Bændablaðið - 11.04.2013, Side 40

Bændablaðið - 11.04.2013, Side 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. apríl 2013 Illa er vegið að okkur svínabændum og sagt að við séum ekki bændur. Hver er ástæðan? Sagt er að öll rómantík sé horfin úr sveitinni með þessum búskap og að þessi búskapur sé orðinn svo vélvæddur, hægt sé að ýta á takka og allt gerist þetta af sjálfu sér. Vélvæðing á sér stað alls staðar. Hvað varð um kaupmanninn á horninu sem var hvorki með posa né tölvukerfi? Róbót mjólkar kýrnar okkar. Fóðurgrindur ýta heyinu að kindunum. Fóðurkerfi eru nú í flest- um búskap til að hafa betri og jafnari fóðrun fyrir dýrin, sem verður til þess að þeim líður betur. Ég hef hugsað mikið um þetta undanfarnar vikur þegar ég er að vinna inni á svínabúinu mínu. Ég get ekki séð að þessi búgrein sé vél- væddari en aðrar og langar því að fræða ykkur sem lesið þetta aðeins um svínabúskap. Fyrir um 15 árum áttum við litlar sætar gyltur sem voru mjög skap- harðar og gáfu af sér grísi sem uxu ekki hratt. Erfitt var að hafa gylturnar saman þar sem þær gengu mjög hart að hver annarri. En þetta var í raun- inni ekkert kyn og líklega orðið mjög skyldleikaræktað. Síðan fóru bændur að huga að kynbótum og horfðu mjög til Norðurlandanna, þar sem vaxtar- hraði var orðinn meiri og kostnaður við uppihald minni. Komu þessar kynbætur á mjög svo góðum tíma þar sem á svipuðum tíma harðnaði á dalnum fyrir svínabændur og hægt var að framleiða ódýrara kjöt. Annað sem gerðist var að dýrin urðu stærri og stærri en enginn peningur var til að breyta aðbúnaði. Hröð þróun Nú eru allir svínabændur landsins að horfa til breytinga inni á búum sínum til að stækka það pláss sem hvert og eitt svín hefur. Sá möguleiki hefur verið ræddur að hafa dýrin í opnu rými því gylturnar eru orðnar ögn blíðari. En það er ekki hægt að opna fyrir þeim í hvaða rými sem er fyrir svona stór dýr. Þróun er mjög hröð og góð erlendis þar sem verið er að hanna þessi pláss og stíur til að þær nýtist þessum dýrum sem best. Þó að stíur séu heldur of litlar fyrir þessi dýr í dag er enginn bóndi sem lætur dýrinu sínu líða illa, en það er örugg- lega hægt að láta því líða betur og stefnum við þangað. En ekki kaupum við bara eitthvað til að prufa heldur nýtum við okkur að þessi stóru bú erlendis prufukeyri þetta fyrst. Nú er að koma reynsla á ýmislegt og hægt að fara að gera upp hug sinn um hvað hentar dýrunum okkar best, því um leið og dýrinu líður betur gefur það meira af sér. Hver einasta gylta með nafni Þá er ég komin að vinnu inni á búinu. Á mínu búi er hver einasta gylta með nafni. Hjá sauðfjárbændum er sauðburður öll vor, hjá mér eru got allar helgar. Hjá mér gjóta um níu gyltur hverja helgi. Þá þarf að líta vel eftir þeim. Stundum erum við heppin og þær gjóta allar föstudag og laugardag. Stundum eru þær að gjóta alla helgina. Ef þær gjóta ekki öllum grísunum sínum fljótt sjálfar þarf að aðstoða þær, þar sem þær verða mjög veikar ef þetta gengur ekki hratt og vel fyrir sig og allt sem á eftir kemur verður erfitt. Þær mjólka illa, verða lystarlausar og þar af leiðandi vaxa grísirnir illa. Þetta þarf því að vakta mjög vel. Ekki sé ég neina vélvæðingu við þetta. Fóðrunin á sér stað með fóðurkerfi í flestum deildum en það þarf að fara yfir það daglega og fylgjast með því sem getur misfarist. Það er ekki gott ef einhver svín fá ekki að borða. Eins er þetta orðið í öllum öðrum búgreinum, fjárbændur eru komnir með grindur sem ýta heyinu að þeim, kúabændur eru með gjöf í róbótunum og áfram mætti telja, í fiskeldi, í refarækt og áfram og áfram. Allt þarf þetta eftirlit. Stanslaust eftirlit þarf með gyltum til að fylgjast með hvort þær séu að beiða. Taka þarf sæði úr göltum og sæða allar gyltur tvisvar til þrisvar næstu 2-3 daga. Allt þarf þetta kunn- áttu til að þekkja og skynja þarfir og líðan dýranna. Það er enginn róbót sem getur gert þetta. Á hverjum miðvikudegi eru teknir um 28 daga gamlir grísir frá mæðrum sínum, þá fara þeir á vöggustofu. Þar þarf að fylgjast vel með því að þeir borði og drekki svo að þeir dafni áfram. Það getur enginn nema sá sem hefur þekkingu á dýrum gert. Blessaðar geldingarnar Þá kemur að þessum blessuðu geld- ingum sem mikið hefur verið rætt um, en sú aðgerð er nú ekki meiri en t.d. að marka lamb. Ég væri alveg til í að hætta að gelda en þá verður þú líka að vera tilbúin að borða kjöt af ógeltu dýri. En það er mikill munur á að gelda og hafa kunnáttu til þess eða gelda og hafa ekki þjálfun til þess. Dýrin eru öll gelt fyrir fjögurra daga aldur, en það fer eftir stærð og styrkleika dýranna þegar þau fæðast. Það er mikill munur á að gelda 4 daga gamlan grís eða 7 daga gamlan, sem ég myndi aldrei gera. Aðgerðin er þannig að allt gotið, gyltur og geltir, er tekið upp í grind, allar gyltur fá járnbætiefni í munn og eru svo settar aftur í stíurnar sínar. Geltirnir fá tvo smá skurði sem tekur innan við 30 sekúndur að gera og fá svo líka járn. Hef ég mikið gert af því að horfa á gotið eftir þessar aðgerðir og hegðun beggja kynjanna er nákvæmlega eins. Ég hef líka einhvern tímann gelt 7-8 daga gamla grísi og eftir það eru gylturnar röltandi um stíuna meðan geltirnir fara allir undir hitaperuna, skjálfa þar og líður greinilega mjög illa. Þetta viljum við svínabændur ekki. Í okkar augum er þetta tap. Við viljum fá að gelda grísina áður en þeir verða fjögurra daga gamlir. Að gefa þeim verkjastillandi væri bara góð viðbót. En að deyfa þá gerir þá vankaða og fara þeir jafnvel ekki á spena og gyltan getur lagst á þá. Það finnst mér ekki spennandi. Á mínu búi klippum við ekki hala. Grísum líður vel í hópi en ein- göngu í sínum hópi. Þeir eru ekki glaðir ef þeir eru settir inn í nýjan hóp. Þá þurfa þeir að slást til að vinna sér sess í hópnum. Mikilvægt er að velja saman samstæða grísi til að ekki þurfi að hrófla við hópnum oft á vaxtartímabilinu. Grísirnir vilja liggja mjög þétt saman. Ef það verður of kalt raða þeir sér upp í hrúgu og líður ekki vel. Of mikill hiti er heldur ekki góður og of mikill raki gerir allt ógeðslegt, blautt og kalt svo þetta þarf að vakta mjög vel. Ég vona að þetta sýni þér örlítið hvað við erum að glíma við dags daglega inni á svínabúinu þó að þessi listi sé alls ekki tæmandi. Að lokum vil ég rétt koma inn á nauðsyn landbúnaðar. Þar eru svínin mjög mikilvæg. Svínabú veita mörg störf á Íslandi. Áður en svínabúskapur hófst voru slátur- hús landsins mjög dýr í rekstri og voru nánast eingöngu starfandi á haustin í kringum sauðfjárslátrun. Vegna svínaslátrunar, sem er í hverri viku, geta þessi sláturhús nú starfað allt árið og boðið upp á nauta- og hrossaslátrun allt árið. Kjötvinnslur blómstra þar sem svínakjöt er notað í mjög margar vinnsluvörur. Það þarf ekki mikið að koma upp á í heim- inum til að innflutningur stoppi í einhvern tíma. Svo sem eins og eitt eldgos gæti stoppað innflutning og hvað gera svangir menn þá ef land- búnaður er lagður af? Fólk ætti að hugsa aðeins lengra en nef þess nær áður en það tjáir sig. Ef við ætlum að búa hér á þessu skeri þurfum við að framleiða allar nauðsynjavörur. Ég er sammála að sveitarómantík- in er farin en því miður er hún farin alls staðar. Kaupmaðurinn á horninu og heyskapurinn í sveitinni er því miður ekki það sem nútímamaðurinn er tilbúinn að fara til baka til. Í dag er rómantíkin önnur. Guðný Tómasdóttir Ormsstöðum Er sveitarómantíkin horfin? Guðný Tómasdóttir segir að nú sé vegið harkalega að svínabændum í landinu. Viðar Gauti Jónsson og Katla Rún Jónsdóttir stolt með litla sæta grísi í fanginu.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.