Bændablaðið - 01.08.2013, Side 29
29
Rétt þykir á þessum vettvangi að
taka ögn upp þráðinn varðandi
Heimafóðurverkefnið, stöðu þess nú
og væntingar. Þróun og smíði hinnar
færanlegu kögglunarsamstæðu
Stefáns Þórðarsonar í Teigi
(Fóðurvinnslan ehf), sem hefur
verið studd eftir megni af Félagi
áhugafólks um Heimafóðurverkefnið
(FáH), er nú komin á það stig að geta
ferðast hvert á land sem er og boðið
upp á kögglun á heyi, hálmi, byggi
og viðarkurli, svo fremi að hráefnið
nái að lágmarki 83% þurrefni, eins
og áður hefur fram komið. Það sem
meira er, tekur ekki nema nokkrar
mínútur að koma samstæðunni úr
flutningsstöðu í vinnslustöðu og
öfugt.
Þetta er vissulega búið að taka
lengri tíma en áætlað var í fyrstu, sem
helgast einkum af því að erfiðlega
hefur gengið að fjármagna smíðina
lengst af, ekki síst hin síðustu ár,
auk þess sem lítið af nægilega þurru
hráefni hefur fallið til vinnslunnar,
einkum þar sem þurrhey hefur verið
aðaluppistaðan. Bygghálmur til
undirburðar hefur því komið meira
inn í vinnsluna sl. erfiðleikaár í
heyskap og verið er í vaxandi mæli að
gefa gaum að kögglun á viðarkurli til
undirburðar og eldsneytis. Jafnframt
því er verið að skoða möguleika á að
koma upp staðbundinni þurrkunar-
og vinnslustöð í tengslum við
hitaveitu á Héraði. Í þessu efni
er FáH í samstarfi við aðila eins
og Héraðs- og Austurlandsskóga,
Hitaveitu Egilsstaða og Fella og
Atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs
og er meiningin að þar verði hægt að
fullþurrka og vinna úr áðurnefndum
hráefnum og lengja þar með
vinnslutíma samstæðunnar og tryggja
betur en ella rekstur hennar.
Þar sem uppistaðan í vinnslu
þessari er þó og hefur verið kögglun á
þurrheyi, oft með nokkurri íblöndun,
gefur auga leið að andstætt því sem
var fyrir nokkrum árum, þegar mikið
heyjaðist, jafnvel svo mikið að menn
töluðu um vandamál í því sambandi
(samanber nýyrðið ,,ofheyjun“, sem
þá skaut upp kollinum), hefur hið
gagnstæða verið meira og minna
landlægt undanfarin 2-3 ár. Í kjölfar
lítilla sem engra fyrninga og heyskorts
sums staðar, að viðbættu kali í vor,
víða norðan- og austanlands, viðist
lítið lát ætla að verða á þessu ástandi.
Ljósi punkturinn er þó sá að víðast
hvar hefur viðrað vel fyrir grassprettu
það sem af er þessu sumri og yfirleitt
verið þurrksælt fyrir norðan og
austan.
Sú staðreynd að saman fer að
kögglunarsamstæðan er komin í
startholurnar og nokkuð bjartara er
yfir heyskaparhorfum sums staðar
en áður, býður Fóðurvinnslan ehf upp
á þjónustu sína, eins og endurtekin
auglýsing frá henni í þessu tölublaði
Bændablaðsins ber vott um.
Undir lokin má geta þess að
sjálfsagt er að menn þurrki hey sín
almennilega, þegar góður þurrkur
gefst, ef ske kynni að þeim þætti
kögglun vænleg í lok heyskapar,
fyrir svo utan það að alltaf getur
verið gagnlegt að eiga vel þurrt hey,
kögglað eða ókögglað, með öðru til
að auka fjölbreytni gróffóðursins.
Áhugasamir um þessa vinnslu
og kynni að vanhaga um nánari
upplýsingar um fyrirbærið, eru
eindregið hvattir til að hafa samband
við Stefán í síma 893 7426, auk
þess sem undirritaður er ætíð
reiðubúinn til skrafs og ráðagerða um
Heimafóðurverkefnið og möguleika
þess (sími 897 2358, netfang:
toti1940@gmail.com)
Þórarinn Lárusson
fyrrv. ráðunautur
Lesendabásinn
Heimafóðurverkefnið, staða þess og væntingar
Mynd / Þórarinn Ólafsson
Eins og glöggir lesendur muna
er nú leitað heimilda um fyrstu
ár súgþurrkunartækninnar
hérlendis, sjá t.d. Bændablaðið
7. feb. sl. bls. 33. Enn er höggvið í
þann knérunn; nú með ljósmynd,
sem líklega er ekki auðveld í
greiningu.
Ljósmyndin er komin
úr fórum Ágústs Jónssonar
rafvirkjameistara, mikilvirks
frumkvöðuls súgþurrkunar-
tækninnar hérlendis. Karl, sonur
Ágústs, færði okkur myndina.
Hún er mjög sennilega tekin
hérlendis og sýnir að því er virðist
nýlega smíðað súgþurrkunarkerfi
(stokkakerfi) í allstórri hlöðu, kerfi
sömu gerðar og Ágúst sagði fyrir
um með fyrstu teikningum sínum
og kynningarlíkani.
Okkur leikur forvitni á að vita
hvort einhver glöggur lesandi kynni
að kannast við myndefnið. Helst
væri að greina staðinn af sérstæðu
hlöðuopinu (baggagatinu?) sem
minnir raunar mjög á tuttugustu
aldar kirkjuglugga. Vindaugað til
hægri er líka fremur óvenjulegt á
hlöðu: Eins og að þar sé „franskur“
gluggi. Óvíst er hvernig myndin
prentast en af frummyndinni má
sjá að burðarvirki hlöðunnar hefur
verið timburgrind (járn- eða timbur-
klædd?). Sýnilega hefur verið
vandað til verka því svo virðist
sem gólf hlöðunnar sé timburklætt.
Vitað er að fyrstu súgþurrk-
unartilraunirnar hérlendis voru
gerðar á Vífilsstöðum og þá að
Reykjum í Mosfellssveit og í
Tilraunastöðinni á Akureyri. Gæti
það gefið bendingar um staðinn?
Önnur býli í Mosfellssveit, svo og
býli í Árnessýslu gætu líka komið
til athugunar megi marka heimildir
um útbreiðslu aðferðarinnar.
Kannast einhver heldri borgari
við þetta umhverfi frá sínum sælu
æskudögum – þegar fortíðin lá
utan áhugasviðs að mestu en fram-
tíðin, björt og spennandi, átti alla
athyglina?
Hafa má samband í síma 894
6368 eða um netfangið bjarnig@
lbhi.is
Bjarni Guðmundsson
Landbúnaðarsafni Íslands
Kannast einhver við myndefnið?
Refurinn og lífríkið
Ég vil þakka öllum sem hafa tjáð
sig um þá plágu sem refurinn er,
hér um slóðir og víða um landið.
Þetta eru ekki bara fjárbændur,
þetta eru líka æðarbændur og
dýravinir og bara allt hugsandi
fólk í landinu.
Það er mín skoðun að bændur eigi
betra skilið en að hafa dýrbít í fénu
sínu allan þann tíma ársins sem það
er ekki á húsi. Hvað verður um allt
féð sem vantar? Ekki kemur til nytja
það sem tófan étur.
En þetta er fjárhagshliðin.
Hvernig skyldi ánum líða sem mega
horfa upp á að lífið sé murkað úr
afkvæmum þeirra? Það er heldur
ekki falleg sjón þegar fé kemur af
fjalli á haustin; helbitið, ekkert nema
beinin og gæran en samt lifandi.
Það er ekki snefill af væntumþykju
eða virðingu fyrir dýrum ef manni
er sama um svona nokkuð.
Svo kemur hin hliðin: Menn
hælast um yfir því að hafa náð læðu
og að hún hafi verið full af mjólk. Þá
er hún að afla fæðu fyrir yrðlingana
sína; þar kemur önnur dýraníðslan
og ekki sú besta. Ég hef margbent
á að fækka eigi tófunni á veturna
meðan hún er geld. En það er eins
og að berja hausnum við steininn. Á
meðan þessi villimennska líðst, þá
heldur þetta bara áfram að versna.
Nú er það komið í tísku að taka
litla yrðlinga úr grenjum og ala þá
heima á bæjum. Þetta ætti að banna
með lögum. Þessum veslingum er
gefið á vissum tímum daglega yfir
sumarið, síðan er þeim sleppt undir
veturinn og þá eiga þeir að bjarga
sér sjálfir. Þvílíkur óþverraskapur!
Þetta eru villt dýr og eiga að fá að
vera það.
Takmörkunin á fjölguninni á að
fara fram á veturna, þá á að skjóta
tófuna meðan hún er geld. En að
drepa foreldrana frá afkvæmum
sínum sem deyja svo úr sulti, það
er skammarleg dýraníðsla sem á
ekki að líðast. Það er ekkert meira að
skjóta tófu en önnur dýr, sé það gert
á heiðarlegan hátt og á réttum tíma.
Það sér hver heilvita maður hve
dapurlegt það er að að tófunni skuli
leyft að eyða öllu fuglalífi á stórum
svæðum, svo er sauðkindinni kennt
um að hún éti eggin úr hreiðrunum!
Flest er nú hægt að bera á borð
fyrir mann, þótt enginn eða fáir trúi
þessu nú reyndar. Síðan kemur Ester
Unnsteinsdóttir með þá kenningu að
það séu bara tvær tófutegundir hér.
Ég get bent henni á að það eru að
minnsta kosti þrjú litaafbrigði hér
í kringum mig og hafa verið lengi.
Víkjum aftur að rúsínunni í
pylsuendanum – að kindurnar éti
eggin úr hreiðrunum og því fækki
fuglunum og sumar tegundir séu
horfnar. Hafa ekki fuglar og fé lengst
af verið á sama tíma í þessu landi?
Öllu er nú hægt að reyna að telja
fólki trú um, ef þá nokkur trúir þessu
kjaftæði.
Ástæðan fyrir allri vitleysunni er
að síðan tíðarfarið í landinu batnaði,
þá hefur tófunni stórfjölgað. Það
er kannski til fólk sem vill heldur
hlusta á tófugagg en fuglasöng en
vonandi sér heilbrigt fólk að við
erum ekki á réttri leið. Það þarf að
borga mönnum vel fyrir að fækka
tófunni, það er enginn að tala um að
útrýma henni.
Ragna Aðalsteins, Laugabóli.
Myndir / HKr.