Kjarninn - 14.11.2013, Blaðsíða 73
07/07 kjarninn DANMÖRK
utzon ekki boðið
Hinn 20. október 1973 var húsið tekið í notkun við hátíð-
lega athöfn, en það gerði Elísabet II (Englandsdrottning),
þjóðhöfðingi Ástrala. Jørn Utzon var ekki boðið að vera
við staddur og þess var vandlega gætt að nafn hans yrði
ekki nefnt við opnunarathöfnina. Breskur ráðherra sem var
viðstaddur sagði síðar „að utan er húsið listaverk sem á sér
enga hliðstæðu en að innan er það eins og ómerkileg diskó-
búlla“. Síðar báðu stjórnvöld í Nýja Suður-Wales Jørn Utzon
afsökunar og sæmdu hann sérstakri heiðursorðu. Honum
var jafnframt boðið að koma til Sydney og hafa yfirumsjón
með breytingum innandyra en þá hafði verið ákveðið að
fara að hugmyndum hans varðandi innra skipulag hússins.
Jørn Utzon þáði ekki boðið um að koma aftur til Sydney
og sá því aldrei þetta verk, sem skóp honum heimsfrægð,
fullgert. Hann bjó til æviloka á Mallorca með konu sinni Lis
og eignuðust þau tvo syni sem báðir eru arkitektar og eina
dóttur sem er þekktur hönnuður.
Á efri árum hlaut Jørn Utzon margvíslegar viður-
kenningar fyrir verk sín en Óperuhúsið er langþekktasta
verk hans; talið meðal merkustu bygginga í heiminum frá 20.
öld og er á heimsminjaskrá UNESCO.
Í upphafi var gert ráð fyrir því að í húsinu yrðu tveir salir,
auk eins eða tveggja minni. Í dag eru í húsinu sex salir sem
samtals rúma tæplega sex þúsund manns. Í þeim stærsta eru
2.679 sæti og sá minnsti, sem ber nafn Utzons, hefur sæti
fyrir 210 manns. Þótt þessi stóra tónlistarmiðstöð beri heitið
Óperuhúsið í Sydney er starfsemin fjölbreytt. Þar hafa fast
aðsetur, auk Sydney-óperunnar, Sinfóníuhljómsveit Sydney-
borgar, Ástralski þjóðarballettinn og Sydney-leikflokkurinn.
Árlega fara fram í húsinu nær tvö þúsund viðburðir, stórir
og smáir, og á síðasta ári sóttu um tvær milljónir gesta þessa
viðburði. Árlega fara um 300 þúsund manns í skipulagðar
skoðunarferðir um húsið og hátt í átta milljónir manna komu
í fyrra á svæðið þar sem Óperuhúsið stendur.