sérfræðingur beri ábyrgð á tjóni sem leiða kann af vinnu hans eða ráðgjafar, rétt eins og á við um hvern annan einstakling sem veldur tjóni með saknæmri háttsemi. Á sérfræðingum hvílir því ekki ekki hlutlæg ábyrgð, þ.e. skaðabótaábyrgð án tillits til þess hvort viðkomandi hafi valdið tjóni með því að sýna af sér vanrækslu í starfi. Í hverju felst þá hin stranga skaðabótaábyrgð? Á nokkrum sviðum mannlífsins liggur strangari skaðabótaábyrgð á einstaklingum en öðrum og á það við um sérfræðinga. Þessi stranga skaðabótaábyrgð birtist í því að ríkari kröfur eru gerðar um aðgæslu viðkomandi, þ.e. gáleysismælikvarðinn er strangari. Í skilningi lögfræðinnar er gáleysi það þegar viðkomandi gætir ekki þeirrar varkárni sem gegn og skynsamur maður (oft nefndur bonus pater familias eða bonus pater) myndi gera í sömu aðstöðu. Þegar metið er hvort sérfræðingur hafi sýnt af sér gáleysi er þannig miðað við hvað gegn og skynsamur sérfræðingur myndi gera við sömu aðstæður. Þannig getur athugunarleysi sérfræðings verið grund völlur skaðabótaábyrgðar meðan sambærilegt athugunar leysi einstaklings sem ekki er sérfræðingur á viðkomandi sviði, og gefur sig ekki út fyrir það, er ekki grundvöllur skaðabótaábyrgðar. Eru á þann hátt ríkar kröfur gerðar til þess að sérfræðingurinn sé ávallt vandvirkur í störfum sínum, yfir hvaða fagþekkingu hann eigi að búa, sem og til þess hvað hann viti eða megi vita, þ.m.t. hvað hann megi sjá fyrir. Sakarreglan sjálf er ólögfest, óskráð réttarregla. Hins vegar er algengt að í lögum sem gilda um starfsstéttir og sérfræðinga sé vísað til ólögfestra reglna skaðabótaréttar, t.d. 27. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, „Endurskoðandi ber ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Um sakarmat og sönnun gilda reglur skaðabótaréttar.“ 27. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, „Fasteignasali ber ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Um sakarmat og sönnun gilda reglur skaðabótaréttar. [...]“ 1. mgr. 25. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn „Lögmaður ber bótaábyrgð á störfum sínum og starfsmanna sinna eftir almennum reglum.“ En hverjir eru sérfræðingar og hvaða kröfur verða gerðar til verkefna þeirra? Sérfræðingar eru þeir sem eiga að baki menntun á viðkomandi sviði, faglega þekkingu og reynslu og bjóða fram þjónustu sína og sérfræðiþekkingu, yfirleitt gegn greiðslu. Þótt sérfræðingur þiggi ekki greiðslu fyrir þjónustuna getur engu að síður hvílt á honum sérfræðiábyrgð. Sérfræðingar tilheyra því yfirleitt ákveðnum starfsstéttum, svo sem endurskoðendur, lögfræðingar, lögmenn, læknar, rafvirkjar, verkfræðingar og arkitektar. Einnig geta lögaðilar á borð við fjármálafyrirtæki, hagsmunasamtök og stofnanir fallið undir skilgreininguna, hafi þeir aðilar í raun verið að veita sérfræðiþjónustu. Eðlisólíkar kröfur verða gerðar til verkefna sérfræðinga eftir því á hvaða sviði þeir starfa. Á sumum sviðum þurfa verkin að uppfylla ákveðnar kröfur, svo sem hjá arkitektum þegar þeir teikna hús. Unnt verður að vera að reisa hús eftir teikningum og húsið þarf að uppfylla allar opinberar kröfur. Á sama hátt verður að vera hægt að efna samning sem fasteignasali gerir um kaup á fasteign. Á sumum öðrum sviðum verða yfirleitt ekki gerðar aðrar kröfur en að sérfræðingurinn vinni verkið faglega og gefi allar nauðsynlegar upplýsingar. Mjög ríkar kröfur eru til dæmis gerðar til lækna en ekki verður sú krafa gerð að allar læknisaðgerðir leiði til fulls bata og það án nokkurra aukaverkana. sönnunarreglur Önnur meginregla skaðabótaréttar er reglan um sönnunarbyrði tjónþola. Í henni felst að sá sem krefst bóta verður að sanna að bótaskyld háttsemi hafi átt sér stað sem leitt hafi til þess að tjón hans hafi orðið og hvert umfang tjónsins sé. Af dómum Hæstaréttar er hins vegar ljóst að þegar fjallað er um skaðabótaábyrgð sérfræðinga er stundum dregið úr þessari kröfu. Er það einn af þeim þáttum sem gera bótaábyrgð sérfræðinga strangari en annarra. Hefur þannig í réttar framkvæmd stundum verið dregið úr þeirri kröfu að tjónþoli þurfi að sanna atvik málsins, að orsakatengsl séu milli hinnar bótaskyldu háttsemi og tjónsins og einnig hefur verið dregið úr að tjónþoli þurfi að sýna fram á fjárhæð tjóns. Hins vegar hefur í réttarframkvæmd í tengslum við sérfræðiábyrgð ekki verið vikið frá þeirri kröfu, að það er sá sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem verður að sanna saknæma háttsemi, þ.e. ásetningur eða gáleysi hafi átt sér stað, en eins og áður sagði er mælikvarðinn strangur hvað það varðar og ríkar kröfur gerðar til sérfræðinga. atvik máls Sem dæmi um frávik frá almennum sönnunarkröfum í skaðabótamálum þegar um sérfræðiábyrgð er að tefla skal fyrst vikið að atvikum máls, þ.m.t. umfangi verks. Í dómsmálum þar sem ágreiningur hefur risið um umfang verks, þ.e. hvað það var í raun og veru sem sérfræðingurinn tók að sér að gera, hefur Hæstiréttur, eins og áður sagði, vikið frá því að tjónþoli beri sönnunarbyrðina um atvik máls og lagt sönnunarbyrðina á sérfræðinginn. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 721/2010 sem kveðinn var upp 20. október 2011 voru atvik þau að A sf. festi kaup á helmingshlut í iðnaðarhúsnæði með kaupsamningi 20. október 2008 en samkvæmt honum var X ehf. seljandi eignarhlutans. X ehf. hafði nýlega fest kaup á húsnæðinu og hafði ekki enn fengið útgefið afsal. Í kaupsamningnum kom fram áletrun þess efnis að lögmaðurinn B hefði samið skjalið. Í málinu krafði A sf. B um skaðabætur fyrir ætlað tjón vegna meintra mistaka þess síðarnefnda við gerð kaupsamningsins sem leitt hefðu til þess að það hefði ekkert fengið í sinn hlut af uppboðsandvirði eignarinnar sem seld var síðar nauðungar sölu. En sýslumaður hafði hafnað þinglýsingu kaupsamningsins þar sem undirskrift afsalshafa hafi vantað. Af hálfu lögmannsins var því alfarið hafnað að hann hefði haft milligöngu um framangreind fasteignakaup eins og A sf. hélt fram. Hann hefði einungis fært á blað í formlegan búning þá skilmála kaupa sem A sf. og X ehf. hefðu áður komið sér saman um. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að lögmaðurinn hefði aflað þinglýsingarvottorðs í tengslum við skjalagerðina og útskýrt þýðingu þess að seljandinn væri ekki þinglýstur afsalshafi. Þá var talið í ljós leitt að kaupsamningurinn hefði ekki verið undirritaður á skrifstofu lögmannsins, engar greiðslur hefðu farið þar fram og forsvarsmaður A sf. hefði sjálfur farið með kaupsamninginn til þinglýsingar og móttekið hann skömmu síðar með áritun um frávísun þar sem afsalshafi hefði ekki undirritað skjalið. Taldi Hæstiréttur að lögmaðurinn hefði sýnt fram á að hlutverk sitt í tengslum við fasteignakaupin hefði verið afmarkað og meint tjón A sf. yrði ekki rakið til vanrækslu lögmannsins á lögbundnum skyldum sínum í samræmi við það hlutverk sem kaupsamningsaðilar fólu honum. Sýknaði Hæstiréttur því lögmanninn af kröfu A sf. Einnig má nefna dóm Hæstaréttar í málinu nr. 506/2011, uppkveðinn 22. mars 2012. Voru atvik þau að A höfðaði mál gegn fasteignasalanum B vegna ágreinings um hvort B hefði borið að sjá til þess að A fengi tiltekna greiðslu vegna sölu fasteignar. Að virtum ákvæðum kaupsamnings um fast­ eignina var ekki talið að bótaábyrgð B gagnvart A yrði reist á þeim ákvæðum laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa er vörðuðu skyldur hans sem fasteignasala gagnvart A sem seljanda eða öðrum rétthafa í eigninni. Þá þótti A hvorki hafa sýnt fram á að hún hefði beðið fjártjón sem B hefði valdið henni með ólögmætum og saknæmum hætti í störfum sínum sem fasteignasali umrætt sinn né á öðrum grundvelli. Var B því sýknaður af kröfum A. orsakatengsl Þá þekkist það í réttarframkvæmd um sérfræðiábyrgð að dregið sé úr þeirri kröfu að tjónþola beri að sýna fram á orsakatengsl milli hinnar saknæmu háttsemi og tjónsins. Hafi tjónþoli sýnt fram á að sérfræðingur hafi sýnt af sér gáleysi í störfum og að tjón hafi orðið þá eru minni kröfur gerðar til þess að tjónþolinn sýni fram á að gáleysi sérfræðingsins hafi í raun verið orsök tjónsins. Á þetta sérstaklega við í málum sem lúta að bótaábyrgð vegna læknisverka og heilbrigðisstofnana; má t.d. nefna dóm Hæstaréttar í máli nr. 317/2005. Þetta er þó ekki meginregla og sem dæmi um hið gagnstæða má nefna dóm Hæstaréttar í málinu nr. 771/2009. Með kaupsamningi 27. september 2006 keyptu A og B jörðina X. Eftir að A og B höfðu fengið jörðina afhenta töldu þau að flatarmál láglendis jarðarinnar hefði reynst minna en þau hefðu gert ráð fyrir samkvæmt uppdrætti af deiliskipulagi frístundabyggðar á jörðinni. Höfðuðu þau mál meðal annars á hendur fasteignasalanum sem annaðist söluna og skjalagerðina. Kröfðust þau skaðabóta eða afsláttar af kaupverði. Talið var að A og B hefðu ekki mátt draga ályktanir um stærð láglendisins af þeim deiliskipulagsuppdrætti sem þeim hafði verið afhentur. Hefðu þau gengið til samninga um kaup á jörðinni án þess að hafa áður aflað óyggjandi upplýsinga um þetta en þrátt fyrir það reist málssókn sína á því að stærð láglendisins hefði haft verulega þýðingu við ákvörðun þess verðs sem þau höfðu verið tilbúin til að greiða við samningsgerðina. Um augljós mistök af hálfu A og B hefði verið að ræða við að lesa úr uppdrættinum og yrðu þau sjálf að bera ábyrgð á því. Hins vegar þótti söluyfirlit fasteignarinnar ekki hafa uppfyllt þær kröfur sem áskildar eru í lögum, en það var ekki talin hafa verið orsök tjóns A og B og var fasteignasalinn sýknaður af skaðabótakröfu A og B. Einnig má nefna dóm Hæstaréttar í málinu nr. 227/2011, sem kveðinn var upp 8. desember 2011. Þar háttaði svo til að A höfðaði mál gegn B, D og E sf. til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hún kvaðst hafa orðið fyrir þegar rafstraumur fór um hana þegar hún baðaði sig á heimili sínu. B hafði verið rafvirkjameistari við byggingu hússins og hafði sameignarfélag hans og D, E sf., séð um raflagnir í það. Fyrir lá að rafmagnsleiðslur höfðu verið ranglega tengdar í íbúð A en að mati dómkvaddra sérfræðinga gátu þau mistök ein og sér ekki orsakað slys eins og það sem A kvaðst hafa orðið fyrir nema hlutur, sem tengdur hefði verið rafkerfi íbúðarinnar, hefði komist í snertingu við baðvatnið. Þar sem A hafði neitað því að slíkt hefði gerst var talið ósannað að röng tenging rafmagnsleiðsla hefði orsakað slysið. Kröfum A var því hafnað. Fjárhæð tjóns Tjónþoli þarf alla jafna að sanna að tjón hafi orðið og jafnframt hvert umfang þess sé, í málum sem lúta að sérfræði ábyrgð líkt og í öðrum skaðabótamálum. Sem dæmi um það má nefna dóma Hæstaréttar í málum nr. 36/2010, 524/2009 og 139/2004. Hæstiréttur hefur þó kveðið upp dóma þar sem bætur er dæmdar að álitum ef ljóst þykir að tjónþoli hafi orðið fyrir einhverju tjóni, en svo háttaði til í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 262/2000. Þar krafði A lögmennina B og D um bætur, þar sem dregist hafði hjá þeim að halda til haga kröfu hennar um bætur fyrir líkamstjón. Taldi Hæstiréttur að með hliðsjón af þeirri ríku ábyrgð sem lögmenn bera gagnvart skjólstæðingum sínum hefði aðgerðaleysi B ekki verið nægilega réttlætt í málinu og telja yrði að D hefði ekki brugðist eins skjótt við og vænta mætti af starfandi lögmanni. Teldust þau því bera skaðabótaábyrgð gagnvart A, enda stæðu líkur til þess að A hefðu verið dæmdar bætur að einhverju leyti hefði kröfum hennar verið haldið til haga. Þar sem svo hefði ekki verið gert þættu nægar líkur hafa verið leiddar að því að A hefði orðið fyrir tjóni sökum athafnaleysis B og D og yrðu þau að bera halla af sönnunarskorti um að svo hefði ekki verið. Voru lögmennirnir því dæmdir til að greiða A skaðabætur að álitum. túlkun sakareglunnar Grundvöllur skaðabótaábyrgðar sérfræðinga er sú almenna skaðabótaábyrgð sem felst í sakarreglunni. Hin stranga ábyrgð sem á sérfræðingum hvílir er hins vegar reist á túlkun sakarreglunnar og sönnunarkröfum. Er saknæmis­ mælikvarðinn sem lagður er á sérfræðinga strangari en gengur og gerist, þannig að flest öll frávik frá því að sérfræðingur sýni ávallt af sér fyllstu vandvirkni í starfi eru talin vera gáleysi af hans hálfu. Í öðru lagi leiðir það til strangari skaðabótaábyrgðar sérfræðinga að í réttarframkvæmd hefur verið dregið úr sönnunarkröfum á hendur tjónþola hvað atvik máls varðar, orsakatengsl milli hinnar bótaskyldu háttsemi og umfang tjónsins. Skaðabótaábyrgð sérfræðinga álit Kristín Edwald hrl. Deildu með umheiminum Smelltu til að fara aftur í yfirlit
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76
Blaðsíða 77
Blaðsíða 78
Blaðsíða 79
Blaðsíða 80
Blaðsíða 81
Blaðsíða 82
Blaðsíða 83
Blaðsíða 84
Blaðsíða 85
Blaðsíða 86
Blaðsíða 87
Blaðsíða 88
Blaðsíða 89
Blaðsíða 90
Blaðsíða 91
Blaðsíða 92
Blaðsíða 93
Blaðsíða 94
Blaðsíða 95
Blaðsíða 96
Blaðsíða 97
Blaðsíða 98
Blaðsíða 99
Blaðsíða 100
Blaðsíða 101
Blaðsíða 102
Blaðsíða 103
Blaðsíða 104
Blaðsíða 105
Blaðsíða 106
Blaðsíða 107
Blaðsíða 108
Blaðsíða 109
Blaðsíða 110
Blaðsíða 111
Blaðsíða 112
Blaðsíða 113
Blaðsíða 114
Blaðsíða 115
Blaðsíða 116
Blaðsíða 117
Blaðsíða 118
Blaðsíða 119
Blaðsíða 120
Blaðsíða 121
Blaðsíða 122
Blaðsíða 123
Blaðsíða 124
Blaðsíða 125
Blaðsíða 126
Blaðsíða 127

x

Kjarninn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kjarninn
https://timarit.is/publication/958

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.