Læknablaðið - 15.04.1988, Blaðsíða 50
160
LÆKNABLAÐIÐ
Tafla I. Dreifing svara við spurningunni »Hver þessara
slaðhœfinga lýsir drykkjusýki (alkóhólisma) best?«
Hlutfall
(Fjöldi:
Spurning 2.593)
1. Sjúkdóraur, sem gerir ekki boð á undan
sér, og fólk ræður engu um hvort það
fær eða ekki .............................. 9%
2. Sjúkdómur, sem fólk ræður litlu um hvort
það fær eða ekki.......................... 12%
3. Sjúkdómur, sem fólk ræður miklu um
hvort það fær eða ekki ................... 31%
4. Það er ekki raunverulegur sjúkdómur
heldur sjálfskaparvíti.................... 28%
5. Veit ekki.................................. 20%
Alls 100%
Upplýsingar vantar ........................ 16%
Markmiðið með þessari grein er að fjalla um einn
þátt, sem gæti varpað ljósi á það, hvers vegna
meðferð hefur orðið jafn mikilvæg svörun við
áfengisvandamálum og raunin er í íslensku
þjóðfélagi. Hér verður kannað að hve miklu leyti
almenningur hefur viðurkennt réttmæti
slagorðsins: »Drykkjusýki er sjúkdómur«. Þetta
verður rannsakað með því að athuga afstöðu
mismunandi hópa til drykkjusýki í þeim tilgangi
að komast að raun um hvort átak SÁÁ hafi breytt
afstöðu almennings í þessum efnum.
EFNIVIÐUR
Gögnin, sem hér eru notuð, eru sótt í könnun frá
árinu 1984. Þessi könnun er þriðji hluti
langtímarannsóknar á drykkjuvenjum og
áfengismisnotkun fullorðinna íslendinga.
Könnunin náði til 4320 einstaklinga. Svör fengust
frá 1.237 körlum og 1.356 konum á aldrinum
20-59 ára, og var svarhlutfall 60%. Um val úrtaks
og framkvæmd rannsóknarinnar er fjallað í
annarri grein (4).
Sökum þess, að aðal viðfangsefni þessarar
langtímarannsóknar er að kanna breytingar á
drykkjuvenjum og misnotkun áfengis hefur sami
spurningalistinn verið notaður þrisvar á árunum
1974-1984. Það var því erfiðleikum bundið að
bæta við nýjum spurningum um viðhorf til
drykkjusýki, þar sem nýjar spurningar myndu
lengja listann, sem var alllangur fyrir.
Rannsóknaraðilum kom saman um að bæta
aðeins við einni spurningu um þetta efni. Er það
spurning, sem hefur verið notuð í bandarískri
könnun (1).
Spurt var hver fjögurra staðhæfinga lýsti
drykkjusýki best. Svörin við spurningunni verða
greind med tilliti til kynferðis, aldurs, menntunar,
áfengisneyslu eða bindindis, áfengisvandamála að
eigin mati, áfengisvandamála að mati fjölskyldu
og reynslu af meðferð.
NIÐURSTÖÐUR
Orðalag spurningarinnar, þar sem spurt er hver
fjögurra staðhæfinga lýsi drykkjusýki
(alkóhólisma) best og dreifing svara við henni er
sýnd á töflu I.
Töluverður fjöldi þeirra, sem spurðir voru
svöruðu ekki spurningunni og jafnvel enn stærri
hluti aðspurðra kvaðst ekki vita svarið. Færri en
einn af hverjum tíu eru sammála þeirri
staðhæfingu að drykkjusýki sé sjúkdómur, sem
geri ekki boð á undan sér og að fólk ráði engu um
hvort það fái hann eða ekki. Stór hluti aðspurðra
er sammála um, að drykkjusýki sé sjúkdómur,
sem fólk ráði þó nokkru um, hvort það fái eða
ekki. En 28% þeirra, sem svara hafna alfarið
þeirri skoðun að drykkjusýki sé sjúkdómur.
Á myndum 1-7 er fyrsti svarmöguleikinn sýndur
lengst til vinstri og merktur »Sjúkdómur + + + «,
annar möguleikinn kemur þar á eftir og er
táknaður »+ +«, síðan kemur svarið: »veit
ekki«. Þar næst kemur þriðji svarmöguleikinn,
sem er merktur » + « og að lokum fjórði
möguleikinn »Sjálfskaparvíti«, sem hafnar þvi
alfarið að drykkjusýki sé sjúkdómur. Því
hlynntari, sem svarendur eru því að líta á
drykkjusýki sem sjúkdóm, því lengra til vinstri
eru þeir á myndunum.
Viðhorf eftir kynferði. Mynd 1 sýnir svör eftir
kynferði.
Það er marktækur munur á viðhorfum karla og
kvenna. Mun fleiri karlar en konur álíta, að
drykkjusýki sé ekki sjúkdómur, en konur eru
oftar sammála þeirri fullyrðingu, að drykkjusýki
sé sjúkdómur. Þennan mun má skýra með því að
yfirleitt hneigjast konur frekar til að styðja hin
mjúku gildi.
Viðhorf eftir aldri. Svarendum hefur verið skipt í
fjóra mismunandi aldurshópa. Á mynd 2 má sjá
viðhorf til drykkjusýki eftir aldri.
Ekki er mikill munur á svörum hjá hinum ýmsu
aldurshópum. Þeir elstu eru eina undantekningin.