Bændablaðið - 11.04.2013, Side 50

Bændablaðið - 11.04.2013, Side 50
50 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. apríl 2013 Skiptir sáðmagn máli? Nú líður að því að bændur fara huga að sáningu byggs. Þeir vita að sáðkorn og áburður eru með stærstu kostnaðarliðum í kornræktinni en eru jafnframt miklir áhrifavaldar á uppskeru, kornþroska og veðurþol. Almennt um áhrif köfnunarefnis Áhrif af stærð og samsetningu áburðarskammta hafa nokkuð verið rannsökuð hér á landi. Bændur verða að hafa í huga náttúrulega frjósemi landsins þegar ákveða skal áburðarmagn, sér í lagi magn köfnunarefnis. Of mikið köfnunarefni ýtir undir grænvöxt sem eykur hættu á legu með tilheyrandi uppskerutapi enda dregur úr strástyrk þegar stráin verða hærri og bera þung öx. Einnig dregur það úr kornfyllingu en þegar stráin leggjast tefst flutningur efna upp í ax, liggjandi korn þornar seint og verður óhjákvæmilega blautara en það sem stendur og meira tapast ofan í svörð. Hér á landi hefur verið mælt með að köfnunarefnisskammtar séu á bilinu 30-100 kg N/ha. Stærstu skammtarnir eiga vel við þar sem frjósemi er mjög lítil t.d. í sandi en þeir minnstu á mjög frjósamri framræstri mýri. Mælt hefur verið með að bera um 20-30 kg P/ha og 40-60 kg K/ha. Bændur geta leitað sér leiðbeininga um heppilega áburðaskammta á korn í handbók bænda, á bóndi.is eða hjá ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins. Áhrif ólíkra sáðmagnsskammta Minni og færri athuganir hafa verið gerðar á kjörsáðmagni. Ráðlegt sáðmagn er yfirleitt álitið vera um 180-200 kg/ha. Réttast væri að gefa upp sáðmagn sem fjölda plantna á flatarmálseiningu en vegna hentugleika í framkvæmd er það alltaf gefið upp í kílógrömm á hektara (kg/ ha). Sáðmagn í kg/ha er háð þeim fjölda plantna á fermetra sem óskað er eftir, þúsundkornaþyngd sáðkornsins og spírunarhæfni þess. Lítið mál er að reikna þetta með jöfnu. kg/ha = (plöntur á m 2 × þúsundkornaþungi í g) spírun í % Sáðmagn er að sjálfsögðu háð yrkjum, þannig verða bændur að taka tillit til þess að tvíraða yrki geta af sér fleiri stöngla en sexraða yrki. Kornþyngd í sexraða yrkjum er einnig oftast minni. Því þurfa sexraða yrkin heldur stærri sáðmagnsskammta. Keypt sáðkorn á að standast staðla um lágmarks þúsundkornaþyngd og spírunarhlutfall en þeir þættir geta líka verið breytilegir milli yrkja. Keypt sáðkorn á að standast 90% spírun í prófi en búast má við að 80% af spírunarhæfu korni komist upp á akri við þokkalegar aðstæður. Einnig verður að taka tillit til umhverfisaðstæðna eins og frjósemi, veðurfars og raka, þannig er ekki ráðlegt að sá stórum skömmtum í þurrum jarðvegi. Fleiri plöntur þurfa meiri raka og auka þar enn á þurrkstress. Þekkt er bæði erlendis og hérlendis að aukið sáðmagn í a.m.k. 300 kg/ ha getur aukið uppskeru en slíkir skammtar eru sjaldan hagkvæmir. Uppskeruaukning skýrist af fleiri stönglum á flatarmálseiningu vegna fleiri plantna. Samt getur verið að fjöldi sprota sem vex af hverri plöntu fækki en samt sem áður fjölgar þeim kornum sem vaxa á flatarmálseiningu. Það er þó ekki allt unnið því stærri skammtar leiða iðulega til minni kornfyllingar, verri strástyrks og þar af leiðandi meiri legu. Meira sáðmagn má samt nýta sér í frjósömum jarðvegi því það gæti aukið líkur á að ná þroska innan tímamarka og minnka leguhættu þar sem næringarefnin dreifast á fleiri plöntur. Jafnframt hefur veirð álitið að með stærri sáðskömmtum miðað við frjósemi megi koma í veg fyrir að seinþroska sprotar nái að mynda blöð og öx þar sem meiri samkeppni milli plantna valdi því að blöð verði stærri og ná sneggri vexti snemma á vaxtarskeiðinu. Tilraun á Möðruvöllum 2011 Tilraun var gerð á Möðruvöllum sumarið 2011. Þar voru borin saman tvö yrki sem algeng eru í ræktun hér á landi. Annars vegar Judit, sem er sexraða og hinsvegar Kría, sem er tvíraða. Könnuð voru áhrif þriggja misstórra köfnunarefnisskammta (40 – 80 – 120 kg N/ha) og þriggja misstórra sáðmagnsskammta (105 – 210 – 315 kg/ha sem samsvarar 200 – 400 – 600 sáðkorn/m2) á uppskeruþætti, strástyrk og legu. Verkefnið var hluti af lokaverkefni til BS prófs við Landbúnaðarháskóla Íslands og var styrkt af verkefna- og rannsóknarsjóði Fljótsdalshrepps og Landsbanka Íslands. Þroski Eins og búist hafði við var Krían þroskameira yrki en Judit. Áhrif af vaxandi sáðmagni lágu þó ekki ljós fyrir. Þannig breyttist gildi rúm- þyngdar og þurrefnishlutfalls lítið. Aukið sáðmagn hafði þó greinileg áhrif á þúsundkornaþunga í sexraða yrkinu Judit þannig að það dró úr honum. Þannig reyndist þúsund- kornaþyngd að meðaltali vera 35 grömm þegar sáðmagn var 105 kg/ ha en 31 grömm þegar sáðmagn var 315 kg/ha. Mælingar á þroska eru eflaust vanmetnar, en meiri þroski og kornfylling gefa betri afurð til fóðurs, sáðkornframleiðslu og maltgerðar. Uppskera Í tilrauninni á Möðruvöllum gaf Judit mun meiri uppskeru í tonnum þurrefnis á hektara en Kría. Aukið sáðmagn er líklegt að bæta við korn- uppskeru í Judit (mynd 1) en ekki fannst marktæk aukning í uppskeru Kríu. Þannig varð uppskeruaukning hjá Judit að meðaltali um 1 tonn þe./ ha við að auka sáðmagn úr 105 kg/ ha í 210 kg/ha. Frekari aukning jók heldur við uppskeru en aldrei svo að það réttlætti sáningu 315 kg/ha. Þéttleiki og kornfjöldi Eins og önnur tvíraða yrki reynist Krían gefa af sér mun fleiri sprota á hverja plöntu og flatarmálseiningu en sexraða yrkið Judit, en þó sér- staklega við lægsta sáðskammtinn (mynd 2). Aftur á móti ætti það að koma kornræktarmönnum lítið á óvart að Judit gefi af sér fleiri korn á flatarmálseiningu (mynd 3) og á hvert ax. Það er ágætt að hafa þennan mun á tvíraða og sexraða yrkjum í huga því uppskera er samsett af margfeldi fjölda axa á flatarmálseiningu, fjölda korna í axi og þyngd einstakra korna. Í eldri rannsóknum hefur það komið fram að aukið sáðmagn auki heildarfjölda stöngla auk þess að hafa neikvæð áhrif á fjölda korna í hverju axi. Einnig var áhugavert að sjá að þar sem stönglarnir voru flestir á fermetra voru fæst korn á fermetra. Þetta var mjög skýrt hjá Kríu. Fylgnigreining sýndi að aukin sprotamyndun af hverju sáðkorni dró úr myndun korna á axi og fermetra. Þó er fjölgun sáðkorna sem dregur úr fjölda stönglamyndunar af hverju sáðkorni samt líkleg til að auka uppskeru. Þetta bendir til þess að talsvert hafi verið af seinsprottnum hliðarsprotum í tilraunareitunum sem ekki hafi náð að mynda ax og þroska fræ. Hætt er við að slíkir geldstönglar keppi við þá stöngla sem bera ax og hafi af þeim næringarefni. Það að fjöldi korna í hverju axi breytist lítið við aukið sáðmagn gæti bent til þess einmitt að aukið sáðmagn dragi úr myndun seinsprottinna stöngla og kornuppskera deilist á færri stöngla. Stórir sáðmagnsskammtar hljóta að njóta sín betur þar sem frjósemi og aðgengi er nægjanlegt að köfnunar efni. Hjá Judit virtust stærri sáðmagnsskammtar skila töluverðum uppskeruauka í heildarkornfjölda umfram lítið sáðmagn þar sem framboð köfnunarefnis var ríkulegt í jarðvegi. Lega, strástyrkur og hæð Judit er hættara við legu en Kríu (mynd 4) enda töluvert hávaxnara yrki. Þannig verður þungamiðjan sem hlýst af axinu hærri og plöntunni hættara við „veltu“ ef svo má segja. Aukið sáðmagn eykur hættu á legu einkum hjá Judit. Þannig var lega mun meiri þar sem sáðmagn var 315 kg/ha frá 105 kg/ha. Aukning á legu frá 105 kg/ha í 210 kg/ha er ekki marktæk en á mörkunum að vera það, svo orsakasamhengið er nokkuð skýrt (mynd 4). Þó er það þannig að magn köfnunarefnis er afgerandi þáttur á aukna legu af ræktunarþáttum. Stærri sáðmagnsskammtar drógu úr stönglaþyngd hjá báðum yrkjum milli minnsta og mesta sáðmagns (mynd 5). Það er því vísbending um minna byggingarefni á lengdar- einingu og minni eðlisþyngd strás. Mæling á stönglaþyngd er ný af nál- inni í íslenskum byggrannsóknum. Stönglaþyngd er mæling á þyngd strás á ákveðinni lengd þess, mælt sem milligrömm á sentimetra (mg/ cm). Þetta er einföld aðferð til að meta brotþolsstyrk óbeint og fann Ingvar Björnsson í sínu mastersverk- efni góða fylgni milli þess hlutfalls og mælinga á brotþolsstyrk. Hins vegar verður að viðurkennast að ekki fannst marktæk fylgni milli stönglaþyngdar og legu í þessari rannsókn en samt er vart hægt að útiloka orsakasamhengi þarna á milli. Áhrif af köfnunarefni og sáðmagni á leguhættu eru ólík. Köfnunarefni eykur leguhættu með því að stráin verða hærri með hærri þungamiðju en aukið sáðmagn dregur úr styrk- leika strásins. Það hefur samt líka sýnt sig í erlendum rannsóknum að lítið sáðmagn getur einnig aukið legu- hættu. Þá fjölgar plantan stönglum af hverju sáðkorni og rótarkerfið verður ekki nægjanlegt akkeri til festa svo umfangmikla plöntu í slagveðrum. Ályktanir Uppskeruaukning sem varð við fyrstu styrkleikaaukningu í sáðmagni stendur undir auknum kostnaði hjá báðum yrkjum. Byggið nær viðun- andi þroska og styrk en það dregur úr því þegar aukið var við sáðmagnið frekar. Það gildir að meðalhófið er farsælast. Niðurstöðurnar benda til að ráðlegt sáðmagn sé breytilegt fyrir þessi yrki. Uppskerulega er meiri akkúr í að auka sáðmagn hjá Judit fremur en Kríu. Það er vegna þess að sexraða yrki eins og Judit myndar færri stöngla á hverja plöntu en tví- raða yrki. Það gæti því verið hagur í því að hafa sáðmagn hjá sexraða- yrki um eða meira en 400 plöntur/ m2 (u.þ.b. 210 kg/ha) en hámarks sáðskammtur hjá tvíraðayrki sam- kvæmt þessum niðurstöðum ætti vera að hámarki 400 plöntur/m2 (u.þ.b. 200 kg/ha) og helst minna til að fá sem hagkvæmasta uppskeru. Draga má þá ályktun að kjör- sáðmagn sé háð framboði köfnunar- efnis. Minna sáðmagn kom betur út þar sem var lítið magn köfnunar- efnis en stærri sáðmagnsskammtar komu betur út þar sem var meira köfnunarefni. Meðferðir, þar sem saman fór minnsta áburðarmagn og miðsáðmagn, miðáburðarmagn og mesta sáðmagn, mesta áburðarmagn og miðsáðmagn, komu best út upp- skerulega. Ekki kom vel út að hafa mikinn áburð þar sem var lítið sáð- magn. Skynsamlegt gæti verið í frjó- sömu landi að auka við sáðmagnið til að ná þroska innan tímamarka og fá góða uppskeru. Niðurstaðan er að sáðmagn hefur mikil áhrif á gæði uppskerunnar og árangur kornræktarinnar en um leið er mikilvægt að taka tillit til annarra þátta eins og hér hefur verið rakið, þegar ákveða skal heppilegasta sáð- magnið. Ritgerðina má nálgast í heild sinni á www.skemman.is Egill Gunnarsson, Þóroddur Sveinsson og Jónatan Hermannsson Landbúnaðarháskóla Íslands Egill Gunnarsson

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.