SunnudagsMogginn - 03.06.2012, Blaðsíða 17

SunnudagsMogginn - 03.06.2012, Blaðsíða 17
3. júní 2012 17 fram undir hrunið. Það hefur sjálfsagt verið besti tíminn. Við græddum heil ósköp á kvótanum, keyptum mikið af kvóta, fiskuðum vel og höfðum góða við- miðun. Við höfum alltaf bætt við, bank- arnir voru svo brjálaðir í að láta okkur kaupa, og við þurftum ekkert að hugsa um það – þeir sáu um það fyrir okkur. Við enduðum með þúsund tonn þegar við seldum.“ Þá flutti Óli í land vegna veikinda eig- inkonu sinnar, Halldóru Traustadóttur. „Ég var með hana heima í þrjú, fjögur ár, en þurfti að vera nær sjúkrahúsi. Hún féll svo frá í fyrravor.“ – Hvernig er að vera kominn í land? „Það er svo sem allt í lagi. Ég vandist því bara vel. Það var svolítið skrítið til að byrja með. Við gerðum út, áttum fjóra báta og vorum stórir á þann mælikvarða, en seldum og hættum alveg.“ Hann hallar sér aftur í stólnum: „Svo fór meiriparturinn af því í Glitni.“ Hann segist bjartsýnn á að byggð hald- ist í Grímsey. „Þarna eru duglegir menn og gott að gera út, yfirleitt stutt á miðin. Fiskgengdin er mikil í kring og síðan strandveiðin hófst landa 20 til 30 bátar, sem koma alls staðar að. Þetta er mikil lyftistöng fyrir sjávarþorpin.“ Flugvél skotin niður Óli er fæddur í byrjun kreppunnar árið 1931. „Pabbi sagði mér oft frá því, að hann tók smálán, keypti sér bát og réð til sín kaupamann sem kallað var,“ segir hann. „Foreldrar mínir voru að byrja að búa, fiskuðu helling um sumarið, en svo datt niður verðið og hann fékk tvo aura fyrir kílóið. Hann sagðist hafa farið alveg öf- ugur til kaupamannsins, af því að hann gat ekki borgað honum. Hann var ekki með hann á hlut, heldur ætlaði að borga honum kaup. Þetta var fyrsta eða annað búskaparárið.“ – Og stríðið náði til Grímseyjar? „Ég var stráklingur. Þá var einn Vest- ur-Íslendingur og einn Ameríkani í Grímsey. Ég man vel eftir því þegar þýsk flugvél, sem kom oft á nóttunni, var skotin niður. Pabbi og bróðir mömmu voru að byggja, þeir byggðu tvö hús, og við fluttum á meðan á prestsetrið – það var enginn prestur þá. Þar voru tvö geysihá stórmöstur og Þjóðverjarnir voru að skoða þau. Við vorum skíthrædd um að þeir myndu skjóta. Einu sinni komu þeir norðan úr hafi og þá mættu þeim tvær amerískar orrustu- flugvélar frá Melgerðismelum. Það hófst ægileg skothríð yfir eyjunni, sem lauk með því að það kviknaði í þýsku flugvél- inni og hún stakkst í sjóinn. En það varð mannbjörg. Pabbi var á sjó og ætlaði að taka þá í bátinn, en orrustuflugvél skaut á milli þeirra, baunaði fyrir framan þá og stoppaði þá. Svo kom hraðbátur frá Siglufirði og sótti þá. Þetta voru átta Þjóðverjar, blóðugir og særðir á gúmmí- fleka. Manni hefði ekki dottið í hug að þeir gerðu neitt af sér, þetta var skrítið, en svona var þetta.“ Hann þagnar. „Ég man eftir því að skotið var úr fall- byssu á þýsku flugvélinni. Það komu ægilegar þrumur þegar skotin sprungu. Það skipti engum togum að þeir kveiktu í henni, baunuðu bara á hana.“ – Hvaða hermenn voru þetta? „Annar hét Jakob Arason og var Vest- ur-Íslendingur, talaði góða íslensku og hefur líklega verið sendur sérstaklega til Grímseyjar, því þar voru ekki margir sem töluðu ensku í þá daga. Við fréttum ekk- ert af honum meira.“ Séra Róbert Jack – Þú spilaðir líka fótbolta? „Það var hörkulið í Grímsey, enda vor- um við með atvinnumann sem kenndi okkur, séra Róbert Jack. Hann spilaði áð- ur með Celtic. Hann æfði okkur og svo var keppt við skipamennina. Það var lát- laus fótbolti allt sumarið. Við söfnuðum saman liðum á bátunum. Vestmanna- eyingarnir voru langerfiðastir, þeir voru með svakalega gott lið, enda tvö fót- boltalið í Eyjum, Týr og Þór.“ – Hvernig var Róbert? „Hann var furðulegur. Friðfinnur Ólafsson sagði mér að hann hefði fallið í háskólanum, eins og hann orðaði það, að hann hefði fallið á helvítis trúarjátning- unni. Þetta sagði nú Friðfinnur – það er ekki vel að marka það sem hann sagði.“ – Spilaði Róbert með? „Stundum. Hann var mikið í marki, en annars var hann allur brotinn, á báðum handleggjum og fætinum líka.“ – Hvernig var hann sem prestur? „Hann var fimm eða sex ár í Grímsey. En hann skrifaði ekkert í kirkjubæk- urnar. Þegar séra Pétur kom, þá hafði hann ekkert skrifað nema eitt. Það voru fermdir tveir strákar, annar ófeðraður. Og Róbert sagði hann, Pálsson. Þegar hann var inntur eftir því af hverju hann feðraði hann Pálsson, enginn Páll væri í Grímsey, þá sagði hann: „Það var ann- aðhvort Pétur eða Páll sem átti hann.“ Hann gifti mig og það sást hvergi. Svo þurfti séra Pétur Sigurgeirsson að finna allt út til að koma því í kirkjubækur. Ró- bert gifti fleiri hjón, en var ekkert að hafa fyrir því að bókfæra það. Hann var svo kaldur.“ Stærsti lax á Íslandi Óli getur státað af því að hafa veitt stærsta laxinn á Íslandi. „Hann er til í Reykjavík einhvers staðar uppstopp- aður,“ segir hann. „Við pabbi veiddum hann í þorskanet. Hann var 50 pund og ég held hann hafi verið stærsti lax í heiminum þegar hann veiddist. Þá var bara talstöð, enginn sími kom- inn, og allir gátu hlustað á bátabylgjuna. Ég sagði við pabba að við yrðum að gera gott úr þessu, sagði honum að tala við Sigmund vin sinn á Akureyri, sem var vanur að reykja lax, um hvernig ætti að matreiða hann. „Var þetta stór lax?“ spurði Sigmundur. „Já,“ sagði pabbi, „ég held hann sé nokkuð góður – hann var 50 pund.“ Þetta heyrði Silli á Húsavík, fréttaritari á Mogganum, hringdi suður og allt varð brjálað. Ég skildi ekkert í því að pabbi kom ekki þegar átti að gera upp aflann. Þá var sent varðskip sunnan úr Faxaflóa að sækja laxinn, farið með hann suður og hann stoppaður upp.“ – Þetta hefur verið söguleg glíma? „Nei, nei, Magnús Símonarson gamli hreppstjóri var á öðrum bát. Við töluðum við Magnús, spurðum hvað þetta væri, höfðum ekki hugmynd um það sjálfir, og hann sagði: „Ef þetta væri ekki svona agalega stórt, þá myndi ég halda að þetta væri lax.“ Sonur hans Bjarni er enn hreppstjóri.“ – Þú átt fjögur börn? „Já, tvo stráka og tvær stelpur. Annar strákurinn er sjómaður, önnur er hár- greiðsludama og hin lærði hótelstjórnun og ferðamannafræði á Havaí, en rak svo gistiheimili á Grímsey í nokkuð mörg ár í nyrsta húsi á Íslandi, sem nefnist Básar. Þar fá ferðamenn skjal fyrir að fara norð- ur fyrir heimskautsbaug. Hann er nú á reiki baugurinn, alltaf að færast til. Einu sinni var sagt að hann klyfi hjónarúmið á prestsetrinu í tvennt, presturinn lá í Norður-Íshafinu en hún fyrir sunnan.“ – En hinn strákurinn? „Við vorum saman í útgerð og hann hefur það bara gott. Hann var á sjó í sum- ar að leika sér á strandveiðum. Við eigum einn bát núna.“ – Enn er fugl í Grímsey! „Tvennt er athyglisvert í sambandi við það,“ segir Óli. „Kríuvarpið gekk vel í Grímsey í fyrra, þó að víða gengi illa, og nóg er af lunda sem menn vilja núna al- friða. Krían er flúin fyrir sunnan, því það vantar sandsíli. Og lundinn er að fara úr Eyjum af sömu ástæðu. Hann flytur sig norður eftir. Allt líf er að færast norður, öll seiði komin út að Kolbeinsey og þar norður fyrir. Höfnin í Grímsey var alltaf full af seiðum, en nú er fiskurinn við Kol- beinsey úttroðinn af þessu og fuglinn líka.“ Það á að veiða meira Hann segir rugl að banna veiðar á svart- fugli. „Af því að fuglinn flytur sig bara til. Það hefur aldrei verið meira í Grímsey af fugli en núna, bara af því að ætið er kom- ið norður. Ég sá þegar lundinn hvarf úr Færeyjum með sílinu og fluttist fyrir Norðurlandið, bæði Flatey og Grímsey. Nú er allt sundurgrafið í Flatey og víða við Tjörnesið. Fuglinn kann að fljúga!“ Hann sendir fiskifræðingum tóninn: „Þeir vissu ekki að fiskurinn gæti synt. Vísindin eru þannig að þeir toguðu alltaf á sama blettinum, sama strik og á sama dýpi. Einu sinni mokfiskuðu þeir suð- vestur af eyjunni á Brettingi. Ég hringdi til að vita hvar netin og línan lágu til að það skemmdi ekki fyrir okkur. Þegar ég kom að baujunni sá ég að hann var að hífa og hringdi til að spyrja hvort ekki væri mok, því við vorum að fiska svo mikið: „Var ekki hellingur?“ En þá var svarið: „Við leystum ekkert frá, það var ekki einn einasti fiskur.“ Hann var á 100 föðmum, dró eftir þeirri línu, en ég var á 80 föðmum. „Já, ég veit það,“ sagði hann. „Ég má bara ekkert toga þarna.“ Fiskurinn var á einni og hálfri mílu, öll torfan. Svona var það. Ég reifst alltaf við þá um þetta. Jakob [Jakobsson fyrrverandi forstjóri Hafró] var mikill vinur minn, hann var að merkja síld með pabba sínum heima og ég reifst oft við hann. Þeir komu á einn stað, Nafir, og það var í fyrsta skipti sem komu 35 tonn í halinu. Síðan þá hefur aldrei þurft að leysa frá, ekkert verið í því, og svo er reiknað meðaltal af því. Ég sagði að þetta væru engin vísindi. „Jú, jú, þetta eru vísindi.“ Það er eins og þeir haldi að fiskurinn geti ekki synt. Næsta ár á hann að vera þarna og má ekki hafa fært sig. Þetta er agalega skrítið, en alveg dag- satt!“ – Á að veiða meira? „Þetta er bara rugl. Það á að veiða mik- ið meira!“ Morgunblaðið/Kristinn Óli var í hópi aflahæstu smábátasjómanna landsins ár eftir ár. Ljósmynd/Friðþjófur Helgason ’ Þá var ég strákur, bara að fíflast og ná í egg. Stundum komst ég í svo mikla sjálf- heldu, að ég hét því að gera þetta aldrei aft- ur ef ég kæmist upp eða niður. En svo gleymdi maður því strax.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.