Bændablaðið - 11.04.2013, Page 4

Bændablaðið - 11.04.2013, Page 4
Bændablaðið | Fimmtudagur 11. apríl 20134 Fréttir Opið hús í Garðyrkjuskólanum Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum – Starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands – á sumardaginn fyrsta, 25. apríl. Opna húsið hefst kl. 10 og lýkur kl. 18. Garðyrkjuskólinn er á Reykjum, rétt hjá sundlauginni í Hveragerði. Heimsókn að Reykjum er fastur liður í hátíðarhöldum hjá mörgum á sumardaginn fyrsta. Bændur í Borgarfirði eystra hafa flestir látið telja fóstur í ám sínum frá því fyrst var boðið upp á þá nýbreytni, fyrir réttum áratug. Fyrstu árin létu sumir einungis telja í gemlingum, en nú í vetur létu allir fjáreigendur í sveitinni telja í ám sínum öllum. Fjáreigendurnir eru fjórtán, en fjórir þeirra með fáar kindur. Talið var í 2.668 ám og 476 gemlingum og niðurstaðan er sú að í Borgarfirði eiga að fæðast 5.577 lömb í vor. Frjósemin virðist eilítið minni en verið hefur síðustu árin og geldar ær með fleira móti, eða 3,2% ánna. Að meðaltali töldust vera 1,89 lifandi fóstur í hverri á og 1,95 í hverri á með lambi. Í gemlingum eru að meðaltali 1,12 lifandi fóstur og 1,29 í gemlingi með lambi. Á bænum Hofströnd, þar sem eru ríflega 100 ær, eru að meðaltali 2,24 fóstur í hverri á, en á Framnesi, þar sem nú eru aðeins 11 ær, er frjósemin langmest, með 30 fóstur eða 2,7 í hverri á. Frá því um fjárskipti hefur Skúli Andrésson bóndi á Framnesi haft fátt fé en afurðagott. Síðastliðið ár skiluðu ær hans að meðaltali 42,4 kg kjöts hver og lömbin einstaklega fitulítil miðað við þyngd. Skúli er að verða hálfníræður og á síðasta hausti fluttu þau Framneshjón til vetrardvalar í Egilsstaði og eftirlétu syni og tengdasyni sínum að annast ærnar. Skömmu fyrir fósturtalningu kom Skúli í heimsókn og þótti ærnar heldur léttar á sér. Óttaðist hann að piltunum hefði brugðist búskaparlistin, þótt sá síðarnefndi væri búfræðingur, en annað kom á daginn þegar talið var. Gunnar Björnsson, bóndi í Sandfellshaga, hefur annast talninguna. Eftir fyrstu tvö árin, þar sem eilítið var um skekkjur í talningu, hefur talningin reynst afar örugg þótt einstaka frávik komi fyrir, helst þannig að fleiri reynist þrílembdar en talningin segir. Að sögn Gunnars hefur hann ekki áður talið í hverri einustu á í álíka fjármargri sveit og þessari. Frá upphafi talningar hefur Andrés bóndi í Njarðvík annast allt skipulag hennar af mikilli nákvæmni. Bæði bændur og Gunnar vita tímasetningu á hverjum bæ upp á hár, og nú orðið er matseðill talningarmanna með í skipulaginu, svo ekki komi upp hjá þeim leiði yfir einhæfu fæði. Það voru Þorsteinn Kristjánsson, bóndi á Jökulsá Borgarfirði eystra og Andrés Hjaltason, bóndi í Njarðvík sem tóku þennan pistil saman. Bændur í Borgarfirði eystri eiga von á 5.577 lömbum í vor – Gunnar Björnsson gerði fósturtalningu á hverri einustu á í sveitinni Norðmaðurinn Christian Anton Smeds haug, doktor í umhverfis- fræðum, heldur fróðlegan fyrir- lestur á hádegisfundi Bænda- samtakanna í Bænda höllinni mánu daginn 15. apríl næst- komandi. Umfjöllunarefni hans á fundinum snýr meðal annars að náttúrulegum aðstæðum landa til framleiðslu búvara og mikilvægi alþjóðlegrar landbúnaðarstefnu. „Það sem ég mun fjalla um og velta upp er spurningin um það af hverju það sé mikilvægt að leggja meiri áherslu á alþjóðlega landbúnaðar stefnu í nútímasamfélagi og til framtíðar. Einnig finnst mér mikilvægt að þjóðir heimsins velti því fyrir sér hversu arðbært það er út frá framleiðsluaðstæðum að framleiða matvæli í hverju landi fyrir sig. Þegar allt kemur til alls eru það veðurguðirnir og aðstæður í umhverfinu sem fá svo miklu ráðið um uppskeru hvers tíma. Það er mikill munur milli landa þegar kemur að náttúrulegum aðstæðum og slíka hluti er hægt að bæta í gegnum landbúnaðarstefnu. Á okkar tímum, þar sem miklar verðsveiflur eru á alþjóðlegum matvælamörkuðum og ráðamenn velta því fyrir sér hvort heimurinn geti framleitt nægan mat, til að mynda vegna loftslagsbreytinga og annarra þátta, er sérstaklega mikilvægt að standa vörð um landbúnaðarframleiðslu í hverjum heimshluta,“ segir Christian, en í fyrra kom út endurbætt útgáfa af bók hans „Hvernig á að brauðfæða heiminn á 21. öldinni“, þar sem hann bætti við kafla um hlutverk landbúnaðar í umhverfisáföllum. „Árið 2008 voru miklir þurrkar í Ástralíu, tveimur árum síðar geisuðu þurrkar í Sovétríkjunum og árið 2011 gerðist slíkt hið sama í Bandaríkjunum. Þetta er stöðug áminning um hversu óöruggar aðstæður eru og hversu stutt getur verið í skort. Þegar svona mikið óöryggi er á alþjóðavettvangi verða þjóðir að vera sjálfbærar um matvæli, hafa varrúðarráðstafanir og stefnu um framleiðslu matvæla.“ /ehg Christian Anton Smedshaug með hádegisfyrirlestur mánudaginn 15. apríl: Stefna um matvælaframleiðslu mikilvæg Rándýr fær viðurkenningu Loðdýrabúið Rándýr ehf. á Grenivík hlaut nýverið viðurkenningu Kopenhagen Fur fyrir skinn sín en þau voru valin úr 136 skinnabúntum frá Íslandi. Rándýr er í eigu hjónanna Tómasar Jóhannessonar og Bergdísar Kristinsdóttur og er elsta starfandi loðdýrabú á Íslandi. Áður hét það Grávara og fékk 1.717 minka frá Noregi árið 1970. Rándýr ehf. hefur átt búið síðan 1995. Upphaflegir eigendur voru Tómas og Frímann Kristjánsson en fyrir þrem árum eignaðist Bergdís hlut Frímanns. Á búinu eru nú rúmlega 2.000 líflæður og er skinnaframleiðslan 9.000- 9.500 skinn á ári. Þau eru seld hjá Kopenhagen Fur í Danmörku sem er stærsta skinnauppboðshús í heimi. Skúli Andrésson, bóndi á Framnesi Sumardaginn fyrsta verður haldinn hátíðlegur Skeifudagur Grana á Mið-Fossum í Andakíl, sem er hestamiðstöð LbhÍ. Grani er hestamannafélag nem- enda við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þennan dag sýna nem endur í hrossarækt við LbhÍ afrakstur vetrarstarfsins í reið mennsku og frumtamningum. Reiðkennari nemenda í vetur er Heimir Gunnarsson. Skeifudagur Grana á Mið-Fossum Lífland og Fóðurblandan lækka verð á kjarnfóðri Verðskrá á fóðri frá Líflandi lækkaði um 5% 25. mars og Fóðurblandan tilkynnti síðan lækkun hjá sér í kjölfarið 2. apríl síðastliðinn. Í tilkynningu Líflands kom fram að lækkunin væri á flestum fóðurtegundum frá fyrri verðlista og næmi hún allt að fimm prósentum. Lækkunin er þó mismunandi eftir tegundum. Ástæða verðbreytinga er sögð lækkun á heimsmarkaðsverði hráefna til fóðurgerðar. Lífland hefur einnig tekið í sölu nýja tegund af kúafóðri sem hefur fengið nafnið Hagnyt. Um tvær blöndur er að ræða sem henta vel fyrir bændur með bygggjöf. Hjá Fóðurblöndunni lækkaði verð á fóðri um allt að 5% þann 2. apríl. Þar er lækkunin einnig mismunandi eftir tegundum. Ástæða lækkunarinnar hjá Fóðurblöndunni er líkt og hjá Líflandi sögð styrking íslensku krónunnar og lækkun á hráefnum til fóðurgerðar erlendis. Mynd / Grýtubakkahreppur Undirbúningur 21. Handverks- hátíðar í Eyjafjarðarsveit er hafinn, en hún verður haldin dagana 9.-12. ágúst. Í fyrra skreyttu kvenfélagskonur í Eyjafjarðarsveit traktor með prjónlesi en í ár fá kýr á bænum Hvassafelli að njóta góðs af dugnaði kvenfélagskvennanna. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á fyrstu flíkurnar. Kýrnar verða á beit á hátíðarsvæðinu í sumar til marks um að handverki eru engar skorður settar. Í fyrra leiddi þetta uppátæki kvenfélagskvennanna til þess að hrundið var af stað samkeppni um best prýdda póstkassa Eyjafjarðarsveitar. Samkeppnin fékk verðskuldaða athygli og var það Brjóstkassinn á Sléttu sem bar sigur úr býtum. Í ár verður samkeppnin endurtekin og spennandi að sjá upp á hverju íbúar sveitarinnar finna. Búast má við um 100 sýnendum og 17.000 heimsóknum. Þegar hefur borist fjöldi umsókna en umsóknarfresturinn rennur út 15. apríl næstkomandi. Umsóknareyðublað og nánari upplýsingar má finna á www.handverkshatid.is Handverkshátíð í Eyjafjarðarsveit 2013: Prjónles, kýr og kvenfélög

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.