Kjarninn - 22.08.2013, Blaðsíða 35
Kínverjar hafa áhuga á því að kaupa eignarhluti í íslenska
fjármálakerfinu og hafa viðrað þann áhuga við slitastjórn
Glitnis, sem á 95 prósenta hlut í Íslandsbanka, og einnig
íslensk stjórnvöld. Nokkrir fjárfestahópar frá Asíuríkjum
hafa sýnt Íslandsbanka áhuga og a.m.k. tveir ætla sér að skila
inn óskuldbindandi tilboði í bankann. Verði slíku tilboði
tekið fá hóparnir aðgang að gagnaherbergi og geta kynnt sér
innviði bankans betur. Innan þessara hópa eru fjárfestar sem
hafa reynslu af fjármagnshöftum eins og þekkst hafa lengi í
mörgum Asíuríkjum. Bæði kemur til greina að kaupa bank
ann í heilu lagi og að hluta og þá með öðrum, t.d. íslenskum
lífeyrissjóðum. Formlegum skilaboðum var í upphafi komið
til Árna Tómassonar, sem var formaður skilanefndar Glitnis,
og Friðriks Sophussonar, stjórnarformanns Íslandsbanka.
Þeir funduðu sérstaklega með Steingrími J. Sigfússyni vegna
þessa og tilkynntu formlega um áhuga Kínverja á því að
eignast bankann. Áhuginn hefur verið endurnýjaður, frá því
fyrst var gerð grein fyrir honum, og þeim skilaboðum komið
til slitastjórnar Glitnis og stjórnvalda að kínversk stjórnvöld
vilji koma að rekstri fjármálakerfisins íslenska. Í samtölum
við íslenska embættismenn hafa kínversk stjórnvöld ekki ein
angrað áhuga sinn við Íslandsbanka heldur talað um áhuga
sinn á íslenska fjármálakerfinu í heild, þar sem Arion banki
og Landsbankinn eru meðtaldir. Formlega hefur áhuginn
þó aðeins beinst að Íslandsbanka, enn sem komið er. Það er
erlendur fjárfestingararmur Alþýðubankans í Kína (People‘s
Bank of China) sem oftast nær stendur á bak við fjárfestingar
Kínverja á erlendri grundu, en fleiri fjárfestar frá Asíu hafa
sýnt íslenska fjármálakerfinu áhuga eins og áður segir.
Alþýðubankinn í Kína er í reynd Seðlabanki Kína, en í því
miðstýrða fyrirkomulagi sem einkennir kínverska fjármála
kerfið, þar sem þræðirnir liggja frá stjórnvöldum sjálfum, er
hann gríðarlega umsvifamikill í fjárfestingum á erlendum
mörkuðum í gegnum dótturfélög, sem sinna hefðbundinni
viðskipta og fjárfestingarbankastarfsemi. Sem dæmi er hann
sjötti stærsti eigandi stærsta banka Noregs, DNB, sem hefur
átt í samstarfi við Íslandsbanka á sviði eignastýringar.
7/10 kjarninn EFnAHAGSmáL