Kjarninn - 10.10.2013, Síða 4
Þ
að hefur vart farið framhjá neinum að íslenska
efnahagshrunið á afmæli um þessar mundir. Í
gær voru liðin slétt fimm ár frá því að stærsti
banki landsins, Kaupþing, skilaði síðastur
stóru fjármálafyrirtækjanna lyklum sínum til
Fjármála eftirlitsins.
Þegar efnahagslegur veruleiki okkar hrundi fórum við að
leita að sökudólgum. Fyrst leituðum við erlendis. Kenndum
Bretum um. Alþjóðlegu bankakreppunni. Ástandinu í
Evrópusambandinu. Bandaríkjamönnum fyrir að vilja ekki
lána okkur pening.
Þegar þær skýringar dugðu ekki til að útskýra ástandið
fórum við að benda hvert á annað. Eðlilega var fingrinum
fyrst beint að þeim sem breyttu landinu í vogunarsjóð.
Mönnunum sem stýrðu bönkum og fjárfestingarfélögum
og lögðu heila þjóð undir í illa undirbyggðum fjármála-
veðmálum sínum og embættis- og stjórnmálamannanna sem
brugðust algjörlega eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu. Og
þessir aðilar báru tvímælalaust mikla ábyrgð.
En höfuðsökin liggur í því að hér hefur, og hefur alltaf
verið, efnahagskerfi við lýði sem er arðbært fyrir lítinn hóp
en gríðarlega kostnaðarsamt fyrir þorra þjóðarinnar. Þegar
mælt er hvort við höfum lært eitthvað af hruninu verður að
horfa til þess hvort okkur hefur tekist að hrista hlekki þess
kerfis af okkur. Svo virðist því miður ekki vera.
Hrunið hefði átt að þvo meðvirknina af okkur. Til valda
komst enda fyrsta hreina vinstristjórnin. Hún ákvað hins
vegar að sleppa því að nýta þetta einstaka tækifæri sitt til að
móta langtímaefnahagsstefnu en nýta umboð sitt frekar til
að reyna að troða eins miklu og mögulegt var af pólitískum
áherslum sínum inn á íslenskt samfélag á þeim fjórum árum
sem hún fékk úthlutað. Úr varð kraðak sem skildi lítið eftir
sig annað en endalausar illdeilur. Vinstristjórnina skorti
sýn og ákvarðanir hennar voru nánast allar viðbragð við
aðstæðum frekar en innleiðing á skýrri stefnu. Þess vegna
skildi hún við með mörg stærstu efnahagsmál þjóðarinnar
enn óleyst.
Því miður virðist ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og
Framsóknar flokks ætla að falla í sama pytt. Það er mjög erfitt
að sjá hver stefna hennar er í lykilmálum. Hún ætlar ekki að
kasta íslensku krónunni, sem hefur tapað 99,7 prósentum af
virði sínu frá því að hún varð til, en hefur ekki útskýrt hvaða
hækjur og höft þurfi til að hún standi til framtíðar. Ríkis-
stjórnin hefur ekki boðað neina stefnu um hvernig hún ætli
að taka á vanda lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og hvernig
eigi að mæta 390 milljarða króna umfram skuldbindingum
hans, þrátt fyrir að sá vandi hafi blasað við árum saman.
Hún hefur ekki gripið til ráðstafana varðandi Íbúðalánasjóð
þrátt fyrir að hann hafi kostað ríkissjóð 46 milljarða króna
á síðustu árum. Ríkisstjórnin ákvað að gefa frá sér milljarða
króna skatttekjur til útgerða og ferða þjónustu og brúa þess í
stað fjárlög með því að afnema vexti á láni Seðlabankans og
fyrirframgreiða sér úr þrota búum fallinna banka. Reyndar
hefur hún ekkert upplýst heldur um hvernig hún ætlar sér
að afnema gjaldeyrishöft. Ríkisstjórnin virðist því hreinlega
ekki hafa neina stefnu í ríkisfjármálum.
Einnig virðist ríkisstjórnin ætla að feta í fótspor þeirrar
fyrri og hafna erlendri fjárfestingu. Það er í það minnsta
erfitt að skilja orð forsætisráðherra um að erlend fjárfesting
sé eins og erlend skuldsetning. Því sé betra að liðka fyrir því
að lífeyrissjóðir fjármagni fjárfestingar hérlendis í enn meiri
mæli en þeir gera nú þegar. En það er engin stefna til fram-
tíðar heldur. Og það er engin afsökun að ríkisstjórnin hafi
bara haft nokkra mánuði til að koma sér fyrir í valdastólum
því þetta fólk hefur haft fimm ár til að móta sér skýra stefnu
um hvernig eigi að gera Ísland betra.
En stefnuleysið virðist ekki hafa nein áhrif á okkur sem
þjóð. Sama hver heldur um stjórnartaumanna virðumst við
sem þjóð alltaf vera ginkeypt fyrir stórum vinningum. Hvort
sem þeir heita hlutabréf í Decode, stærsta stífla í Evrópu,
fjármálamiðstöð, skuldaniðurfellingar, kröfuhafagull,
túristakrónur eða olíuauður viljum við leysa efnahagsleg
vandræði okkar með lottóvinningi frekar en að setja upp
langtímaáætlun um nýtingu þeirra ótrúlega miklu gæða sem
Ísland býr yfir og ættu fyrir löngu að vera búin að skila okkur
sjálfbærni.
Líkurnar á því að vinna í lottói eru hins vegar sáralitlar.
Sá sem kaupir tíu raðir á viku allt árið um kring í Víkinga-
lottói má eiga von á einum fyrsta vinningi á 23.500 ára fresti.
Þegar um velferð heillar þjóðar er að ræða eru lottólíkur
ömurlegar líkur. Og jafnvel þótt einstaka vinningar detti inn
eru þeir skammgóður vermir í þessu verðbólgudrifna jójó-
hagkerfi sem við höfum búið til. Sagan segir okkur að við
lendum í nýjum efnahagslegum öldudal fyrr en síðar. Dal
sem er dýpri og verri en sá sem við klifum upp úr á undan.
Til hamingju með það.
Til hamingju með
stefnuleysið
leiðari
Þórður Snær Júlíusson
thordur@kjarninn.is
01/01 kjarninn Leiðari
M
yn
d:
a
nt
on
B
rin
k