Fréttatíminn - 05.04.2012, Page 29
Ótrúlega fallegt að fá annað tækifæri í lífinu
„Þegar börnin mín voru tekin af mér var ég
með andateppu í langan tíma. Það var eins og
væru mörg kíló ofan á hjartanu í mér. Ég hef
alltaf verið grátgjörn, en þegar ég hafði misst
börnin mín grét ég bara út í eitt. Þá sagði
pabbi: „Guð kemur og styrkir þig, hann lætur
ekki fólk koma svona fram við þig.“ Pabbi var
sjómaður, Kristján Gislason og móðir mín
var Margrét Jóhanna Magnúsdóttir. Mamma
var alltaf að gera eitthvað fyrir þá sem minna
máttu sín, hún var svona gefandi eins og Mar-
grét mín. En ég bað alltaf til Guðs að enginn
myndi bregða huga hennar Margrétar frá
mér, móður sinni. Sigga, fósturmóðir Mar-
grétar, var trúuð kona og hélt við trúnni hjá
Margréti minni.“
En lífið varð að halda áfram. Ólöf Emma
réði sig sem húshjálp í Reykjavík og á ekkert
nema góðar minningar þaðan:
„Ég réði mig sem húshjálp að Fjólugötu
19 og mér fannst svo gott að vera á svona
fínu heimili. Hún Anna Þóra Thoroddsen,
hún Dúddý mín, var svo góð við mig. Hún
sagði: „Þú þarft ekki að gera snitti núna, nú
tölum við bara saman.“ Svo settist Dúddý við
píanóið og spilaði.“
Man eftir vinum og samverustundum úr
fortíðinni
„Nú höfum við mamma verið saman í þrjú
ár,“ segir Margrét, „og það sem ég finn að
gleður hana mest, af því hún er með svolitla
gleymsku, er hvað henni finnst yndislegt
þegar hún er minnt á kunningja og vini frá
hinum ýmsu tímum. Þegar fólk sem hún
varði tíma með á einhverju skeiði lífsins birt-
ist í heimsókn hjá henni, þá nær hún að rifja
upp með þeim hitt og þetta. Það er eins og
kvikni á einhverjum taugaendum. Þá kemur
ekki bara ljós á taugaendana heldur líka blik
í augu hennar. Það er svo fallegt að sjá full-
orðið fólk rifja upp gömul kynni og samveru.
Þess vegna held ég að það sé stórhættulegt
að fólk sem er komið yfir sjötugt eða áttrætt
sé einangrað. Mér finnst það bókstaflega
samfélagsleg skylda að sjá til þess að full-
orðið fólk hittist. Á heimilinu Felli, þar sem
mamma býr núna, eru margir starfsmenn
af erlendu bergi brotnir. Það er til dæmis of
oft gert grín að því að meirihluti vinnuafls á
elliheimilum séu útlendingar. Mamma hefur
enga fordóma, hvorki gagnvart þeim né öðru,
því hún hefur sjálf verið útlendingur í nýju
landi. Hún finnur að sumar starfsstúlknanna
eiga enga mömmu á landinu. Sumar hafa
komið til hennar með börnin sin og þær hafa
boðið mömmu heim. Mér finnst þetta alveg
einstakt.“
Árið 1960 eignaðist Ólöf son með banda-
rískum manni af norskum ættum, Carl
Hanson. Drengurinn var skírður Kristinn
Þór. Síðar giftist hún Hjálmari Péturssyni úr-
smiði, sem var henni og drengnum óskaplega
góður og þau eignuðust soninn Kristján árið
1967. Kristján er tæknifræðingur að mennt
og býr í Bandaríkjunum.
„En mamma,“ segir Margrét allt í einu,
„Það voru fimm menn í lifi þínu. Heldurðu að
þú hafir verið ástfangin af þessum mönnum
sem þú átt börnin með eða langaði þig alltaf
til að eiga bara einn mann, einn prins, út
lífið?“
„Já auðvitað vildi ég það, en það var bara
ekki hægt,“ svarar Ólöf að bragði og Margrét
kemur strax með svar við því hvað hefði geta
breytt hlutunum:
„Það hefði verið gott að hafa hjónaþerapíu
þá eins og er núna,“ segir Margrét og við
ræðum hvað margt getur gerst og breyst á
skömmum tíma:
„Ég gleymi því aldrei þegar ég uppgötvaði
að þessi stóra sprengja í mínu lífi var í raun
svo stuttur tími. Í tvö ár var ég í hamingju-
samri fjölskyldu, með mömmu, pabba, tveim-
ur bræðrum og svo splundrast allt. Þegar það
gerist gleymast hálfsystkini oft. Ég saknaði
oft stóra bróður míns Grétars, en hann var
að mestu leyti alinn upp í sveit og sótti skóla
á Húsavík og bjó hjá pabba og Ingu stjúpu
okkar. Mamma hefur tengt okkur systk-
inin aftur og það er svo ótrúlega fallegt að fá
annað tækifæri í lífinu og þá á ekki að mis-
nota það.“
Og enn knúði sorgin dyra
Ólöf giftist Bandaríkjamanninum John
Wheeler á Íslandi árið 1975 („það er tvöfalt
vaff og tvö e, segir Ólöf, svo ég hafi nafnið
eftir kórrétt) og þau fluttu til Bandaríkjanna
ári síðar með Kristjáni, yngsta syninum. En
áföllin höfðu ekki sagt skilið við líf ísfirsku
stúlkunnar:
„John lést árið 2001,“ segir Margrét. „Ári
síðar voru Kristinn bróðir minn 42 ára og
Elín Rut, dóttir hans nýorðin 21 árs, á ferða-
lagi í Arizona, þar sem mamma bjó, þegar
þau lentu í skelfilegu bílslysi en drukkinn
maður ók á þau. Þau létust bæði samstundis.
Þá byrjaði eitthvað að bresta hjá mömmu og
ári síðar fór hún í stóra hjartaaðgerð. Ég held
að það sé í rauninni blessun hversu mörgu
hún hefur gleymt...“
„Er hann Kiddi minn dáinn?“ spyr þá Ólöf
og þegar Margrét minnir hana á fallegu at-
höfnina sem þær héldu fyrir hann segir Ólöf
hugsi: „Þá er orðið mjög langt síðan ég sá
hann síðast,“ og sorgin bregður skugga á
annars broshýrt andlitið.
Þarf aldrei að gráta oftar
Þótt Margrét væri ættleidd reyndi Ólöf
stöðugt að hafa samband við hana. „Já, já við
Margrét stálumst til að hittast í sjoppunni
í Hafnarfirði og stundum hringdi ég í hana
í skólann,“ segir hún. „Og ég fylgdist með
henni alla tíð, í náminu hennar hér heima, í
Vínarborg og á Ítalíu og er að springa af stolti
þegar ég sæki tónleikana sem hún stjórnar.
Nú þarf ég aldrei að gráta oftar, ég er komin
til hennar.“
„Það stóð aldrei til að mamma kæmi heim
til Íslands til að verja ævikvöldinu,“ segir
Margrét. „Hún hafði sjálf valið að verja því
í Bandaríkjunum og hafði keypt sér leiði
við hlið Kristins bróður míns. Fyrir þremur
árum fór Björg systir hennar með dætrum
sínum í heimsókn til mömmu og þær sáu
strax að mamma væri ekki fær um að sjá um
sig ein enda gleymskan farin að ná yfirhönd-
inni. Kristján bróðir var í fullu starfi sem
fylgja mikil ferðalög. Þær hringdu í mig og
kröfðust þess að hún fengi að koma heim. Og
fyrr en varði stóð mamma hér í stofunni hjá
okkur þar sem safnast höfðu barnabörn sem
aldrei höfðu séð ömmu Ollu. Þetta var auð-
vitað stór pakki í upphafi. En eins og alltaf
þegar ég fæ stóra pakka, leita ég mér leið-
sagnar góðs fólks. Ég leitaði styrks til prest-
anna í Dómkirkjunni og fór með mömmu og
lyfin hennar á Landakotsspítala þar sem við
hittum yndislegan lækni, Ólaf Þór. Hún bjó
hjá okkur fyrstu mánuðina og það var eins og
ég hefði verið að eignast sjötta barnið.“
Sjálf segist Ólöf hafa verið alveg sátt við að
flytja frá Bandaríkjunum:
„Ég vil heldur vera nálægt fjölskyldunni
en í einhverjum fínheitum í Ameríku,“ segir
hún. „Lífið okkar er innan um blessuð börnin
okkar. Það er ekkert líf án barnanna og það
á ekki að splundra fjölskyldum. Hamingjan
sem fylgir því að fá börn til sín er óendanleg
hamingja.“
„Nú er mamma orðin hluti af því púsli sem
hún hafði aldrei verið,“ segir Margrét.
Löng og djúp vegferð að endurnýja
sambandið
En sameining mæðgnanna var ekki eins og
handrit að Hollywood-mynd, þótt vissulega
sé söguþráðurinn fallegur og myndin á
áreiðanlega eftir að enda vel:
„Þetta hefur verið miklu lengri og dýpri
vegferð en ég gerði mér grein fyrir í upp-
hafi þegar mamma kom fyrir þremur árum,“
segir Margrét. „Fjölskyldan vissi ekki alveg
hvernig ætti að taka á þessu, en við sam-
mæltumst um að taka á þessu á jákvæðan
hátt og það gengur stöðugt betur. Við höfum
fengið mikið næði til að sýna hvor annarri
ástúð og kærleika sem hún sýnir mér gjarn-
an. Mér finnst svo mikilvægt að kvenlegu
eiginleikarnir fái að halda sér hjá öldruðum
konum og ég veit að mamma saknar þess
stundum að hafa ekki lítinn ísskáp og skáp
með glösum. Við finnum okkur leið til að hún
hafi smá peninga. Henni finnst gaman að fara
í stórmarkaði, æðislegt að fara í Melabúðina
og það má alls ekki einangra fólk þótt það sé
aðeins komið úr takti. Fyrst fannst mér þetta
óyfirstíganlegt verkefni, svo fannst mér þetta
yndislegt, svo aftur smá erfitt en nú er komið
jafnvægi. Þetta er sannur kærleikur. Það
sem mér finnst fallegast við þennan sjúkdóm
og maður getur huggað sig við er að fólk er
yfirleitt gott. Alvöru gæðastundirnar hennar
mömmu eru þegar hún er með ættingjum
og vinum. Henni finnst Fell öruggt og finnst
notalegt að koma heim í litla herbergið sitt og
raða hlutunum sínum upp á nýtt – bingóhlut-
unum sem hún vinnur á hverjum föstudegi!
Svo fór hún á Þorrablót þar og dansaði við
alla herrana!“
Eina systkinið sem átti auðvelt með að
gleðja aðra
Nú er Ólöf Emma ein eftirlifandi af átta systk-
ina hópi. Björg systir hennar lést haustið
2010 og Stína nú í janúar. Margréti þykir afar
vænt um að hvað þær systur lögðu mömmu
hennar til góð orð:
„Stína sagði mér að mömmu hefði einni
af þeim systkinunum verið gefinn sá eigin-
leiki að eiga auðvelt með að gleðja fólk. Ég
veit að mamma gat alltaf lagt allt frá sér til
að einbeita sér að þeim sem komu til hennar,
veitt huggun og styrk og samglaðst. Þetta er
frábær eiginleiki sem ekki öllum er gefinn.
Hún nær enn ótrúlega fallegu sambandi við
fólk.“
Þetta er nákvæmlega það sem ég upplifi í
návist Ólafar og ég er ekki hissa að starfs-
fólkið á Felli tími ekki að missa hana frá sér.
Meðan við ræðum saman koma börnin henn-
ar Margrétar, tengdadóttir og tvö barnabörn.
Ólöf lifnar öll við þegar hún fær litlu Ísabellu
í fangið og ekki minnkar gleðin þegar Sverrir
Arnar fjögurra ára mætir á svæðið.
Stórar breytingar framundan hjá
Margréti
Þann 24. janúar árið 1992 birtist lítil blaða-
auglýsing þar sem Kórskóli Margrétar J.
Pálmadóttur auglýsti kóræfingar fyrir kon-
ur. Eins og allir vita blés hugmyndin út og
nú þjálfar Margrét marga kóra og er einn
eigenda söngskólans Domus Vox. En á þessu
tuttugu ára starfsafmæli eru breytingar í
vændum:
„Já, við munum debútera í Hörpu 17. apríl
í Norðurljósasalnum og fagna nýju sumri,
en þetta eru síðustu stórtónleikarnir sem
ég stjórna með öllum þessum kórum. Ég
vil að listrænt fari hver kór nú sína leið. Ég
held áfram að vinna í sívaxandi sönghúsinu
mínu en ég sinni ekki þessu starfi ein. Ég
skipulegg ekki fleiri tónleika með yfir tvö
hundruð konum. Í vor syngur kvennakórinn
Vox Feminae inn sitt tuttugusta starfsár með
glæsilegum tónleikum í Hallgrímskirkju. Á
næstu jólatónleikum verður hver kór fyrir sig
og kannski einhverjir með annan stjórnanda.
Eitt af mínum uppáhalds verkefnum er „Sól
og söngur“, æfingabúðir í Marina di Massa á
Ítalíu. Í sumar fer hluti Stúlknakórsins þang-
að og einnig gefst karlmönnum í fyrsta skipti
tækifæri á að blanda sér í kvennahópana og
syngja með okkur í kaþólskri messu hjá Don
Lucca í Dómkirkjunni í Massa.“
„Nú fáum við báðar nýtt tækifæri“
Augljóst er að Margrét er stór fókuspunktur í
lífi móður hennar.
„Margrét mín hefur aldrei sýnt mér annað
en blíðu og ég hef elskað hana frá fyrstu
mínútu,“ segir Ólöf. „Einhverju sinni grét ég
svo mikið að mamma kom til mín og sagði:
„Olla mín, þú þarft ekki að gráta meira vegna
hennar Margrétar, því Guð er í kringum
hana og ég bið alltaf fyrir henni.“
Og Margrét bætir við: „Ég hef lifað í
vernduðu umhverfi alla mína ævi. En við
svona gjöf, að fá aftur inn í líf mitt helming-
inn sem var fjarlægður frá mér, er einstakt
að skuli gerast. Ég hef fengið góð viðbrögð
frá pabba og Ingu konunni hans, sem skilja
þetta fullkomlega. Margt í tengslum við
ákveðin ár hefur verið þurrkað úr huga
mömmu, en aðskilnaðinn við börnin sín man
hún eins og hann hafi gerst í gær. Það er
ekkert sem getur komið í stað góðrar móður
nema góð fósturmóðir. Nú fáum við báðar
nýtt tækifæri. Við gerum allt það sem allar
dætur dreymir um að gera með móður sinni.
Förum í hárgreiðslu, til læknisins, við förum
á tónleika og í verslanir og mamma elskar að
fara í messur. Hún er miklu hamingjusamari
núna en þegar hún kom 2009 og er ekki tætt
lengur; komin með frið í hjartað. Ég á Björgu
heitinni móðursystur minni mikið að þakka
fyrir þetta stóra kærleiksverk að hafa hug-
rekki til að koma með mömmu heim.“
Við erum sannarlega í ljósinu
Og Margrét heldur áfram: „Ég er svo glöð
þegar ég sé kærleikann í verki. Þegar brotnar
fjölskyldur ná að tengjast aftur, þá er verið
að breyta því sem maður getur breytt. María
mey skiptir okkur mömmu mjög miklu máli
og þetta virkar eins og genetískt hvað við
tengjumst henni báðar. Mamma kenndi mér
að þekkja Jesús og ég greip til hans, tveggja
ára barnið á fyrstu dögum mínum eftir að ég
fór frá henni. Nú er stærsta sigurhátíð krist-
inna manna að ganga í garð og við verðum
að muna eftir bæninni. Það er svo gott að
leita til skapara síns og ég kalla mömmu oft
Jesúbarn. Hún hefur stuðst við hann allt sitt
líf og sjáðu hvað hún hefur upplifað. Hvað
annað en kærleikurinn býr til slíka leið að
móðir fái að hitta börn sín á ný og heila svona
óendanlega djúpt sár? Það eru gömul og ný
sannindi að þegar ljós og skuggi skiptast á,
þá kann maður svo sannarlega að meta að
vera í ljósinu.“
Og við endum þessa stund okkar á að
Ólöf Emma fer með bæn sem hún lærði fyrir
áratugum, en hefur breytt og staðfært eftir
aðstæðum lífs síns:
„Himneski faðir, þú ert ljósið eina,
nú hvílumst við öll í heilaga ljósinu þínu.
Við leggjum allt í þínar hendur
Því þú ert lífið og sannleikurinn
og okkur líður svo vel
ef við gefum hug okkar og hjarta til þín.
Í Jesú nafni amen.
Himneski faðir, þú ert lífið eina,
nú dvel ég hér í lífsmættinum þínum.
Þakka fyrir allt og allt. Í Guðs friði.“
„Hvað annað en kærleikurinn býr til svona leiðir að
móðir fái að hitta börn sín á ný?“ Olla mamma og
Margrét Jóhanna hafa fengið næði til að sýna hvor
annarri ástúð eftir áratugalangan aðskilnað.
viðtal 29 Helgin 5.-8. apríl 2012